Á nú að kasta út barninu með baðvatninu

 

Maður veltir fyrir sér hvernig í ósköpunum hægt er að tala um sama mál í 79 ræðum( talið í gærkvöldi) eins og þingmaðurinn Gunnar Bragi Sveinnsson hefur nú gert um Icesave málið. Og haldið því fram að stöðugt sé hann að segja eitthvað nýtt sem ekki hafi áður komið fram. Honum  finnst  mikilvægt að hamra á hve mikilvægt það sé fyrir þjóðina að alþingismenn og ráðherrrar leggist í víking og kynni málstað þjóðarinnar fyrir málsmetandi erlendum mönnum .Eins og þeir hafi ekki eitthvað þarfara að gera  en að kynna mál sem öllum þeim er viðkemur , er fullkunnugt um.

Það verður að segjast að frekar ömurlegt er að horfa upp á þingmenn stjórnarandstöðunnar  einangra ræðustól alþingis í umræðu þar sem þeir spyrja spurninganna, og svara síðan sjálfum sér. En um leið og maður vorkennir málþófsinnunum , verður maður nú að taka hattinn ofan fyrir stjórnarliðum sem sitja verða undir þessu bulli dag eftir dag, og undrast þann geðstyrk sem þeir virðast búa yfir.

Málþófsinnarnir sem tilheyra allir hrunflokkunum Sjálfstæðis og Framsóknar segjast vera að standa vörð um fullveldi Íslands. Sömu flokkar og með einkavinavæðingu og helmingaskiptareglunni  fórnuðu því fullveldi á musteri Mammons, Björgólfa ,S- hópum og öðrum þeim er tök höfðu á að lána hver öðrum á milli banka til fjaármögnunar hver í öðrum. Kannski þeir hefðu þar átt að byrja að verja svonefnt fullveldi, sem láta nú sem þeim þyki vænt um. Nú er verið að hreinsa upp skítinn eftir þá.

Það held ég að allir séu sammála um að það er ferlegt að þurfa að greiða þennan reikning, en flestir hafa líka áttað sig að nú um stundir er fátt annað að gera. Ekki hafa komið fram aðrar leiðir eða lausnir, og á meðan svo er virðist til litils að eyða tímanum í að kjafta landið niður í ruslflokk hvað lánshæfi ríkisns varðar, með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnulíf, og þar með fólkið í landinu

Mér finnst menn nú vera tilbúnir til að fórna miklu í þeirri stundarbilun sem virðast miðast við pólitíska  hagsmuni málþófsinnanna fremur en þjóðarhagsmuni. Eða eins og einn orðaði það svo snyrtilega „þeir eru tilbúnir til að kasta út barninu með baðvatninu".  Það er endurreisn efnahagslífsins sem er undir. Ljóst er að hversu mikið sem menn tala mun málið ekki gufa upp, jafnvel þó þingið myndi hafna þeim samningi er nú liggur fyrir. Þá þyrfti að byrja upp á nýtt, með ófyrirséðum afleðingum fyrir þjóðarbúið. Þetta er sama liðið og segir stjórnvöld standa í vegi uppbyggingar, en kjaftar nú landið niður á plan svo útilokað er að uppbygging geti átt sér stað,

 


Og aftur er minnihlutinn í fýlu.

Blush  

Mér varð í gærkvöldi hugsað til Lars Christiansen hjá Danske bank , sem í byrjun árs 2008 benti einna fyrstur manna á að möguleiki væri á íslenska bankakerfið myndi fara á hausinn, ef ekkert yrði að gert. Mér varð líka hugsað til þeirra viðbragða sem umfjöllun hans fékk.Og mér varð svo á eftir hugsað til ástandsins hér og hvort eitthvað hefði breyst.

Þegar Lars Christiansen benti á vankantana hvað varðar íslenska bankakerfið og áhyggjur sínar,  gengu hér maður undir manns hönd og lýstu styrk bankakerfisisns. Niðurstaða fjármálaráðherrans og aðstoðarmanns hans var að Danir væru aldrei ánægðir og nú væru þeir í í fýlu yfir velgegni íslendinga sem græddu nú sem aldrei fyrr. Það sýndu reikningar ríkisins og bankanna. Danir voru bara í fýlu. Annað átti eftir að koma í ljós.

