Sunnudagur, 12. júlí 2009
Lýðræðinu nauðgað!!!!!
Hann lætur ekki að sér hæða bæjarstjórinn í Reykjanesbæ. Og nú liggur mikið á og boðar til íbúafundar í Duushúsum í Reykjanesbæ annað kvöld klukkan 20. Og maður yrði ekki hissa þó hann boðaði svo til bæjarstjórnarfundar daginn eftir til að klára málið. Sjáum hvað setur.
Kreppan er móðir allra tækifæra, sagði forsvarsmaður atvinnulífsisns skömmu eftir að kreppan hófst, og bæjarstjórinn hlýðir heldur betur því kalli , jafnvel þó ljóst sé að vegferð sú sem hann hefur lagt í komi til með að kalla á stríð á Reykjanesskaganum með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir bæði HS Orku, og Reykjanesbæ.
Það er með ólíkindum hve mikið liggur á í þessu máli, og miðað við þær fréttir og umfjöllun sem um málið hefur fengið skyldi hver meðalgreindur maður staldra við og athuga hvort sú vegferð sem bæjarstjórinn hefur valið til að klóra yfir klúður sitt í rekstri bæjarins sé sú rétta. En meirihlutinn í Reykjanesbæ hlýðir kalli GGE eins og viljalausir hundar , eins fram hefur komið í þeim samstarfssamningi milli GGE og Reykjanesbæjar sem til umfjöllunar hefur verið í fjölmiðlum undanfarið.
Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með ferli bæjarstjórans að þar er ekki mikill rekstrarmaður á ferð, heldur þvert á móti. Eitt stærsta tölvufyrirtæki landsins var lagt í rúst á meðan hann var við stjórnvölinn, og var hann í framhaldi fenginn til að fara fyrir lista Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, sem honum er að takast að koma á hausinn líka. En meirihlutinn þegir og finnst sá björgunarleiðangur sem nú er lagt í, í anda góðrar stjórnsýslu, þó ljóst sé að hér sé um hreina og klára nauðgun á lýðræðinu að ræða.
Fasteign, hugarfóstur bæjarstjórans hefur ekki reynst sú snilld sem boðað var, heldur þvert á móti er sú ráðstöfun orðin að snöru um háls bæjarfélagsins. Bæjarstjórinn getur því miður ekki kennt kreppunni um þann hlut, því þar hafa maður undir mann reynt að aðvara hann og þar á meðal eigin flokksfélagar á frægum fundi í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík löngu áður en sú kreppa sem nú er skall á.
Geysir Green Energy, fyrirtæki útrásarvíkinganna Jóns Ásgeirs, og Hannesar Smárasonar átti að vera bæði bjargvættur Reykjanesbæjar og Hitaveitu Suðurnesja, og óhætt að segja að slefan hafi lekið af andliti bæjarstjórans blessaða þegar hann fór hér um héruð með þeim manni. Reykjanesbær á hausnum og Hitaveita Suðurnesja er varla rekstrahæf eftir þá snilld og því verður nú að selja erlendum auðjöfrum hlut til að bjarga báðum. En það skal gert á skilmálum auðjöfranna og GGE en ekki bæjarins eins og samkomulag bæjarins og GGE hljóðar uppá. Hvað í þeim samning liggur fyrir meðlimi meirihlutans hefur ekki komið fram en gaman væri að vita.
Það má vel vera að í þessum pistli sé ég svolítið harðorður gagnvart brosmilda bæjarstjóranum sem hingað til hefur helst talað um hundaskít og hljóðmanir á þeim íbúafundum sem hann hefur haldið. Og þá boðað til þeirra með þeim fyrirvara að mögulegt sé að sækja þá. En sú aðferðafræði sem hann hefur nú lagt upp með og kallar á ónauðsynlegt stríð milli góðra granna krefst þess að málfarið sé örlítið misnotað og honum ekki í hag. Ég hvet alla þá sem eitthvað finnst athugavert við þá stefnu sem þetta mál er að taka að fjölmenna á íbúafund þann sem bæjarstjórinn boðar í minnsta mögulega sal sem hann gat fundið á svæðinu.
Og bendi einu sinni enn á blogg Láru Hönnu sem gert hefur þessari atburðarrás og tengingum ótrúlega góð skil. http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:23 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.