Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Goldfinger og Sjálfstæðisflokkurinn

 

Þetta er sérkennilegir dagar. Það sem maður hélt fyrir nokkrum dögum að væri sakleysisleg spurning um vændisfrumvarpið til frambjóðanda í sjónvarpsþætti hefur vafið upp á sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Það hefur verið nefnt við mig að nú sé það mín sök að ekki séu nektardansmeyjar á hverju því karlakvöldi sem haldið er. Ég er svo sem alveg sáttur við það.

Nú áðan hringdi til mín maður og hafði fundið út nýja samsæriskenningu sem mér hafði þrátt fyrir dálæti mitt á slíkum yfirsést. Hafði ekki reiknað með að þessi afgreiðsla þingflokks sjálfstæðismanna  væri svo útspekúleruð að viðskiptahagsmunir þeirra eigin flokks tengdust þeirri afgreiðslu. Og ætla nú þessum viðkvæmu tímum að halda því fram að svo sé , enda nóg samt.

Hann var dularfullur þegar hann hvíslaði að mér með rámri röddu falin á bak við gluggatjöld í Grafarvogi um hvað samsærið snérist. Ég lagði við hlustir, þar sem ég var staddur í fjölmenni sá ég mér ekki annað fært en draga mig út úr hópnum án þess að mikið bæri á.

Hann bað mig að setjast á meðan hann myndi skjótast og sækja sér kaffibolla. Ég varð spenntur og vissi að nú væri vinur minn að telja í sig kjark til að segja frá einhverju sem hann vissi, en vildi ekki segja öllum. Ég reyndi að slaka á.

Það marraði í símanum þegar hann tók hann upp og byrjaði að muldra í síman um hvernig vændisfrumvarpið tengdist blaðaútgáfu flokksins. Mér var brugðið þegar í ljós kom að það sem hann var að segja mér var næstum á mælikvarða  annarra hneyksla sem yfir þann flokk hafa dunið að undanförnu. Hér var um ekkert minna að ræða en auglýsingar í blað Stefnis sem að mér skilst að sé blað ungliða íhaldsins í Reykjavík. Hefðu þeir samþykkt þessi lög væri ljóst að sú eina auglýsing sem birtist í kosningablaði þeirra nú hefði getað  fallið út hefðu þeir samþykkt frumvarpið. Sú auglýsing er fra Goldfinger. Maður verður að meta hagsmunina í víðu samhengi.


Tenórinn er falskur

 

Það heyrast nú sögur bæði frá Vestmannaeyjum og Grindavík, að þar dreifi hagsmunagæsluflokkur stóru útgerðaraðilana í hús ýmist munnlega eða bréflega hræðsluáróðri. Hér muni allt fara til fjandans og fiskarnir synda í burtu verði einhverjar breytingar á eignarhaldi kvótans. Það sé byggðunum fyrir bestu að þeir sem nú eiga eða ráða yfir kvótunum, enda séu þeir burðarásar hvers bæjarfélags. Og það skiptir máli.

 

Ekki er nú hægt að segja að þessir burðarásar sem sem þeir þykjast vera hafi eitthvað sértaklega verið að hugsa um hag sinna bæjarfélaga þegar þeir í gegnum árin hafa ýmist selt kvótann í burtu, eða siglt með aflann til útlanda og sagt við fiskvinnslufólkið í landi að það hafi verið skynsamlegt og þannig hafi fengist mest verðmæti fyrir aflann.

 

Það er ekki þannig að þá hafi þeir verið hugsa um hag byggðanna eða að atvinnutækifæri hafi verið tryggð.  Nei þá voru þeir fyrst og fremst og nánast bara að hugsa um eigin hag.  Hvað þeir fengu í veskið.  Þeim var nefnilega alveg sama um fiskvinnslufólkið og hverja þá aðra sem að fikvinnslunni komu.  Þeir voru að hugsa um sjálfa sig og þannig mun það verða áfram haldi þeir áfram yfirráðum yfir kvótanum.

