Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar.

 

Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar er enn einu sinni komin á ferðina, Nú er það ekki mjólkurkúin sem hann vill selja heldur sjúkrahús bæjarins og heilbrigðisþjónusta. Hann er hræddur við að missa af tækifærinu. Og gefur í skyn að heilbrigðisráðherrann sem ekki er tilbúinn að falla á hné sín og samþykkja gjörninginn sé afturhaldsmaður af verstu sort.

 

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur sína sýn á lífið, og telur að grípa skuli hvert tækifæri sem gefst til að afla peninga, hversu skammvinnur sem gróðinn af þeirri peningaöflunarstefnu hans er fyrir það samfélag sem hann segist þó þjóna. Og beitir öllum þeim meðulum sem hann þekkir til að ná sínu fram hvað það varðar.

 

Nú í morgun birtist all ítarleg umfjöllun um síðasta ævintýri mjólkurkúasalans. Og sem betur fer þá kemur það fram sem hann hefur haldið fram í málflutningi sínum að væri ekki. Það kemur nefnilega fram í viðtali við Otto Nordhus og Maríu Bragadóttur fulltrúa Salt Investment að það eru ekki bara skurðstofur sem sóst er eftir heldur líka legurýmin sem fyrir eru.

 

Otto Nordhus segir að fengju hann og bæjarstjórinn að stjórna skurðstofunum gætu þeir fyllt sjúkrahúsið af sjúklingum. Og það er einmitt þar sem vandamálið liggur. Sjúkrahúsið er nú þegar fullt af sjúklingum sem ekki þurfa á fegrunar eða lífstílstengdum uppskurðum að ræða  heldur sjúklingum sem eru veikir af margvíslegum öðrum orsökum. Það er svo fullt að þar er jafnvel legið á göngunum suma daga.

 

Bæjarstjórinn segist vera hræddur við að missa af tækifærinu, en hirðir minna um hvað það er sem þarf að láta í staðinn fyrir tækifærið. Talar eins og sannur útrásarvikingur. Hvað ætlar hann sér að gera í heilbrigðismálum þeirra sem hann er kjörinn til að þjóna, þegar hann með forstjóra þessa erlenda fyrirtækis hefur fyllt sjúkrahúsið af sundurskornum erlendum sjúklingum? Því hefur hann ekki svarað, og svarar sennilega ekki því það virðist honum ekki koma við, bara að tækifærið fari ekki til Reykjavíkur. En það verða þeir sem hér búa þó að gera í auknu mæli  verði þeir veikir, gangi hugmynd hans eftir.

 

Er ekki komin tími til að bæjarstjórinn , sem áður hefur selt flest allt sem naglfast er í Reykjanesbæ til einkaaðila í ljósi tækifæranna, fari nú að opna augun og sjá heiminn eins og hann er. Og átti sig á að hugmyndfræði sú sem brennd er í kollin á honum er ekki að virka, eins og sést best á að Reykjanesbær er í dag eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins , þrátt fyrir aðkomu einkaaðilanna hans. Að rekstur bæjarfélags snýst ekki bara um krónur og aura heldur líka um lífskilyrði þeirra sem þar búa. Og þar er heilbrigðisþjónusta mikilvægur hlekkur, sem fæstum dytti í hug að selja frá sér.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Hannes nú get ég bara alls ekki orða bundist.

Við höfum ekki efni á því að hafna innkomu svona gjaldeyrisskapandi þjónustugreinar. Þú hefur áhyggjur af því að Heilbrigðisstofnunin missi fólk til svona starfsemi og ert greinilega mjög á móti því að stofnunin fái að drýgja tekjur sínar með því að leigja þjónustu og önnur úrræði sín sem hún nota bene er ekki að nýta.

Ég vil benda á aðra og meiri ókosti við þína aðferð þar sem ég er þess fullviss um að þessir aðilar byggja frekar sína eigin skurðstofur en að hætta við þessa þjónustugrein og þeir eru þessir:

1. Fagaðilarnir fara frá ríkinu til einkaaðila eins og sagan kennir okkur. Ef Ríkisstofnun fær að drýgja tekjur sínar með því að leigja frá sér úrræði sem ekki eru notuð verða fagaðilarnir þar en ekki annarstaðar.

2. Nú er tækifæri fyrir Ögmund um að setja ramma og reglur um hvernig við viljum hafa svona starfsemi og undir hvaða formerkjum og það væri synd að hið opinbera fái ekki hlut af kökunni með því að halda færu fólki og fullnýta úrræði og bjargir. Viljum við virkilega fara af stað enn og aftur og smíða reglurnar eftirá líkt og með fjármálafyrirtækin? Eða eigum við í miðri kreppu að hætta að reyna að bjarga okkur og fullnýta getu okkar?

3. Svona starfsemi skapar ekki aðeins gjalderi og mörg störf heldur hindrar hún "brain drain" eða "speki leka" með því að koma í veg fyrir að fagaðilar flýji land með færni sína og getur jafnvel orðið til þess að fagmenn erlendis snúi heim.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 25.6.2009 kl. 12:09

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessuð Adda

Það er nú með þetta mál eins og svo mörg önnur, að í upphafi skal endirinn skoða. Og eftir því sem ég best veit er nefnd á vegum ráðuneytisins einmitt að skoða þessi má um þessar mundir. Og vinnur eflaust einnig með einhverjar tillögur sem til greina koma. Er ekki skynsamlegt í ljói reynslunnar að hinkra nú aðeins við og sjá hvað kemur út úr starfi þessarar nefndar.

Ekki er allt gull sem glóir segir líka einhversstaðar, og sú glóð sem sést í þarna þarf ekki endilega að vera sú besta fyrir samfélagið sem heild, og hvað ef hugsanlegar leigutekjur sem nú glóa í augum þínum koma til með að kosta íbúa svæðisins meira sökum þess að sjúkdómana þurfi að meðhöndla í Reykjavík en ekki hér hvar er ávinningurinn þá og hverjum er verið að þjóna.

Eitthvað held ég nú að sé að þvælast fyrir þér hvað regluverkið með útrásrvíkinganna varðar, því regluverkið var fyrir hendi en það var bara ekki farið eftir því, og því fór sem fór.

Ég held að í þessum máli eins og svo mörgum öðrum sé mikilvægt að halda ró sinni og sjá hvað hagkvæmast er fyrir samfélagið, en ekki láta ráðast af hræðslu um að tækifærið fari eitthvað annað. Sé hluturinn þér ætlaður er líklegra en ekki að þú fáir hann sé það skynsamlegt.

Með bestu kveðju

Hannes Friðriksson , 25.6.2009 kl. 13:56

3 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Hannes, það er enginn skaði í þessu. Þarna er verið að ræða um útvistun heilbrigðisþjónustu annarstaðar frá en ekki að sjúkrahúsið fari að hleypa hverjum sem er inn á gólf og taka upp pláss sem þörf er á við annað. Eitt meginmarkmið með hagræðingu er að nýta bjargir og úrræði sem fyrir hendi eru, hér er ekki verið að gera það. Það er dýrt að halda skurðstofum notkunarlausum. Ef við höfum ekki efni á að nýta þær fyrir okkur, ber okkur að reyna að hagnast á útleigu þeirra og skapa meiri atvinnu fyrir starfsfólkið og meiri tekjur fyrir stofnunina sem núna gengur á engu. Þetta verður líka til þess að fá fært fólk til starfa sem ella væri annarstaðar og í þessu tilviki erlendis.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 25.6.2009 kl. 14:28

4 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Enn frekar... með viðbrögðum eins og þínum og Ögmundar eruð þið að dæma opinbera heilbrigðisþjónustu til þess að vera ósamkeppnisfæra bæði hvað varðar getu og mannauð.

Sæll að sinni

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 25.6.2009 kl. 14:32

5 identicon

Ég eins og sú sem hér að ofan ritar get ekki orða bundist , eins og afturhaldið í ráðuneytinu ert þú tilbúinn að slá þetta af án þess þó að vita nokkuð um hvernig á að vinna þetta, væri ekki nú skárra að kynna sér málið og t.d lesa fréttina http://vf.is/Frettir/40903/default.aspx. og álykta svo.

Sveinn Ævarsson (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 14:32

6 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Sveinn

Það skyldi þó ekki vera að afturhaldið í ráðuneytinu sem þú kallar svo viti hvernig á að vinna þetta, og hugnist það einmitt ekki þessvegna. Hann er búinn að halda nokkra fundi með forsvarsmönnum verkefnisins þar sem sennilega hefur verið farið yfir eitthvað. Hef ekki trú á að það hafi bara verið kaffiboð. Ég tel mig nú hafa kynnt mér málið nokkuð vel og veit meira segja það að starfandi er nefnd á vegum heilbrigðisráðuneytisins þar sem meðal annarra á sæti Árni Sigfússon. Veit líka að þeirri nefnd er ætlað að skila hugmyndum um framtíðarnotkun sjúkrhússins. Finnst eðlilegt og rétt að bíða eftir að sú nefnd ljúki sinni vinnu áður en ákvörðun er tekinn hvert skuli stefnt jafnvel þó að forsvarsmennu þessa verkefnis geti ekki beðið. Það er nefnilega oft ekki nóg að lesa eina frétt til að kynna sér málið heldur verða menn að leggja sig fram til að skilja um hvað málið snýst. Burtséð frá að slóðin sem þú sendir er ekki virk inn á þá frétt sem þú þó vitnar til.

Með bestu kveðju

Bestu kveðjur

Hannes Friðriksson , 25.6.2009 kl. 15:32

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mjólkurkýrin, elsku kallinn minn. Hér er kýrin, um kúna, frá kúnni til kýrinnar.

Með kveðju,

Þorsteinn Briem, 25.6.2009 kl. 17:44

8 Smámynd: Hannes Friðriksson

Þakka þér Steini, þetta er alltaf smá vandamál hjá mér

Kveðja Hannes

Hannes Friðriksson , 25.6.2009 kl. 18:55

9 identicon

Hannes! Nú skaltu fara að hætta að djöflast í bæjarstjóranum. Þetta er orðið afar þreytt hjá þér.

Guðjón (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 22:15

10 identicon

Sæll Hannes

Eins og dóttir mín segir við mig "ef þú skilur þetta ekki þásilurðu ekki neitt". Hvert er vandamálið. Vinsamlegast skýrðu það út fyrir mér og þeim sem fengju vinnu þarna.

Þú varst nú betri siglari en þessi pistill gefur þig út fyrir að vera, amk útsjónasamur og ekki svona þröngsýnn.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjorn (IP-tala skráð) 26.6.2009 kl. 00:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.