Byltingin borðar börnin sín.

 

„Byltingin borðar börnin sín" var að fyrsta sem mér datt í hug í gærkvöldi þegar ég heyrði frétt af því að nú hefði Norðurál  stefnt HS fyrir sænskan gerðardóm til uppfyllingar á samningi sínum. HS Orka virðist ekki geta staðið við það sem lofað var.

Nú vill Norðurál skýr svör um hvort áfram verði haldið. En svör forstjóra HS Orku í gærkvöldi gefa ekki tilefni til mikillar bjartsýni hvað framhaldið varðar. Hann telur að fyrirtæki sitt hafi verið að gera samning á sölu rafmagns af lítt rannsökuðum svæðum, og ekkert  rafmagn tiltækt til afhendingar  í augnablikinu. Einnig sé ágreiningur um magn og verð.

Það er skiljanlegt að Norðurál vilji höggva á hnútinn, enda virðist lengi hafa verið ljóst að forsendur fyrir uppbyggingu álversins væru brostnar. Það hefur bara ekki mátt segja frá því. Það hefur ekki hentað pólitískum markmiðum fyrrum stjórnarformanns HS Orku og bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Okkur íbúum í Reykjanesbæ hefur nú í  langan tíma verið ætlað að trúa að vandamál uppbyggingar svæðisins séu öll núverandi stjórnvöldum að kenna. Og sumir gengið upp að hælum í svonefndum Keflavíkurgöngum til þess að krefjast réttlætis okkur til handa. Þrátt fyrir að svörin við vandamálunum væru öll í skúffu fyrrum stjórnarformanns HS Orku og núverandi bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Sá meirihluti sem hér hefur nú setið nánast lengur en elstu menn muna , hefur sökum samnings sem lítil  innistæða var fyrir skuldsett Reykjanesbæ upp fyrir rjáfur. Haldið áfram framkvæmdum við höfn sem lítil von virðist nú til að verði nýtt í nánustu framtíð. Og fengið bæjarbúa til að trúa því að lausnin væri á bak við hornið. Þúsundir starfa strax í næsta mánuði. Veruleikinn er nú að koma í ljós.

Málefni  Álversins í Helguvík eru sorgarsaga. Allt hefur verið lagt undir.Mjólkurkúin seld erlendum aðilum, sem sáu þó strax að forendurnar voru rangar. Og vilja fá hærra verð fyrir það rafmagn sem þeim er ætlað að útvega. Þó jafnframt sé ljóst að ekki sé útséð með að unnt sé að útvega það af órannsökuðum svæðum.

Saga bæjarstjórans í Reykjanesbæ er þrátt fyrir allt góð dæmisaga. Saga sem ætti að kenna okkur í eitt skipti fyrir öll að árangur næst ekki þegar hægri hendin hefur ekki hugmynd um hvað sú vinstri gerir. Að við skulum ekki treysta fagurgala stjórnmálamanna, sem ekki hafa kjark til að horfast í augu við sannleikann, og stoppa áður en skaði hlýst af. Og að stundum er betra að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem heyrast, í stað þess að hlusta bara á já raddirnar i kringum sig. Jafnvel Árni Sigfússon ætti að hafa lært það núna. Ábyrgðin er hans.


Verðum við að þreyja þorrann, áður en loforðin verða efnd?

 

Ljósanótt nálgast í Reykjanesbæ. Nú er undirbúningur þeirrar hátíðar lágstemmdari en oftast áður, enda öllum ljóst sem hér búa að framundan gæti verið erfiður vetur. En lífið stoppar þó ekki og full ástæða til þess að koma saman, og kveðja gott og gjöfult sumar. Nýta þau tækifæri sem bjóðast til að gleðjast og njóta lífsins. Lífið heldur áfram.

Umræður undanfarna daga hafa sett sitt mark á bæjarlífið. Og flestir gera sér ljóst að það sem átti að vera lyftistöng í atvinnulífi bæjarins mun láta á sér standa áfram, sökum ástæðna sem lengi hafa verið ljósar. Öllum, og það staðfesti forstjóri HS Orku í viðtali við Fréttablaðið í gær.

Í stöðugleikasáttmála ríkistjórnarinnar var því heitið að engar hindranir yrðu í vegi uppbyggingar álvers af hálfu ríkistjórnarinnar. Við það hefur verið staðið og vel það. Hins vegar er ljóst að fjármögnun virkjana byggist á arðsemi þeirra. Fjárfestar og fjármögnunaraðilar líta á arðsemina áður en þeir lýsa sig tilbúna til að fjármagna slík verkefni. Þeir líta einnig til þess að frá öllum leyfum hafi einnig verið gengið áður fjármögnun fæst.

 Þar liggur hundurinn grafinn, og þess vegna eru framkvæmdir við álver í Helguvík nú í uppnámi. Hvorki fjármögnun eða leyfi til framkvæmda eru til staðar.Byrjað var á undirbúningi verkefnisins á vitlausum enda.

Orkustofnun gefur út virkjanaleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Sú vinna er sögð  í eðlilegu ferli milli vísindamanna Orkustofnunar og framkvæmdaaðila enda ekki hægt að taka pólitískar ákvarðanir um afkastagetu háhitasvæða til orkuframleiðslu. Iðnaðarráðuneytið kemur ekki að undirbúningi útgáfu virkjanaleyfa á vegum Orkustofnunar þar sem iðnaðarráðherra getur þurft að úrskurða vegna formlegra kvartana framkvæmdaaðila yfir málsmeðferð stofnunarinnar.

Útgáfa virkjanaleyfis er síðasta leyfið sem gefið er út vegna virkjunar eða stækkunar hennar. Lögum samkvæmt þurfa öll önnur leyfi, þar með talið gildandi deili- og aðalskipulag sem gerir ráð fyrir virkjun, að liggja fyrir. Í tilfelli Reykjanesvirkjunar er slíkt enn í vinnslu og mun taka nokkurn tíma áður en Orkustofnun gæti gefið út virkjanaleyfi, jafnvel þótt öllum rannsóknum væri lokið.

Við skulum vona að úr rætist, en jafnframt gera okkur ljóst þær þúsundir starfa sem núverandi meirihluti lofaði innistæðulaust við síðustu kosningar eru ekki að koma nú á haustmánuðum. Vð þurfum í það minnsta að þreyja þorrann áður en það verður að veruleika. Vonum að það verði nógu fljótt til að bjarga bæjarsjóð frá  greiðslufalli. Því það er veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir í dag.


Det er noget galt í Danmark.

 

Það er eitthvað ekki eins og það á að vera hlýtur að vera niðurstaða helgarinnar eftir flutning frétta af orkugeiranum. Orkuveita Reykjavíkur í botnlausum skuldum , og fáir hafa trú á að skyndilegum tilboðum Magmamanna til nánast allra sem enn eiga skilding í vasanum virka ekki traustvekjandi. „Det er noget galt í Danmark" söng  Mogensen hinn danski , og ég er ekki frá því að eitthvað sé það svipað hér á Íslandi.

Skuldir Orkuveitunnar eru ógnvekjandi, og þær skuldir eru ekki tilkomnar sökum framkvæmda við að afla nauðsynlegrar orku til kyndingar heimilanna eða lýsingar þeirra vegna. Þær skuldir eru að mestu tilkomnar sökum annarra verkefna,  sem ekki  hafa reynst arðbær. Stóriðjudrauma og flottræfilsháttar sem hinum almenna borgara er nú ætlað að greiða. Eigi Orkuveitan að lifa áfram .

Magmamenn vilja nú ná sáttum við samfélagið. Senda bréf og boð um forkaupsrétti  og hlutabréfakaup til lífeyrisjóða og stjórnvalda , í von um að stöðva rannsókn á hlutabréfakaupum þeirra í Hitaveitu Suðurnesja. Iðnaðarráðherra vill ræða málin og vinda ofan af hlutunum svo ekki þurfi að koma til hugsanlegra málaferla, eða þjóðnýtingar  þeim hluta málsins. Það virðast önnur mál vera brýnni ,sem þarf að ræða.

Það sem upp úr stendur eftir fréttir helgarinnar er í mínum huga grafalvarlegt. Þeir stjórnmálamenn sem með völdin hafa farið og vitneskjuna haft hafa kastað frá okkur þeim gæðum sem landið hefur gefið okkur. Sökum leti við að fara yfir þá arðsemisútreikninga sem fyrir þá hafa verið lagðir þegar ráðist hefur verið í framkvæmdir. Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja hefur verið  fórnað á altari stóriðjunnar. Og nú virðast okkur okkur flestar bjargir bannaðar. Aðrar en að taka á  sig skellinn. Með greiðslu hærra orkuverðs.

Við stöndum á tímamótum. Staðreyndirnar blasa nú við og vandséð um góðar lausnir . Við verðum nú  að greiða skuldir fortíðarinnar, sem greinilega munu nú koma niður á lífskjörum okkar. Í þeim efnum getur stóriðjan ekki verið undanskilin.

Atvinnuuppbygging án arðsemisskoðunar virðast nú vera að koma orkufyrirtækjunum í koll. Ekkert er mikilvægara núna en að velta við öllum steinum. Svo við vitum öll hvar vitleysan var gerð, og sú vitleysa verði aldrei gerð aftur. Við búum í landi þar sem auðlindir og gæði eru næg. Og það er okkar ábyrgð að nýta þau gæði á þann hátt að allir njóti.


Heldur fíkinin okkur gangandi?

 

Heldur fíknin okkur gangandi?  Og höfðum við sem þjóðfélag hegðað okkur svolítið sem fíklar áður en til hrunsins kom? Talið að það væri aðeins ein leið til að lifa lífinu, þrátt fyrir að vita felst hverjar afleiðingar gjálifnaðarins yrðu að lokum. Kerfið myndi gefast upp.

Öll vitum við hverjar afleiðingar fíknar geta orðið. Við höfum heyrt um heróínsjúklinga sem ánetjast hafa og hvernig líf þeirra hefur ánetjast þörfinni á að ná sér stöðugt í nýja sprautu. Við þekkjum líka fjölda fólks í kringum okkur sem ánetjast hafa nikótíni. Og við vitum að hjá mörgum þeim sem hafa ánetjast hve erfitt er að hætta. Þrátt fyrir augljósa kosti þess.

Sumum hefur tekist að losna úr viðjum fíkninnar, og flestum þeim hefur auðnast að eiga betra líf á eftir. Nýjar áherslur hafa tekið við, og spennandi viðfangsefni skotið upp upp kollinum. Í flestum tilfellum mun heilbrigðari.

Það virðist ljóst að sú fíkn sem leiddi til hruns efnahagskerfisins var græðgi, þar sem nýta skyldi hverja smugu til að viðhalda vímunni. Og lítið skeytt um hverjir þyrftu að borga brúsann að lokum. Núverandi og komandi kynslóðir. En verst var að við urðum meðvirk.

Í tvö ár höfum við nú verið í afvötnun, og erum nú byrjuð að finna hvernig landið er þrátt fyrir allt byrjað að rísa á ný. Enn fáum við þó fráhvörf og finnum á pyngjunni að stundarvíman hefur kostað sitt. Mörg heimili eru við það að sligast bæði fjárhagslega og andlega. Reynt er að finna lausnir á fjárhagshliðinni , og vonast til að hin andlega rísi samhliða. Batinn tekur þó langan tíma.

Hrunið hefur kennt okkur að stundarvíman tekur sinn toll. Að við verðum sem þjóðfélag að vanda okkur betur þegar kemur að ákvörðunum sem hafa áhrif á líf okkar. Að staldra við þegar þeir sem kalla á nýjar sprautur sem hina einu lausn. Þeir virðast enn vera í vímu græðginnar sem svo illa fór með okkur áður.


Eltingarleikur við drauma og tálsýnir

 

Síðastliðinn þriðjudag birtist í Fréttablaðinu lítil frétt um að fylgi sjálfstæðisflokksins virtist fylgja svonefndri  væntingarvísitölu. Og sé litið til sterks meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ er ljóst að svo sé. Jafnframt er ljóst að styrkurinn er ekki í takt við efndirnar, eða framtíðarhorfurnar.

Í gær birtist svo grein önnur grein um nú lög um skuldaskil sveitarfélaga.  Þau viðmið og reglur sem þar eru boðaðar lofa ekki góðu fyrir meirihlutann, sem fljótlega virðist neyddur til að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna.

Það getur varla hljómað sérlega aðlaðandi fyrir meirihluta sem nú þegar hefur skuldir  og skuldbindingar upp á rúm 400%, að eiga að aðlaga sig að nýjum lögum. Í dag eru tekjur sveitarfélagsins um það bil 6 milljarðar en skuldir og skuldbindingar A og B hluta bæjarsjóðs upp á rúma 40 milljarða, ef taldar er með skuldbindingar vegna Fasteignar ehf.

Það virðist ljóst að allan sinn valdatíma hefur núverandi bæjarstjóra ekki tekist að reka sveitarfélagið réttu megin við núllið, og eftir því sem maður í  heyrir er sama uppi á teningnum þetta árið, rúmlega 500 milljóna  tap á fyrtu sex mánuðum og það án þess að skuldir hafnarinnar séu teknar með í reikninginn. Hún er í dag rekinn með framlengingu þeirra lána sem áður höfðu verið tekinn.

Hvaða leiðir meirihlutinn ætlar að fara til að ná jöfnuði er ekki ljóst. Enda lofuðu þeir við síðustu kosningar  að ekki kæmi til skerðingar þjónustu undir þeirra stjórn. Væntingarnar voru settar upp.

Eigi að takast að ná tökum á stöðunni  er ljóst að annað tveggja þarf að ganga eftir, blóðugur niðurskurður ( sem þeir hafa lofað að yrði ekki) eða gríðaleg tekjuaukning bæjarins ( sem ekki virðist vera í kortunum þessa stundina) Gangi hvorugt eftir er ljóst að til greiðslufalls bæjarins kemur á allra næstu mánuðum. Og því miður er það líklegast.

Meirihlutinn hefur á síðustu árum haft flest á hornum sér. Eftir að séð varð að undirbúningur þeirra framkvæmda sem þeir hafa boðað hefur jafnan verið byggður á brauðfótum. Flest það sem miður hefur farið hefur verið annað hvort undanförnum eða núverandi stjórnvöldum að kenna.  Vöntun fjármögnun álvers , fjármögnunar á gagnaveri , fjármögnunar á kísilveri, og fjármögnunar einkarekins sjúkrahúss, allar þessar fjármagnanir eiga stjórnvöld að hafa komið í veg fyrir. Þrátt fyrir fjölda laga og ívilnanna til þess að gera þær mögulegar.

Ein fjármögnunin hefur þó tekist, fjármögnun hafnarinnar sem er nú orðinn svo mikil að ekki verður lengur við ráðið. Meirhlutanum hefur aldrei á þessu tímabili dottið í hug að fara sömu leið og þeir sem fyrir verkefnunm hafa staðið. Að framkvæma eftir því sem fjárhagurinn leyfði. Það er þess vegna sem framundan gætu verið erfiðir tímar í rekstri bæjarins.  Algert fyrirhyggjuleysi og eltingaleikur við drauma og tálsýnir.


Skjótum fyrst og spyrjum svo.

Eitt helsta einkenni einkvæðingarinnar á Hitaveitu Suðurnesja er hraðinn, og ósvífnin. Þeir sem girnst hafa hlutinn hafa á öllum stigum málisins gætt þess vandlega að taka skref sem hinir opinberu aðilar hafa þurft að verjast, vildu menn yfirleitt halda hlutnum í opinberri eigu. Þeir hafa sagt sem svo að best sé að láta reyna á hve langt lögin ná, í stað þess að fara eftir þeim eins og þau hljóða.

Nýverið setti ríkistjórnin á legg nefnd sem fara skyldi yfir stöðuna í Magmamálinu. Athuga hvort þeir gjörningar sem þeir Geysis Green menn og síðar Magma menn höfðu gert stæðustu yfirleitt lög. Og nefndinni var gefin mjög skammur tími til að komast að niðurstöðu. Þeir sem kjörnir hafa verið til að stjórna landinu hafa nú framlengt þann frest, en félagarnir hjá Magma hafa ekki tíma til að bíða eftir þeim úrskurði. Þeim liggur mikið á. Telja sig ekki þurfa að bíða eftir úrskurði stjórnvalda , heldur fara sínu fram. Eins og áður.

Magma telur sig nú hafa gengið frá sínum málum. Og falli úrskurður nefndarinnar þeim ekki í vil telja þeir sig geta höfðað skaðabótamál á hendur ríkinu  sökum eignaréttar sem þeir telja sig hafa áunnið sér. Án þess þó að ljóst sé að sá eignaréttur sé tilkomin löglega samkvæmt lögum um erlenda fjárfestingu. Mörgum myndi nú þykja slíkur málarekstur langsóttur. Þeirra tækni samræmist vel lögum villta vestursins „skjótum fyrst og spyrjum svo“

Nefnd sjórnvalda var sett á fót til þess að fá lagalegan grunn þessa máls á hreint. Komast að niðurstöðu annað hvort af eða á. Magma telja sig ekki þurfa bíða eftir niðurstöðu stjórnvalda. Þeir telja sig hafna yfir lög, rétt og lýðræði. Stjórnvöld eru nú komin að þeim tímapunkti að senda út skilboð. Er það Magma sem stjórnar, eða er það ríkistjórnin. Það kemur í ljós.


Hvaða við?

 

Mikilvægi frjálsrar umræðu í Reykjanesbæ.

Fátt er nauðsynlegra þessa dagana  en opinn og frjáls umræða um það sem efst er á baugi hverju sinni. Í tilfelli Reykjanesbæjar og okkar íbúanna hér  er óhætt að segja að hið magnaða Magmamál og afleiðingar einkavæðingar Hitaveitu Suðurnesja standi okkur sem hér búa mjög nærri. Það eru einnig fjölmörg önnur mál sem snúa beint að bæjarbragnum og þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið og eftir á að taka.

Ljóst er að mikill skoðanaágreiningur hefur verið á milli Sjálfstæðismanna sem hér fara með völdin, og annarra flokka í Hitaveitumálinu svonefnda . Og tekist hefur verið á um málið á vettvangi dagblaðanna þar sem hverjum og einum hefur reynst unnt að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Enda dagblöðin flest hver opinn vettvangur til skoðanaskipta.

Heimasíða Reykjanesbæjar í upphafi var ætluð til upplýsingagjafar fyrir íbúa bæjarins hefur nú á síðustu árum æ meira tekið á sig mynd einkabloggs bæjarstjórans. Þar sem honum einum af forystumönnum flokkanna er gert kleift að viðra sínar skoðanir á því sem fram fer hverju sinni.

Undirritaður sem auðvitað er ofurviðkvæmur fyrir mismunun af hverju tagi sá ástæðu til að hafa samband við kynningarstjóra bæjarins nú nýverið þegar hann hann rakst á enn eitt blogg bæjarstjórans til að forvitnast um hvort mögulegt væri að fá að birta svar við grein bæjastjórans sem nefndist „Mikilvægi einkaframtaks í orkumálum. Og undraðist í kjölfarið þau svör sem hann fékk.

Ég spurði kynningarstjórann hvort við gætum fengið birta grein til að svara bæjarstjórnaum. „Hvaða við „ var spurning kynningarstjórans um leið og hún hélt áfram að útskýra fyrir mér að vefurinn væri eingöngu til þess ætlaður að koma fram upplýsingum frá starfsmönnum bæjarins, en  ekki pólitískt kjörnum fulltrúum. Nema að oddviti Sjálfstæðisflokksins mætti skrifa greinar þar sem hann væri jafnframt starfsmaður bæjarins. Hvað um alla hina sem kjörnir hafa verið til starfa, og þiggja laun fyrir starf sitt? Hefði ég átt að spyrja en varð svo hvumsa að mér datt það ekki í hug.

Kynningarstjórinn nefndi í samtalinu að vefstefna bæjarins sem hún ætlaði að senda mér gerði ráð fyrir að eingöngu væri fjallað um málefni bæjarins á jákvæðan hátt. En virtist þó ekki hafa lesið þá grein sem bæjarstjórinn hafði birt. Þar er gert ráð fyrir að hver sá sem ekki væri sammála útleggingum bæjarstjórans væri um leið ósannindamenn. Ekki er það nú jákvætt fyrir þá íbúa sem ósammála bæjarstjóranum eru.

Auðvitað á þetta ekki að vera svona, og úr því að oddvita þeirra Sjálfstæðismanna er gert kleift að viðra sínar pólitísku skoðanir á vef bæjarins, væri þá ekki sanngjarnt að oddvitum hinna flokkanna yrði það gert einnig. Nú eða sleppa öllum pólitískum pistlum þar inni og nýta vefinn eins og til var stofnað í upphafi? Til almennra upplýsinga.

 Eftirmáli og málið dautt:

Veit ekki hvort það var bloggfærslunni að þakka, eða einhverju öðru en fékk sent svar kyninningarfulltrúans nú í morgun þar sem opnað er fyrir að aðrir kjörnir fulltrúar geti einnig fengið að tjá sig á vef bæjarins. Læt svarið fylgja hér með þrátt fyrir að neðanmáls sé ákvæði um að um trúnaðarupplýsingar gæti verið að ræða. Tel svarið meira svona almenns eðlis og fagna þeirri lýðræðislegu afstöðu sem þar er tekinn. Nú er bara að fylgja því eftir.

Sæll,

Á vef Reykjanesbæjar eru birtar greinar eftir starfsmenn bæjarins. Bæjarstjóri er framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og telst því starfsmaður þótt hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi.

Ekki hafa verið birtar greinar frá stjórnmálafélögum eða kjörnum fulltrúum enda litið svo á að vefurinn sé samskiptamiðill milli íbúa og embættismanna.

En vefurinn er lifandi miðill og í stöðugri þróun og er í raun sjálfsagt að skoða sérstakt greinasvæði fyrir kjörna fulltrúa og varamenn sé óskað eftir því og góð samstaða um það næst milli kjörinna fulltrúa.

Meðfylgjandi er
vefstefna Reykjanesbæjar sem fyrst var unnin 2003 og svo endurskoðuð 2007 fyrir síðustu breytingar sem gerðar voru á vef Reykjanesbæjar.

Með kveðju,

Dagný Gísladóttir
Kynningarstjóri/communication manager
Bæjarskrifstofur Reykjanesbæjar/Town Hall
Tjarnargötu 12, 230 Reykjanesbæ
Sími +354 421 6700  Fax +354 421 4667
Gsm/Mob: 862 2208
dagny.gisladottir@reykjanesbaer.is, reykjanesbaer.is
_____________________________________________
Þessi tölvupóstur og viðhengi hans gætu innihaldið trúnaðarupplýsingar eingöngu ætlaðar þeim sem hann er stílaður á.
Efni tölvupóstsins og viðhengi er á ábyrgð sendanda ef það tengist ekki starfsemi Reykjanesbæjar.
---
This e-mail and its attachments may contain confidential and privileged information only intended for the person or entity to which it is addressed.


 


Einkaframtakið og auðlindirnar.

 

 

Það held ég að flestum ef ekki öllum hafi alltaf verið ljóst að aðkoma einkaframtaks að orkumálum þjóðarinnar er mikilvæg.  Án aðkomu þess hefðu sennilega enga virkjanir verið byggðar.  Þar hafa smiðir, jarðvinnuverktakar og verkfræðingar öðlast reynslu,  þekkingu  og verkefni sem nýst hefur samfélaginu til framdráttar.  Og svo mun verða áfram.

Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ birti í Mbl og síðar í Vikurféttum hástemmda grein um mikilvægi einkaframtaksins. Og  gaf í skyn í grein sinni að næðu fyrirhugaðir samningar við Magma ekki fram að ganga jafngilti það útrýmingu einkaframtaks á orkusviði.  Einhvern vegin fær maður á tilfinninguna að bæjarstjórinn blessaði  yfirdramtiseri hlutina svolítið fyrir sér , nái hugmyndir hans um einkavæðingu  nýtingar auðlindarinnar ekki fram að ganga.

Það liggur fyrir að jarðhitaauðlindin á Suðurnesjum  er í eigu opinberra aðila að langmestu leyti. Og var raunar áður en til einkavinavæðingarinnar kom.  Magmamálið snýst ekki um hverjir eiga auðlindina . Heldur snýst það um hverjir munu nýta þá auðlind í framtíðinni. Hversu lengi og hvernig. Og hvert arðurinn af þeirri nýtingu muni renna. Sú umræða getur aldrei snúist um hvort verið sé að útrýma einkaframtaki á orkusviði eins og bæjarstjórinn leggur upp með.

Það held ég að öllum sé nú orðið ljóst, að einkavinavæðingin á Hitaveitu Suðurnesja voru mistök. Mistökin lágu fyrst og fremst í því að þáverandi eigendum HS var meinað af einkavæðingarnefnd að bjóða í hlut ríkisins. Og ekki virðist eftirleikurinn hafa bætt stöðu fyrirtækisins eins lagt var upp með.

Það er alls ekki svo fjarri lagi sem nú er haldið fram að erlent skúffufyirtæki sé nú að hirða auðlindina, þó ljóst sé að eignarétturinn sé á höndum opinberra aðila. Hvort og hverjum er selt er hinsvegar í höndum  handhafa nýtingaréttarins. Sá aðili sem nýtingaréttinn hefur er þannig í oddastöðu hvað varðar framtíðaruppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Það sjáum við best á hver staðan er á sölu orku til álverisns í Helguvík. Átti ekki allt að vera frágengið hvað þann þátt varðar?

Það held ég að við Árni Sigfússon séum algerlega sammála um að það verður einkaframtakið sem mun að lokum rífa okkur út úr þeirri kreppu sem einkavinavæðing flokks hans hefur komið þjóðinni  í. En það verður þá að vera einkaframtak sem byggir á trausti samfélagsins sem að baki stendur.  Á það virðist skorta í Magma málinu.


Er ekki nóg komið af málæðinu, og láta verkin fara að tala ?

 

Hún er merkileg sú umræða sem þessa dagana fer fram um málefni Magma Energy.  Sökum þess að þeir sem að málinu  hafa komið vilja greinilega helst ekki að um málið verði rætt, og hvað þá að komist verði að niðurstöðu í málinu.  Þetta er kallað ótímabært upphlaup, og með einu símtali hefðu menn geta komist að því að hér væri ekki farið á svig við lög.

Það er erfitt að skilja þetta.  Allir virðast vera sammála um að það sem nú er að gerast sé ekki af hinu góða.  Og allir sammála að það hefði þurft að breyta lögunum til að viðlíka gerningur ætti sér ekki stað. Og viðskiptaráðherra telur koma til mála að breyta lögunum næsta ár.  Hvernig segir hann ekki, og er ekki einu sinni viss um að í þá vinnu verði ráðist.  Það virðast allir sammála um alvarleika málsins og vilja láta svo líta út að svo hafi verið lengi.  En enginn gerir neitt,  og hafa ekki gert.  Það er mergurinn málsins.

Kannski er þetta mál einmitt dæmigert fyrir vangetu stjórnmálanna til að taka á vandamálum.  Við sáum hvernig efnahagskerfi landsins hrundi.  Ekki sökum þess að menn vissu ekki hvað var að gerast, heldur sökum þess að menn aðhöfðust ekki fyrr en það var orðið um seinan.  Stjórnmálamennirnir virðast því miður lítið hafa lært, þó þeir vilji láta svo líta út.  Þeir virðast því miður enn vera við sama heygarðshornið, og telja að málin skulu ekki rædd opinberlaga, heldur á viðeigandi vettvangi.  Án þess þó að útskýra nánar hver sá vettvangur er. Er ekki komið nóg af málæðinu, og láta verkin fara að tala!


Lífið er fótbolti.

 

Lífið er fótbolti  og á morgun fáum við að sjá hverjir standa uppi sem  heimsmeistarar.   Þá  spila tvö lönd sem í gegnum alla keppnina hafa spilað sem samhent lið. Vitandi að einungis þannig næst viðunandi  árangur.  Það er margt sem við getum lært af þessum liðum.

Eftir marga erfiða leiki verður það eitt lið sem stendur uppi sem sigurvegari.  Lið sem ekki einungis hefur  stillt upp  samhentasta liðinu , heldur einnig farið að þeim reglum sem leikurinn setur.  Og þar liggur sennilega hluti velgengninnar.  Vitneskjan um að leiðin til velgengni er að  að fara verður að reglunum.

Bæði  liðin hafa valið að láta ekki einstaklingshyggjuna ráða för. Þau spila leikinn með hag heildarinnar í huga. Þeir leikmenn sem getuna hafa fá þó tækifæri til að spila frjálst og skapa sér tækifæri, svo lengi sem það kemur ekki niður á leik liðsisns. Þeir vita að til að vinna leiki, þarf allt liðið að leggja sitt af mörkum, og vera fúst til þess.  Það hefur reynslan kennt þeim.

Leikmenninninr  hafa lært að til að verða ekki dæmdir rangstæðir verða þeir að vera réttu megin við línuna.  Að ótímabær hlaup án hugsunar geta leitt til rangstöðudóms.   Reglurnar eru þannig útfærðar að unnt sé að koma auga á brot  í  hraða leiksins.  Og dómnum er ekki breytt eftir á. Um það eru allir sammála. Bæði leikmenn og dómarar og áhorfendur.  Engum dettur í hug að gefa leiðbeiningar eftir á  hvernig á  dómnum skuli tekið.  Það er ekki í boði.

Í fótboltanum eru ekki neinar úrkurðarnefndir sem túlka skulu dómana eða reglurnar  eftir leikinn. En þar er úrskurðarnefndir sem dæma menn í bann hafi reglur verið brotnar. Gul spjöld og rauð spjöld gefin inni á vellinum leiða til þess að menn missa af mismögum leikjum. Eftir því hve brotin hafa verið alvarleg.  Þar er það eins og hjá KR, bara svart og hvítt. Ekkert grátt svæði að ferðast á.

Hlutverk dómarans er mikilvægt.  Það er hans að halda leiknum gangandi.  Og koma í veg fyrir átök liða á milli. Margt er það sem liðs-og  stuðningsmönnunum kann ekki að líka við úrskurð hans.   Menn ræða  einstök atriði löngu eftir að leikurinn er flautaður af. Þar sýnist sitt hverjum.  En úrslitin standa og aftur fara  menn á völlinn til að styðja sitt lið.   Því  lífið er  fótbolti

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband