Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Hingað og ekki lengra.
Nú virðist ljóst vera að kanadískt jarðvarmafyrirtæki MAGMA og Geysir green Energy komi til með að eignast nánast allt hlutfé HS Orku, og jafnframt þann nýtingarrétt á auðlindinni á Suðurnesjum, sem HS Orka hefur yfir að ráða til næstu 130 ára. Það eru mikil verðmæti sem verið er að láta frá sér fyrir lítinn pening vil ég meina. Þetta er gert í nafni tækifæranna og undir formerkjum trúnaðar og með dyggri hjálp bæjarstjórnarmeirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem virðast gera það sem þeim er sagt af bæjarstjóra sínum á hverjum tíma.
Það er umhugsunarefni sá munur sem fram kemur í afstöðu þeirra sjálfstæðismanna í Reykjavík á sínum tíma þar sem sömu leikendur viðskiptalífsins og reyndar stjórnmálanna léku aðalhlutverkin, en forðuðu sér út um bakdyr þegar leikurinn tók að kárna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna vissu hvar þeirra trúnaður og hagsmunir lágu. Vissu til hvers þeir voru kjörnir. Það virðast bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ því miður ekki gera miðað við þau samningsdrög sem birt voru í fréttatíma RÚV í gær.
Að það skuli án þess að þeir hafi nokkuð við það að athuga rata inn í opinbert skjal að Reykjanesbær "Reykjanesbær mun beita kröftum sínum til að aðstoða GGE og aðila sem GGE muni tilnefna, við annað hvort bein kaup á eignarhluta í HS Orku eða að afla kaupréttar á viðbótarhlutum í HS Orku frá öðrum hluthöfum í HS Orku en þeim sem eru aðilar þessa samkomulags" og náist þessi markmið ekki fram mun Reykjanesbær "Fella brott gildandi forkaupsrétt hluthafa sem er að finna í samþykktum HS Orku og HS Veitna í krafti sameiginlegrar hlutafjáreignar sinnar". Maður spyr sjálfan sig hafa þessir bæjarfulltrúar enga samvisku hvorki sér til handa eða því byggðarlagi sem þeir þykjast vera að þjóna.
Svo virðist vera að þeir séu með í höndunum skjöl sem í eðli sínu eru þannig að hvorki fjárhagslegum hagsmunum Reykjanesbæjar sé þjónað, né heldur sé þar allt í anda þess siðferðis sem flestir venjulegir borgar vilja láta kenna sig við. Þeir virðast vera ennþá í þeim gír að allt sé gerandi undir nafni trúnaðar og kúgunar. Er enginn af þeim bæjarfulltrúum sem við kusum svo sterkur á svellinu að þora að standa upp eftir að hafa verið staðinn að þvi að detta svo kylliflatur fyrir fagurgala bæjarstjórans. Standa upp og segja Hingað og ekki lengra, nú skulum við þó seint sé fara að hugsa um hagsmuni bæjarins okkar , en ekki hvað viðskiptamógúllinn sem komið hefur bænum nánast á hausinn vill.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það er ljóst að rafmagnsframleiðsla fyrir Helguvíkurálver hangir á spýtunni. Fróðlegt væri að vita meira um það, hversu mikið er hægt að græða á því.
Pétur Þorleifsson , 2.7.2009 kl. 09:29
Blessaður Pétur
Ég held að öllum sé ljóst að rafmagnsframleiðsla til Álvers í Heguvík muni fara fram, en ég get nú ekki séð að það hangi á þeirri spýtu sem þarna er. Ljóst er að GGE er ekki fjárhagslega sterka fyrirtæki sem getur komið því í kring. En þeir hafa hinsvegar ákveðið að gerast einhversskonar milliliðir hvað varðar erlenda fjárfestingu. Og seilast því eftir bréfum Feykjanesbæjar í HS Orku til að ná stöðu til þess.
