Mánudagur, 17. ágúst 2009
Erum við á réttri leið?
Þessa dagana er farið hratt yfir, reynt er að bjarga þvi sem bjargað verður og uppbygging þess samfélags sem hér fór á hausinn er forgangsmál. Svo virðist sem stóra bylgjan sé að fjara út án teljandi skemmda, í bili að minnsta kosti. Fundinn hefur verið flötur á ICESAVE deilunni sem flestir flokkar virðast geta sætt sig við, og jafnvel viðsemjendurnir líka. Það á eftir að koma í ljós.
Um leið og við nú horfum á þessa stóru bylgju sem til varð vegna einkavæðingarstefnu fyrrum stjórnvalda fjara út í flæðarmálið, sjáum við aðra myndast út við sjóndeildarhringinn, báru sem var fyrirsjáanleg og nægur var tíminn til að undirbúa komu hennar svo að skemmdir hlytust ekki af, einkavæðing á afnotum auðlindarinnar sem tryggja á okkur leið út úr ógöngunum fer nú fram með stuðningi stjórnvalda sem viljað hafa láta svo líta út að slíkur gjörningur væri þeim á móti skapi.
Nú myndi maður skilja það vel að þetta væri gert á þennan hátt hefðu allir hnútar verið bundnir vel og rækilega og fyrirséð væri slíkur gjörningur sem varð með einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja yrði ekki endurtekinn. Að fyrtæki sem hingað til hafa verið skilgreind sem samfélagsleg verðmæti yrðu ekki seld hæstbjóðanda að því er viðist af því bara.
Við höfum á undanförnum mánuðum fengið að fylgjast með hvernig ýmsir stjórnmálamenn hafa endurskilgreint áhættufjárfestingar, og tekist að sannfæra jafnvel sjálfa sig um að svart væri hvítt. Að orkusala sú sem við íslendingar eigum möguleika á að stunda teljist til áhættufjárfestinga, en hafa ekki sýnt okkur í hverju sú áhætta er fólginn. Nema þá helst að þeir aðilar sem tilbúnir hafa verið til að fjárfesta hafi ekki viljað sökum þess afgjalds sem þeir þyrftu að borga fyrir nýtingu hennar.
Ljóst er og hefur verið lengi að virkjanir þær sem byggðar voru í efri hluta Þjórsár geta til að mynda ekki á nokkurn hátt talist til áhættufjárfestinga. Í þær var ekki ráðist fyrr en fyrir lágu samningar við þá er vildu nýta þá orku er þaðan kom, þó að verð það sem þeir vildu greiða hefði aldrei fengist uppgefið. Því réðu samkeppnissjónarmið.
Nú virðast stjórnmálamenn tilbúnir til að leggja í enn eina vegferðina til að tryggja stundargróðann, en taka lítið tillit til framtíðarhagsmuna þjóðarinnar. Sem hljóta að vera að fá sem best verð fyrir þá orku sem okkur er unnt að skapa. Nú vilja menn selja það orkufyrirtæki sem virðist vera með trygga orkusölusamninga til margra áratuga, til erlendra aðila. Sá arður sem af frekari virkjunum rennur ekki framar inn í íslenskt samfélag nema að litlu leyti, heldur til erlendra orkufyrirtækja. Og það þykir mönnum nauðsynlegt að gera í ljósi stöðunnar, á sama tíma og ljóst er að orka er og verður eitt það dýrmætasta sem við getum selt. Er ekki hér verið að henda krónunni og taka upp aurinn í staðinn.
Einhvern veginn finnst manni nú vera rétti tíminn til að taka upp þau lög sem samin voru nýlega um hvernig orkumálum þjóðarinnar skuli varið til framtíðar. Spyrja sig að nýju nokkurra grundvallarspurninga um hvernig við sem þjóð fáum best til framtíðar notið þeirra gæða er landið gefur okkur.
Er það virkilega svo illa fyrir okkur komið að vikjana og afnotaréttur auðlindarinnar verði að seljast nú þegar til erlendra orkufyrirtækja, eða höfum við þann styrk til að bera sem þjóð að standa með okkur sjálfum og leyfa lögmálinu um ágóða og eftirspurn ráða þessari för. Því eftirspurnin mun ekki minnka eftir þeirri tegund orku sem við höfum tök á að framleiða, heldur þvert á móti. Og verðmyndun þeirrar orku mun verða í takt við eftirspurnina.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.