Það sem skiptir máli!

 

"Það sem skiptir máli" var yfirskrift fundar bæjarstjórans í Reykjanesbæ með íbúum, sem ég fór á í gær. Fór til að kynna mér málið, og kannski mest til að forðast óþarfa skítapósta eins og ég fékk frá bæjarstjóranum í fyrra þegar ég valdi að vera heima.

Það er óhætt að segja að stemmningin hafi verið svolítið önnur á þessum fundi bæjarstjórans í gær, en á fundi bæjarstjórnar kvöldið áður sem ég einnig sótti til þess fylgjast með umræðum um það sem ég taldi skipta máli. Á fundi bæjarstjórnar var það fjárhagsstaða bæjarins sem tók þann fund, og greinilegt að minnihlutinn tók stöðuna alvarlega, enda bærinn á hvínandi hausnum eins fram kom þar. Meirihlutinn lagði hinsvegar áherslu á frábæra framgöngu sína, sem fyrst og fremst fólst í því að þeir skiluðu árásuppgjöri á réttum tíma, burtséð frá þeirri niðurstöðu sem það sýndi. Það vildu þeir helst ekki ræða of mikið.

Á fundi bæjarstjórans með íbúum var glærusýning að hætti útrásarvíkinganna, með sprungnum blöðrum og loftbelgjum.Hlaupið á ógnarhraða yfir þær glærur sem innihéldu upplýsingar um fjárhagsstöðu, dvalið svolítið við göngustíga og gangstéttarhellur, blöðrusýningar.  Blöðrurnar áttu að sýna svo ekki varð um villst að ekki væru nú öll eggin sett í sömu körfuna. Og það er rétt hjá bæjarstjóra að svo er ekki ef marka má þær upptalningar sem í kjölfarið komu. Hér verður allt orðið miklu betra en í Kópavogi strax í haust og 3000 störf fyrirsjáanleg, og fór sú tala  hækkandi eftir því sem leið á fundinn. Þó ég skyldi að vísu aldrei hvernig sú glæra sem hann vitnaði til og sýndi 400 og 1100 störf gæti orðið að 3000. Sjálfur gat ég bara séð 1500 út úr því. Og endað fyrir fundarhlé með glæru um stærsta vandamálið sem við bæjarbúum blasir og það er hundaskítur á göngustígum, og hvernig hægt væri að lýsa það mál. Fór mikill tími í þann hluta þegar kom að fyrirspurnum.

Já það er ekki sama hvernig svona fundir eru settir upp, og óhætt að segja bæjarstjóranum til hróss að sýningin hafi verið flott, þó innihaldið hafi kannski ekki verið mikið. Enda kannski ekki til ætlast. Það er allt í fína lagi í bænum, þó auðvitað verði menn að leggja mikið á sig til að uppræta þennan ófögnuð með göngustígana.

Einn fundarmaður kom þó með eitthvað bitastætt og spennandi inn í umræðuna, verst að hafa ekki náð nafni þess manns en hann kom einmitt inn á einn af þeim hlutum sem mér finnst skipta máli núna, ráðdeild og útjónarsemi. Hann lagði til að í stað þess að allt það timbur sem fellur til á sorpeyðingarstöðinni væri brennt og eyðilagt yrði þar ráðin maður sem sorteraði timbrið og tæki frá það sem nýtilegt væri og það selt gegn vægu verði. Það fannst mér frábær hugmynd. Og að trjáafgangar sem þangað kæmu yrðu kurlaðir niður og nýtti í stígagerð og annað slíkt. Spurning hvort þetta sé ekki einmitt maðurinn sem okkur vantar til að reka sorpeyðingarstöðina, og jafnvel bæinn líka. Maður með útsjónarsemi og sparnað að leiðarljósi. Það held ég að skipti máli.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Hvernig er það, mér skilst að Reykjanesbær sé húrrandi gjaldþrota ef vel er að gáð. Svo segir amk. almannarómur. Mér var sagt að ekki einu sinni Gunnar Birgisson hefði séð gróðavon í fyrirbæri eins og Fasteign og er þá mikið sagt. Mér var sömuleiðis sagt að eina ráðið væri að flytja í Garð, því það væri eitt af fáum sveitarfélögum á landinu sem ekki er gjaldþrota. Ég á reyndar ekki heima þarna en á góða vini í Reykjanesbæ og er ma. þar af leiðandi ekki alveg sama.

Baldvin Björgvinsson, 21.5.2009 kl. 10:03

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

blessaður Baldvin

sennilega er almannarómur nokkuð nærri lagi hvað þetta snertir. Og Gunnar Birgisson mælti hreinlega á móti þessari aðferð , enda sjálfur rekstrarmaður á þeim tíma og vissi hvað klukkan sló þegar kom að fixideum sem þessari. Auðvitað væri hreint ekki galið að flytja í Garðinn væri maður að hugsa um breytta búsetu, þar er mannlífið gott og skynsemi sem þar ræður ríkjum. mér þykir gott að heyra að ekki er öllum sama um hvað um Reykjanesbæ verður, það er meira en hægt er að segja um þann meirihluta sem hér ræður ríkjum og telja sitt eina hlutverk vera að skuldsetja barnabörnin sem mest þeir mega. Bestu kveðju r úr Reykjanesbæ.

Hannes Friðriksson , 21.5.2009 kl. 21:27

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Hannes

Við höfum báðir mikið dálæti á Össuri Skarphéðinssyni, endar er þar maður á ferðinni veit - ólíkt sumum öðrum innan Samfylkingarinnar - að við lifum ekki á "fjallagrösunum" einum saman, þótt gott og hollt sé að fá sér te úr þeim eða leggja þau á meiðsl, þegar svo ber við!

Af þessum sökum fann ég þetta á netinu fyrir þig svo þú áttir þig á orðum Árna Sigfússonar bæjarstjóra: 

136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 431 — 183. mál.

Svar iðnaðarráðherra [innskot bloggara: Össurar Skarphéðinssonar]  við fyrirspurn Ármanns Kr. Ólafssonar um störf í orkufrekum iðnaði.

  Fyrirspurnin hljóðar svo:

  Hversu mörg störf, bein og afleidd, er talið að eftirfarandi starfsemi þurfi miðað við hvert notað megavatt af rafmagni:


  a. álbræðsla, 
  b. járnblendi, 
  c. kísilvinnsla, 
  d. netþjónabú?

 
  Óskað er eftir að í svarinu komi fram hversu hátt hlutfall þessara starfa krefst háskólamenntunar.

  A- og b-liður fyrirspurnarinnar beinast að starfsemi sem nú þegar fer fram á Íslandi. Svörin eru því grundvölluð á reynslutölum og upplýsingum um störf og aflþörf í starfandi atvinnufyrirtækjum í áliðnaði og járnblendiiðnaði. Öðru máli gegnir um c- og d-lið fyrirspurnarinnar sem varða rekstur kísilvinnslu og netþjónabúa. Sú starfsemi er óþekkt hér á landi en allmörg erlend fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að setja á fót starfsemi sem gæti flokkast undir þessi heiti. Nokkur þessara fyrirtækja hafa góðfúslega veitt upplýsingar sem hér er stuðst við.

Álbræðsla.


  Ál er framleitt í þremur verksmiðjum hér á landi, álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem framleiðir tæplega 184 þús. tonn árlega, álveri Norðuráls á Grundartanga, sem framleiðir um 260 þús. tonn árlega og álveri Fjarðaáls í Reyðarfirði, sem framleiðir um 346 þús. tonn árlega, alls um 790 þús. tonn á ári. Samtals þurfa álverin 1.387 MW til starfseminnar. Fastir starfsmenn í beinum störfum í álverunum eru 1.385, þar af um 230 með háskólamenntun. Afleidd störf eru talin vera að minnsta kosti 2.800, þannig að alls styðja um 4.185 ársverk álframleiðslu á Íslandi. Að jafnaði er fjöldi beinna starfa 1,0 á hvert MW en samanlögð störf, bein og afleidd, eru 3,0 á hvert MW.

Járnblendi.


  Járnblendi er unnið í verksmiðju Elkem Íslandi ehf. á Grundartanga. Afurðirnar eru aðallega þrenns konar, kísiljárn, magnesíumblandað kísiljárn og kísilryk, samtals um 140 þús. tonn á ári. Verksmiðjan þarf 120 MW rafafl til starfseminnar. Fastir starfsmenn í beinum störfum eru 200, þar af um 40 með háskólamenntun. Afleidd störf eru talin vera um 300, þannig að alls styðja 500 manns rekstur járnblendiverksmiðjunnar. Bein störf á hvert MW eru 1,7 og ef öll störf, bein og afleidd, eru talin eru störfin 4,2 á hvert MW.

Kísilvinnsla.


  Kísilvinnslu þarf að skipta í tvo flokka eftir eðli framleiðslunnar, sem fer eftir hreinleika afurðarinnar. Til fyrri flokks telst hefðbundin kísilmálmvinnsla, þar sem kísilmálmur er unninn úr kvartsgrýti og kolefnum (kolum eða koksi) við bræðslu og bruna í rafskautaofnum. Afurðin er óhreinn kísill (e. Metalurgical Grade Silicon (MGSi)). Í síðari flokknum fer fram frekari hreinsun á MGSi eftir ýmsum orkufrekum leiðum, eftir því hve hreinan kísil menn vilja fá. Ef sóst er eftir kísli til notkunar í sólarrafhlöður, eins og í þeim tilvikum sem hér um ræðir, verður til afurð sem kölluð er hér hreinkísill (e. Solar Grade Silicon (SGSi)).


  Erlent fyrirtæki fyrirhugar að framleiða hér á landi 50 þús. tonn árlega af hefðbundnum kísilmálmi (MGSi). Liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2. október 2008. Aflþörfin er 60 MW. Fjöldi beinna starfa yrði 90, þar af um 30 störf sem krefðust háskólamenntunar. Talið er að um 180 afleidd störf mundu skapast annars staðar í þjóðfélaginu. Um 270 ársverk stæðu því að baki þessari verksmiðju. Bein störf yrðu 1,5 á hvert MW og ef bæði bein og afleidd störf væru talin yrðu störfin 4,5 á hvert MW.


  Annað erlent fyrirtæki hefur sýnt áhuga á að reisa hér verksmiðju til framleiðslu á bæði hefðbundnum kísilmálmi (MGSi) og hreinkísli (SGSi). Aflþörfin er 100 MW. Fjöldi beinna starfa yrði 350, þar af um 100 störf sem krefðust háskólamenntunar. Talið er að allt að 875 afleidd störf gætu skapast annars staðar. Um 1.225 ársverk stæðu því að baki þessum iðnaði. Þannig yrðu til 3,5 bein störf á hvert MW, en 12,3 störf á MW ef bæði bein og afleidd störf væru talin.


  Þriðja erlenda fyrirtækið hafði áhuga á að framleiða 13 þús. tonn af hreinkísli eingöngu (SGSi). Aflþörfin var áætluð 184 MW. Fjöldi beinna starfa var áætlaður um 300 störf, þar af um 100 störf sem krefðust háskólamenntunar. Afleidd störf voru talin geta orðið allt að 600 störf. Samtals um 900 ársverk hefðu staðið að baki þessum iðnaði. Fjöldi beinna starfa var áætlaður 1,6 störf á hvert MW en 4,9 bein og afleidd störf á hvert MW ef öll störf væru talin. Fyrirtækið hætti við að fjárfesta á Íslandi.

Netþjónabú.


  Netþjónabú eru miðstöðvar sem safna, geyma og miðla tölvutækum upplýsingum. Þau eru því eins konar gagnaver sem rekin eru í þjónustu alþjóðlegra upplýsingakerfa. Tölvubúnaður sem varðveitir og miðlar slíkum gögnum er flókinn og umfangsmikill og þarf mikla raforku til rekstursins, ekki síst til kælingar á búnaðinum. Um tvenns konar gagnaver gæti verið að ræða. Annars vegar gagnageymslu þar sem tölvugögn og upplýsingar eru varðveitt á öruggum stað en sjaldan notuð. Þar er því tiltölulega lítil starfsemi og fátt starfsfólk að störfum nema til viðhalds og gæslu. Hins vegar sístarfandi gagnaver í stöðugri notkun sem sinnir m.a. hugbúnaðargerð með stöðugri þjónustu allt árið við viðskiptavini víða um heim. Slík gagnaver þurfa mun fleiri starfsmenn og menn með menntun á sviði kerfisfræði og tölvunarfræði og þar starfa bæði starfsmenn gagnaveranna sjálfra og viðskiptavina. Stefnt er að því að gagnaver á Íslandi verði aðallega á síðara sviðinu, sem eru sístarfandi. Upplýsingar um fjölda starfsmanna og menntun eru ónákvæmar og verður að taka með fyrirvara.


