Föstudagur, 24. apríl 2009
Goldfinger og Sjálfstæðisflokkurinn
Þetta er sérkennilegir dagar. Það sem maður hélt fyrir nokkrum dögum að væri sakleysisleg spurning um vændisfrumvarpið til frambjóðanda í sjónvarpsþætti hefur vafið upp á sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Það hefur verið nefnt við mig að nú sé það mín sök að ekki séu nektardansmeyjar á hverju því karlakvöldi sem haldið er. Ég er svo sem alveg sáttur við það.
Nú áðan hringdi til mín maður og hafði fundið út nýja samsæriskenningu sem mér hafði þrátt fyrir dálæti mitt á slíkum yfirsést. Hafði ekki reiknað með að þessi afgreiðsla þingflokks sjálfstæðismanna væri svo útspekúleruð að viðskiptahagsmunir þeirra eigin flokks tengdust þeirri afgreiðslu. Og ætla nú þessum viðkvæmu tímum að halda því fram að svo sé , enda nóg samt.
Hann var dularfullur þegar hann hvíslaði að mér með rámri röddu falin á bak við gluggatjöld í Grafarvogi um hvað samsærið snérist. Ég lagði við hlustir, þar sem ég var staddur í fjölmenni sá ég mér ekki annað fært en draga mig út úr hópnum án þess að mikið bæri á.
Hann bað mig að setjast á meðan hann myndi skjótast og sækja sér kaffibolla. Ég varð spenntur og vissi að nú væri vinur minn að telja í sig kjark til að segja frá einhverju sem hann vissi, en vildi ekki segja öllum. Ég reyndi að slaka á.
Það marraði í símanum þegar hann tók hann upp og byrjaði að muldra í síman um hvernig vændisfrumvarpið tengdist blaðaútgáfu flokksins. Mér var brugðið þegar í ljós kom að það sem hann var að segja mér var næstum á mælikvarða annarra hneyksla sem yfir þann flokk hafa dunið að undanförnu. Hér var um ekkert minna að ræða en auglýsingar í blað Stefnis sem að mér skilst að sé blað ungliða íhaldsins í Reykjavík. Hefðu þeir samþykkt þessi lög væri ljóst að sú eina auglýsing sem birtist í kosningablaði þeirra nú hefði getað fallið út hefðu þeir samþykkt frumvarpið. Sú auglýsing er fra Goldfinger. Maður verður að meta hagsmunina í víðu samhengi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.