Verði það talið nauðsynlegt að MAGMA komi þarna inn til þess að skapa þá möguleika, verður að gera það á samfélagslegum forsendum. Og að nýtingarréttur auðlindarinnar sem er dýrmætur verði ekki seldur um aldur og ævi, eins og samningar GGE og Reykjanesbæjar virðast gera ráð fyrir. Það að selja GGE yfirleitt eitthvað finnst mér miðað við hvernig þeir hafa logið að okkur algjörlega út í hött. Þeim er ekki treystandi. Þeir komu þarna inn á sínum tíma á þeim forsendum að þar vildu þeir einungis eignast lítinn hlut, en forstjóri þess fyrirtækis nú viðurkennt að það var náttúrurlega bara lygi. Þeir hafi alla tíð haft á stefnuskrá sinni að eignast meirihluta í orkusöluhlutanum. Og þetta virðast þeir vera að gera með dyggum stuðningi bæjarstjóra sem engu skiptir hverjir hagsmunir umbjóðanda hans eru heldur fyrst og fremst hvað GGE vill gera. Sjálfum finnst mér eðlilegt að neyðist bærinn til að selja hlut sinn stöðu bæjarsjóððs vegna og þar með áhrif í HS orku verði það gert beint og milliliðalaust þannig að það verði gert á grundvelli hagsmuna samfélagsins en ekki einkafyrirtækis sem komið er að fótum fram og nánast gjaldþrota ef marka má fréttir af því fyrirtæki.
Hve verðmætur orkusölusamningurinn veit ég ekki, en eðlilegra finnst mér að þeir sem byggt hafa upp fyrirtækið komi þá til með að njóta ávaxtanna, frekar en GGE sem virðast lítið hafa lagt annað inn í fyrirtækið en vandræði. Og ríkið setendur uppi með stóran hluta þeirra skulda sem þeir settu sig í við yfirtökuna.
Bestu kveðjur
Hannes Friðriksson , 2.7.2009 kl. 10:02
Veit ekki betur en Reykjanesbær sé eina bæjarfélagið sem hefur staðið vörð í HS Orku á meða Grindavík,Sandgerði,Garður og Vogar hafa baðað sig í milljörðunum sem þeir fengu við að selja sinn hluta.Ekki kvartaði þú þá. Á Reykjanesbær að bera einn hitan og þungan af HS Orku á meðan hin sveitarfélögin baða sig í milljörðunum .Þú ættir kannski að spyrja flokksystkyni þín Oddnýju(Garði) og Jónu(Grindavík) hvaða hagsmuni þær voru að gæta þegar þær seldu fyrir þúsundir milljóna allan rétt sinn í HS Orku ???. Finnst að Reykjanesbær ætti að snarhækka gjöld á þessa liðhlaupa sem hlupust undan merkjum. Hættu svo að skjóta svona í lappirnar á þér Hannes, þetta er vandræðalegt.
Jonas (IP-tala skráð) 2.7.2009 kl. 10:07
Blessaður Jónas
Og kannski líka spyrja vin þinn og félaga Árna hvað hann var að gera þegar henn seldi hlut Reykjanesbæjar fyrir 2,5 milljarða til greiðslu skulda? Það er erfitt að sjá í ljósi staðreyndanna hvernig Reykjanesbær og bæjarstjórinn hafa staðið vörð um hagsmuni Hitaveitunnar.
Er ekki bókað í Fundargerðum bæjarins frá þessum meirihluta að þegar meirihluti bæjarstjórnar fagni fyrsta áfanga einkavæðingar Hitaveitu Suðurnesja? Var það ekki Árni Sigfússon og félagar í Glitni sem sendu inn bréf til einkavæðingarnefndar þar sem óskað var eftir að Ríkið seldi 15% hlut sinn í HS. Nei vinurinn það þýððir ekki að bera svona á borð að meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ hafi staðið vörð um eitt eða neitt nema rassinn á sjálfum sér. En það er hinsvegar rétt að íbúar í Reykjanesbæ hafa reynt að standa vörðinn. Það gerðu þeir með rúmlega 5300 undirskriftum þar sem mótmælt var fyrirhugaðri einkavæðingu, en meirihlutinn hefur hundsað hingað til.
Er ekki komin tími til að fara opna augun, horfa á staðreyndir og skta samkvæmt því? Og til að hafa það alveg á hreinu þar sem þú virðist ekkert vita hvað þú ert að tala um þá kvartaði ég víst þegar þessi hlutir voru seldir, og stóð meira að segja fyrir þessari undirskriftarsöfnun sem gekk bara vel.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 2.7.2009 kl. 10:26
Blessaður Hannes
Ég er þér nú yfirleitt sammála og fylgdi þér að málum á sínum tíma varðandi Hitaveitu Suðurnesja. Á þeim tíma var löggjöfin allt önnur en hún er í dag. Á meðan á þeirri deilu stóð sendi ég Geir. H. Haarde langt bréf, þar sem ég útskýrði mín sjónarmið. Að mínu mati var algjörlega óhugsandi að einkafyrirtæki ætti þær pípur og rök og kapla, sem leiddu til mín heitt og kalt vatn og rafmagn. Einnig fannst mér ekki rétt að félög í opinberri eigu væru ekki í útrás - sem sagt sammála Sjálfstæðismönnum í REI málinu - en að auki var ég þeirrar skoðunar að opinber orkufyrirtæki ættu ekki að standa í orkuframleiðslu fyrir stóriðju, þótt sök sér væru að opinber orkufyrirtæki sæju almenningi fyrir rafmagni, heitu og köldu vatni.
Í kjölfar mikillar umræðu um þessi mál setti "þinn" ráðherra, Össur Skarphéðinsson, löggjöf, sem var að mínu mati ágæti málamiðlun. Þannig var framleiðslu- og veitustarfsemi skipt upp. Framleiðslufyrirtækin gátu verið í eigu einkaaðila og sveitarfélaga, en öðru máli gegndi um veitustarfsemina, sem varð að vera í eigu opinberra aðila. Þarna er í raun verið að fullkomna verk, sem hafið var fyrir nokkrum árum og átti að tryggja samkeppni í orkuiðnaði, sem ættað er frá ESB, sem við báðir erum svo mjög hrifnir af.
Með löggjöf er einnig tekið fram hver framlegðin í orkuframleiðslufyrirtækjum má vera, sem tryggir í raun að ekki er verið að okra á einstaklingum eða fyrirtækjum. Ég veit ekki um nokkur fyrirtæki sem eru undir jafn strangri löggjöf varðandi framlegð, en segja má að þetta séu einu dæmin um verðlagseftirlit hér á landi - enn sem komið er. Mín rök á sínum tíma voru, að ég vildi ekki vera upp á náð og miskunn einhverra einkaaðila kominn þegar ég skrúfaði frá krananum að heitu eða köldu vatni eða kveikti ljósin hjá mér. Össur og Geir tryggðu þetta, þó þeir hafi gert lítið annað af viti í stjórnarsamstarfi þeirra.
Ég er því nokkuð sáttur við fyrrgreind málalok. Auðvitað erum við ekki að fá nákvæmlega sama verð fyrir HS og hin sveitarfélögin fengju (þótt gengið sé í kringum 7). Verðbólgan hefur leikið okkur grátt að undanförnu auk þess sem kanadíska fyrirtækið er að fá þetta á gjafverði sé miðað gengi kanadísks dollars um þessar mundir. Að auki er skuldabréfið sem við fáum í krónum en ekki gjaldeyri, þótt það sé bundið álverði, sem án efa á eftir að hækka verulega úr þeir 1600 dollurum tonnið, sem það nú er í. Við erum auðvitað ekki að selja þessi bréf á því "vitleysisverði" sem var í gangi fyrir tveimur árum og auðvitað var það "klókt" - eftir á séð - að sveitarfélögin seldu á þessum tíma og auðvitað hefðum kannski bara átt að selja þetta og sitja á gullkistunni. Ég held samt sem áður að við tveir og Árni höfum hagað okkur rétt í þessu máli og verið sjálfum okkur samkvæmir á meðan sveitarfélögin á Reykjanesi og kratarnir í Hafnarfirði fylltust af græðgi.