 

Sá hræðsluáróður sem grátkórinn nú syngur með Sjálfstæðisflokkinn í hlutverki hetjutenórsins er falskur.  Nú er sá tími að fólkið sem byggðinar byggja og horft hafa á kvóta bæjanna hverfa átti sig á það er betra að þau sem hluti af þjóðinni njóti í gegnum lækkaða skatta í framtíðinni afrakstur af þeirri auðlind sem er þeirra eign, en ekki burgeisanna sem nú vara við að vondir menn hafi í hyggju að taka frá kvóta og setja fyrirtæki þeirra á hliðina.  Því hafi þeir rekið sín fyrirtæki skynsamlega munu þeir hvorki fara á hausinn, né fiskurinn synda í burtu. Þeir munu hinsvegar verða hluti að sterkum sjávarútvegsiðnaði sem byggir á stöðugu rekstraumhverfi.  


Þannig vil ég skila landinu til barna og barnabarna.

 

Nú er komin tími til að fara að gera upp við sig hvað maður á að kjósa nú á laugardaginn. Valið virðist ekki erfitt fyrir þá er aðhyllast þá skoðun að allir séu jafnir og eigi að njóta sömu tækifæra í lífinu. Sama hvað gengur á.

Flokkarnir hafa á undanförnum vikum kynnt okkur stefnuskrár sína. Flestir hafa staðið fast á þeim málefnum er landfundir þeirra hafa samþykkt , á meðan einn flokkana Sjálfstæðisflokkurinn  hefur blaktað eins og fáni í vindi og ekki vitað hvað hann vill.

Einn daginn voru aðilsviðræður við ESB ekki á dagskrá, það hentaði ekki hagsmunum flokksins eins og einn þingmanna hans sagði. Næsta dag var skynsamlegt að láta Alþjóðagjaldeyrissjóðin semja fyrir okkar hönd um þá aðild til þess að þjóðin sem málið snertir þó mest fengi ekki tækifæri til að segja sína skoðun.

Einn daginn voru samdar reglur um styrkveitingar til flokka, en næsta dag hringdi sá sem með var í að semja út til stórfyrirtækja til að fá miklu hærri styrk en samþykkt hafði verið fyrir sinn flokk og þóttist síðan hvergi nærri hafa komið. Bað svo ríkisendurskoðun um að staðfesta að hann væri heiðarlegur stjórnmálamaður.

Það skyldi spara í rekstri ríkis og bæja og einkavæða allt það sem of kostnaðarsamt er fyrir ríkið að gera þar á meðal byggðasöfn  og listasetur. En ríki og bæir halda áfram að borga, nú til einkaaðilana sem ekki hyggjast græða á dæminu. Á ég að túa því ?

Þeir halda því  fram að ef  auðlindir þjóðarinnar fari í þjóðareign þá syndi fiskurinn í burtu og jarðhitinn kólni, og ljóst sé að hér muni enginn gera eitt eða neitt framar verði þetta látið gerast.

Þeir vilja alls ekki að þjóðin hafi nokkuð með breytingar á stjórnarskrá sinni að gera og það sé hreinlega ógn við lýðræðið í landinu nái slikar tillögur fram að ganga.

Þeir vilja að eftir 18 ára samfellda stjórnar tíð sína treystum við þeim áfram til að fara með stjórnina eftir hrun hugmyndafræði þeirra með tilheyrandi hörmungum fyrir þjóðina. Að það versta sem geti gerst fyrir þjóðina er að hugmyndafræði annara sem byggir á jöfnuði og félagshyggju nái hér fram að ganga. Að lengi geti vont versnað.

Nú eru tveir dagar til kosninga og ég veit hvað ég vil. Ég vil jöfnuð og félagshyggju, þar sem öllum er gert jafnhátt undir höfði og hver einstaklingur fái að njóta sín, óháð stjórnmálaskoðun eða ættartengslum. Þannig vil ég skila landinu mínu til barna og barnabarna. Þá held ég að þau eigi möguleika eftir hrun Íslands, sem varð í boði Sjálfstæðisflokksins

 

 

 


Þorskurinn mun kjafta frá frétti þeir að þjóðin eignist kvótann

 

Nú dynur á okkur hræðsluáróðurinn frá eiginhagsmunaseggjum íhaldsins, um að framundan sé algert hrun og sjávarútvegnum  verði rústað nái yfirleitt einhverjar hugmyndir fram að ganga um að kvótinn gangi til þjóðarinnar. Að hér verði ekki veitt framar og og allt fari á annan endann. Þetta er hræðsluáróður.

Hvernig var þetta fyrir tíma kvótans? Voru ekki hér blómlegar fiskvinnslur í nánast hverjum firði, og fjörugt mannlíf í hverjum bæ. Þeir tímar eru liðnir og byggðir og útgerðarmenn berjast fyrir hverju grammi af kvóta með tilheyrandi skuldsetningu.

Nú vita þeir hræðslubandalagsmenn vel að út í aðgerðir eins innköllun kvótans verður ekki farið nema í samráði við aðila markaðarins, og  það er þeirra að að taka þátt í því samráði og mótun lausnar sé verður viðunandi fyrir alla aðila. Í stað þess að reka hér hræðsluáróður um allt muni fara á hvolf verði það ekki sömu menn sem veiða fiskinn. Málið er þeir eru ekki ómissandi og margir sem veitt geta þennan fisk með samskonar veiðifærum. Og jafnvel gert það á arðbærari hátt en nú er.

Nú er ég í eðli mínu maður sátta, og sú hugsun að flest mál sem unnin eru í sameiningu þeirra aðila er að koma fái besta lausn. Kvótaeigendur og þeir sem hæst láta núna eru ekki að boða lausn heldur vaða áfram í frekjukasti og segja að engin önnur lausn en eign þeirra og einkaveiðiréttur á kvótanum geti bjargað hér sjávarútvegi til framtíðar. Og vilja ekki sjá sjávarútveginn rekinn á nokkurn annan hátt. Og telja stafsfólki sínu sem þó vinna störfin og veiða fiskinn að þeir séu þeir einu réttu.

Auðvitað er þetta þvílíkt endemis kjaftæði að það tekur því varla að eyða orðum að því. Fiskurinn mun hér áfram synda í sjónum, nema útgerðarmenn haldi að einhver kjafti frá neðansjávar og fiskurinn syndi allur á ný mið, þar sem einhverjir eiginhagsmunaseggir fái einir að veiða. Á samt bágt með að trúa því hafandi undanfarin 25.ár kynnt mér tjáningarmáta þorska.


Með blóðþrútin augu og rauður af bræði.

 

Margt má nú segja um málefnalega umræðu þeirra félaga og fóstbræðra Árna Sigfússonar og Böðvars Jónssonar í Reykjanesbæ. En keyrði þó um þverbak í gærkvöldi á bæjarstjórnarfundi þar sem þeir fóru í áður óþekktar lægðir hvað varðar lágkúru í málflutningi sem minnti helst á óuppalda  ribbalda í sandkassa. Sá málflutningur sem þeir viðhöfðu voru þeim hreint ekki til sóma, né heldur fyrirmynd fyrir þá unglinga sem sátu áhorfendur þennan fund til að læra hvernig slíkt fer fram.

Tilefni umræðunnar sem var svar bæjarstjórans við fyrirspurn Ólafs Thordersen , og tillaga minnihlutans um málefni Fasteignar,um að óháður endurskoðandi yrði fenginn í það mál að sjá hvað væri rétt og hvað væri rangt, og hvort þetta ævintýri þeirra væri að bera þann ávöxt sem til var sáð. Menn voru ekki ánægðir með þau svör sem bæjarstjórinn hafði gefið, og töldu þau beinlínis misvísandi, en í þessu dæmi eins og svo mörgum málum áður, skildu menn ekki aðferðafræðina sem bæjarstjórinn beitti við þetta svar. Menn skildu hana heldur ekki þegar sá sami maður með sömu aðferðum var búinn að setja Tæknival lóðbeint á hausin með 1000 milljónir í mínus, og var í framhaldinu vísað á dyr í því fyrirtæki. Og skilja hana ekki enn.

En það sem ég nú ætlaði að ræða hér um var sá subbuskapur og mannfyrirlitning sem þeir félagar sýndu málflutningi Sveindísar Valdimarsdóttur bæjarfulltrúa þegar hún benti þessum háu herrum á að þeir bæjarfulltrúar sem jafnvel í minnihluta væru hefðu rétt til þess að spyrja spurninga, og fá skiljanleg svör, en ekki eitthvað reiknisdæmi byggt á nýrri  aðferðafræði bæjarstjórans hverju sinni.

Það að bæjarstjórinn sem hingað til hefur kennt sig við kristileg gildi, og góða siði skuli leyfa sér undir ræðu bæjarfulltrúans sem kjörin er af íbúum Reykjanesbæjar, að kalla fram í og benda henni á að hún fengi ekki vinnu hjá einkafyrirtæki er náttúrulega út úr korti. Hver heldur eiginlega þessi maður að hann sé? Ekki bætti litli kútur Böðvar Jónsson málið þegar hann sté í ræðustól  með blóðþrútin augu og rauður af bræði og sagði þær ræður og mál sem úr þessari átt kæmu væru í flestum tilfellum bull og  þvaður svo notuð séu orð hans sjálfs.

Slíka menn höfum við ekkert við að gera í bæjarstjórn Reykjanesbæjar nú þegar mikilvægara er en nokkru sinni fyrr að koma bæjarfélaginu út úr þeim brimsköflum sem bærinn er í, bæði sökum slælegrar stefnumörkunar í fjármálastjórn bæjarins, svo og þeirrar fjármálakreppu er ríður yfir þjóðina. Þeim færi betur að segja af sér og reyna að finna sér starf hjá einkafyrirtæki með þann frábæra feril sem þeir skilja eftir sig.


Hin hamingjusama vændiskona og atvinnustefna sjálfstæðismanna

 

Svo lærir sem lifir hugsaði ég í gærkvöldi, þegar ég hafði tekið þátt í í borgarafundi í beinni útsendingu RÚV frá Selfossi. Það er greinilega heilmikið tilstand og fyrirhöfn sem sjónvarpið leggst í við svona útsendingar. Það virðist FLokkurinn einnig gera enda voru áheyrendur frá þeim í miklum meirihluta á fundinum og höfðu plantað sér eins  fyrir miðjum salnum og létu mikið í sér heyra.

Það vakti athygli og raunar aðdáun mina hve vel æft þetta lið var í hrópum, klöppum og köllum, sem fór í gang í hvert sinn sem yfirgrúppían starfsmaður Reykjanesbæjar hreyfði sig ýmist í hneykslun yfir svörum þeirra sem þeir kalla andstæðinga sína eða yfirdrifinni hrifningu á ESB útskýringum síns frambjóðanda sem ennþá telur þrátt fyrir útskýringar um hið gagnstæða að Alþjóðagjaldeyrissjóðsaðferð þeirra sé fær leið. Og ungliðadeildin gerði eins.

Í mínum huga koma komandi kosningar fyrst og fremst með að snúast um ný gildi og breytta sýn á flest þau mál er snúa að samfélagi okkar. Ekki bara vandamál heimilanna heldur einnig um þau siðfræðilegu gildi sem við búum við. Og leyfði mér að spyrja frambjóðanda þeirra sjálfstæðismanna út í hennar afstöðu hvað varðaði ný afgreidd lög frá alþingi um vændi. Þar sem sjálfstæðismenn voru ýmist á móti frumvarpinu eða sátu hjá. Endaði spurninguna með því að spyrja hana hvort hún væri einn þeirra aðila sem ennþá trúðu á goðsögnina um hina hamingjusömu vændiskonu. Hún útskýrði sín rök í málinu, rök sem ég að vísu skildi ekki en virti þó það svar er hún gaf. Hélt þar með að málið væri útrætt og skoðanir þar að lútandi allar komnar fram er það varðar.

Varð þess vegna svolítið hissa og raunar brugðið efir fundinn þegar þriðji maður á lista  þeirra Sjálfstæðismanna  Unnur Brá Konráðsdóttir valdi að nefna það sérstaklega við mig eftir fundinn að þessi spurning hefði verið  léleg. Velti aðeins fyrir mér siðferði þessa frambjóðanda sem finnst þetta ekki vera mál sem vert er að ræða. Hún virðist vera ein þeirra sem aðhyllist goðsögnina um hina hamingjusömu vændiskonu og telji þetta hluta af atvinnuuppbyggingu þeirra sjálfstæðismanna til framtíðar.

 

 


Kennitölusafnarar íhaldsins

 

Það er margt furðulegt sem maður heyrir nú í aðdraganda kosninga, eitt þeirra mála sem mér finnst þó hvað furðulegast er hve erfiðlega gengur að útrýma þeim persónunjósnum sem Sjálfstæðisflokkurinn stundar inn á kjörstöðum í Suðurkjördæmi, þar sem þeir sitja og merkja við kjósendur, og bera svo út af kjörstað þau gögn til að geta hringt í þá er ekki hafa kosið á ákveðnum tíma. Aðferð sem þeir hafa lengi beitt, en aðrir flokkar hafnað.

Það er náttúrulega ekki að ástæðulausu að stofnun eins ÖSE skuli senda núna fulltrúa sína hingað til að fylgjast með kosningunum, og rétt að benda þeim einmitt á þetta atriði sem viðgengist hefur þrátt fyrir að persónuvernd hafi við síðustu kosningar lagst gegn þessari aðferð og talið að hér væri um ósvífna aðför að persónufrelsi manna að ræða.

Það er hreint ótrúlegt að flokkur eins og sjálfstæðisflokkurinn sem kennir sig við lýðræði og skoðanafrelsi skuli á jafn ósvífinn hátt telja það hlutverk sitt að fylgjast með hverjir hafi kosið og hverjir ekki. Það er í raun hlutur sem engum kemur við hvort viðkomandi aðili hafi valið að kjósa eða ekki.

Okkur er sagt að að sé undir hverjum og einum komið hvort þessir fulltrúar flokksins séu á staðnum og fylgist með þegar við segjum hver við erum áður en við kjósum, og hverjum borgara þar með gert kleift að reka út þessa kennitölusafnara Flokksmaskínunar. Kerfi sem hreint ekki virkar í minni og meðalstórum bæjarfélögum þar sem allir þekkja alla.

Þegar kemur að þessum lið lýðræðisins er hreint ekki skrýtið að okkur sé líkt við Zimbabwe eða önnur þau ríki sem ekki teljast til þeirra vanþróaðra ríkja.

 

 

 


Búúmerang!!

 

Nú er maður  alveg hættur að skilja hvert þeir sjálfstæðismenn eru að fara með stöðugum  vendingum sínum í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Nú á Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að sjái nú um fyrir Íslands hönd  um að semja hver framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar verður, þó það hafi nú aldrei verið þeirra hlutverk hingað til. Spurning hvort þeim detti ekki næst í hug að biðja þann sjóð að koma líka með lausn á kvótavandamálinu? Og jafnvel sjá um hverjir sitja á þinginu. Þá væru þeir búnir að ná að afhenda sjóðnum allt það fullveldi og sjálfstæði, sem þeir þó þykjast berjast fyrir.

Maður fer náttúrulega að skilja vel núna hvað það var sem rak þá sjálfstæðismenn upp í ræðustól alþingis í umræðum stjórnarskrárbreytingar sem auðveldað hefðu á allan hátt viðgangi lýðræðisins í landinu.

Auðvitað fer maður nú þegar sjálfstæðismenn hafa viðurkennt að það sem þeir samþykktu á landsþingi sínu nú nýverið var bara bull og della, og að áfram verði  ekki haldið nema að taka upp nýjan gjaldmiðil að velta fyrir sér  hversvegna þeir voru ekki tilbúnir til að auðvelda aðildarviðræður beint og milliliðalaust við Evrópusambandið.

Sjálfstæðismenn sem samþykktu á landsþingi sínu að til að hægt yrði að fara í aðildarviðræður um hugsanlegan samning að til þyrfti að kom tvöföld þjóðaratkvæðisgreiðsla, annars vegar hvort ræða eigi hlutinn,og svo hvort samþykkja eigi hlutinn eru í þessu máli langt úti á þekju og í engu sambandi við eðli samninga viðræðna. Það er eins og þeir hafi aldrei komið að slíkum viðræðum.

Fór að velta fyrir mér til að mynda samningaviðræðum á vinnumarkaði. Hvað yrði sagt, og hver halda menn að árangurinn yrði ef til að mynda launþegar færu í hvert skipti sem að launaviðræðum kemur ákveddu að greiða um það atkvæði hvort yfirleitt skyldi talað við vinnuveitendur, og öfugt. Þessi aðferðafræði myndi sennilega litlu skila, og tilgangurinn er náttúrulega enginn.

Það að dúkka upp með tillögu  sem þessa kortéri fyrir kosningar  til að reyna að klóra yfir þann skít sem þeir sjálfir grófu sig í á landsþingi sínu vekur mann óneitanlega til umhugsunar hvort þeir séu svo skyniskroppnir að prófa sömu aðferðafræðina tvisvar á skömmum tíma. Að reyna að ýta máli á aðila sem þeir vita að geta ekkert með það gert.

Það reyndu þeir síðast þegar Guðlaugur Þórðarson reyndi að fá ríkisendurskoðun til að staðfesta að hann væri heiðarlegur stjórnmálamaður, og þetta reyna þeir nú vitandi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur ekki að sér að semja um mál sem þetta fyrir einstakar þjóðir. Þessi tillaga er eins og búúmerrang sem kemur til baka og lentir á haus kastarans sem ekki veit hvernig slíkt verkfæri virkar.   

 

 


Kasper, Jesper, og Jónatan.

 

Bæjarstjórar þriggja bæjarfélaga, Vestmannaeyja, Ísafjarðar, og Snæfellsbæjar, hafa nú í morgun verið sendir út af örkinni af hræðsluáróðursdeild íhaldsins og skrifa grein um hugsanlegt afnám kvótakerfisins. Kerfis sem allir hafa verið sammála um að ekki er nein sátt um. Þeir segja að vinstri flokkarnir (sem nú eru orðnir Grýlan) hyggist hrinda í öllum þeim málum í framkvæmd sem þjóðin hafi mörgum sinnum hafnað. Telja upp atvinnuuppbyggingu í kringum orkufrekan iðnað sem eitt af þeim dæmum. Ekki eru þó liðnir nema örfáir klukkutímar síðan að fjárfestingasamningur um Álver í Helguvík var samþykktur eftir að Sjálfstæðismenn höfðu nær klúðrað því máli sökum málfundaræfinga án innihalds.

 

Þeir Kasper, Jesper, Jónatan sem allir tilheyra þeim flokki er nú hefur rekið heilt þjóðfélag í þrot kalla grein sína "Vinstri flokkarnir lofa að reka sjávaúteginn í þrot", og vitna til þeirrar umræðu um að nú væri tækifærið til að ríkið leysti til sín kvótann, í ljósi þeirrar staðreyndar að ríkið situr nú uppi með stóran hluta skulda útgerðarinnnr í gegnum bankanna.

 

Einhvern veginn fær fær maður á tilfinninguna að þessir kallar séu miklir menn og háir á velli sem kalli ekki allt ömmu sína þegar kemur að atvinnuþáttöku þeirra sjálfra. Að þetta séu mennirnir sem mættir eru niður í frystihús eldsnemma á morgnanna til að vinna í slori. Enda velja þeir að gera aðrar atvinnugreinar svo sem menningu og listir tortryggilegar eða lítilsvirði í saman burði við störf sín. En allt þetta þarf þó að vinna eigi að síður, svo hér megi þrífast blómslegt samfélag með áherslum á sem viðasta upplifun þegnanna.

 

En steinin tekur þó úr þegar kemur að millifyrirsögn í greininni þar sem þeir í anda einkaeignarstefnu Sjálfstæðisflokksins koma sér að því sem þeim er mest í huga og opinbera það grímulaust. Á að taka aflaheimildinar frá afkomendunum? Og  væla svo yfir þeirri skynsemlegu afstöðu landsfundar Samfylkingar að stefnt skuli að að aflaheimildir í núverandi fiskveiðistjórnunar kerfi skuli svo fljótt sem auðið er innkallaðar. Það skýrir kannski hversvegna flokkur þeirra gat ekki hugsað sér að sett yrði inn í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir þjóðarinnar skuli vera í þjóðareign. Það hentar ekki afkomendum íhaldsins sem heldur að auðlindin sé einum merkt.

 

Nú er ljóst að margar leiðir hafa verið ræddar hvað innköllunina, og að fyrningarleiðin er ein þeirra. Jafnframt er þeim ljóst er fylgst hafa með að menn hafa talað um og meira að segja gert sér grein fyrir að komi til slíkrar innköllunr verði það að gera í sátt aðila að svo miklu leyti sem það er unnt. Þar verður að taka tillit til þjóðarhagsmuna og að hér verði rekin útgerð áfram. Hræðsluáróður þeirra félaga sýnir svo ekki er um villst að í þeirra huga er alltaf bara um eina leið að velja og ekki borgi sig að hugsa um málamiðlanir sem geti komið öllum til góða. Þeir hugsa Flokkurinn fyrst og fólkið svo.

 


Þeim rennur blátt blóð í æðum.

 

Nú er senn komið að lokum þess þings er nú situr, minnihlutastjórn sem tók við fyrir í byrjun febrúar hefur haft nóg að gera við að þrífa upp eftir aðgerðaleysi og ákvörðunarfælni Sjálfstæðisflokksins. Mörg mikilvæg mál hafa send til afgreiðslu þingsins og þar á meðal breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins sem ætlað var meðal annars að gefa þegnunum möguleika á að hafa meira að segja um þau mál er brenna á þjóðinni hverju sinni. Og að tryggt væri að auðlindir þjóðarinnar yrðu ávallt í þjóðareign.

Sjálfstæðisflokkurinn fagnar nú sigri og segist hafa varið lýðræðið í landinu. Þeir fagna á torgum yfir að hagsmunir þeirra hafi verið teknir fram yfir þjóðarhagsmuni.Og hvað var það nú í þessum stjórnskipunarlögum sem fór svo fyrir brjóstið á hinum lýðræðissinnuðu verndurum stjórnarskrárinnar.

Það mátti náttúrulega alls ekki opna fyrir þann möguleika þjóðin gæti kosið um  þau mál er á brenna og haft áhrif á niðurstöðu þeirra til að mynda með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri slæmt ef hagsmunir flokksins færu ekki saman við hagsmuni þjóðarinnar.

Þeir eru einnig stoltir og kátir yfir því að hafa komið í veg fyrir að það skyldi skilgreint í stjórnarskrá að auðlindir þjóðarinnar skuli vera í þjóðareign. Segja að fræðimenn þeir sem þeir hafi leitað til geti ekki komið sér saman um um hugtakið þjóðareign. Skilst þó að börn í fyrsta bekk í grunnskóla hafi náð að tengja þessi orð saman þjóð og eign og fundið út að þetta þýði að þjóðin eigi þessa hlut sem um er rætt þegar þjóðareign ber á góma.

Já verndar lýðræðisins geta fagnað að hafa varið stjórnarskrána, sem að vísu við fengum að í arf frá danska konungsveldinu, þar sem aðalsmenn voru valdahafar á þeim tíma sem hún var samin. Því vilja Sjálfstæðismenn ekki breyta og telja að um æðar þeirra renni blátt blóð, og að þeir séu lénsherrar og aðalsmenn.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.