Miðvikudagur, 20. maí 2009
Að byggja penthouse án þess að byggja grunn eða hæð fyrir neðan.
Forstjóri stólpípuverksmiðjunnar á Keflavíkurflugvelli vill ekki munnhöggvast við landlækni um hvort læknum beri að taka blóðprufur fyrir skjólstæðinga verksmiðjunnar, svo fyllsta öryggis sé gætt við meðferðina. Hún kippir þeim lið út og heldur áfram að dæla laxerolíu í liðið.
Stólpípuverksmiðjunni finnst sjálfsagt og eðlilegt að læknar í vinnu hjá ríkinu taki blóðprufur úr skjólstæðingum verksmiðjunnar, og að ríkið greiði fyrir rannsóknir og niðurstöðu slíkrar blóðprufu. Sjúklingurinn greiðir komugjald, en ríkið rest. Því slíkar rannsóknir eru ekki ókeypis.
Einkavæðingarguttarnir í Reykjanesbæ gera nú nánast hvað sem er til til að koma í gang slíkum furðuverkefnum sem ætlað er að efla atvinnulífið hér á Suðurnesjum, en virðast hafa einhver sérstök tök að byrja stöðugt á vitlausum enda. Heilsufélag bæjarstjórans er eitt þessara verkefna sem virðast vera meira í ætt við glæsilega glærusýningu útrásargutta frekar en raunhæft eða skynsamlegt dæmi um uppbyggingu.
Það er ljóst af viðbrögðum landlæknis að starfsemi stólpípuverksmiðjunnar er ekki í anda þeirrar heilbrigðisstefnu sem ríkið stendur fyrir, og jafnframt ljóst fyrirtækið sem nú laxerar landsmenn hefur ekki þær forsendur á bak við sig sem til slíkra stofnana ætti að gera.Þar virðist meira vera treyst á guð og gæfuna en raunverulegt öryggi þeirra skjólstæðinga sem til verksmiðjunnar leita. Og ríkinu gert að taka við ef illa fer.
Maður veltir óneitanlega fyrir sér í kjölfar viðbragða landlæknis við blóðprufuþætti þessa máls, hvort regluverk okkar hvað varðar heilbrigðisþjónustu sé svo slakt að hver sem geti sett upp slíka verksmiðju, án þess að leyfi sé veitt til slíkrar starfsemi. Hvort öllum sé það heimilt að fást við heilsu manna, án tillits til hver það verði sem ábyrgðina beri að lokum, fari illa. Er ekki frumatriði að slík verksmiðja geti og hafi leyfi til að taka blóðprufur og geti einnig rannsakað þær án þess að skattgreiðendum sé gert að greiða fyrir það. Þarna virðast menn vera byrjaðir að byggja penthouse án þess að hafa þó byggt neina hæð fyrir neðan, né heldur grunn svo allt velti nú ekki um koll geri vont veður eða aðstæður breytast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:42 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.