Samstaðan skiptir máli.

Ég hélt í raun að pistill minn frá í fyrradag um vanda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja ætti ekki að verða tilefni til frekari skrifa um það mál, enda þess eðlis að um það væri algjör samstaða á Suðurnesjum.

Árni  Árnasson  sá þó ástæðu til að benda mér á að nauðsynlegt væri að að menn litu heildstætt á þetta mál, og beindi þá sjónum sínum að þeim rekstri og stjórnun á stofnunni,  sem hann skildi ekki og hvort verið gæti að þar lægi hluti ástæðunnar. Nú veit  ég svo sem ekki meira um það en hann hvort svo gæti verið, en sé að skv þeim tölulegu upplýsingum sem fyrir liggja virðist þó að minnsta kosti fjármálaleg stjórn þessarar stofnunar vera til eftirbreytni.  Hvort að hann telji að það sé fagleg stjórnun stofnunarinnar sem er ábótavant verður hann að svara sjálfur, á því hef ég ekki vit.

Það voru til að mynda stjórnendur þessarar stofnunar sem fær minnstu framlög á Íslandi á íbúa til heilbrigðismála, sem skv. fréttaflutningi af málinu hafa æ ofan í æ bent bæði alþingismönnum okkar og ráðherrum á þann vanda er að steðjaði. Það voru þeir sem voru tilbúnir til að loka t.d fyrir síðdegisvaktir og þar með draga úr þjónustunni til að markmið fjárlaganna næðu fram að ganga og stofnunin  yrði rekinn hallalaust.   Það fannst mér vera að sýna mikið hugrekki, enda virðist þessi tilkynning hafa þokað málinu áfram.

Auðvitað ber að fagna því að hugsanlega sjái til sólar í heilbrigðismálum okkar Suðurnesjamanna og þykist ég vita að þar hafi margir komið að málum og beitt þeim þrýstingi sem þeim hefur verið unnt. Það þýðir þó ekki að málið sé í höfn og einhverra hluta hef ég varann á og vil ekki fagna of snemma.

Eitt af því sem vakið hefur athygli mína í máli þessu, án þess þó að það hafi haldið fyrir mér vöku eru hve léttvæg viðbrögð sveitarstjórnarmanna hafa verið. Hingað til hafa aðeins tvö bæjarfélög sýnt þessu máli áhuga ef marka má þær umræður sem farið hafa fram í bæjarráðum , eða bæjarstjórnum  og færðar hafa verið til bókar. Það eru bæjarfélögin Garður og Vogar sem lýst hafa áhyggjum sínum  , auk þess sem Styrktarfélag Heilbrigðistofnunarinnar hefur ályktað um málið. Aðrir  hafa þagað og sennilega talið að þetta væri eitt þeirra mála sem sveitarstjórnir ættu ekki að álykta um .

Þegar vandi steðjar að slíkum stofnunum, vandi sem greinilega er til orðinn vegna óréttlátrar misskiptingar er það einmitt hlutverk sveitarstjórna að álykta og veita þeim stofnunum þann stuðning sem nauðsynlegur er  til að breyta málum. Til þess eru sveitarstjórnarmenn kjörnir að gæta hagsmuna samfélagsins, og láta í sér heyra telji þeir á samfélagið hallað. Þar gildir samstaðan. Í þessu máli tel ég hana hafa skort.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Árnason

Sæll Hannes, ég sé að þú ert að misskilja mig. Þú ert greinilega að taka því sem ég sagði eins og ég hafi enga trú á stjórnendum HSS og ég sé að ýta vandamálinu yfir á þá. Það er bara alls ekki rétt, ég ber fullt traust til stjórnendur HSS og ég veit allt um þessar tölur sem þú leggur fram, ég hef setið fyrirlestur Þórunnar Ben. hjúkrunarforstjóra og eiginkonu þinnar. Fyrirlesturinn var fræðandi enda Þórunn virkilega hæf í sínu starfi. Fyrirlesturinn var líka sláandi, þar að segja þessar tölur og löngu tímabært að fara yfir fjárveitingar til HSS. Ég velti því fram að nú hefur HSS fengið aukafjárveitingu til að rétta af reksturinn, en stofnunin rekin með halla ár eftir ár. Er eitthvað að því að ég velt því fram að málið væri skoðað heilstætt ?  Ég er áhugamaður um góða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og hef fylgst vel með þessum málum en mér finnst samt eins og þú sendir mér tóninn með þessu "Árni minn" eins og ég sé að blaðra út í loftið án þess að vita hvað ég sé að segja, kannki er ég að misskilja þig líkt og þú mistúlkaðir mín orð.

Árni Árnason, 14.8.2008 kl. 16:33

2 Smámynd: Hannes Friðriksson

Árni (minn) Blessaður

Já það er alveg rétt hjá þér að þú ert að misskilja eitthvað með þetta “minn”, það setti ég eingöngu vegna fyrri kynna og jafnframt til að sýna að ég kann vel við þig.

 

Eitt er það sem mér finnst undarlegt í þessu svari þínu, svari við bloggi sem ég  hef reynt að setja fram á málefnalegan hátt, er að draga inn í umræðuna persónu, sem okkur báðum þykir þó vænt. Hver tilgangurinn er með því á ég erfitt með að skila, nema að þú sért að syna fram á hugsanleg tengsl mín við stofnunina.

 

Það er rétt hjá þér að Þórunn Benediktsdóttir er eiginkona mín, og oft tölum við um málefni HSS þegar að erli dags lýkur. Báðum þykir okkur vænt um þessa stofnun, enda vann Þórunn þar þegar við kynntumst. Það var mín mesta gæfa.

 

Hitt er svo annað mál og raunar það sem við eigum að vera að ræða hér og það er meintur misskilningur minn á athugasemdum þeim er þú skrifaðir við blogg mitt frá í fyrradag, og læt ég athugasemdina fylgja hér með til þess að þar fari nú ekkert á milli mála"

 

"Auðvitað er staðan ekki skemmtileg hjá HSS, en ég hef fulla trú á því að Guðlaugur og hans fólk í heilbrigðisráðuneytinu er að fara yfir málin og vona ég til að með aukafjárlögum í haust verði glaðningur handa HSS. En ég bara skil ekki alveg reksturinn hjá stofnuninni og velti fyrir mér hvort ekki þurfi að leggjast yfir reksturinn og skipuleggja upp á nýtt. Við vitum það báðir Hannes að skuldir stofnunarinnar voru nýlega þurrkaðar út ! Samt er stofnunin í vanda ! Það þarf að skoða málið heilstætt frá öllum hliðum málsins"

Hér er varla nokkuð sem hægt er að misskilja, eða hvað finnst þér?

 

Þú vonar að í aukafjárlögum haustsins verði einhver glaðningur til handa HSS, það hef ég ekki misskilið og deili þeirri von með þér.

 

Þú skilur ekki rekstur stofnunarinnar og veltir fyri þér hvort ekki sé rétt að leggjast yfir rekstur stofnunarinnar og skipuleggja hana upp á nýtt!

 

Eins og ég hef skilið málið  voru stjórnendur HSS einmitt að enduskipuleggja starfsemina þegar þeir tilkynntu í síðasta mánuði að loka þyrfti síðdegisvakt þeirri er þó hefur mælst vel fyrir meðal notenda þjónustunnar. Það skilst mér að þurft hafi að gera til þess að uppfylla þá kröfu að rekstur þessarar stofnunar yrði innan þess fjárramma er henni er ætlaður. Og er það ekki einmitt viðurkenning á því vandamáli er stofnunin á við að etja að ráðuneytið hefur að mér skilst fallist á að fara yfir fjárveitingar til stofnunarinnar?

 

Og hvers vegna skyldu nú skuldir stofnunarinnar hafa verið þurrkaðar út? Er það kannski af einskærri góðmennsku? Og að lokum Árni (minn) hversvegna skyldi nú stofnunin aftur vera komin í vanda? Breyttust eitthvað fjárveitingarnar eftir að meintar skuldir voru þurrkaðar út? Spyr sá sem ekki veit.

 

Auðvitað er það fáránlegt að við tveir, sem án efa innst inni sammála um þetta mál allt saman skulum þurfa að vera að karpa um þennan hlut. Hér eigum við frekar að taka höndum saman og berjast fyrir því að mál þetta fái farsælan endi samfélaginu til heill, þú með þann aðgang að fjölmiðlum sem þú hefur og ég með mínu bloggi.

 

Hannes Friðriksson , 15.8.2008 kl. 00:41

3 Smámynd: Árni Árnason

blessaður Hannes, ég var nú ekki að draga Þórunni vinkonu mína inn í þetta með leiðilegum hætti, vildi bara benda á að ég sé vel inn í þessum tölum eftir að hafa fengið upplýsingar hjá traustum yfirmanni stofnunarinnar, sem jú mér finnst vænt um (bið að heilsa þessari elsku). Auðvitað þurfa Suðurnesjamenn að standa saman um hagsmuni okkar. Þú talar um að aðeins tvö sveitarfélög hafi sýnt málinu stuðning með bókunum, það er hægt að vinna í máli sem þessu með öðrum hætti en bókununm og ég bendi þér á að stjórn Sambands Sveitarfélaga sendu nokkra fulltrúa á fund heilbrigðisráðherra um málið og að honum loknum voru menn bjartsýnir á að lausn væri í sjónmáli. Einn af þeim sem fóru á fund ráðherra var Garðar Vilhjálmsson bæjarfulltrúi Reykjanesbæjar. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur ekki bókað en sent sinn fulltrúa á fund ráðherra, það er nú eitthvað líka, allavega að mínu mati.  En með þessu höfum við nú séð til þess að ég mun fá enn betri kynningu á HSS næstkomandi mánudag sem er bara frábært og að sjálfsögðu við ég standa vörð um HSS en munurinn á mér og þér hér Hannes minn, er að ég er bjartsýnn á lausn vandans. Ég hef sagt mitt síðasta hérna um þetta mál.

Árni Árnason, 15.8.2008 kl. 02:21

4 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaðu Árni

Það er nú gott að loksins komi það fram einhvers staðar að verið sé að vinna í þessu máli af hálfu Bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, því flest höfum við haft á tilfinningunni að þar væri ekkert að gerast. það er í sjálfu sér ekki neinn sjáanlegur stuðningur við málefnið að einn bæjarfulltrúi fari á fund og enginn viti neitt um það. Fólkið sem kaus ætlast nefnilega líka til að það verrði upplýst um gang mála , og það er kannski það sem ég og margir aðrir höfum saknað í þessari umræðu.  Og samfagna þér um þessa kynningu sem þú talar þarna um. Báðir erum við nú samt greinilega bjartsýnir um lausn þessa máls, en sumir greinilega bláeigðari en aðrir.  Punktur

Hannes Friðriksson , 15.8.2008 kl. 09:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband