Skjótum ekki sendiboðann

 

Það var þungur kaleikur sem þingmönnum þeim er kosnir voru til setu í í þingmannanefnd alþingis var afhentur.  Þingmannanefndinni var ætlað það hlutverk að móta tillögur að viðbrögðum við niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar, jafnframt því sem þeim var ætlað að móta afstöðu til ábyrgðar ráðherra þeirra sem hlut áttu að máli. Út frá fyrirliggjandi gögnum, og með heimild til að afla nýrra gagna teldu þau þörf á.

Ljóst er að nefndinni var þröngur stakkur skorinn hvað ráðherraábyrgðina varðar, henni var gert að móta afstöðu um til málsóknar hvað það varðar. Og leggja til að þeim sem sekir sýndust yrði þá stefnt fyrir dóm samkvæmt gildandi lögum um landsdóm.

Sú umræða sem nú á sér stað um réttlæti eða sanngirni landsdómsins er í raun umræða sem hinir „reyndari þingmenn" hefðu átt að vera búnir að taka, og breyta teldu þeir þörf á því. Það er í hæsta lagi ósanngjarnt nú þegar niðurstaðan liggur fyrir að ætlast til að þingmannanefndin kæmist að annari niðurstöðu sökum þess að sumum þykja núverandi  lög  ósanngjörn. Um önnur  lög er ekki að ræða.

Það hefur  áreiðanlega ekki verið létt verk fyrir þingmennina að komast að sinni niðurstöðu. Séð í ljósi þess að í öllum tilfellum var um svonefnda „þungavigtarmenn" í  stjórnmálasögu landsins og flokkana að ræða. En að niðurstöðu komust þeir og þá niðurstöðu ber að virða. Sú niðurstaða var að vísu þrískipt. En ljóst að meirihluti nefndarinnar taldi ástæðu til viðbragða,  á meðan sjálfstæðismenn völdu að taka ekki afstöðu til ábyrgðar ráðherra sinna. Það var viðbúið.

Því miður virðist svo vera af gögnum málsins að  líkur eru  á að stefna  beri að minnsta kosti þremur ráðherrum fyrir landsdóm , til að fá úr því skorið hvort viðkomandi hafi rækt þær embættiskyldur sem þeir höfðu tekið að sér. Eða leynt gögnum þannig að staða þjóðarbúsins hafi ekki verið öðrum þeim ljós er að gátu komið.  Sú málsókn byggist á þeim lögum sem nú gilda.

Hversu sár eða ósanngjörn mönnum kann að finnast niðurstaða nefndarinnar mega menn ekki falla í þá gryfju að „skjóta sendiboðann".  Þingmannanefndin hefur unnið sitt verk samviskusamlega , og lagt fram tillögur til margháttaðra úrbóta.

Aldrei hefur verið mikilvægara en einmitt nú að við hefjum okkur upp úr hjólförum sérhagsmunanna og hugum að hagsmunum þjóðarinnar allrar. Það virðist hafa verið meginstef þingmannanefndarinnar. Fyrir það eigum við að þakka og fara að hennar tillögum svo sátt náist. Og áfram verði haldið í átt að sanngjörnu þjóðfélagi , þar sem ábyrgð allra er ljós. Líka ráðherrana og forystumanna flokkanna.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband