Þriðjudagur, 26. maí 2009
Samstaða.
Meirihluti, minnihluti. Hversu oft heyrir maður ekki menn slá út umræðu með þeim orðum meirihlutinn eigi að ráða. Það sé lýðræði. Og þar með að álit minnihlutans skipti ekki máli, eða verði að víkja fyrir meirihlutaákvörðuninni.Og menn bæta við svona í framhjáhlaupi að það hafi verið gott að menn tjáðu skoðanir sínar, það sé öllum hollt að hlusta. En meirihlutinn ræður.
Og þannig er það á flestum stöðum, menn verða að sætta sig við að slíkt verður ekki ráðið, og þeir sem erfiðara eiga með að taka því að ekki sé á þá hlustað, leita þá oft á önnur mið. Að nýjum hlutum sem fullnægir þeirra þörfum fyrir eðlilegt og heilbrigt samfélag að þeirra mati. Samfélag sem allan tímann eða sem mest af honum tekur tillit til hinna mismunandi þarfa, bæði þeirra sem sterkir eru og þeirra sem veikar standa. Samfélagi þar sem samvinna og bræðralag ræður ríkjum.
Styrkur samfélaga liggur í samstöðu, samstöðu um þau mál sem þjóna hagsmunum allra.Og að menn séu sammála um hverjir þeir hagsmunir eru. Oft þarf að takast á til að menn átti sig á hverjir þeir hagsmunir eru, og oft er það líka þannig að ekki næst samkomulag um hverjir þeir skulu vera. Möguleikar sem í slíkri samstöðu gætu falist glatast þá oft og hver fer að hugsa um sinn hag. Og ekki fyrirséð hver árangurinn verður. Við horfum upp á það sem þjóð þessa dagana hver árangurinn af slíku samstöðuleysi er.
Það eru mörg mál sem krefjast þess í dag að menn opni upp til að ná samstöðu um þau mál er við blasa. Staða heimilanna og fyrirtækjanna býður ekki upp á karp af því tagi sem við höfum undanfarið þurft að horfa upp á. Ábyrgðin liggur nú hjá þeim er við höfum kosið til að fara með málin fyrir okkur, og þeirra hlutverk er nú að hefja sig upp fyrir dægurþrasið og finna skynsamar og góðar leiðir sem hægt er að ná sátt um. Og sjá svo hvað kemur út úr því.
Samtök atvinnulífsins og launþega hafa þegar sest að borðinu til að finna flöt sáttar á þeim málum er þau varðar, sáttar sem ef vel tekst til gæti orðið hornsteinn þeirrar uppbyggingar sem framundan er. Framundan er úrslitaorrustan sem kemur til með að ráða hvernig til tekst um framtíðarlífskjör hér í landinu og tvö stór mál sem standa út af borðinu og snýr beint að stjórnmálamönnunum sjálfum. Það eru fyrst og fremst pólitísk úrlausnarefni sem stjórnmálmennirnir verða að ná sátt um hvernig úr skuli unnið.
Kvótamálið er eitt þeirra. Um það hefur ekki ríkt sátt, og ekki virðist nást sátt um hina nýju leið sem nefnd hefur verið fyrningarleiðin. Þar virðast þjóðin enn skiptast í tvær fylkingar, og það er stjórnmálanna að finn leið þar út úr. Að fá menn til að setjast niður og finna þá leið sem flestir geta unað við og réttlætis gætt hvað varðar skiptingu gæðanna.
ESB málið er annað og svo virðist vera sem menn vilji hreint ekki finna flöt á því. Fyrir liggur að eina leiðin til að fá niðurstöðu úr því er fyrir það fyrsta að að fara í aðildarviðræður og leggja þann samning sem út úr þeim kæmi fyrir þjóðina. Eingöngu þannig getum við tekið afstöðu til þess hvort aðild sé okkur hugnanleg og þjóni okkar hag. Í þeim viðræðum þarf markmiðið að vera skýrt um hvernig við ætlum að halda á málum okkar.
Það þýðir ekki að menn sitji áfram í sama farinu og rífist um eitthvað sem ekki er. Sú aðferðafræði andstæðinga ESB að hafa stöðugt uppi rök um túlkun þeirra á áhrifum samnings sem ekki hefur verið gerður gengur ekki lengur. Nú þurfum við að horfa framan í eitthvað raunverulegt, og taka afstöðu til þess. Um það ættu menn að geta verið sammála. Án samstöðu eigum við ekki möguleika á að skapa það umhverfi hér sem við viljum börnum okkar og barnabörnum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Yfir 70% atkvæða í síðustu kosningum til alþingis féllu til flokka sem höfðu tekið skýra afstöðu með stjórnarskrárbreytinum í gegnum stjórnlagaþing (allir nema Sjálfstæðiflokkur ef ég man rétt) sem mér sýnist að nú eigi að draga lappirnar með, nema að ég sé bara ekki að fylgjast með neinu sem er að gerast. Það á að beita lýðræðinu fyrir sig til þess að sækja um að draga úr því með hugsanlegri inngöngu í sambandsríki en ekki hægt að lagfæra stjórnsýsluna fyrst. Við eigum sem sagt að treysta stjórnamálakerfi/stjórnsýslu sem flestir eru sammála um að sé ekki í lagi til þess að leiða okkur inn í sambandsríki og svo að taka til í kerfinu?
Það þarf ekki að túlka samninginn sem ekki er búið að gera, bara að gera sér grein fyrir að það ríkir töluverður lýðræðishalli í sambandinu sem og öðrum sambandsríkjum, vandamál sem margir trúa að ríki einnig hér og þurfi að laga sem fyrst með upprætingu flokksræðis.
Ef 40% þjóðarinnar vill ekki inngöngu og þar af 15% (þjóðar) mjög ósáttir eiga þau (15%) þá bara að flytja til Noregs? Höfum við efni á því?
Er fólk að fatta að búsáhaldabyltingunni var ekki síst beint gegn ríkjandi fyrirkomulagi í stjórnmálum? Þannig skildi ég það og ég veit að menn eru að byrja að krauma innra með sér í dag vegna þeirra mála sem virðast njóta mestrar athygli innan svokallaðrar æðstu stofnunar.
Ef ég er með púls þjóðarinnar í hendi þá er flestum skítsama um þetta Evrópusamband. Þá er ég ekki að tala um með eða á móti, mönnum er bara sama. Vilja bara hætta að jarma um það, leggja á hilluna þangað til það er búið að greiða úr flækjum innan lands og alþingi hefur unnið sér inn traust þjóðarinnar, sem það er bara ekki búið að gera.
Flestir sem ég þekki og hef spurt líta á alþingi sem einskonar furðu spillingarpytt þar sem menn tapa samviskunni með því einu að setjast í ákveðna stóla þar inni. Þessu verður auðvitað öllu reddað með inngöngu í Evrópusambandið eða með nýju kvótakerfi?
Ég veit að í mínum huga voru síðustu kosningar til alþingis þær síðustu sem ég tek þátt í við ríkjandi stjórnarhætti og ef við fáum ekki að sjá efnt til stjórnlagaþings sem fyrst, mun ég leggja mína hönd á plóginn með að efna til þess án afskipa ríkjandi afla í landinu.
Ég óttast það lítið að ganga í sambandið en ég vill taka til heima hjá mér fyrst.
Sveinn Ríkarður Jóelsson, 26.5.2009 kl. 16:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.