Gagnaver á Suðvesturlandi sem nýtti allt að 25 MW rafafl í byrjun gæti þurft 30–60 fasta starfsmenn. Af þeim mundi helmingurinn eða allt að tveir þriðju starfsmanna þurfa að hafa háskóla- og fagskólamenntun. Reiknað er með að jafnmörg störf skapist við alls kyns þjónustustörf utan veggja gagnaversins. Um 60–120 störf mundu því tengjast þessum rekstri beint og óbeint. Fjöldi beinna starfa yrði 1,2–2,4 á hvert MW, en ef allt væri talið, bein störf og afleidd störf, eru störfin 2,4–4,8 á hvert MW. Þetta hlutfall kynni að breytast ef gagnaverið yrði stækkað.


Annar fjárfestir hefur sýnt áhuga á að reisa mörg gagnaver sem staðsett yrðu víða um landið. Hvert þeirra mundi þurfa 10–15 MW rafafl. Fjöldi beinna starfa í hverju gagnaveri er áætlaður 15–20 og af þeim mundu 7–10 krefjast háskólamenntunar. Reiknað er með að jafnmörg eða 15–20 afleidd störf skapist við alls kyns þjónustustörf utan veggja hvers gagnavers. Um 30–40 störf mundu því styðja þennan rekstur. Fjöldi beinna starfa yrði um 1,3–1,5 á hvert MW, en ef allt er talið, bein störf og afleidd, yrðu störfin 2,7–3,0 á hvert MW.


Dæmi frá Bandaríkjunum sýnir að 22 gagnaver á sama svæði sem samtals nota 290 MW af rafafli hafa um 1.400–1.900 fasta starfsmenn, sem ýmist eru í þjónustu eigenda gagnaveranna eða viðskiptavina. Þeir hafa menntun á sviði rafeindatækni, rafmagnsfræði, vélfræði, kerfisfræði og tölvunarfræði, að stórum hluta á háskólastigi, en auk þess starfa þar ófaglærðir starfsmenn. Þar eru hlutföllin 4,8–6,5 bein störf á hvert MW.


  Á þessum þremur dæmum sést að erfitt er að áætla fjölda starfsmanna í hugsanlegum gagnaverum á Íslandi með nákvæmni.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 22.5.2009 kl. 07:28

4 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Guðbjörn

Það er gott að vera stórhuga, og enn betra að menn átti sig á að fjallagrasatínsla er ekki það sem Samfylkingin reiðir sg á við uppbyggingu atvinnulífs. Þar er meira stuðst við heilbrigðaskynsemi og virðingu fyrir því landi sem við búum í. Megavöttin sem þér eru svo hugleikin liggja nefnilega ekki alveg á lausu þessa dagana. Og mikilvægt að þau sem við nýtum skili sem mestu til frambúðar í þjóðarbúið.

Skv þessari upptalningu sem saman er tekinn af skynsömum manni eins og við viðurkennum báðir er tvö verkefni sem í nánustu framftíð geta skapað okkur störf, það er álver og gagnaver, en ennþá er þó ekki búiið að ganga frá samningum um alla þá orku sem álverið þarf. Okkur er sagt að ekkert mál sé að fá orku fyrir kísilver til viðbótar frá Suðurlandi. Sunnlendingar hafa þá gefið út að sú orka sem fæst þar verði í framtíðinni notuð heima í héraði. Eitthvað virðist óleyst þar og því ekki tímabært að fara að flagga störfum sem hreint ekki eru í sjónmáli.

Væri nú ekki klókt að staldra aðeins við og klára að skapa þau þó 1800-1900 störf sem samkvæmt þessari upptalningu eru innan sjónmáls, í stað þess að vera stöðugt að byggja einhverjar skyjaborgir og verða svo fyrir vonbrigðum þegar það gengur ekki alveg eftir, kannski er hljómahöll ykkar sjálfstæðismanna nærtækt dæmi um slíkt.

Með bestu kveðju

Hannes Friðriksson , 22.5.2009 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.