Sunnudagur, 18. apríl 2010
Ljúft er að láta sig dreyma.(notkun draumstauta).
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar um ástæður hrunsins var dökk. Mjög dökkur áfellisdómur yfir nánast öllum þeim er um var fjallað. Reiðin og vandlætingin kraumar í hugum okkar og við krefjumst að menn taki ábyrgð á gjörðum sínum. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar um hrun þjóðfélags sem varð sökum hugmyndafræði. Þeirrar hugmyndafræði að eðlilegt og rétt teldist að öllum væri frjálst að skara eld að eigin köku, burtséð frá hver áhrifin yrðu fyrir aðra þá er í kringum þá voru. Reglur þurfti ekki að virða. Hugmyndafræðin var græðgi.
Andvaraleysið var algert, og menn gengu út frá að hver sá gjörningur sem í gangi var, væri óafturkallanlegur. Hið íslenska ofurlögmál væri á ferð, og engin gæti eða mátti gera neitt til að sporna við þróuninni. Að minnsta kosti ekki fyrr en málið væri komið á borð viðkomandi, sem venjulega var svo seint að ekkert varð að gert. Þeir sem þó reyndu voru úthrópaðir neikvæðir afturhaldseggir. Þeim var hótað að ef létu þeir ekki af afskiptum sínum. þeir myndu þeir hafa verra af.
Skýrsla rannsóknarnefndarinnar fjallar að mestu um stjórn landsmálanna, um tengingu stjórnmála og viðskipta. Tenginga sem spunnu sinn vef víða. Vefur sem að því er virðist hafa verið ansi þétt spunnin hér í Reykjanesbæ eins og glöggt má sjá af töflum þeim er birtar eru með skýrslunni. Þar á ég við málefni Hitaveitu Suðurnesja, og þá ákvörðun meirihlutans að ganga í eina sæng með útrásarvíkingunum Hannesi Smárasyni, Bjarna Ármannsyni, og Jóni Ásgeiri Jóhannsesyni með þáttöku bæjarins í Geysir Green Energy. Kjörnir hagsmunagæslumenn almennings höfðu þar forgöngu um að koma eigum almennings í hendur útrásarvíkinganna . Þar var enginn vörður staðinn eins og meirihlutinn vil nú láta líta út.
Sú ævintýralega flétta sem þar var spunninn, í nafni einkaframtaks , áhættu og samkeppnissjónarmiða hefur haft sínar afleiðingar, og þar var allt lagt undir í von um skjótfengin gróða síðar meir. Eitt flottasta fyrirtæki landsins var lagt undir, sökum draumfara meirihlutans um að ekkert annað dygði en að losa bæri bæjarfélagið við áhættuhlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja. Fyrirtækis sem bæði hafði í gegnum áranna rás skilað eigendum sínum arði, auk hita og rafmagns á dimmum vetrarkvöldum. Fyrirtæki sem skilaði því sem til var stofnað.
Meirihluti sjálfstæðismanna opinberuðu í gær með dreifiriti að þeir eiga sér draum, og hafa nú í átta ár haft tækifæri til þess að vinna að því að láta þann draum rætast. Draum um heilbrigði, atvinnu fyrir pappa og mömmu og mannlegra samfélag ásamt mörgu því sem flest okkar dreymir um. Meirihluti sjálfstæðismanna svipað og Þór Magnússon í kvikmyndinni Nýtt Líf hafa nú í átta ár hakkað í sig draumstauta í von um að draumfarirnar vísuðu veginn. Steinsofandi hafa þeir selt frá sér flest það sem til bjargar hefði getað orðið, og sett bæjarfélagið á hvínanadi kúpunna. Það virðist vera komin tími til að vekja þá af draumnum, og afmunstra þá af bátnum. Ljúft er að láta sig dreyma, en einhvern tíma þurfa menn samt að vakna. Sá tími er kominn fyrir íbúa Reykjanebæjar ef ekki á illa að fara.
Mánudagur, 5. apríl 2010
Lengi má manninn reyna!
Þolinmæðin þrautir vinnur allar, eða lengi má manninn reyna datt mér allavega tvisvar í hug núna um páskahelgina. Það virðist einhvern veginn ekkert hafa breyst, þrátt fyrir hrun og aðra óáran sem yfir landið hefur gengið. Ennþá vaða sömu gerendurnir uppi og sölsa undir sig allt það sem flestir hefðu talið að þeim ætti ekki að vera unnt. Í ljósi fortíðarinnar.
Það virðist eitthvað vera að regluverkinu okkar, eitthvað sem stjórnmálin virðast ekki hafa áhuga á að breyta.Stjórnmálamennirnir virðast hafa misst móðinn, eða aldrei haft hann. Aftur er landinu stjórnað af bönkunum, sem nú eru í eigu kröfuhafa. Sem virðast hafa sömu markmið og þeir sem áður komu þeim á hausinn. Að sem flest lendi í sömu höndum.
Hvernig í ósköpunum það má vera á á árinu 2010 skuli til að mynda Fréttablaðið vera enn í eigu sömu aðila og áður skil ég ekki. Og að menn skuli komast upp með að halda því leyndu hverjir hinir nýju hluthafar eru eru óskiljanlegt. Maður skyldi ætla að menn hefðu lært eitthvað, en svo virðist ekki vera.
Þrátt fyrir hugrakkar tilraunir núverandi stjórnar til að breyta mörgu því sem hér var áður í ólagi, virðist margt ógert. Það er neitt náttúrulögmál að ekki sé hægt að hafa áhrif á hvað gerist innan bankanna. Sérstaklega þegar það samræmist ekki því sem menn kalla almennt siðferði eða réttlæti. Þá spillingu sem innan bankanna virðist grassera þarf að uppræta áður en þolinmæði þjóðar sem nú hefur sýnt ótrúlegt langlundargeð þrýtur alveg.
Miðvikudagur, 24. mars 2010
Hvað er að gerast hjá Kölku?
Nú undanfarið höfum við fylgst með úr fjarlægð málefnum sorphreinsistöðvarinnar Kölku. Og skilist af umfjölluninni að sú sala sem nú er fyrirhuguð komi til sökum samstarfserfiðleika sveitarfélaganna. Að ekki hafi verið unnt að haga svo málum að stærsti eigandinn gæti fengið notið þess sjálfsagða réttar að hafa þar áhrif í takt við framlag sitt. Málið virðist hafa snúist um það hvernig skipað væri í stjórn. Um það hafa ekki tekist sættir, og menn sjá ekki fram á áframhaldandi samstarf meðal sveitarfélaganna um verkefni sem tengjast slíkum rekstri.
Sú umfjöllun sem salan á Kölku hefur fengið hefur vakið upp margar áleitnar spurningar. Hver er sá aðili sem lagði inn hæsta tilboðið í Kölku (Waste Energy Management), en segist nú eingöngu vera með þreifingar ef marka má umfjöllun vefmiðilsins Eyjunnar þann 23.3 2010. Þar sem rætt er við lögmann fyrirtækisisns? Og jafnframt gefið í skyn að hugsanlegt sé að flutt verði inn sorp til brennslu.
Það virðist ljóst að fyrirætlanir fyrirtækisins eru einhverjar, en ekki vitað hverjar þær eru. Við því þarf að fá svör. Ljóst er að fyrirtækið hefur nú þegar fengið úthlutað rúmlega 24.000 fermetra lóð hjá Reykjanesbæ. Hvað ætla þeir að nota hana undir? Nýja sorpbrennslustöð? Og hverju á að brenna ?
Ljóst er að tækninni fleygir stöðugt fram og nýjar aðferðir við brennslu hafa tekið við af hinum eldri. Brennt er við meiri hita sem að mér skilst sé náttúruvænna, sé eitthvað slíkt hér á ferðinni virðist sú breyting sem fyrirhuguð er vera af hinu góða. En það þarf þá að vera á kláru hvaða framkvæmdir er verið að leggjast í. Og hver áhrifin verða.
Maður veltir því óneitanlega fyrir sér eftir hverju er verið að slægjast, og hversvegna verið sé að kaupa sorpbrennlustöð í sem er í rekstri , ef fyrirhugað er að reisa aðra nýja við hliðina. Er hér verið að fara styttri leið að framkvæmdinni? Er verið að greiða fyrir brennslusögu Kölku , og komast hugsanlega hjá umhverfismati sem myndi fylgja ef goodvillið og sagan væru ekki keypt. Og hversvegna er það gert?
Það er eins með góðu málin og þau vondu, að þeim fylgja spurningar sem nauðsynlegt er að svara áður en ákvörðun er tekin. Það eru þau svör sem gefin eru sem svo ákvarða hvort máið er gott eða slæmt. Í þessu máli virðist útilokað að svara hvoru megin það lendir. Til þess vantar meiri upplýsingar. Sem sjálfsagt ætti að vera að leggja á borðið, í stað þess að sveipa málið þeim leyndarhjúp sem það virðist vera undir.
Þriðjudagur, 23. mars 2010
Stóri bróðir í sandkassanum
Í gær var haldinn athyglisverður fundur í Garði, boðaður af framtíðarnefnd Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum. Efni fundarins var hvernig haga skyldi samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum í framtíðinni.
Það er ljóst að það er djúpstæður ágreiningur sem ríkir á milli sveitafélaganna um samstarfið , ágreiningur sem að því er virðist megi helst ekki tala um. Þann ágreining þarf að jafna áður en lengra er haldið. Fyrir leikmann virtist svo vera Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum sé einna helst einhverskonar bæjarstjóraklúbbur, og lítið virkt lýðræði sé þar í gangi. Sá stærsti ræður því sem hann vill ráða eins og í sandkassanaum forðum daga. Sé ekki látið að vilja hans hversu skynsamlegur sem hann kann að hljóma er voðinn vís.
Við sjáum það sem nú er að gerast til að mynda í málefnum Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja Kölku. Þar sem ekki hefur tekist að leysa ágreiningin milli stjórnmálamannanna er eina lausnin að selja stöðina. Án þess að trygging sé fyrir því að það sé til hagsbóta fyrir sveitarfélögin. Eða íbúa þeirra.
Það er ljóst að mörg eru þau verkefni sem auðveldara og ódýrara er að leysa í sameiningu. Og sveitarfélögin standa frammi fyrir stórum verkefnum sem auðveldara er að leysa saman heldur en sundruð. Þar má meðal annars nefna málefni fatlaðra sem brátt verða á forræði sveitarfélaganna. Hvernig ætla menn að standa saman að svo risastóru verkefni, ef ekki er hægt að reka svo einfaldan hlut sem sorpbrennslu saman? Því það er þrátt fyrir allt einnig rekstrarverkefni , sem mönnum virtist í mun á fundinum að losa út úr samstarfi sveitarfélaganna.
Það er lítið sem bendir til að að það sé raunveruleg lausn eða hagkvæm til lengri tíma litið að selja Kölku til aðila sem sem ekki er vitað hver. Það er ekki einu sinni vitað hvernig hann hyggst reka stöðina. Verður þetta áfram sorpbrennsla fyrir sveitarfélögin. Sem rekin verður út frá hagsmunum þeirra. Að kostnaðurinn verði sem allra minnstur með augljósum ábata fyrir sveitarfélögin. Eða verður þetta kannski hugsanlega annars konar sorpbrennsla , sem fyrst og fremst byggir á innfluttu sorpi, til að mynd olíuafgöngum eins og sögur herma.
Það var ljóst þegar ráðist var í byggingu Kölku á sínu tíma að fyrstu árin yrði reksturinn þungur, sökum þeirrar fjárfestingar sem í var lagt. En það var líka ljóst að það fé sem í var sett krafðist þolinmæði á meðan verið væri að greiða stofnkostnaðinn niður. Sá stofnkostnaður hefur nú hækkað í takt við þau lán sem tekinn voru. Sá kostnaður skiptist jafnt niður á sveitarfélögin í takt við íbúafjölda. Kalka er dæmi um rekstur sem heilbrigð skynsemi segir manni að skynsamlegt sé að standa saman að. Þannig verði kostnaðurinn minnstur. Eingöngu er reiknað með arðsemi sem nægir til að standa undir rekstrinum. Ekki ágóða umfram það.
Það er komin tími til að sveitarfélögin slíðri nú sverðin. Og að stóri bróðirinn verði sá stóri bróðir sem hjálpi og styðji í stað þess að vilja stöðugt ráða hvað þeir minni aðhafast. Að menn sameinist um þá grundvallarþætti sem menn eru sammála um að þurfi að vera í lagi. Og frágangur sorps sveitarfélaganna er svo sannarlega eitt af því sem menn geta verið sammála um að þurfi að vera í lagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 14. mars 2010
Vonum að kröfuhafinn verði mildur.
Kreppan hefur dregið úr mörgu því sem við gerðum áður. Ferðalögin um landið eru orðin færri og möguleikar manns til að fylgjast með, felast einna helst í ferðalagi á vefnum . Fletta á vefnum staðarblöðunum á hverjum stað og sjá hvað er að gerast. Það gerði ég nú í morgunsárið og sá að eitthvað merkilegt var að gerast á Fljótsdalshéraði. Mér fannst það merkilegt, þó ég hafi nú ekkert séð um það í fjölmiðlum þeim sem helst flytja fréttir úr miðbæ Reykjavíkur. Þó þar sé uppspretta þessarar fréttar að austan .
Það sem þarna vekur kannski mesta athygli mína að því samstarfi sem nýlega í gullbrydduðum bæklingi Fasteignar var lýst sem hinu besta í heimi, er nú lokið. Og að einn stærsti eigandinn í Fasteign er sá sem nú hjálpar Fljótsdalshéraði að komast út úr því samstarfi með fjármögnunarsamningi. Kannski var þetta ekki eins sniðugt og talað var um í bæklingnum.
Það virðist vera ljóst skv. umfjöllun Morgunblaðsins um skuldastöðu sveitarfélaganna að þau tvö sem verst eru stödd , og fóru yfir á eldrauðu ljósi eiga eitt sameiginlegt. Þau voru bestu viðkiptavinir þessa eignarhaldsfélags. Í þeim bæjarfélögum var eytt í góðærinu eins og enginn væri morgundagurinn. Og nú þarf að skera niður allt það sem áður átti að laða íbúa að. Álftanes er nánast gjaldþrota, og Reykjanesbær virðist því miður vera á sömu leið. Capacent skýrslan sem Reykjanesbær fékk samda sér til bjargar, hefur því miður hingað til reynst án innistæðu. Byggð á sandi.
Hvað gerist með skuldir eignarhaldsfélagsins Fasteignar virðist vera á huldu. Þegar hefur komið fram að Háskólinn í Reykjavík getur ekki undir núverandi kringumstæðum greitt þá leigu sem í upphafi var krafist. Og fengið hana lækkaða. Álftanes getur heldur ekki staðið undir skuldbindingunni, og Vestmannaeyjabær fengið sína leigu lækkaða um ca 30%. En lánin hvíla enn á félaginu, nema þau hafi að einhverju leyti verið afskrifuð, en ljóst að kröfuhafinn ræður núna för. Hvað hann gerir eða vill mun í framtíðinni hafa mikil áhrif á þau sveitarfélög sem í netinu flæktust. Vonum að hann verði mildur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. mars 2010
Dansað í Bermúdaskyrtu vel við skál.
Hugmyndafræði frjálshyggjunnar hefur kallað yfir okkur ýmis vandamál sem enn ekki er séð fyrir endann á. Hugmyndafræði sem fyrst og fremst gekk út á taumlausa græðgi þeirra sem hana aðhylltust. Hugmyndafræði sem gekk út á að sópa eins miklu af eigum samfélagsins sem mögulegt var í hendur einkavinanna. Hún hafði ekkert með einkaframtak að gera heldur vann frekar á móti því, með því að drepa helst allt sem kallast gat samkeppni við frjálshyggjupostulana niður svo fljótt sem auðið var. Eða gera samkeppnisaðilana að leiguliðum þeirra er réðu hverjum markaði.
Mörg voru þau rök og frasar sem frjálshyggjupostularnir köstuðu fram þegar þeir fundu nýja óplægða akra í opinbera kerfinu. Samkeppnissjónarmið, áhættufjárfestingar, hagræði og hagkvæmni stærðarinnar var kastað fram í tíma og ótíma, þegar hinar ýmsu opinberu eignir runnu inní veldi útrásarvíkinganna. Nú er það okkar að vinda ofan af þeirri svikamyllu allri.
Þeim var ekkert heilagt. Allt var lagt undir. Þeim sem falið hafði verið að gæta hagsmuna þjóðarinnar, og sátu á gullkistunni dönsuðu með í sinum Bermúdaskyrtum að því er virðist vel við skál. Og sendu síðan vinum sínum úr veislunni ástarbréf án frímerkja. Þeir sáu hvert stefndi en gerðu ekkert í því fyrr en alltof seint. Og þá gerðu þeir lítið. Reyndu að redda eigin skinni.
Allt var sett á sölu þar sem frjálshyggjuguttunum hafði tekist að koma sér fyrir. Nýir tímar voru í uppsiglingu. Nú skyldi þjóðin leyst undan því oki að eiga auðlindir sínar og vinnslu , því þar var áhættan of mikil. Eignir bæjarfélaganna voru seldar, það var hagkvæmt og hagræði í því sökum stærðarinnar. Allt var þetta betur komið í höndunum á einkaaðilum. Sem að vísu höfðu ekkert annað til lagt en að hafa góðan aðgang að ódýru"erlendu lánsfjármangni í gegnum banka þá er þeim hafði áður verið úthlutað. Það fjármagn er orðið okkur og þeim er fyrir þessu stóðu dýrt í dag.
Við höfum á undaförnum mánuðum séð hvernig mörgum þeim er mötuðu krókinn hafa fengið endurúthlutað gæðunum, skuldir verið afskrifaðar, en mörg fyrirtæki og jafnvel sveitarfélög verið tekin til gjaldþrotaskipta. Og áfram mun það halda. Fyrirtæki sem urðu til sökum aðgengis að ódýru" fjármagni riða nú til falls. Sökum þess að það var tekið of mikið að láni. Við skulum vona að afleiðingar þeirra viðskiptahátta komi ekki of þungt niður á þeim sem síst skyldi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fimmtudagur, 11. mars 2010
Þeir ættu að setjast við borðið.
Útvegsmenn eru í ham þessa dagana og gera allt hvað þeir geta til að telja landsmönnum að hver sú breyting eða umræða um kvótakerfið sé af hinu vonda. Þeir kalla eftir samráði um nánari útfærslur , en eru þó ekki tilbúnir til að setjast við það borð. Nýta sér frekar fjölmiðla sína til að sannfæra almenning um að fyrirhugaðar breytingar, sem þó ekki eru ljósar hverjar verði, muni valda hruni atvinnugreinarinnar á fáum árum. Þeir einir séu færir um að viða fiskinn úr sjónum. Og fiskurinn syndi í burtu verði kerfið ekki óbreytt.
Þeir fullyrða án þess að nokkur rök eða ákvarðanir liggi fyrir að ætlunin sé að taka af þeim kvótann sem þeir hafi keypt á undanförnum árum. Framundan sé eignaupptaka og þjófnaður sem verði að koma í veg fyrir. Þeir ganga út frá því að stjórnvöld af illum hvötum hafi ekkert annað í hyggju en að rústa þeirri undirstöðuatvinnugrein sem er grunnurinn að því að við komum okkur út úr kreppunni.
Þeir vilja halda öllu óbreyttu, þrátt fyrir að vita að um slíkt verður aldrei samstaða. Þeir vilja ekki og ætla ekki að skilja að í hugum meirihluta þjóðarinnar er hér um sanngirnismál að ræða. Að arður af afnotum fiskveiðiheimildanna skili sér til þjóðarbúsins. Það finnst þeim ósanngjarnt. Og þeir vilja alls ekki heyra á það minnst að breytingar á kvótakerfinu geti þrátt fyrir allt stuðlað að betri afkomu greinarinnar. Að stærsti hluti innkomu greinarinnar fari ekki í vaxtagreiðslur eða út úr greininni eins og nú er.
Auðvitað hlýtur það að vera sameiginlegt markmið okkar allra að hér verði rekinn arðbær sjávarútvegur, og að þau fyrirtæki sem vel hafa verið rekinn verði áfram þeir bústólpar í byggðarlögunum sem nú er . Að tryggður verði góður rekstrargrundvöllur fyrir þau. Og þeim skapaður vinnufriður. Um það á máið að snúast.
Að fundin verði leið samstöðu um hvernig sjávarútvegi okkar verði best fyrir komið til framtíðar. Og að arður af nýtingu auðlindarinnar skili sér til þjóðarbúsins. Að settar verið leikreglur þar sem öllum er gert jafnhátt undir höfði og eðlileg endurnýjun geti átt sér stað. Að hér verði ekki til frambúðar leiguliðar sægreifa , sem litla eða enga möguleika hafa. Hér á að ríkja jafnræði. Því verður best náð með að hagsmunaðilarnir setjist niður og finni leiðina saman, í stað heilsíðuauglýsinga í Viðskiptablaðinu um að hér fari allt á versta veg verði breytingar gerðar. Því það vita jafnvel kvótakóngarnir í LÍÚ að svo er ekki. Þeir ættu að setjast við borðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 10. mars 2010
Plan B
Það er varla að maður dirfist að opna umræðu um breytingar á áformum um stóriðju á Íslandi og hvað þá um álver í Helguvík af ótta við að verða þá talinn til úrtölumanns og andstæðings atvinnulífs almennt. En látum nú á það reyna samt. Gætu verið fleiri kostir í stöðunni?
Það hefur öllum verið ljóst í nokkuð langan tíma að erfiðlega gengur að afla bæði orku og fjármagns til álvers í Helguvík. Og allt eins víst að það verði erfiðara að mynda nauðsynlega samstöðu um orkuhluta þess, þegar að Landsvirkjun opinberar þau verð sem Norðurál greiðir nú fyrir þá orku sem þeir nýta. Það gæti orðið erfiðleikum háð að sannfæra menn um að rétt sé selja okkar dýrmætustu eignir á útsölu. Sérstaklega í árferði sem nú er.
Þú þarft að vera með harðlokuð augu til að sjá ekki mikilvægi norðursins í þróun alþjóðaviðskipta og orku. Þegar þú lítur á landakort sérðu að Ísland er í miðju þess", er haft eftir Ólafi Ragnar Grímssyni forseta í Financial Times í dag. Þar vitnar hann til fyrirsjáanlega opnun Norðurskautsleiðarinnar. Getur lausnin legið þar?
Það er sennilega vandfundinn sá staður sem betur hentar til umskipunarstöðvar opnist fyrir siglingar um Norðurskautsleið , en einmitt Helguvík. Þar hefur nú þegar verið unnin mikil vinna við hafnargerð og skipulag allt þar kring virðist einmitt vera ákjósanlegt fyrir starfsemi að þessu tagi. Auðnist mönnum ekki að finna lausn á Álversframkvæmdinni virðist meira að segja vera búið að byggja vöruskemmur sem auðvelt ætti að vera að aðlaga að breyttri notkun.
Helsti kostur Helguvíkurhafnar er nálægðin við alþjóðaflugvöllinn þar sem einnig stendur húsnæði ónotað sem bíður eftir notendum. Kostirnir virðast vera augljósir og spurningin er bara hvort við höfum hugrekkið til að taka upp þær hugmyndir sem nú eru í gangi. Að spyrja okkur hvort þarna sé kannski kostur sem frekar ber að stefna á í ljósi breyttra aðstæðna.
Það er ljóst að það nú er það ríkisins í gegnum Landsvirkjun að afla meginhluta þeirrar orku sem til hugsanlegs álvers þarf. Það er dýr uppbygging framundan sem tekur nokkur ár. Og arðsemi verkefnisins er ekki há miðað við hvað til er lagt velji menn áfram að selja raforkuna á útsöluverði. Er það mögulegt að með minni fjárútlátum og meiri samstöðu sé hér hægt að skapa fleirum vinnu sem hugsanlega gefur einnig meira af sér til þjóðarbúsins. Og skapar fjölbreyttari störf á stað þar sem ekki veitir af. Mér finnst að menn eigi allavega að setjast niður og athuga það nú á meðan ekki er ljóst hvort unnt reynist útvega þá orku sem til þarf vegna álversins. Það má kalla það plan B.
Þriðjudagur, 9. mars 2010
Áfram í baksætinu.
Í kjölfar kreppu er margt það er viðkemur hinum pólitíska vettvangi orðið neikvætt í hugum margra. Við sjáum stjórnmálin sem niðurbrjótandi hagsmunaöfl sem einblína á eigin markmið. Öfl sem sökum einstrengingsháttar þeirra er áhrif hafa, leiða okkur í ranga átt. Án sjáanlegs ábata fyrir það samfélag sem hinum pólitísku öflum er ætlað að þjóna.
Við höfum á undanförnum mánuðum orðið vitni að atburðarrás þar sem hver höndin hefur verið upp á móti hvorri annarri. Alþingi hefur verið undirlagt í umræðu um Icesave málið , og sumir þingmenn hafa litið svo á að það væri meira magn af ræðum en gæði þeirra sem fara ætti eftir. Og til að auka magnið hafa þeir endurtekið hverja setningu þrisvar sinnum til að auka á magnið. Þeir hafa valið að líta á stjórnmálin sem vettvang til að ala á illdeilum án lausna í stað þess að leiða hugann að því sem þeir voru kjörnir til. Að leysa málin.
Í raun eiga stjórnmálin að vera sá vettvangur þar sem ágreiningi er eytt , með samræðu sem leiði til lausna. Að þar sé sköpuð samstaða um það sem augljóst á að vera. Og mismunandi áherslur samhæfðar. Að sú niðurstaða sem að lokum fæst sé augljóslega byggð á skynsömum og málefnalegum rökum. Stjórnmálin eiga ekki að vera keppnisvöllur þrjóskuhausa sem virðast alltaf líta á sína lausn sem hina einu réttu.
Margir virðast líta á stjórnmálin sem stað þar sem hefndum er náð. Að nú sé komin tími til þessa að hefna ófara. Það getur aldrei leitt til góðs, því þá hafa annarleg sjónarmið tekið yfir. Sjónarmið sem eingöngu miðast við hagsmuni þess sem vill hefna. Og þau markmið sem háleitari eru gleymast. Slíkur pólitískur hanaslagur þjónar bara einum. Þeim sem hefndum vill ná.
Hafi einhvern tíma verið þörf á að þau stjórnmálaöfl sem nú starfa í landinu slaki nú örlítið á í stefnum sínum og hugmyndafræði til heilla fyrir þjóðina þá er það núna. Samtök launþega og vinnuveitenda hafa nú á annað ár gefið gott veður fyrir þá stjórnmálamenn sem valist hafa til forystu. Sá tími hefur farið í flest annað en að uppbyggjandi umræðu sem leitt hefur til lausna. Nú hillir undir lausn á einu vandamáli. Lausnar sem til er komin sökum samstöðu og samvinnu. Af því eiga menn að hafa lært. Framundan er lausnir á öðrum og einnig aðkallandi málum.
Þrátt fyrir einlægan vilja þeirra sem hruninu ollu til að fá völdin á ný þá er ekki rétti tíminn til þess núna. Þeir verða að sjá og skilja að þau vandamál sem þjóðin á við glíma eru stærri og meiri en að hægt sé núna að eltast við þörf þeirra fyrir völd og viðurkenningu á þessa stundina . Þeirra hlutverk núna hlýtur að vera að sitja aðeins lengur í baksætinu, og taka helst ekki til máls, nema þeir hafi eitthvað til málanna að leggja til lausnar. Á það hefur skort.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 9. mars 2010
Valkostur að verða til.
Undanfarna daga hafa menn gert mikið úr úrslitum prófkjörs okkar Samfylkingarmanna í Reykjanesbæ, og talað um smölun þar sem Sjálfstæðismenn hafi ráðið úrslitum. Nefndir hafa verið til fundir þar sem ákveðnir frambjóðendur hafa látið hafa eftir sér að það væri undir Sjálfstæðismönnum komið hver væri oddviti Samfylkingarinnar hverju sinni. Svo mikill væri máttur þeirra í þessu bæjarfélagi. Það er sennilega rétt, en hversu siðlegt er það. Og hversu rétt.
Prófkjör og sérstaklega þau opnu eru þess eðlis að geta skilið eftir sig sár. Málefnin víkja og í stutta stund eru það persónurnar sem málið snýst um. Spurningin verður um það að ná sér í nógu þægilegt sæti. Sumir náðu þeim, en aðrir urðu að lúta í lægra haldi .Þannig er lífið. Þú færð ekki allt sem þú vilt og vilt ekki allt sem þú færð. En lærdómurinn og vitneskjan situr eftir.
Það er hægt vera sammála því að sjálfstæðismenn hafi ráðið hver oddviti Samfylkingarinnar er nú að loknu prófkjöri. Því ljóst er að atkvæði þeirra skipti miklu máli um niðurstöðuna. En það er ekki þar með sagt að þeir sjálfstæðismenn sem þátt tóku hafi gert það í þeim tilgangi að þóknast forystu sjálfstæðismanna, eða til þess að veikja framboð Samfylkingar. Þannig held ég að enginn sé tilbúinn til þess að leika með þau gildi sem hver maður stendur fyrir.
Þeir tóku frekar þátt í að mynda valkost við núverandi meirihluta sem þeir eru ekki ánægðir með. Meirihluta sem nú hefur komið bænum í svo slæma stöðu, að vandséð er hvernig að úr verði komist. Þeir tóku þann kost að reyna að hafa þau áhrif þar sem mögulegt var, vitandi að engra breytinga var að vænta úr eigin flokki. Það var ekki boðið upp á það. Þeir eins og stór hluti gamla meirihlutans sem var, vilja ekki vera með lengur. Þeir sjá hvert stefnir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)