Fimmtudagur, 10. júlí 2008
Glitnir að selja í Fasteign ehf ?
Ég er einn þessara manna sem virðist vera haldinn þráhyggju á háu stigi, og hún lýsir sér til dæmis í því að alltaf fer ég inn á vef Reykjanesbæjar og fylgist með því sem þar er að gerast. Framan af þessu kjörtímabili fannst mér sem í mörgum málum sem afgreidd voru frá bæjarráði væri svolítið anað áfram og menn létu sig litlu skipta hver hagur bæjarins væri í hverju máli. Þar á ég við málefni Hitaveitu Suðurnesja, og mál Eignarhaldsfélagsins Fasteign. Allir hafa séð hvernig mál hafa þróast hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja , og enn ekki útséð hvernig hagur bæjarins verður tryggður þar, og hvað hitt málið varðar virðist flækjan verða stærri og stærri. Það er mál Fasteignar ehf.
Nú í morgun sá ég á vefnum að lá fyrir mál frá Glitni banka er varðaði fyrirhugaða sölu á hluta af hlut þeirra í Fasteign ehf. Auðvitað kom þetta mér svolítið á óvart, ef litið er til þeirrar röksemdarfærslu sem að baki stofnunar Fasteignar ehf lá, en þau voru einmitt þau að slíkt félag með Glitni að baki væru hæfari til að fjármagna verkefni sveitarfélaganna en þau sjálf. Fengju betri lánakjör. Það hefur ekki sýnt sig. Og nú virðist Glitnir vilja selja einhvern hlut af eign sinni í félaginu, til einhvers aðila sem tilbúinn er að kaupa. Það kemur ekki fram í fundargerð bæjarráðs, en einhverra hluta vegna læðist að manni sá grunur að einhvern veginn tengist þetta allt saman innan Glitnis?
Nú kemur ekki fram í fundargerðinni hvort erindi Glitnis hafi verið eingöngu að tilkynna um þessa hugsanlegu sölu , og láta þá reyna á hvort bærinn væri tilbúinn að nýta sér forkaupsrétt sinn að sínum hluta, en hinsvegar finnst mér frábært að sjá í annað sinn á skömmum tíma að menn eru byrjaðir að standa saman um að vernda hag bæjarins og afgreiða málin út frá hagsmunum hans. Hitt málið sem ég er að tala um er þegar bæjarráð nýverið hafnaði að taka þátt í hlutarfjáraukningu GGE. Svona eiga menn að vinna.
Mér finnst frábært að sjá að bæjarráð hefur samþykkt samhljóða tillögu Guðbrands Einarssonar um að fram fari úttekt óháðra aðila um hvort það sé hagur bæjarins að nýta þann forkaupsrétt sem fyrir hendi er og styrkja þannig stöðu bæjarins innan Fasteignar ehf ef það er hagur bæjarins. Hvor heldur niðurstaða hinna óháðu aðila verður kemur þá allavega í ljós hvort tímabært er að meta stöðu bæjarins og aðferðarfræði upp á nýtt eða hvort áfram skuli haldið á sömu braut. Þarna stigu menn gott skef fram á við, og ber að þakka mönnum fyrir víðsýnina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er allt hluti af pakkanum þegar Glitnir eignaðist stórann hluta í Eik fasteignafélagi og Smáralindinni. Þá var hluta þeirra í Fasteign og fleiri félögum skellt inn í Eik fasteignafélag
bleh (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 16:35
Bleh
Ég þakka þér fyrir þetta og sé að þegar ég fletti upp fasteignarfélaginu Eik, er fréttatilkynning frá 26.júní þar sem eignarhaldsfélagið Fasteign er orðið hluti af eignasafni Eikur. Það finnst mér nú svolítið skrýtið, þegar í sömu fréttatilkynningu er sagt frá að Glitnir hafi eingöngu sett inn 10% af sínum eignarhlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign. Og ekki liggur neitt fyrir í fundargerðum bæjarráðs eða bæjarstjórnar sem afsalar hlut bæjarins til Eikur. Þetta hlýtur bara að vera einhver misskilningur, nema ef svo er nú komið að þeir stjórnarmenn sem t.d sitja fyrir hönd Reykjanesbæjar í stjórn Fasteignar ehf viti ekki hvað er að gerast í því félagi. Allavega undirstrika þessar upplysingar að nauðsynlegt er að menn athugi hver staða bæjarins er út frá þessu.
Hannes Friðriksson , 10.7.2008 kl. 17:16
Fékk símtal þar sem þetta var útskýrt fyrir mér, og í raun það sem þarna er um að ræða er að Glitnir, er að vista hluta af sínu hlutafé þarna inn og það er allt skv reglum. En Bleh gaman væri þar sem þú virðist vita meira um málið að þú upplýstir mig kannski betur ef þú hefur möguleika á.
kveðja
Hannes Friðriksson , 10.7.2008 kl. 17:53
Sæll Hannes
Eins og þú veist hef ég ekki verið jafn andsnúinn Fasteign og þú. Ég skil auðvitað ekki hversvegna Glitnir er að draga sig út úr þessu samstarfi, nema að arðsemin af barnaskólabyggingum og sjúkrahúsbyggingum sé ekki nógu mikil?
Var það ekki líka þannig fyrir 2-3 árum að þegar einhver hagnaður myndaðist af félaginu, þá var leigan lækkuð. Það er ólíklegt að okkar "okurbankastofnanir" hafi áhuga á slíku samstarfi.
Kannski er bara fínt ef þeir draga sig þarna í hlé og þetta verði sameiginlegur samstarfsvettvangur sveitarfélaga varðandi rekstur á fasteignum þeirra. Hugsanlega skapaðist þá meiri sátt um málið. Á móti kemur auðvitað að reynsla bankastofnana við að útvega ódýrt fjármagn hefur hugsanlega eitthvað nýst þessu félagi. Slík reynsla ætt þó að vera komin inn í fyrirtækið auk þess, sem hægt er að kaupa rétta starfsmenn í slíka hluti úr bankakerfinu. Þeir hljóta nú að vera á lausu eftir að nokkur hundruð bankastarfsmanna hafa misst vinnuna.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 10.7.2008 kl. 23:36
Blessaður Guðbjörn
Nú held ég ég að ég verði aðeins að leiðrétta þig Guðbjörn. Ég hef ekki verið andsnúinn Fasteign á nokkurn hátt, en hinsvegar spurt spurninga, sem ég hef því miður ekki fengið svör við hingað til, en ljóst er að nú koma sennilega þau svör sem ég hef beðið eftir við það að menn fara yfir hvort það sé hagur bæjarins að kaupa þennan hlut.
Hugmyndafræðin sem í upphafi var góð og í raun eðlilegt að þessi tilraun var gerð, virðist því miður ekki hafa sýnt sig að hafa verið rétt, þar sem eftir því sem ég kemst næst hefur Fasteign aldrei á þessu tímabili tekið lán á betri kjörum en sveitarfélögunum sjálfum hefur boðist.
í mínum huga snýst þetta mál og þróun þess um að bæjarfélagið er í raun komið út í einhver viðskipti með húseignir sínar (sem eru fjöregg bæjarins) sem það í dag virðist ekki hafa fulla stjórn á.Það var aldrei meiningin með veru okkar í Fasteign Félagið er orðið markaðsvara og notað sem slíkt í markaðsæfingum, en hagur bæjarfélagsins virðist sitja á hakanum.
Þetta er nefnilega alls ekki spurning um hvort menn eru með eða á móti Fasteign, heldur fyrst og fremst hvort þetta sé skynsamlegt með hag bæjarins í huga til framtíðar.
Hannes Friðriksson , 11.7.2008 kl. 08:37
Sæll aftur
Mér hugnast það heldur ekki að menn séu í braski með barnaskólana og sundlaugarnar í mínu sveitarfélagi.
Mér sýnist samt að nú þegar 10 eða 11 sveitarfélög eru komin inn í hlutafélagið Fasteign, þá sé nú frekar ólíklegt að einhver banki eða fjárfestingarfélag fari að reyna að fara illa með viðskiptavini og stærstu hluthafana í félaginu.
Þannig gerast kaupin ekki á eyrinni, held ég að minnsta kosti.
Guðbjörn Guðbjörnsson, 12.7.2008 kl. 10:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.