Miðvikudagur, 6. maí 2009
þú ert hér
Þú er hér datt mér í hug nú morgun þegar ég heyrði utan af mér um skuldastöðu bæjarins, og að lagðir hefðu verið fram ársreikningarnir sem sem sýndu rúmlega 8.milljarða rekstrarhalla á bæjarfélagi bæjar sem telur rúmlega 14,000 íbúa. Datt helst í hug að þeir sem með stjórn bæjarins færu hefðu svipað og í leikritinu ekki munað eftir í hvaða afmæli þeir hefðu eiginlega verið.
Leikrit þetta sem ég hér geri að umtalsefni og ég sá nýverið lýsir þeirri stöðu sem hér er uppi nú um daga og þeirri staðreynd hvernig okkur var komið í þessa stöðu, af mönnum sem voru svo utanveltu við það samfélag sem þeir bjuggu í og héldu að að allt snérist um þá sjálfa. En vakna svo upp við vondan draum og sjá að allt hefur fallið um koll. Þeir reyna að átta sig á hvert skuli stefna..
Þú ert hér þetta opnaði mér sýn á hve menningin á eftir í næstu framtíð eftir að vera mikilvæg fyrir okkur til að skilgreina þann tíma sem við nú förum í gegnum, og jafnframt skerpa þær myndir sem við höfum fengið óljósar úr fjölmiðlum undanfarið. Við áttum okkur betur á öllu því innihaldslausa sem okkur hefur verið boðið upp á, og þeirri afskræmingu mannlegra þátta sem okkur hefur verið sagt að væri dyggð. Græðgin náði yfirhöndinni , en framundan eru nýir tímar.
Og þeim félögum sem settu upp þessa sýningu tekst vel til að draga fáránleika frjálshyggjunnar fram þannig að eftir sitji. Maður mun í framtíðinni vara sig þegar slíkir guttar fara að blása í lúðra, eða bjóða manni í afmæli sitt.
Svipað og í leikritinu virðist nú fátt annað fyrir bænum sem ég bý í liggja en að hér verði rústir um ókomin ár, að opinberað hafi verið að guttarnir sem hér hafi stjórnað skilji eftir sig rjúkandi rústir óráðsíu og græðgi. Þeir hafa sennilega þó ekki ennþá fundið það út hjá sjálfum sér að þeir eigi einhverja sök á að nú sé svo komið, heldur eru það fyrst og fremst aðrar ástæður sem um sé að kenna. Þeir myndu fara í annað afmæli væri þeim boðið.
Sú gagnrýna umræða sem nú fer fram um samfélagsmálin hefur nú leitt til hugarfarsbreytinga hjá vel flestum okkar. Spurningar um gildi og samtöðu hafa vaknað. Það sem áður var sjálfsagt og rökstudd með flottum glærusýningum án innihalds, er liðið undir lok. Almenningur vill nú í stað orðagjálfurs atvinnustjórnmálamanna án hugsjóna, sjá verkin tala og mun í framtíðinni fylgjast betur með. Það verður vonandi ekki keypt að rekstur bæjarfélaga, banka eða ríkis grundvallist á fagurgala og grandavaraleysi þeirra er með völdin fara. Þar verða orð og efndir að fara saman.
Sýningin Þú ert hér á svo sannarlega erindi við alla þá er láta sig samfélagið sem þeir lifa í skipta máli. Ég hvet alla þess er eiga þess kost að sjá þessa sýningu í Borgarleikhúsinu. Sýningu sem byggir á atburðum sem við upplifum svo sterkt um þessar mundir, og hver dagur gefur okkur nýja mynd af fáránleikanum. Þessi sýning er peningana virði, þó athugandi sé nú á tímum kreppu og atvinnuleysis hvort ekki sé tími til að að athuga miðaverð í leikhús, svo flestir geti notið perlu sem þessarar.
ES: Var að fá upplýsingar um að síðasta sýning á þessu frábæra verki er föstudaginn 8.mai kl 21.00 í Borgarleikhúsinu. Hvet alla til að sjá hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.