Á sínum tíma var Árni gagnrýndur fyrir sína stefnu í þessu máli og það með réttu að mínu mati. Síðan skipti hann um skoðun, eftir að hann varð var við mikla mótstöðu innan bæjarins og var það vel. Nú er Árni gagnrýndur af sumum fyrir að hafa ekki selt á sínum tíma og grætt heljarinnar ósköp - staðið lappirnar - , síðan er hann gagnrýndur fyrir að selja hlutinn, hann er gagnrýndur fyrir halla á bæjarsjóði, sem að langstærstu leyti má rekja til eignarhluta félagsins í HS.
Ég er ekki í neinu "Árnavinafélagi", en "give the poor guy a break" - ákveðið þið hvað þið viljið gagnrýna hann fyrir:
Finnst þér fullkomlega eðlilegt - og þá sérstaklega á þessum tímum - að skuldsetja bæjarbúa aukalega vegna virkjunarframkvæmda til álframleiðslu í Helguvík, fyrir Kísilverksmiðju eða fyrir gagnaver, þegar við getum látið einkaaðila standa í þessum framkvæmdum á þeirra kostnað og þeirra ábyrgð! Þetta er m.a. sem gagnrýnin hefur verið gagnvar virkjunum sem eru fyrir stóriðju.
Auk þess losum við okkur við mikinn skuldabagga með þessum gjörningi og skuldir Reykjanesbæjar verða með minnsta móti.
Hvernig geturðu verið á mót þessu "díl", sem er kannski ekki fullkominn, en verður að teljast "djöfull" góður nákvæmlega núna!
Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.7.2009 kl. 19:30
Forstjóri HS Orku talaði um 65 ár sem rúmlega afskriftartíma virkjananna. Það gæti þá líka verið afskriftartími álverksmiðjunnar. Ætli orkuvinnslan verði ekki að vera það ágeng að talsvert lengri tíma en önnur 65 ár taki svæðið að ná fyrri styrk.
Pétur Þorleifsson , 2.7.2009 kl. 21:45
Blessaður Guðbjörn.
Sé að þú hefur snúist í 180 gráður, en svona er nú lífið sumir standa á skoðunum sínum og svo eru aðrir sem feykjast eins og lauf í vindi eftir því hvaðan vindurinn blæs. Við því er nú lítið að segja. Ég man þegar þú stóðst með mér í Samkaup og safnaðir undirskriftum þar sem skorað var á bæjaryfirvöld að koma í veg fyrir einkavæðingu HS. Fyrir þér er það nú orðinn góður “díll. Svolítið svona 2007 er það ekki .
Nú veist þú jafnvel og ég að við höfum gagnrýnt ýmist saman eða í sundur mörg verk þessa meirihluta, við höfum til að mynda gagnrýnt hvaða stefnu málefni Fasteignar hafa tekið í bænum okkar, og verið sammála um að skuldastaða bæjarins sé hafi verið slæm um allangt árabil, þó að keyrt hafi yfir þverbak í kjölfar hrunsins.
Við getum væntanlega verið sammmála um að fá sveitarfélög á landinu hafa meiri skuldir á bakinu miðað við íbúafjölda, og nú er nánast daglegt brauð að sjá í fundargerðum bæjarins að verið sé að taka lán til að greiða annað lán. Það hefur lítið með kreppuna að gera, heldur algera óstjórn og stefnuleysi í fjármálastjórn bææjarins á valdatíma Árna Sigfússonar, sem frambjóðandi flokksins kallar nú “The poor guy”. Segir kannski hvað þið hugsið, en hafið ekki kjark til að viðurkenna eða taka á.
