Sunnudagur, 24. maí 2009
Og nú ætlar stærsti strákurinn í sandkassanum að ráða.
Umræður um málefni Kölku sorpeyðingarstöð okkar Suðurnesjamanna virðast þegar litið er til fréttaflutnings frá bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar vera að taka nýja stefnu, og menn vera tilbúnir til að rifta núverandi samstarfi sveitarfélaganna. Telja að það sé nauðsynlegt til að Reykjanesbær hafi þau völd í stjórn Kölku í samræmi við stærð og íbúafjölda. Hér finnst mér mikið lagt undir, að nauðsynjalausu.
Kalka er samstarfsverkefni sveitarfélaganna sem vinnur út frá samfélagslegri þörf sveitarfélaganna hvað varðar losun og frágang á því sorpi sem til fellur á svæðinu. Fyrirtækið sem upphaflega er stofnað sem samlagsverkefni með stjórnarsetu allra sveitarfélaganna út frá þeirri þörf sem við blasti, þörf sem allir eru sammála um að verði best leyst með samstarfi út frá sameiginlegum hagsmunum og hvert bæjarfélag hafði þar atkvæði í stjórn.
Undanfarin ár hafa menn unnið að breyttu rekstarformi þessa félags, og hafa þar horft til þessa að skynsamlegt væri að hlutavæða þetta félag sem áður var rekið sem byggðasamlag. Þar hafa menn séð aukin sóknartækifæri fyrir félagið, sem með slíkri breytingu væri gert að fara í samkeppnisrekstur kæmi sú staða upp. Jafnframt myndi slík breyting hafa í för með sér að hægt væri að endurmeta hlut hvers sveitarfélags og eignarfæra þann hlut sem hvert sveitarfálag á nú í Kölku. Breytingar sem yrðu félaginu til bóta. Öllum hefur þó verið ljóst undir því ferli sem unnið hefur verið, að nauðsynlegt væri að Kalka yrði áfram rekið sem samfélagslegt verkefni og allir þyrftu að eiga þarna að komu að.
Nú á endaspretti þessarar sameiningar virðist svo vera að Reykjanesbær hafi sett fram kröfu að félag þetta yrði rekið sem hvert annað hlutafélag, og vægi atkvæða í stjórn út frá fjölda íbúa í hverju byggðarlagi. Og þau sem minni eru verða að lúta hverjir hagsmunir Reykjanesbæjar eru í þessu tilfelli.
Það sem áður var samfélagslegt verkefni sveitarfélaganna með aðkomu allra, kemur nú til með að lúta að hverjir hagsmunir Reykjanesbæjar eru hverju sinni. Skiljanleg afstaða hjá bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar væri hér eingöngu um hagsmuni þess bæjarfélags að ræða og ljóst að þessi ráðstöfun hentaði hagsmunum íbúanna best , en jafn óskiljanleg í ljósi þess að félag þetta hefur hingað til verið rekið sem samfélagslegt verkefni bæjanna allra. Þeim sem minni eru er gert að hlýða þeim stóru. Stærsti strákurinn í sandkassanum ætlar að ráða.
Grindvíkingar riðu á vaðið með bókun þar sem þeir vildu ekki una þessu, og nú í kjölfarið hafa Vogamenn tilkynnt að þeir ætli að athuga aðrar leiðir.
Bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar er á þann veg að þar á bæ hyggjast menn ekki gefa sig, og bæta við í lok bókunarinnar að þeir hyggist yfirtaka reksturinn í samstarfi við aðila sem kynnu að hafa á því áhuga.
Er hér nýtt Hitaveituævintýri á ferðinni þar sem rekstraraðilinn er fundinn, og vantar bara að kynna hann til leiks? Á að einkavæða Kölku? Eða hefur Reykjanesbæjar burði til að kaupa hina aðilana út úr rekstrinum, án þess að ljóst sé hvort þeir hinir sömu komi til með að nýta þjónustuna á eftir. Væri nú ekki nær fyrir þá sem að þessu máli vinna að horfa á hagsmuni allra og sjá hvort ekki er hægt að ræða málin, áður en allt samstarf sveitarfélaganna á svæðinu hefur endanlega verið eyðilagt til nánustu framtíðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:48 | Facebook
Athugasemdir
Blessuð Sigurbjörg
Nei ég held nú ekki að ákvarðanataka í HS sé að hafa þarna áhrif, ég held að vandamálið sé að menn eru ekki að tala almennilega saman, og átta sig því ekki á hve mikilvægt það er að menn standi saman í málum eins og þessum. Þetta held ég að sé spurning um að menn taki tillit til hvers annars út frá hagsmunum svæðisins sem heildar, en ekki einhverri miskilinni stjórnunarþörf á öllu.
Kveðja Hannes
Hannes Friðriksson , 24.5.2009 kl. 19:12
Ég trúi ekki að þú sért ósammála því að bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar eigi ekki að krefjast þess að fá meirihluta í stjórn Kölku þegar sveitarfélagið á 65%, eða yfirgnæfandi meirihlut, í félaginu?! Annað er bara tómt rugl og yfirgangur af hálfu hinna sveitarfélaganna...
Arnar (IP-tala skráð) 25.5.2009 kl. 16:11
Blessaður Arnar
Nú er að ekki mitt að vera sammála eða ósammála því sem bæjarfulltrúar gera, þeir eru kosnir til að fylgja sinni sannfæringu og bera sjálfir ábyrgð á þeim ákvörðunum. Skil þó ekki alveg hvað hin sveitarfélögin eiga að vera að gera inni í samstarfi þar sem þeir eru háðir meirihlutavaldi eins aðilans hverju sinni. er það ekki bara svipað og að vera í minnihluta án aðkomu? Trúi einhvern veginn meira á gildi samstarfs þar sem samstarfsaðilarnir eiga jafna aðkomu að málum, og að þannig fáist betri og heilbrigðari grundvöllur undir samstarfið.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 25.5.2009 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.