Við töldum okkur hafa lært. Að hér eftir skyldi hlustað á gagnrýni og hún rædd málefnalega. En lítið virðist þó hafa breyst sums staðar og enn eru menn í ábyrgðarstöðum sem líta á hver þau rök er ekki falla að þeirra heimsmynd sem fýlukast þess er setur þau fram. Svo virðist því miður vera um fyrrum aðstoðarmann fjármálaráðherra sem enn dvelur í draumaheimi ársins 2007, og telur gagnrýni minnihlutans í Reykjanesbæ  á fjármálastjórn meirihlutans vera enn eitt fýlukastið úr þeirri átt. Í Reykjanesbæ er allt í góðu lagi, enda hagnaður á samstæðureikningi bæjarins. Þó milljarða tap sé á bæjarsjóð, sem lýsir þó best hvernig rekstri  bæjarins er háttað.

Minnihlutinn er aldrei ánægður, hvort sem tap eða hagnaður er á efnahagsreikningi bæjarins, sagði formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar í gær á bæjarstjórnarfundi, og lét þessa líka djúphugsuðu bókun um meinta skapgerð minnihlutans fylgja með máli sínu til stuðnings.

Hann á fáa sér líka þegar kemur að málefnalegri umræðu. Með slíka menn og málefnastöðu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar er algerlega óþarft  fyrir nokkurn mann að láta sér  leiðast eða fara í fýlu, kannski  svolítil spurning um að undrast. En kannski enn meiri  ástæða til að hafa áfram  áhyggjur af fjárhagstöðu bæjarsjóðs þegar ljóst er hvert aðaláhyggjuefni formannsins er. Og kannski skýrir það einmitt hvers vegna reksturinn er svo slæmur sem hann er?


Er Ólafur Thors eini upplýsti sjálfstæðismaðurinn í Reykjanesbæ?

 

Félagarnir Jón Baldvin og Styrmir voru ekki sammála um margt í Silfri Egils, en þeir voru þó algerlega sammála um að lýðræði í landinu væri undir, þegar kemur að því að við ákveðum hvernig við viljum haga okkar málum til framtíðar. Að tími klíkuskapar og kuningjatengsla ætti að vera liðinn, hann hefði engu skilað okkur nema síður væri.

Við höfum á undanförnum árum og jafnvel vikum fengið að fylgjast með hvernig klíkurnar og kunningjarnir hafa varið sig og verk sín með röksemdum af ódýrara taginu, og ætlast til að sauðsvartur almúginn sem eingöngu hefur getað treyst á hyggjuvit sitt keypti rökin. Okkur er gert að trúa því sem valdhafarnir segja hversu vitlaust sem það hljómar.

Nýlegt dæmi þar um er  frétt um  afkomu Reykjanesbæjar, þar sem okkur er sagt að gríðarlegur viðsnúningur hafi orðið á  fjármálum bæjarins, þrátt fyrir að ljóst sé tap á rekstri bæjarsjóðs séu rúmlega 3.milljarðar fyrstu 10 mánuði  ársins, og því hvorki efni né ástæða til að taka þátt í þeim hugarórum bæjaryfirvaldanna um að án breytinga séu framundan betri tímar með blóm í haga. Því svo er ekki í nánustu framtíð. Fyrst þarf að verða algjör hugarfarsbreyting hjá þeim meirihluta sem nú ræður , bæði hvað varðar upplýsingagjöf og fjármálastefnu.

Nú fer að renna upp sá tími að óhætt fari að verða að ræða málin, án þess að á það verði litið sem tilræði og ofsóknir, eins sumir hafa viljað láta. Við höfum á undanförnum tveimur árum orðið áhorfendur að miklum breytingum, hvort heldur við horfum til landsmálanna eð bæjarmálanna.

Við höfum horft á hvernig kreppa var kölluð  yfir landið, af mönnum sem höfðu ofurtrú á hinu svonefnda frjálsa framtaki undir formerkjum einkavinavæðingar. Meginþorri allra landsmanna þykist  nú upplýstur um að það virkaði ekki.

Svo virðist þó vera að enn finnist óupplýstir menn inn á milli. Og við sem búum hér í Reykjanesbæ fáum óneitanlega á tilfinninguna, þrátt fyrir að vita betur að hér séu engir upplýstir Sjálfstæðismenn lengur, nema þá helst styttan af Ólafi Thors. Þeir  stilla sér upp við hlið foringja síns sem virðist hafa það markmið helst að koma bænum endanlega á hausinn, eins best  sést af þeim tölum og svörum sem gefin hafa verið af meirihlutanum um fjárhagsstöðu bæjarins.

Við greiðum nú vel yfir 100. milljónir króna í húsaleigu hvern einasta mánuð, eða um það bil 1300. milljónir á ári í húsaleigu á ári, og enn er ekki farið að rukka leigu fyrir Hljómahöllina . Það þýðir 92.000 kr rúmlega á hvern íbúa í bænum frá 0-100 ára. Bæjarsjóður hefur verið rekinn með 7000 milljón króna tapi á síðustu tveimur árum sem þýðir 500 þúsund krónur á hvern mann. Er ekki komið nóg af æfingum í hagfræði/ rekstrafræði  hjá þeim sem hér ráða og tími til að taka á vandanum í stað þess að vera að dunda sér við að búa til fréttir af veruleika sem sannanlega ekki er.


Hvernig getur ríkið tafið Hljómahöllina?

 

Maður verður víst að gæta sín, þegar kemur að umfjöllun um Keflavíkurgöngu hina nýju. Þar hefur mönnum þótt sitthvað, enda ekki verið ljóst hver tilgangur þessarar göngu hefur verið, og sumum okkar að minnsta kosti ekki þótt sanngjarnt að dæminu væri stillt upp þannig að sú óáran sem hér herjar sé nú öll ríkinu að kenna. Fundist við svolítið að með þessari göngu að við höfum sett okkur í hlutverk fórnarlambsins. Að allt sé öðrum að kenna hvernig komið er.

Sú umræða sem farið hefur fram um atvinnuástand á Suðurnesjum hefur verið sett fram vísvitandi út frá sjónarmiðum meints þolanda. Og öll málaefnaleg umræða um raunveruleikann eins og hann blasir við verið kæfð. Það hefur verið gert í anda þeirrar samstöðu sem hér á að ríkja.  Því miður er það svo að sú umræða sem nú er í gangi er í anda múgsæsingar, en byggir ekki á neinum efnilegum rökum.

Það er ljóst að þrátt fyrir hugmyndafræðilegan ágreining um stóriðju almennt innan ríkistjórnarinnar hefur sú ríkistjórn sem nú situr gert allt það sem í hennar valdi hefur staðið til að liðka leið álvers í Helguvík.  Og samningum um þá orku sem þarf til rekstur fyrsta áfanga álversins hefur verið gengið frá.  Enn hefur þó ekki ekki verið gengið frá hvernig þeir sem tekið hafa að sér að útvega þá órku ætla að fjármagna þá framkvæmd.  Það er öðrum að kenna að sú fjármögnun gengur erfiðlega, og í hæsta máta ósanngjarnt að skella þeirri skuld á þá sem stjórna nú.

Nú virðist ljóst af flestu að Gagnaverið er á fullri ferð, og þar hefur ríkið ekki staðið í vegi neinna framkvæmda eins og látið hefur verið í ljós, en vill náttúrulega hafa á hreinu hvernig skattheimtu af þeim rekstri skuli háttað. Það er eðlilegt.

Kísilverksmiðjan leitar að fjármögnun á því verkefni m, og þar kemur ríkið ekki að.

Ljóst virðist vera að úrskurður umhverfisráðherra um Suðvesturlínur mun ekki hafa áhrif á þær framkvæmdir sem hér hafa verið raktar, en hinsvegar opnað augu margra fyrir  hvar vandamálin liggja í væntanlegri línuleið. Það hlýtur að teljast til bóta.

Það keyrir þó algerlega um þverbak, og maður fer virkilega að velta því fyrir sér á hvað göngumenn hafa eiginlega verið hugsa þegar inn í ályktun um verkefni sem ríkið á að hafa áhuga á að standa í vegi fyrir er skyndilega komin Hljómahöllin, eins og sjá má af meðfylgjandi frétt á Vísir.is.

Sú framkvæmd er einkaframkvæmd unnin af félagi sem okkur er sagt að sé raunverulega bjargvættur bæjarins þegar fram líða stundir, og bæjarfélagið eigandi að. Eitthvað hlýtur að hafa gerst á bak við tjöldin sem við hin einföldu vitum ekki um , úr því að það verkefni er nú komið inn í ályktun göngu sem skipulögð eru af öllum flokkum og stéttarfélögum á svæðinu. Hér vantar einhverjar skýringar.


Nýtt ráðhús í Reykjanesbæ?

 

 akademian

 

Nú í kjölfar hruns og breyttra aðstæðna í þjóðmálum er eftir því kallað að menn leiti nú leiða til sparnaðar og annarar hugsunar hvað varðar opinberan rekstur. Og fyrir mann eins og mig, sem virðist leyfa sér að hafa skoðanir á nánast flestu í umhverfi mínu er þetta náttúrulega gósentíð. Hugmyndir koma og fara, sumar kæfi ég sjálfur með nánari umhugsun, en aðrar sjá  vinir og vandamenn um að kæfa,  sem finnst ég fara fullgeyst í hugsunum mínum.

 

En þrátt fyrir mótbárur finnst mér samt eins og ég hafi nú fengið hugmynd sem vert er að reyfa, og setja fram sem valkost nú þegar ljóst er að bærinn okkar á í vandræðum sökum mikillar skuldsetningar. Og mikilvægt er að við nýtum það sem við leigjum á skynsaman hátt. Svo má deila um hvað er skynsamlegt og hvað ekki.

 

Öllum er okkur ljóst sem undanfarin ár höfum lagt leið okkar á bæjarskrifstofurnar hér í Reykjanesbæ, að sú starfsaðstaða sem þar er boðið upp á, er með lakara móti. Eða eins og einn starfsmaðurinn sem þar vinnur sagði " Hér er ekki einu sinni pláss til að skipta um skoðun". Bæjaryfirvöld hafa nú myndað sér skoðun um hvernig hús það sem kennt er við íþóttaakademínua verði nýtt til frambúðar, og  spurning hvort hægt verði að skipta um þá  skoðun.

 

Hús íþróttakademíunnar er stórt og mikið, enda byggt þegar stórbrotnar hugmyndir áttu hér auðvelt með að festa rætur. Sá tími er liðinn, og finna þarf húsinu nýja notkun. Ákveðið hefur verið að leggja það húsnæði undir starfsemi fimleikadeildarinnar, sem allra góðra gjalda verð, en spurning um hvort ekki séu aðrir möguleikar í stöðinni, bæði í ljósi fjarmagnstöðu bæjarins og fjölda þeirra íþóttahúsa sem nú þegar eru í bæjarfélaginu. Það tel ég vert að skoða betur.

 

Hús þetta er staðsett á besta stað í bænum, og sá hluti húsins þar sem íþróttastarfsemin fer fram í gefur góða möguleika á breytingum, sökum þeirrar lofthæðar sem nú er þar fyrir. Svo virðist sem þar mætti setja inn svalir og auka þar með fermetrafjölda þess rýmis umtalsvert  þar sem koma mætti fyrir skrifstofum ýmiskonar. Tillaga mín gengur sem sagt út á að í stað þess húsnæði þessu verði ráðstaðfað til langs tíma undir starf fimleikadeildar, sem nýtti það part úr degi, verði að því hugað hvort ekki sé möguleiki að þess í stað verði hús íþrottaakademíunnar breytt í ráðhús bæjarins. Og húsið fullnýtt allan daginn.

 

Auðvitað þarf einhverju til að kosta, en á móti myndi koma sparnaður í húsaleigu á núverandi skrifstofum bæjarins, sem fyrir löngu er orðin óviðunandi og bænum ekki  sæmandi hvað varðar aðbúnað þess starfsfólks er þar vinnur. Með þessu ynnist það að ráðhús bæjarins yrði meira miðsvæðis í bæjarfélaginu, og tengsl þess við  þann þjónustukjarna sem þarna er að myndast, yrðu meiri og betri, með augljósum  þægindum fyrir íbúanna. Þarna eru næg bílastæði . Ég tel rétt að bæjaryfirvöld kanni hvort slík breyting á húsnæðinu sé möguleg , í ljósi þeirra staðreynda sem ég hef hér að framan rakið. Það getur sparað bæjarfélaginu útgjöld til lengri tíma litið, sé þetta mögulegt.

 


Eldurinn er slokknaður.

 

Æ , æ  slökkviliðinu er að takast að slökkva eldinn, og brennuvargarnir  standa álengdar án þess að skammast sín hið minnsta.  Skilja  ekki að eldurinn er slokknaður, þó enn leggi upp reyk í rústunum. Og gera hróp að slökkviliðinu sem þau telja að beiti ekki brunalöngunum rétt, þau þykjast vita það sem aldrei hafa annað en meðhöndlað eldspýturnar sem kveikja eldinn.

 

Einhvern vegin hugsar maður nú þegar svo virðist sem loks sjái nú fyrir endann á svonefndu Icesavemáli,   sem enginn er sáttur sáttur við að þurfi að leysa, en verður samt að gera. Um það eru allir sammála. ASÍ, Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð, sem öll eru sammála um að aðrar lausnir virðast ekki í stöðunni en að borga helv.. Icesave reikninginn, því öðruvísi verði ekki áfram haldið.

 

Noregsfararnir og Sjálfstæðisflokkurinn virðast þó ekki geta skilið þetta, og leika á þjóðernistilfinningar fólks og sérstöðu landsins. Sérstöðu sem ef fara ætti þeirra leið, væri sú að hér er þjóð sem alls ekki vill bjarga sér, sökum miskilins stolts og þjóðrembings. Sú sérstaða hefur ekkert með almenna skynsemi að gera.

 

Sú niðurstaða sem nú liggur fyrir er árangur mikillar vinnu, sem allir flokkar tóku þátt í utan Framsóknarflokksins.  vinnu sem Sjálfstæðismenn sjálfir tóku þátt í að vinna, en vildu svo ekki samþykkja eigin tillögur. Og segja nú að sú vinna hafi verið eyðilögð. Hefði staðan orðið sterkari hefðu þeir samþykkt eigin tillögur?

 

Ljóst er af allri umfjöllun um þetta mál að sú hugrakka ákvörðun Ögmundar Jónassonar að segja af sér ráðherraembætti til að undirstrika alvarleika málsins hafði mikið að segja. Þá tóku málin að snúast í  átt með okkur. Og fyrir liggur samningur þar sem komið er til móts við okkur hvað flest okkar sjónarmið varðar. Nýtum það og látum það verða okkur til góðs, í stað þess að hlusta á kór brennuvarganna sem enga aðra lausn hafa kynnt á málinu.


Andaskoðunarferðir fyrir endurskoðendur.

 

Vinur minn segist þekkja bónda fyrir austan, sem sé sá veðurgleggsti maður sem hann hafi kynnst. Búmaður mikill og hafi góða tilfinningu fyrir því hvað búi hans sé fyrir bestu. Enda sé býli hans stórbú sem litið er til í hans heimasveit , sem vaxið hafi og dafnað sökum hyggjuvits bóndans sem hingað til hefur ekki látið álit menntaðra sérfræðinga hafa áhrif á sig.Hann segir þá oft  láta oft stýrast af hagsmunum og væntingum  þeirra er panta slíka þjónustu.

 

Við höfum undanfarið orðið vitni á því blöðum og öðrum fjölmiðlum hvernig stöðugt er vitnað til hinna mismunandi álita sérfræðinga við mat á hinum ýmsu málum.Og týndir til útreikningar sem ýmist mæla með eða á móti viðkomandi ákvörðunum. Menn reikna sig að niðurstöðu, og sleppa öllu því sem heitir hyggjuvit eða tilfinningar. Segja það aðeins eiga við þegar fjallað er ástir unglinga, eða sorgir gamalmenna. Þegar fjallað sé um önnur mál þurfi sérfræðinga til.

 

Málefni Fasteignar og tveggja bæjarfélaga á Suðurnesjum hafa nú tekið þessa stefnu, Nú sé ekki lengur hægt að nýta hyggjuvitið, og stöðu viðkomandi bæjarsjóða þar sem leigutekjur fossa út úr bæjarsjóðunum til að meta hvort þetta sé hagkvæmasta leið viðkomandi bæjarfélaga. Annað nú  þegar næstum á hausnum meðal annars sökum þessara viðskipta, og greinilega byrjað að taka í hjá hinu sem nú hefur ákveðið að óska eftir endurskoðun þeirra samninga sem þar eru í gangi.

 

Bóndanum fyrir austan sem á sínum tíma bauðst svipað fyrirkomulag hvað varðaði fjósið sem hann var þá að byggja og sýndir voru útreikningar fyrir því að þetta væri það skynsamlegasta að gera í stöðunni ákvað þó að gefa sér smá tíma. Rölti upp á húshólinn í tékknesku gúmmíkónum sínum og lopapeysu þar sem hann  horfði yfir landareignina  og akrana  þar sem endurnar eirðu engu  kom að vörmu spori til baka til viðskiptajöfursins sem létta ætlaði honum lífið og spurði. "Segðu mér vinur veist þú hvernig veðrið verður á morgun.

 

Viðskiptajöfurinn sem hvorki var í GSM sambandi eða með tölvu til að sjá spár veðurfræðinganna, gat ekki svarað því, jafnvel þó dökkir skýjabakkar hrönnuðust upp utar í dalnum, og tekið væri hvessa. Hyggjuvitið sagði bóndanum að ekki væri skynsamlegt að eiga viðskipti við þennan mann, og búið hefur dafnað vel síðan. Og bæst hefur í búreksturinn því nú skipuleggur bóndinn vinsælar andaskoðunarferðir fyrir endurskoðendur.

 


Sóknin í suður.

 

Þór Saari kom loksins orðum að því sem við hin höfum ekki náð undanfarna mánuði, í sambandi við málflutning Sjálfstæðis og framsóknarmanna sem nú boða frekari útfærslu á Noregshugmyndum sínum . Hann orðaði fyrir þá hugsun sína um nýjar tillögur í efnahagsmálum, og sagði að svo virtist sem þeir hefðu hugsað að sókn væri besta vörnin, en útfært þær þannig að sóknin væri í suður, á meðan baráttan væri fyrir norðan. Réttara getur það ekki orðið.

 

Allt frá því að ný stjórn tík hér við völdum, fyrst sem minnihlutastjórn og síðar með fullt umboð frá kjósendum sem veittu henni meirihluta, hafa menn ekki áttað seig á hvað það var sem gengið hefur stjórnarflokkunum til.Ef tekið er tillit til hagsmuna  þjóðarinnar. En vel skiljanlegt út dólgslegri valdagræðgi eiginhagsmunahyggjunnar. Þeir hafa vilja fella þessa stjórn, sama hverju yrði kostað til. Þeir hafa nú séð að þeir hafa þar ekki erindi sem erfiði, og neyðast nú til að flestu því sem þeir hafa fram haldið.

 

Tillögur þeirra sjálfstæðismanna gera ráð fyrir mikilli aukningu erlendra skulda, með skuldabréfaútgáfu. Það á að skattleggja inngreiðslur lífeyrisjóðanna, þvert ofan í álit Samtaka Atvinnulífsins og ASÍ. Og það má ekki hækka neina skatta á stóriðjuna, heldur breikka skattstofnana. Og hverjir eru það sem þá eru eftir? Eru það ekki heimilin og smáfyrirtækin?

 

Nei, ég held að það sé alveg rétt skilið hjá Þór Saari, að þeir hafa byggt upp sóknina í suður á meðan árásin kemur úr norðri. Þeir þora ekki að horfast í augu við andstæðinginn, og flýja vandamálið sem við er að etja.

 

 

 


Forsíðudrengurinn.

 

Nú birtast myndir dag eftir dag á forsíðu Morgunblaðsins af formanni Sjálfstæðisflokksins í mismunandi mikilli fýlu yfir því sem í gangi er. Honum finnst erfitt að sætta sig við sannleikann, sem er svo sár sökum hluta fyrirrennara hans í starfi, sem eins og margir aðrir, þar á meðal formaðurinn sem þar á undan kom og núverandi ritjóra forsíðunnar, sem  voru þeirra skoðunar að ríkið skyldi ábyrgjast allar innstæður íslendinga í íslenskum bönkum.

 

Það er vont fyrir forsíðustrák Morgunblaðsins að þurfa að kyngja þessari staðreynd, og enn verra að átta sig á að ekki ber að mismuna mönnum í viðskiptum, og verða því að kyngja því hvort sem honum líkar betur eða verr, að þessi meginregla á líka við um viðskiptamenn bankanna í útlöndum. Og því þurfi að leysa Icesave.

 

Það er líka vont fyrir forsíðudrenginn að átta sig á að til þess að efnahagstillögur þær sem flokkur hans leggur nú fram byggjast á að lausn sé fundinn á því máli, og lánalínur þær sem hann hann boðar að okkur standi opnar fást ekki nema frá því  máli sé gengið.

 

Það er þess vegna sem forsíðumyndirnar eru svo raunalegar, og lítinn lífsneista eða gleði í þeim að sjá. Því hann veit að nú er komið að honum og flokki hans að kyngja öllu því sem áður hefur verið sagt. Og  að Icesave er ekki sá baggi sem hann hefur viljað gefa í skyn að væri.

 

Hann veit að brátt kemur að þeim tíma að hann verði að taka ábyrga afstöðu, og að hann og flokkur hans verði líka að standa við hana. Það gæti reynst honum erfitt , en ég er viss um að myndin af forsíðudrengnum verður miklu mun áhugaverðari og léttara yfir honum þegar hann uppgötvar þann létti sem því fylgir. Þá mun aftur færast bros yfir bæinn.


Málunum reddað?

 

Mikið ósköp var nú gott að sjá tillögur þeirra Sjálfstæðismanna um hvernig þeir ætla nú að bjarga okkur úr þeirri stöðu sem þeir komu okkur í. Reiknað með öllu eins og fyrri daginn og engu gleymt. Já séu einhverjir færir um að stjórna landinu eru það sjálfstæðimennirnir sem komu okkur á hausinn og eru þeir einu sem kunna með peninga að fara.

 

Lán alþjóðagjaldeyrisjóðsins sett í bið, og lánum Norðurlandaþjóðanna breytt í lánalínur. Hókus pókus og búið mál Engu gleymt og öllu reddað. Nema? Úps , er ekki eitthvað sem er að gleymast? Og hvergi minnst á í tillögunum.

 

Undanfarna mánuði hafa staðið yfir harðar deilur um svonefnt Icesave mál, sem þeir sjálfstæðismenn hafa helst ekki viljað vita af, né láta kenna sig við. Og nú dúkka þeir upp með það sem þeir kalla raunhæfar tillögur, án þess að nefna það mál á nafn sem þó er forsenda þess að tillögur þeirra eða annarra um endurreisn nái fram að ganga. Málið er nefnilega ekki alveg eins einfalt og þeir stilla því upp. Fyrst þarf að ganga frá Icesave. Tillaga þeirra hefur ekkert gildi fyrr en það hefur verið gert. Því þau lán sem þeir vilja breyta í lánalínur, standa okkur ekki til boða fyrr en frá því máli hefur verið gengið.

 

Þarna er sjálfstæðismenn engu betri en skjalatöskustrákarnir sem fóru til Noregs, þeir vilja gera eitthvað, en alls ekki það sem þarf að gera til að tillögur þeirra nái fram að ganga. Undanfarnar vikur hafa ráðmenn annarra þjóða útskýrt það mjög greinilega fyrir íslenskum ráðmönnum að hvorki lán, né lánalínur standi íslendingum til boða nema frá því máli sé gengið. Manni liggur við að segja að þau skilboð séu öllum skýr, ómálga börnum, sem og  öðrum. En ekki forráðamönnum Sjálfstæðis og Framsóknarflokks sem virðast þrátt fyrir það  enn halda að hægt sé að koma tillögur til lausnar vandanum án þess að tekið sé á því máli.

 

Nú verður spennandi að sjá hvernig sjálfstæðismenn sem gefið hafa út að frekari lausn á Icesave vandanum komi þeim ekki við, taka á væntanlegu frumvarpi ríkistjórnarinnar um það mál. Styðji þeir ekki lausn þess máls, er vonlaust að taka þessar tillögur þeirra alvarlega. Því það verður ekki bæði sleppt og haldið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.