Þriðjudagur, 8. september 2009
fyrsti flugulaxinn
Í gær veiddi ég fyrsta sinn lax á flugu. Og hef varla jafnað mig enn af þeirri reynslu, enda var þetta örugglega langstærsti fjögurra punda laxinn sem veiddur hefur verið á flugu nú í sumar. Og átökin eftir því.
Þessi merkisatburður átti sér stað í Flókadalsá í Borgarfirði um hádegisbilið í gær. Lítil sem enginn veiði hafði verið í ánni þá um morguninn, og sögðu mér það fróðari menn að það væri sökum vatnsleysis í ánni. Fyrir algeran byrjanda á þessu sviði var þetta því enn betra, vanir fluguveiðimenn og snillingar urðu að viðurkenna sig sigraða af nýliðanum. En þeir tóku því vel og fögnuðu af einlægni með mér.
Vinir og félagar höfðu fyrir veiðiferðina og í henni reynt að stilla væntingum mínum í hóf. Menn hefðu af þolinmæði þurft að bíða sumir hverjir í mörg ár eftir því að landa fyrsta flugulaxinum, þetta væri spurning um útiveru og félagskap frekar en fjölda fiska sem veiddist. Sunnudagurinn hafði farið í að þræða ána og fylgjast með hvernig fiskarnir stukku yfir línuna veifandi sporðinum framan í mann, reynandi á þessa margumtöluðu þolinmæði fluguveiðimannsins.
Svona veiðiferðir eru náttúrulega alger snilld, og mikið skipulag sem liggur að baki. Og það skiptir máli að maður fari af stað í réttri stemmningu. Og njóti einnig tímans sem ekki er verið að veiða. Setjist niður og spjalli, læri af þeim sem kunna. Eitt einkenni svona veiðiferða er að menn eru komnir upp fyrir allar aldir til að geta byrjað að veiða strax klukkan sjö um morguninn, en eins og einn þeirra sem naut kvöldsins áður hvað best, hafði hann aldrei heyrt talað um að menn hefðu veitt eitthvað á milli sjö og átta um um morguninn.
Ég hafði þarna um kvöldið haft mig lítið í frammi, og ákvað að hlusta. Reyna að finna út hvað hvaða eiginlega flugu væri best að nota, en eftir allar þær útskýringar sem menn gáfu gat ég auðveldlega séð að enginn af þeim flugum sem ég hafði fengið að láni myndi virka. Miðað við hvað snillingarnir sögðu. Ég þyrfti að breyta þeim flugum sem ég var með svo einhver minnsti möguleiki yrði á að veiða eitthvað. Og það gerði ég þá um nóttina með þessum líka árangri. Veiddi eina flugufiskinn fyrir hádegi.
Vinur minn sem boðið hafði mér með í veiðiferðina, lagði upp hvernig ætti ég ætti að veiða fiskinn, hann lagði bílnum langt frá þeim hyl sem taldi líklegast að hægt væri að fá fisk í, og undirstrikaði að ég yrði að læðast að hylnum svo fiskarnir myndu ekki sjá þegar ég kæmi að hylnum. Ég skreið nánast eins og indíáni þessa tvöhundruð metra, yfir ána og að hylnum, reisti mig upp hundblautur og byrjaði að kasta. Sá í fjarlægð að vinurinn hafði dregið veiðihúfuna niður fyrir augu og var við það að sofna þegar ósköpin dundu yfir.
Fann fyrst svolítinn kipp í stönginni, en svo var líka tekið hraustlega í. Ljóst var öllum sem á horfðu að þarna áttust við maður og fiskur og óljóst hvor myndi hafa betur. Fiskurinn sem virtist ákveðinn í að losna ákvað nú að stökkva upp úr hylnum mér algerlega að óvörum, þrátt fyrir að um leið gerði hann mér þann greiða sem ég þurfti á að halda. Hann vakti veiðifélagann, sem stökk út úr bílnum um leið og hann varð þess var að skuggi fiskins hafði dregið fyrir sólu. Og ég sá hann koma hlaupandi út undan mér á fullri ferð yfir ána með háfinn sem ég seinna þurfti að nota.
Á hlaupum sínu kallaði hann stöðugt að nú þyrfti ég bara að vera rólegur, eins og ég gæti eitthvað annað fastur út í ánni. Fiskurinn skall niður í ána eftir þetta stökk sitt, og þó ég segi sjálfur frá varð þá úr mikil dynkur, þó erfitt hafi verið að meta þau áhrif sem skellurinn hafði. Seinna talaði ég þó við vin minn á Selfossi sem sagði að á sama tíma hefði hann fundið smá hristing í jörðu. Veit nú ekki alveg hvort þetta tvennt tengist. En fiskurinn hafðist á land, Fyrsti fiskurinn sem nálægt flugunni kom.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Til hamingju með Maríulaxinn :-)
Hjörtur M Guðbjartsson (IP-tala skráð) 8.9.2009 kl. 22:54
Til hamingju Hannes. Nú verður ekki aftur snúið...
Helga Sigrún Harðardóttir, 9.9.2009 kl. 08:45
glæsilegt
Jón Snæbjörnsson, 9.9.2009 kl. 11:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.