Mánudagur, 18. maí 2009
Kannski ætti ríkið að yfirtaka fleiri?
Frúin vill halda því fram að eitthvað alvarlegt sé að gerast með sálarlífið hjá mér, ég sé byrjaður að tala við þröstinn sem á morgnanna tyllir sér á hæsta tréð í þeirri fullvissu sinni að hann sé flottasti þrösturinn í hverfinu. Eins og það sé ekki nóg að ég tali við þröstinn heldur þykist ég nú skilja hann líka. Nei þetta veit ekki á gott.
Þrestir njóta þess frelsi að geta flögrað um og virða fyrir sér mannlífið, og fylgjast með hvað er að gerast. Og breiða út boðskapinn sé hann einhver. Það gera blöðin og fréttamiðlarnir líka þó með öðrum hætti sé.
Sá rétt í þessu frétt um að nú hefðu ríkisbankarnir tekið yfir hlut í í Icelandair Group og skammt sé í yfirtöku á á fleiri hlutum í því félagi. Þá komi félagið til með að lúta stjórn ríkisins.
Nú hefur í alllangan tíma verið ljóst að mörg félög og fyrirtæki eru í raun gjaldþrota, og ríkið neyðst til að taka yfir rekstur sumra þeirra til að tryggja rekstur þeirra. Og skiljanlegt að svo sé gert eins og í tilfelli Icelandair. Þar er atvinnutækifæri undir og því nauðsynlegt að bregðast við til að tryggja reksturinn tímabundið. Það skil ég.
Mörg fyrirtæki urðu til undir hatti einkavæðingarinnar, og er það sammerkt að þau eru nú flest komin að fótum fram. Og nauðsynlegt að annað hvort láta þau fara í þrot, með tilheyrandi afleiðingum, eða bjarga því sem bjargað verður. Ljóst hefur verið all lengi að eitt þeirra fyrirtækja sem nú er undir náð ríkisbankanna komið er Geysir Green Energy. Fyrirtæki sem stofnað var af útrásarvíkingum til að einkavæða orkufyrirtæki þjóðarinnar. Nú tilkynna þeir reglulega að erlendir fjárfestar séu tilbúnir til að kaupa hlut í því fyrirtæki. Aðkoma einkafjárfestanna hefur ekki bætt eða breytt rekstri Hitaveitu Suðurnesja til góðs hvorki fyrir ríki eða notendur þjónustunnar.
Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að nú séu það hagsmunir þeirra víkinga er hleyptu málinu af stað sem staðið sé nú vörð um. Frekar en að menn líti yfir farin veg og athugi hvort stefnan hafi verið rétt. Hvort það sé virkilega meiningin að sökum þeirrar stöðu sem nú er uppi verði þau fyrirtæki sem áður voru Hitaveita Suðurnesja fljótlega komin í helmingseign erlendra aðila. Því í það stefnir ef ekkert verður að gert.
Það væri hreint ekki galið á meðan menn eru að átta sig á stöðunni að ríkisbankarnir sem eiga nú skuldir GGE íhugi að yfirtaka rekstur þess félags á meðan menn átta sig á hvað sé hagkvæmt og skynsamlegt fyrir þjóðarhag til framtíðar. Og taki ákvörðun út frá því, en láti ekki hugmyndafræði fárra útrásarvíkinga og meðreiðarsveina þeirra ráða örlögum þessa fyrirtækis.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.