Nú er þörf sátta, en ekki stríðsyfirlýsinga

 

Sú mynd sem við flest höfum dregið upp af sjávarútvegnum, og talað um fjálglega þar á meðal ég fjallar að miklu leyti um kvóta og sægreifa. Mynd sem skiljanleg í ljósi þeirra frétta sem við höfum fengið undanfarin ár af mönnum sem dregið hafa sig út úr sjávarútvegi víðsvegar um landið með milljarða í vasanum , og jafnvel selt sökum eiginhagsmuna kvótann úr viðkomandi byggð, með tilheyrandi breytingum fyrir byggðalagið.

Þessi mynd sem ég hér tala um er þó í hæsta máta ósanngjörn gagnvart þeim mönnum og fyrirtækjum sem staðið hafa vörðinn fyrir sín byggðalög og byggt upp atvinnulífið á þeim stöðum, jafnvel með mikilli skuldsetningu sinna fyrirtækja. Þá menn bið ég afsökunar á að hafa sett undir hatt þeirra er kallaðir eru sægreifar, og greiða 10% fjármagnstekjuskatt af þeim peningum sem þeir fóru með út úr greininni. Þeir eru burðarásar sinna samfélaga eins og ég sá í dag, þegar vinur minn einn bauð mér í ferðalag til Grindavíkur að kynna mér sjávarútveginn þar.

Þeir menn sem þar standa vörðinn hafa í gegnum áranna rás byggt upp sín fyrirtæki, og keypt sinn kvóta til að tryggja fyrirtækjum sínum öruggan rekstrargrundvöll fram í tímann. Þeir hafa viljað hafa öryggi í rekstrinum og sjá eitthvað framundan.

Ljóst er að framundan eru tímar uppbyggingar íslensks efnahags, og þar verðum við að reiða okkur að miklu leyti á þá útvegsmenn sem enn reka sín fyrirtæki þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði.

Þær umræður sem áttu sér stað í aðdraganda kosninga um svonefnda fyrningarleið skildu eftir sviðna jörð fyrir þessa menn. Þeirra framlag til sinna byggða var lagt að jöfnu við þá er við er ekki höfum migið í saltan sjó köllum sægreifa. Í þeirra hugum er sú fyrningarleið sem rætt er um nánast dauðadómur yfir fyrirtækjum þeirra, sem þeir hafa lagt sig fram um að byggja upp. Svipað og við ætluðum að taka jarðir bænda sem hafa keypt þær til að byggja sinn búskap á.  Og litið til þeirra talna sem upp úr kjörkössunum komu voru íbúar þessara samfélaga sammála að langmestu leyti. Og í ljósi stöðunnar er ég þeim sammála. Þetta er ekki sú leið sem er fær í núverandi stöðu. Nú er sáttar þörf, en ekki stríðsyfirlýsinga.

Nú þurfa menn að setjast að sáttaborði, finna út á hvern hátt eða hvort skynsamlegt sé að þjóðin leysi til sín þann kvóta er mörg okkar telja að eigi að vera sameign þjóðarinnar. Hvort verið geti að allir aðilar geti náð samkomulagi um einhverja þá leið er leiði til sátta. Og að þeir útvegsmenn er enn stunda sjávarútveg þurfi ekki að sitja undir viðurnefnum sem ekki eiga neitt skylt við þau störf er þeir vinna.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

Útvegsmenn hafa valið að keyra málið í hart og verða nú að taka afleiðingum þess.

Héðinn Björnsson, 30.4.2009 kl. 11:27

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

væri nú ekki vitlegra frekar en að keyra menn upp að vegg að setjjast niður og ræða málin. Finna lausn sem allir gætu sætt sig við, í stað þess að hleypa sjávarrútvegnum sem við nú verðum að reiða okkur á enn meiri vanda en fyrir er. Nú þarf að skapa traust og samstöðu, og það verður eingöngu gert með góðu samtali manna í milli. Ég held nefnilega að allir séu sammála um að við verðum að nota þau tæki sem við höfum, frekar en að ana út í kerfisbreytingar sem óvíst er hvor virki.