Það sem verið er að gagnrýna í þessari umræðu er sú aðferðafræði sem beitt er, hvernig bærinn spyrðir sig saman við Geysir Green Energy, sem eins og þú veist á ekki fyrir skuldum, og er á barmi gjaldþrots. Reykjanesbær skuldbindur sig til að ná fram markmiðum GGE með því að atkvæðum bæjarins verði beitt gegn nágrannasveitarfélögum okkar til að afnema forkaupsrétt sem þau þó nú hafa. Ef þér finnst það í lagi, þá hef ég ekki þekkt þig rétt hingað til. Ef Reykjanesbær þarf að selja þá verði það gert á forsendum bæjarins en ekki GGE. Þú ættir að fá að sjá “Samkomulag um helstu skilmála á milli Reykjanesbæjar og GGE þar sem greinilega kemur fram að hagsmuna bæjarins er ekki gætt. Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 2.7.2009 kl. 22:54
Sæll aftur Hannes
Þú getur orðað þetta eins og þú vild og ég stend enn við það að rétt var að mótmæla einkavæðingunni eins og hún var lög fram á sínum tíma. Ég útskýrði mjög vel hversvegna ég var á móti því og ef þú rifjar upp þetta mál, manst þú kannski að við vorum ekki algjörlega samstíga í þessu máli. Hjá mér snýst þetta fyrst og fremst um það að "almannaveitnahlutinn" sé í eigu sveitarfélaganna, en framleiðsluhlutinn - og þá sérstaklega sú framleiðsla sem snýr að framleiðslu fyrir orkufrekan iðnað - ætti og geti verið í eigu einkafyrirtækja. Ég er markaðsmaður en ekki sósíalisti og því verður ekki breytt svo glatt.
Já, ég er gagnrýninn maður og segi ekki "hallelúja" við öllu, hvort sem það kemur frá Sjálfstæðisflokknum í landsstjórn eða bæjarstjórn. Því ætla ég ekki að breyta, aldrei. Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft á fleiri gagnrýnum röddum að halda undanfarin 20 ár, því þá hefði ýmislegt farið öðruvísi.
Það er rétt að ég hef ekki alveg skilið þetta með Fasteign og það deila margir sjálfstæðismenn þeirri skoðun hér í bæ. Ég hef alltaf verið á móti því að að einkaaðilum sé blandað í þetta fyrirtæki. Ég hefði viljað hafa þetta einhverskonar samvinnufyrirtæki sveitarfélaga, því ég sé rökin í því að betra sé að stærra fyrirtæki, sem væri að mörgu leyti óháð sveitarfélögnum sjálfum, sæi um rekstur fasteignanna og gerði það með sóma, t.d. hvað varðar viðhald o.s.frv. Einnig er ég þeirrar skoðunar að útboð og byggingarframkvæmdirnar sjálfar séu betur komnar í höndunum á sérhæfðu fasteignafélagi en í höndunum á einhverjum bæjarstarfsmönnum í litlum sveitarfélögum, sem ekki hafa þá sérhæfðu kunnáttu sem til þarf til að semja um bestu kjör, gera flókin og vandasöm útboð og síðan fylgjast með framvindu framkvæmda. Ég sé einmitt núna tækifæri í stöðunni til að slíkt fyrirtæki verði stofnað á rústum gömlu Fasteignar og þá með þátttöku fleiri sveitarfélaga.
Það er hárrétt hjá þér að stórar skuldir eru á bak við hvern íbúa í Reykjanesbæ, t.d. í samanburði við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Og af hverju er þetta? Af því að við seldum ekki HS á sínum tíma líkt og hins sveitarfélögin og líkt og Hafnarfjörður gerði. Án þeirrar skulda er Reykjanesbær skuldugur en alls ekki upp fyrir haus og alls ekki meira en önnur sambærileg sveitarfélög, sem staðið hafa í álíka uppbygginu á undanförnum árum, t.d. Kópavogur eða Hafnarfjörður. Að auki fengum við á okkur högg við brottför Varnarliðsins, sem önnur sambærileg sveitarfélög þurftu ekki að taka á sig. Það tekur á að vera með margfalt atvinnuleysi á við aðra í áraraðir! Hin nýja vinstristjórn hefur ekki beinlínis verið að hjálpa í þeim efnum, t.d. varðandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu og gagnavers á gamla varnarsvæðinu eða uppbyggingu álvers og Kísilverksmiðju í Helguvík. Þeir ættu að tala minna og framkvæma meira, því atvinnuleysi verður ekki talað niður, líkt og VG virðast halda, heldur þarf framkvæmdir til!
Hvað varðar forkaupsrétt Grindavíkur, þá hafa þeir dregið lappirnar í allan vetur í samningaviðræðum við HS og þetta hefur verið á vitorð allra sem kynnt hafa sér málin. Það er hálf hjákátlegt að vera að búa til einhver fórnarlömb úr þeim núna mánuðum síðar. Ég veit ekki til þess að Reykjanesbær hafi neinn sérstakan áhuga á þessu landi enda hálf skrítið að við séum að kaupa land í landi Grindavíkurbæjar! Ég spyr, til hvers? Svarið er einfalt eða að nú þegar fyrirtækjunum er skipt upp verður einhver opinber aðili að eiga landið með auðlindunum. Til þess að þessi skipting gæti átt sér stað og við selt okkar hlut í HS orku þurfti að höggva á þennan hnút og það var gert í morgun. En að um einhverja græðgi í Reykjanesbæ sé að ræða er af og frá. Síðast í gær var ég með Árna Sigfússyni á fundi og ég heyrði að hann hefur engan sérstakan áhuga á þessu landi og ég spyr aftur, hversvegna ætti hann að hafa áhuga?
Guðbjörn Guðbjörnsson, 3.7.2009 kl. 00:12
Blessaður Guðbjörn
Nú erum við náttúrulega enn og einu sinni nokkuð sammála. Þegar kemur að Fasteign held ég þó að það séu nú nokkuð margir starfsmenn Reykjanesbæjar betur til fallnir og jafnvel með betri grunn til að fara með þau mál en þeir starfsmenn Fasteignar sem nú fara með þau mál. Það er nefnilega svo að starfsmenn bæjarins eru ekki algerir asnar eða vanhæfir til að taka afstöðu til hverjar þarfir bæjarins eru, og eru þess utan jafnvel í betra sambandi við notendur þjónustunnar en þeir sem sitja í sínum turni á Ártúnshöfða.
Það að segja að skuldir Reykjanesbæjar séu tilkomnar vegna þess að við seldum ekki Hitaveituna er náttúrulega hvert annað bull. Sveitarstjórnum er ætlað að gera sínar áætlanir út frá þeim tekjumsem þær hafa hverju sinni. Og tekjur Reykjanesbæjar hafa verið nokkuð fyrisjáanlegar undanfarin ár. Það eru þær skattekjur sem bærinn fær og markast af íbúafjölda. Þær tekjur miða þeir svo framkvæmdir sínar við. Svona svipað og heimilin. Vandamál okkar í Reykjanesbæ hefur verið þær skýjaborgir sem reistar hafa verið. Og meirihluti sjálfstæðismanna valið að líta framhjá að gætu fallið, myndu aðstæður breytast. Það hefur nú gerst, og því virðist verða að selja það sem eftir er.
Nú er greinilegt að þær upplýsingar sem þú hefur um forkaupsrétt Grindavíkur og þá samninga sem þar eru í gangi hefur þú beint úr munni bæjarstjórans eða formanns bæjarrráðs, og eiga því miður ekkert skylt við sannleikann frekar en margt annað sem þaðan kemur. það á eftior að koma í ljós furr en varir gæti ég best trúað. Og þar er sá samningur sem ekki var talað um á fundi sjálfstæðismanna í gær meginmálið. Það er samningurinn sem gerður var á milli Reykjanesbæjar og GGE um hvernig yfirráðin í HS Orku skyldu tryggð. En ykkkur er ekki sagt frá.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson , 3.7.2009 kl. 00:55
MAGMA?
Ég legg til að menn rekji eignatengsl þessa fyrirtækis. Ekki yrði ég hissa þó það tengdist einhverjum stórum orkukaupanda HS eða væntanlegum stórum orkukaupanda.
Það eru jú einusinni fáar tilviljanir í þessum heimi og þegar menn kynna sér starsemi stóru álfyrirtækjanna Alcoa og Alcan sjá menn að þau eru líka umsvifamikil í orkuframleiðslu. Og auðvitað eru þau að loka verksmiðjum í bandaríkjunum og KANADA sem þau hafa hingaðtil keyrt á sinni eigin orku sem þau nú selja frekar en að nota til álbræðslu, því orkan er svo hlægilega ódýr hér.
Sævar Finnbogason, 3.7.2009 kl. 04:16
Hver getur sagt hver rekstrarsaga Magma Energy er?. Þetta er félag stofnað 2008 og er nú um þessar mundir að óska eftir skráningu á kanadaískan hlutabréfamarkað.Ekki er hægt að sjá rekstrarsögu félagsins eða hvernig þeir starfa við nýtingu auðlinda. Það ætti þó að vera æskilegt að gerð væri krafa um ákveðna reynslu aðila við að eiga í íslensku orkuframleiðslufélagi sérstaklega í ljósi þeirra vandræða sem HS Orka hf. hefur lent í undanfarið og tekið mun meira úr auðlindinni en heimild var fyrir og brotið þannig starfsleyfi sitt. Eru nokkuð óelðilegar áhyggjur Grindvíkinga á ofnýtingu auðlindar þar sem verið er að spila með fjöregg bæjarfélagsins? Það ætti að vera skýlaus krafa stjórnvalda að allar rannsóknir og eftirlit með aulindinni ætti að vera í viðkomandi sveitarfélagi og til þess rekstrar væri greitt af nýtingar aðila viðkomandi auðlindar. Það ætti að vera gerð krafa um félagslega ábyrgð og ábyrga stjórnun þeirra félaga sem eru í eigendahópi að íslenskum orkufyrirtækjum. Sú stefna ætti að hafa verið verið samþykkt af hluthöfum og stjórn þess. Ekki verður séð að Magma Energy hafi slíka stefnu, þá er ljóst að Magma Energy er óheimilt að eiga beint í HS Orku hf. þar sem félagið er ekki lögaðili á EES svæðinu en auðvelt er að komast hjá þeirri hindrun með stofnun félags innan EES, en það félag ætti því einnig að vera með ábyrga stjórnunarstefnu.Þá ætti öllum að vera ljóst að fjárhagsleg geta eigenda íslensks orkufyrirtækis er aldrei meira nauðsynleg nú en áður. Það er ljóst að nýting jarðhita getur verið áhættusöm og því nauðsynlegt að félögin hafi fjárhagslega sterka eigendur. Magma Energy er óskrifað blað hvað þetta varðar og er auk þess að sækja sér fjármagn á hlutabréfamarkaði.Með því að vera skráð á hlutabréfamarkað er ljóst að fjárhagsleg markmið munu stjórna rekstri þess félags og félagsleg markmið líklegast undan láta ef illa árar. Þannig gæti verið freistandi fyrir slíkt félag að taka meira úr auðlind til að bjarga fjárhagslegri afkomu og gefa langtímamarkmiðum langt nef.Af þessu er ljóst að það er undarlegt að VG og Samfylking skuli ekki huga að því hvernig staðið er að sölu og kaupum á orkufyrirtæki sem er nánast alfarið í eigu ríkisins í gegnum Íslandsbanka.
Hannes Friðriksson , 3.7.2009 kl. 08:40
Sá sem ræður orkulindunum ræður orkuverðinu.
Ef einkaaðilar eiga orkulindirnar, verður orkan seld á heimsmarkaðs verði.
Jarðhita orkusvæði er mun verðmætara en olíulindir.
Olíulindir tæmast, en í jarðhita svæðinu borar þú dýpra og dælir vatni niður, og getur haldið áfram nýtingunni.
Þegar hlutabréf eru seld, er miðað við undirliggjandi verðmæti, á heimsmarkaðsverði.
Þá verður að selja orkuna á heimsmarkaðsverði líka.
Þá er spurning hvort við getum rekið sundstaðina, ef við verðum að greiða olíu verð fyrir orkuna.
Það þarf að koma í veg fyrir að sveitastjórnir geti selt jarðhita orkulindirnar.
Þær þurfa að vera í almanna eigu, og ekki hægt að leigja, selja eða taka þær upp í skuld.
Venjan er að sveitarstjórnum er lánað til að byggja íþróttahús, skóla, leikskóla, bara nefndu það og síðan er mjólkurkýrnar (orkulindirnar) seldar upp í skuldina.
Þetta er venjubundin aðferð til að ná í verðmæti frá sveitarfélögum eða ríkinu mú í kreppunni, (hugarkreppunni).
Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 11:10
Það er ósköp einfaldlega þannig að allstaðar þar sem raforkuframleiðsla er einkavædd gerist tvennt
1 orkuverð hækar
2 gæði þjónustunnar versna
Það verður að koma í veg fyrir að HS lendi í höndum einkaaðilla það verður að taka fram fyrir hendurnar á sveitastjórnum í þessum málum
Því miður eru flestir sveitarstjórnarmenn fáfróðir um orku og umhverfismál og þekkja ekki hörmungarsögu t.d. Bandaríkjamanna og margra Evrópuþjóða af einkavæðingu í orkugeiranum.
þetta fólk má sín lítils gegn atvinnu lobbýistum, bæði Íslenskum og erlendum sem hafa ekki hagsmuni almennings að leiðarljósi en geta með því að veifa peningum framan í sveitarstjórnarmenn haft þá að ginningarfíflum.
Það er það sem virðist vera að gerast á Suðurnesjum
Sævar Finnbogason, 3.7.2009 kl. 12:48
Þessi samningur er til heilla, á þessum erfiðu tímum. Hagsmunir íbúa eru hafðir að leiðarljósi greinilega. Guðbjörn talar af mikilli þekkingu og vizku.
Baldur (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 13:29
Ég sel þér mjólkurkúna mína, og greiði þér svo á 5 ára fresti sömu upphæð fyrir mjólkina, 5ár, 5ár, 5ár og áfram.
www.geimur.com
Jónas Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 3.7.2009 kl. 15:00
Hannes, ég giska á að þú sért að vísa til Svartengis, þegar þú talar um áhyggjur Grindvíkinga af ofnýtingu. Í þessu viðtali er sagt að á Reykjanesi sé verið að virkja 100 megavött á einum ferkílómetra, það sé hvergi í heiminum svo mikið, hér er minnst á 10 - 20 megavött úr ferkílómetra eins og það sé frekar mikið.
Svo skilst mér að til þess að virkjun sé 100 rafmagnsmegavött þurfi að dæla upp 1000 varmamegavöttum og henda 900. Slík sé sóunin.
Pétur Þorleifsson , 3.7.2009 kl. 16:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.