Mánudagur, 5. október 2009
Er verið að setja fleiri egg í körfuna en til eru?
Erum við komin í nýtt útrásarævintýri, sem enginn innistæða er fyrir. Enn eitt málið sem ekki má tala um, sökum þess að þeir er það gera verða þá taldir niðurrifsmenn og standi í vegi framfara og atvinnusköpunar hér í landi. Óneitanlega fær maður það illa á tilfinninguna þessa daga, að svo sé.
Að flýta sér hægt og skipuleggja vel það sem á að gera hefur hingað til talið til góðra kosta. Menn hafa vitað að hverju verið væri að ganga. Fáum okkar held ég að dytti í huga að ráðast í húsbyggingu án teikninga, og reyndar gera byggingarlög ráð fyrir að nánast öllum teikningum af slíkri framkvæmd sé skilað inn áður en framkvæmdaleyfi er veitt fyrir slíku. Þetta er gert til þess að menn geti áttað sig á hvað fyrirhuguð framkvæmd inniheldur. Og að ekkert komi neinum á óvart þegar af stað verður farið.
Umhverfisráðherra hefur nú kallað eftir nánari upplýsingum um hvernig fyrirhuguðum línulögnum á Reykjanesi verði háttað, Hún vill hafa sem best gögn til að sjá hvort þar er eitthvað sem komið gæti á óvart. Vill vandaða stjórnsýslu , en eitthvað virðist það standa í mönnum og hóta jafnvel málsókn gangi það eftir. Hvað er það sem við megum ekki vita?
Hitt er annað og vekur reyndar meira upp efasemdir mínar í þessu máli, og það er grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings þar sem hann veltir fyrir sér hvort sú orka sem til þarf í þær framkvæmdir sem stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir sé yfirleitt til.
Og kemst að þeirri niðurstöðu að til þess að svo megi verða sé allri framtíðar orku á Reykjanesi, Suðurlandi, og Norðausturlandi ráðstafað til framtíðar nái þetta fram að ganga. Það líst mér illa á, og tel andvaraleysið mikið gagnvart komandi kynslóðum sem kannski vildu hafa eitthvað um það að segja hvernig orku landsins verður ráðstafað.
Ég tek undir það sjónarmið að það verði orkan sem komi til með að fleyta okkur úr kreppunni, en ég skil ekki að öll eggin verði lögð í sömu körfuna, og ég skil alls ekki að í þá körfu eigi að leggja fleiri egg en til eru. Til þess þarf töframenn til, til að sýna kúnstir sem við hin skiljum ekki. Taldi okkur hafa lært af komu síðustu töframanna.
Ég held að grein Sigmundar og úrskurður umhverfisráðherra ætti nú að vekja okkur, og menn setjist yfir það opið og fordómalaust að finna út hve mikla orku mögulegt er að vinna hér í þokkalegu samkomulagi manna á meðal. Og hvar sú orka verður svo nýtt. Að menn gangi í af fullu afli að búa til orkunýtingarstefnu til framtíðar, þar sem tillit verður tekið til þeirra sem á eftir koma. Að öll sú orka sem við höfum yfir að ráða verði ekki bundinn hjá fyrirtækjum sem þurfa sérsamninga hvað varðar skatta sína og fjárfestingar, og virðast ekki hafa hafa efni á að koma þeirri þjóð til hjálpar þegar þörf er á. Þjóð sem þó skapar þeim aðstæður til að vinna vöru sína.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:28 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.