Hannes Friðriksson , 30.4.2009 kl. 12:35

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er eftir atvikum sáttur við þessa afstöðu þína Hannes. Það er auðvitað deginum ljósara að þetta kerfi sem býður handhöfum heimildanna upp á að selja þær frá sér og verða milljarðamæringar. Hitt sýnist mér jafnframt líklegt að ýmsir þeirra sem nú stýra ofurskuldsetnum útgerðarfyrirtækjum hafi tekið stórar upphæðir út úr rekstrinum. Útgerð og kvótaeign tekur á sig ýmsar myndir og ólíkar. Þar af leiðir að til þess að ná vitrænni lendingu og eftir atvikum sanngjarnri þarf að aðskilja þessi dæmi við ákvarðanir um innköllun heimilda.

Fyrst og fremst þarf að efla þar strandveiðar með handfæri og línu og þar á undanbrgðalaust að setja á sóknarmark til að stöðva brottkast. Trillueigandi sem fær til dæmis 20 tonna kvóta fleygir undantekningalaust í sjóinn öðrum fiski en þeim verðmætasta. Aflaheimildir mætti því stórauka með því að reikna inn þá viðbót sem stöðvun brottkasts skapar. Síðan þarf sá barnaskapur að hverfa úr reiknilíkönum Hafró að vistfræði sjávar sé einföld og útreiknanleg. Annálar fyrri alda segja okkur frá sterkum aflatímabilum þar sem landburður af fiski var í öllum verstöðvum Sumarið 1774 var gerð út 70 lesta skúta á handfæri fyrir Norðurlandi. Aflinn eftir sumarið reyndist vera innan við 300 fiskar!  Hverjir ofveiddu fiskinn árin á undan?

Árni Gunnarsson, 30.4.2009 kl. 16:44

4 identicon

Árni hvar færð þú þessar upplýsingar um brottkast, það er farið að fara verulega í taugarnar á mér fullyrðingar um brottkast, svona skrif benda til þess að þú hafir ekki hundsvit á því sem þú ert að blaðra, þér ber siðferðileg skylda sem borgara í þessu landi að benda á þá sem henda fiski því það er lögbrot, þar af leiðandi er ekki hægt að sitja undir svona bulli. Vil ég benda þér og öðrum sjálfskipuðum sérfræðingum á þessu sviði að leita eftir sannleikanum eða hreinlega fá ykkur vinnu í sjávarútvegi. 

Magnús (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 14:12

5 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Magnús

Þetta sem Árni er þarna að tala um eru kannski ekki upplýsingar sem eru aðgengilegar, en samt almannarómur. Slíkur orðrómur verður ekki til úr engu og kannski er það einmitt núverandi kvótakerfi sem þarna á sök. Þú veist það og ég veit það að brottkast hefur viðgengist í einhverju magni, og það er alveg eins gott að tala um það í stað þessa að neita og láta sem það sé ekki. Slík umræða gæti leitt til góðs og kannski breytinga á kerfinu.

Kveðja Hannes

Hannes Friðriksson , 1.5.2009 kl. 14:54

6 identicon

Ég ætla að vitna hér orðrétt í skrif Árna trillueigandi sem fær til dæmis 20 tonna kvóta fleygir undantekningalaust í sjóinn öðrum fiski en þeim verðmætasta. Það er bara ekki hægt að sitja undir svona bulli, engin starfstétt á að þurfa að þola svona árásir og menn verða að hafa eitthvað fyrir sér því svona skrif singt og heilagt valda því að fólk sem les þetta bull og er ekki inn í þessum málum fer að trúa þessu rugli. Vil ég benda fólki á það sem hefur áhuga á þessum málum að koma sér í jarðsamband við þessa grein, hægt er að fara í heimsókn í sjávarplássin og hitta þar fiskverkafólk,sjómenn,eftirlitsmenn fiskistofu og aðra þá sem að þessum málum koma. Vil ég bæta hér við að það er nú einu sinni þannig ef fólki er sagt nógu oft að að einhver sé ómögulegur þá fer það að trúa því.

Magnús (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband