Fimmtudagur, 30. júlí 2009
Er ekki botninum náð?
Alltaf þegar maður heldur að botninum sé náð, birtast nýir fletir á málefnum þess félags sem ég hef viljað kalla eitt furðulegasta fjárfestingarævintýri Íslandssögunar, og á þar að sjálfsögðu við Geysi Green Energy. Nú þessi frétt í Viðskiptablaðinu í morgun. Maður fer nú að velta ýmsu fyrir sér í ljósi þessa.
Á síðasta ári var sagt að hlutafé GGE hefði verið aukið um rúma fimm milljarða króna, og þar af komu rúmir 2.milljarðar króna frá Ólafi Jóhanni og Wolfensohon Company. Athygli mína á þeim tíma vakti þessi fréttatilkynning frá Athygli, þar sem sértaklega er dregið fram að sonur stofnanda Wolfhenson Company hafi séð um að kolefnisjafna tónleikaferð Pearl Jam , jafnframt sem sá gutti hafi líka unnið að kvikmyndagerð. En hafði að vísu ekkert með samning þennan að gera.
Nú virðist ljóst að hluti þess hlutafjár sem sem skráð hefur verið sem hlutafjáreign barst aldrei, og pabbi kvikmyndargerðarmannsins var skipaður í stjórn GGE ásamt Ólafi Jóhanni, á fundi í Duushúsum í fyrra í anda þeirra Geysis Green manna. Nú eru þeir farnir, farnir frá þeim. Vonarneistarnir sem sáu lítið annað en birtu og yl í framtíð GGE. Hvers vegna skyldi það nú vera?
Það er margt sem maður veltir fyrir sér í þessu máli, og þá sérstaklega hvort að undanfarið ár hafi GGE ekki í raun verið gjaldþrota fyrirtæki, en tekist í ljósi sérstakrar stöðu sinnar innan bankakerfisins að halda sér gangandi. Maður veltir því fyrir sér hvort það geti verið að þær klíkur sem að Geysi Green standa séu svo voldugar að hægt sé fórna nýtingarrétti jarðhitans á Reykjanesskaga til 130 ára , til þess að redda þeim út úr vandræðum sínum. Og hvort stjórnvöld og skilanefndir bankanna séu virkilega svo aum að geta ekki komið í veg fyrir gjörning sem virðist enn siðlausari í ljósi þessara frétta.
GGE virðist ekkert sérstaklega spennt að fara í málaferli við stjórnarmanninn sem situr þar enn án þess að hafa nokkurn rétt til setu, manns sem hafði ekki einu sinni greitt það hlutafé sem gefið hefði honum rétt til að sitja í stjórn fyrirtækisins. Segir það ekki meira en margt annað um hreinleika málsins? Það myndi maður nú halda.
Það er athyglisvert að þrátt fyrir að hafa ekki greitt hlutafé sitt inn í fyrirtækið þá situr maðurinn enn í stjórn fyrirtækisins í umboði hverra kemur þó ekki í ljós hér á heimasíðu GGE, en Ólafur Jóhann er farinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.