Er glasið hálffullt eða hálftómt?

 Mér datt í hug þessi spurning í morgun er ég sá umfjöllun Víkurfrétta um Ársreikning bæjarsjóðs Reykjanesbæjar fyrir árið 2007. Spurning þessi hefur löngum þótt vera góður mælikvarði á hvort menn eru jákvæðir eða neikvæðir til ýmissa mála.  Svör Böðvars Jónssonar í þessari umræðu er óhætt að túlka sem svar hins jákvæða manns, sem velur að glasið sé hálffullt, er hann segir að það eina sem skipti máli sé sú niðurstaða að ársreikningarnir sýni hagnað upp á 2,5 milljarða.  Auðvitað skiptir þó líka máli að rekstrarreikningur bæjarsjóðs sýnir að undanfarin sex ár hefur hann ekki verið rekinn með hagnaði, heldur tapi upp á rúma 2,5 milljarða, en á það minnist Böðvar þó ekki.

Hann heldur áfram og  segir umræðu minnihlutans alltaf vera með sama hætti hvað varðaði umræður um ársreikninga bæjarins. Endalausar vangaveltur um hvort,  og í raun sömu vangaveltur sem minnihlutinn kemur með ár eftir ár. Þar velur hann að líta svo á að glasið sé hálftómt.

Sjálfur hef ég undanfarið verið í þeirri stöðu að spyrja sjálfan mig þessarar spurningar þegar kemur að þeim málum er ég hef látið mig varða hvað stjórn meirihlutans varðaði. Eg hef reynt að líta á þá miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað sem jákvæðan hlut, og í raun dáðst að því hugrekki sem núverandi meirihluti hefur sýnt við þann hluta  stjórnar bæjarins. Þar hefur mér þótt glasið hálffullt.

En, svo á móti þegar kemur að rökrænni umræðu um hin ýmsu mál sveitarfélagsins hefur mér hinsvegar þótt glasið velta gersamlega á hliðina og allt leka úr því, hvað varðar rökræna umræðu meirihlutans um málefni sveitarfélagsins. Einhverra hluta vegna, sem ég skil ekki, enda allar umræður um málefnin á því að minnihlutinn sé bara neikvæður og útilokað að hann sé að leggja eitthvað vitrænt til málanna.

Nú er það svo að öll viljum við sveitarfélagi okkar vel, menn eru í sveitarstjórnarmálum af hugsjón og sumir vonandi af ástríðu. Þær leiðir sem menn vilja fara eru mismunandi og það ber að virða. Það þýðir ekki að þær séu ekki jafnréttar eða réttari þótt áherslurnar séu aðrar.  

Minnihluti á hverjum tíma er ekki þar til þess að samþykkja hvert það mál er meirihlutinn vill koma fram, heldur til þess að veita aðhald og benda hugsanlega á aðrar leiðir. Það finnst mér þessi minnihluti hafa gert, og jafnvel hefði verið mjög skynsamlegt af núverandi meirihluta að hlusta á þá rödd í mörgum þeim málum sem þeir hafa farið í og nægir mér þar að nefna t.d málefni Hitaveitu Suðurnesja og síðast málefni Fasteignar sem nú er komið í það mikið þrot að þar verður Fasteign að biðja fyrst sveitarfélögin um að fá lán, til að lána svo Fasteign svo Fasteign geti svo staðið undir þeim skuldbindingum sem sveitarfélögin eiga að láta af hendi lögum samkvæmt. Hversslags eiginlega hringavitleysa er þetta orðin.

 Ég get ekki betur séð en flestar þær bókanir sem minnihlutinn hefur látið frá sér fara bæði um þessi mál og svo um fjárhagsstöðu bæjarins, séu fullkomlega studd með góðum og gildum rökum, og í stað þess að henda þeim frá sér sem neikvæðum eiga menn að hafa þann þroska og vit til að hlusta á rökin og ræða. Þá væri möguleiki á að rekstur bæjarins færi að  skila einhverjum smáhagnaði í nánustu framtíð. Þá fyrst geta menn sagt að glasið sé hálffullt, og jafnvel á leið með að fyllast. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvorugt. Glasið er helmingi of stórt.

Sverrir (IP-tala skráð) 22.5.2008 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband