Og nú ætlar stærsti strákurinn í sandkassanum að ráða.

 

Umræður um málefni Kölku sorpeyðingarstöð okkar Suðurnesjamanna virðast þegar litið er til fréttaflutnings frá bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar vera að taka nýja stefnu, og menn vera tilbúnir til að rifta núverandi samstarfi sveitarfélaganna. Telja að það sé nauðsynlegt til að Reykjanesbær hafi þau völd í stjórn Kölku í samræmi við stærð og íbúafjölda. Hér finnst mér mikið lagt undir, að nauðsynjalausu.

Kalka er samstarfsverkefni sveitarfélaganna sem vinnur út frá samfélagslegri þörf sveitarfélaganna hvað varðar losun og frágang á því sorpi sem til fellur á svæðinu. Fyrirtækið sem upphaflega er stofnað sem samlagsverkefni með stjórnarsetu allra sveitarfélaganna út frá þeirri þörf sem við blasti, þörf sem allir eru sammála um að verði best leyst með samstarfi út frá sameiginlegum hagsmunum og hvert bæjarfélag hafði þar atkvæði í stjórn.

Undanfarin ár hafa menn unnið að breyttu rekstarformi þessa félags, og hafa þar horft til þessa að skynsamlegt væri að hlutavæða þetta félag sem áður var rekið sem byggðasamlag. Þar hafa menn séð aukin sóknartækifæri fyrir félagið, sem með slíkri breytingu væri gert að fara í samkeppnisrekstur kæmi sú staða upp. Jafnframt myndi slík breyting hafa í för með sér að hægt væri að endurmeta hlut hvers sveitarfélags og eignarfæra þann hlut sem hvert sveitarfálag á nú í Kölku. Breytingar sem yrðu félaginu til bóta. Öllum hefur þó verið ljóst undir því ferli sem unnið hefur verið, að nauðsynlegt væri að Kalka yrði áfram rekið sem samfélagslegt verkefni og allir þyrftu að eiga þarna að komu að.

Nú á endaspretti þessarar sameiningar virðist svo vera að Reykjanesbær hafi sett fram kröfu að félag þetta yrði rekið sem hvert annað hlutafélag, og vægi atkvæða í stjórn út frá fjölda íbúa í hverju byggðarlagi. Og þau sem minni eru verða að lúta hverjir hagsmunir Reykjanesbæjar eru í þessu tilfelli.

Það sem áður var samfélagslegt verkefni sveitarfélaganna með aðkomu allra, kemur nú til með að lúta að  hverjir hagsmunir Reykjanesbæjar eru hverju sinni. Skiljanleg afstaða hjá bæjarfulltrúum Reykjanesbæjar væri hér  eingöngu um hagsmuni þess bæjarfélags að ræða og ljóst að þessi ráðstöfun hentaði hagsmunum íbúanna best , en jafn óskiljanleg í ljósi þess að félag þetta hefur hingað til verið rekið sem samfélagslegt verkefni bæjanna allra. Þeim sem minni eru er gert að hlýða þeim stóru. Stærsti strákurinn í sandkassanum ætlar að ráða.

Grindvíkingar riðu á vaðið með bókun þar sem þeir vildu ekki una þessu, og nú í kjölfarið hafa Vogamenn tilkynnt að þeir ætli að athuga aðrar leiðir.

Bókun bæjarráðs Reykjanesbæjar er á þann veg að þar á bæ hyggjast menn ekki gefa sig, og bæta við í lok bókunarinnar að þeir hyggist yfirtaka reksturinn í samstarfi við aðila sem kynnu að hafa á því áhuga.

Er hér nýtt Hitaveituævintýri á ferðinni þar sem rekstraraðilinn er fundinn, og vantar bara að kynna hann til leiks?  Á að einkavæða Kölku? Eða hefur Reykjanesbæjar burði til að kaupa hina aðilana út úr rekstrinum, án þess að ljóst sé hvort þeir hinir sömu komi til með að nýta þjónustuna á eftir. Væri nú ekki nær fyrir þá sem að þessu máli vinna að horfa á hagsmuni allra og sjá hvort ekki er hægt að ræða  málin, áður en allt samstarf sveitarfélaganna á svæðinu hefur endanlega verið eyðilagt til nánustu framtíðar.


"Where ever you hang your hat , that`s your home"

 

Allt á að vera eins og Framsókn vill, hvort sem það komi þjóð eða Alþingi til góða. Þeir hafa nú gefið út að þeir hyggist ekki styðja þingályktunartillögu um að hefja aðildarviðræður við ESB, og þeir muni alls ekki hreyfa sig úr þingflokksherberginu sem þeim er orðið svo kært. Þetta virðist allt saman snúast í kringum þá. Halda þeir.

Þeir virðast hafa tekið stefnu hins þvermóðskufulla þurs sem vill að engu sé breytt, eða að ekki sé hægt að breyta. Það virðist vera þeirra skoðun að þeir einir séu þess umkomnir að að meta hvað vega og meta hvort það sé þjóðinni fyrir bestu hvort farið sé inn í ESB, og alls ekki vera að blanda þjóðinni neitt í þá umræðu. Alls ekki að blanda þjóðinni í málið, því þá gæti jafnvel komið önnur niðurstaða en þeim er þóknanleg.

Þeir eru svolítð fastheldnir á sitt blessaðir, og virðast ekki átta sig á að þeim hefur aldrei verið gefið þingflokksherbergið, þeir fengu það til afnota á sínu tíma í krafti þeirrar stærðar sem þingflokkurinn var þá, en hann hefur minnkað. Og aðrir stækkað. Þess vegna er þeim nú gert að flytja sig um set í minna herbergi.

"Where ever you hang your hat , that`s your home" stendur einhvers staðar og flestum hefur tekist ágætlega að aðlaga sig þótt þeir þeir hafi þurft að flytja sig um skamman eða langan veg. Aðlagast þeirri stöðu sem á hverjum tíma er. Það er merki ákveðins styrkleika. Framsóknarflokkurinn virðist nú vera svo veikur að hann getur ekki einu sinni flutt á milli herbergja, og umhverfið verður hið sama. Það eru önnur og stærri vandamál sem bíða þessarrar þjóðar heldur en að vera að hlusta vælið í Framsóknarfokki sem missir stoltið og sjálfsvirðinguna  við að færa sig um set. Flestir hafa tekist á við stærri vandamál en það.


Það sem skiptir máli!

 

"Það sem skiptir máli" var yfirskrift fundar bæjarstjórans í Reykjanesbæ með íbúum, sem ég fór á í gær. Fór til að kynna mér málið, og kannski mest til að forðast óþarfa skítapósta eins og ég fékk frá bæjarstjóranum í fyrra þegar ég valdi að vera heima.

Það er óhætt að segja að stemmningin hafi verið svolítið önnur á þessum fundi bæjarstjórans í gær, en á fundi bæjarstjórnar kvöldið áður sem ég einnig sótti til þess fylgjast með umræðum um það sem ég taldi skipta máli. Á fundi bæjarstjórnar var það fjárhagsstaða bæjarins sem tók þann fund, og greinilegt að minnihlutinn tók stöðuna alvarlega, enda bærinn á hvínandi hausnum eins fram kom þar. Meirihlutinn lagði hinsvegar áherslu á frábæra framgöngu sína, sem fyrst og fremst fólst í því að þeir skiluðu árásuppgjöri á réttum tíma, burtséð frá þeirri niðurstöðu sem það sýndi. Það vildu þeir helst ekki ræða of mikið.

Á fundi bæjarstjórans með íbúum var glærusýning að hætti útrásarvíkinganna, með sprungnum blöðrum og loftbelgjum.Hlaupið á ógnarhraða yfir þær glærur sem innihéldu upplýsingar um fjárhagsstöðu, dvalið svolítið við göngustíga og gangstéttarhellur, blöðrusýningar.  Blöðrurnar áttu að sýna svo ekki varð um villst að ekki væru nú öll eggin sett í sömu körfuna. Og það er rétt hjá bæjarstjóra að svo er ekki ef marka má þær upptalningar sem í kjölfarið komu. Hér verður allt orðið miklu betra en í Kópavogi strax í haust og 3000 störf fyrirsjáanleg, og fór sú tala  hækkandi eftir því sem leið á fundinn. Þó ég skyldi að vísu aldrei hvernig sú glæra sem hann vitnaði til og sýndi 400 og 1100 störf gæti orðið að 3000. Sjálfur gat ég bara séð 1500 út úr því. Og endað fyrir fundarhlé með glæru um stærsta vandamálið sem við bæjarbúum blasir og það er hundaskítur á göngustígum, og hvernig hægt væri að lýsa það mál. Fór mikill tími í þann hluta þegar kom að fyrirspurnum.

Já það er ekki sama hvernig svona fundir eru settir upp, og óhætt að segja bæjarstjóranum til hróss að sýningin hafi verið flott, þó innihaldið hafi kannski ekki verið mikið. Enda kannski ekki til ætlast. Það er allt í fína lagi í bænum, þó auðvitað verði menn að leggja mikið á sig til að uppræta þennan ófögnuð með göngustígana.

Einn fundarmaður kom þó með eitthvað bitastætt og spennandi inn í umræðuna, verst að hafa ekki náð nafni þess manns en hann kom einmitt inn á einn af þeim hlutum sem mér finnst skipta máli núna, ráðdeild og útjónarsemi. Hann lagði til að í stað þess að allt það timbur sem fellur til á sorpeyðingarstöðinni væri brennt og eyðilagt yrði þar ráðin maður sem sorteraði timbrið og tæki frá það sem nýtilegt væri og það selt gegn vægu verði. Það fannst mér frábær hugmynd. Og að trjáafgangar sem þangað kæmu yrðu kurlaðir niður og nýtti í stígagerð og annað slíkt. Spurning hvort þetta sé ekki einmitt maðurinn sem okkur vantar til að reka sorpeyðingarstöðina, og jafnvel bæinn líka. Maður með útsjónarsemi og sparnað að leiðarljósi. Það held ég að skipti máli.

 


Að byggja penthouse án þess að byggja grunn eða hæð fyrir neðan.

 

Forstjóri stólpípuverksmiðjunnar á Keflavíkurflugvelli vill ekki munnhöggvast við landlækni  um hvort læknum beri að taka blóðprufur fyrir skjólstæðinga verksmiðjunnar, svo fyllsta öryggis sé gætt við meðferðina. Hún kippir þeim lið út og heldur áfram að dæla laxerolíu í liðið.

Stólpípuverksmiðjunni finnst sjálfsagt og eðlilegt að læknar í vinnu hjá ríkinu taki blóðprufur úr skjólstæðingum verksmiðjunnar, og að ríkið greiði fyrir rannsóknir og niðurstöðu slíkrar blóðprufu. Sjúklingurinn greiðir komugjald, en ríkið rest. Því slíkar rannsóknir eru ekki ókeypis.

Einkavæðingarguttarnir í Reykjanesbæ gera nú nánast hvað sem er til til að koma í gang slíkum furðuverkefnum sem ætlað er að efla atvinnulífið hér á Suðurnesjum, en virðast hafa einhver sérstök tök að byrja stöðugt á vitlausum enda. Heilsufélag bæjarstjórans er eitt þessara verkefna sem virðast vera meira í ætt við glæsilega glærusýningu útrásargutta frekar en raunhæft eða skynsamlegt dæmi um uppbyggingu.

Það er ljóst af viðbrögðum landlæknis að starfsemi stólpípuverksmiðjunnar er ekki í anda þeirrar heilbrigðisstefnu sem ríkið stendur fyrir, og jafnframt ljóst fyrirtækið sem nú laxerar landsmenn hefur ekki þær forsendur á bak við sig sem til slíkra stofnana ætti að gera.Þar virðist meira vera treyst á guð og gæfuna en raunverulegt öryggi þeirra skjólstæðinga sem til verksmiðjunnar leita. Og ríkinu gert að taka við ef illa fer.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér í kjölfar viðbragða landlæknis við blóðprufuþætti þessa máls, hvort regluverk okkar hvað varðar heilbrigðisþjónustu sé svo slakt að hver sem geti sett upp slíka verksmiðju, án þess að leyfi sé veitt til slíkrar starfsemi. Hvort öllum sé það heimilt að fást við heilsu manna, án tillits til hver það verði sem ábyrgðina beri að lokum, fari illa. Er ekki frumatriði að slík verksmiðja geti og hafi leyfi til að taka blóðprufur og geti einnig rannsakað þær án þess að skattgreiðendum sé gert að greiða fyrir það. Þarna virðast menn vera byrjaðir að byggja penthouse án þess að hafa þó byggt neina hæð fyrir neðan, né heldur grunn svo allt velti nú ekki um koll geri vont veður eða aðstæður breytast.

 


Engu að breyta?

 

Bjarni Benediktsson gerði  fyrirhugaða fyrningarleið í sjávarútvegi að umtalsefni í eldhúsdagsumræðum á alþingi í gærkvöldi, og sagði eitthvað á þá leið að ekki mætti líta á alla þá er ekki gætu samþykkt þá leið sem málpípur útvegsmanna. Þar er ég honum sammála, því ljóst er að fleiri leiðir eru að markinu og þær ber að ræða. Eingöngu þannig næst sátt um málefnið.

En til þess að sátt náist verður að vera sáttarhugur fyrir hendi, Jóhanna Sigurðardóttir hefur sýnt þann hug og sagt að þetta yrði að vinnast í sátt meðal aðila, það væri ekki meining þessarar ríkistjórnar að setja hér allt á annan endann að ástæðulausu. Meirihluti þjóðarinnar væri sammála um að kvótinn yrði í eign þjóðarinnar, og að því marki bæri að stefna.

Friðrik J Arngrímsson er ekki sama sinnis ef marka má ummæli hans í Fréttablaðinu í dag. Kvótinn skal vera eign þeirra sem nú hafa keypt veiðiheimildirnar, sama hvað tautar og raular, og hann sem varðhundur útgerðarmanna gefur sig hvergi. Segir allar hugmyndir Jóhönnu Sigurðardóttur vera tálsýn eina þegar hún dregur fram að Ísland skuli stefnan að því að verða leiðandi í mótun og stjórn sjávarútvegsstefnu ESB. Verðugt og hátt markmið myndu sumir segja, en framkvæmdastjóri LÍÚ sér bara dauða og djöful framundan. Hann vill ekki breytingar á einu eða neinu, og er til viðræðu um það.

Eitt er að verja hagsmuni, og auðvelt að verja þá sem eðlilegir geta talist. Kvótakerfið er ekki eitt þeirra sem eðlilegt getur talist, enda þjóðin ekki verið sammála sjónarmiðum LÍÚ undanfarna áratugi.Mannréttindadómstóllin hefur dæmt í málinu og er sammála meirihluta þjóðarinnar. Mál þetta þarf að leysa, og það þarf að fara að gerast svo sjávarútvegurinn fái búið við eðlileg rekstrarskilyrði. Að hægt sé að sjá fram í tímann hvað verður.

Afstaða forráðamanna LÍÚ, er í raun eini hlekkurinn sem hindrar lausnina. Þeir vilja enga lausn heldur hafa allt eins og var. Og í þeirra huga eru allar breytingar sem snúa að markmiðum og leiðum aðför að greininni. Þeir verða að breyta hugarfari sínu og opna upp fyrir umræður um málið svo lausn finnist. Og kom jafnvel með hugmyndir um í hverju lausnin gæti falist.  Því annars gætu þeir setið uppi með fyrningarleiðina óbreytta, því enginn fær að að vita hvaða leiðir þeir sjá til lausnar vandans. Vanda sem þeir eru aðilar að og leysist ekki án þeirra aðkomu. Þeir þurfa eins og aðrir að liðka til.


Kannski ætti ríkið að yfirtaka fleiri?

 

Frúin vill halda því fram að eitthvað alvarlegt sé að gerast með sálarlífið hjá mér, ég sé byrjaður að tala við þröstinn sem á morgnanna tyllir sér  á hæsta tréð í þeirri fullvissu sinni að hann sé flottasti þrösturinn í hverfinu. Eins og það sé ekki nóg að ég tali við þröstinn heldur þykist ég nú skilja hann líka. Nei þetta veit ekki á gott.

Þrestir njóta þess frelsi að geta flögrað um og virða fyrir sér mannlífið, og fylgjast með hvað er að gerast. Og breiða út boðskapinn sé hann einhver. Það gera blöðin og fréttamiðlarnir líka þó með öðrum hætti sé.

Sá rétt í þessu frétt um að nú hefðu ríkisbankarnir tekið yfir hlut í í Icelandair Group og skammt sé í yfirtöku á á fleiri hlutum í því félagi. Þá komi félagið til með að lúta stjórn ríkisins.

Nú hefur í alllangan tíma verið ljóst að mörg félög og fyrirtæki eru í raun gjaldþrota, og ríkið neyðst til að taka yfir rekstur sumra þeirra til að tryggja rekstur þeirra. Og skiljanlegt að svo sé gert eins og í tilfelli Icelandair. Þar er atvinnutækifæri undir og því nauðsynlegt að bregðast við til að tryggja reksturinn tímabundið. Það skil ég.

Mörg fyrirtæki urðu til undir hatti einkavæðingarinnar, og er það sammerkt að þau eru nú flest komin að fótum fram. Og nauðsynlegt að annað hvort láta þau fara í þrot, með tilheyrandi afleiðingum, eða bjarga því sem bjargað verður. Ljóst hefur verið all lengi að eitt þeirra fyrirtækja sem nú er undir náð ríkisbankanna komið er Geysir Green Energy. Fyrirtæki sem stofnað var af útrásarvíkingum til að einkavæða orkufyrirtæki þjóðarinnar. Nú tilkynna þeir reglulega að erlendir fjárfestar séu tilbúnir til að kaupa hlut í því fyrirtæki. Aðkoma einkafjárfestanna hefur ekki bætt eða breytt rekstri Hitaveitu Suðurnesja til góðs hvorki fyrir ríki eða notendur þjónustunnar.

Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að nú séu það hagsmunir þeirra víkinga er hleyptu málinu af stað sem staðið sé nú vörð um. Frekar en að menn líti yfir farin veg og athugi hvort stefnan hafi verið rétt. Hvort það sé virkilega meiningin að sökum þeirrar stöðu sem nú er uppi verði þau fyrirtæki sem áður voru Hitaveita Suðurnesja fljótlega  komin í helmingseign erlendra aðila. Því í það stefnir ef ekkert verður að gert.

Það væri hreint ekki galið á meðan menn eru að átta sig á stöðunni að ríkisbankarnir sem eiga nú skuldir GGE íhugi að yfirtaka rekstur þess félags á meðan menn átta sig á hvað sé hagkvæmt og skynsamlegt fyrir þjóðarhag til framtíðar. Og taki ákvörðun út frá því, en láti ekki hugmyndafræði fárra útrásarvíkinga og meðreiðarsveina þeirra ráða örlögum þessa fyrirtækis.

 


Bara að brosa og þá verður allt í lagi.

 

Ekkert er jafn gott og vakna glaður og hress að morgni fá sé kaffibolla , og sjá hvernig laufin eru að springa út á trjánum, garðurinn að lifna og sumarið framundan. Það á eflaust eftir að vera glaðasólskin hér í Reykjanesbæ í allt sumar, nema það rigni. Sem það eflaust gerir einhverja daga. En hafi maður sól í hjarta og bros á vörum mun meira að segja skuldastaða mín og bæjarsjóðs batna og allt vera komið í gott lag í haust. Nema maður verði neikvæður, og ímyndi sér að fjárhagsstaðan ráðist ekki af skapferli eða jákvæðum eiginleikum mínum.

 

Bæjarstjóri Reykjanesbæjar sem nú heldur íbúafundi þar sem helst er rætt um hluti eins hraðahindranir og gallaðar gangstéttarhellur svarar grein oddvita minnihlutans frá 11. maí nú í  í morgun. Og gerir það á þann hátt að ekki verður séð að hann sé að svara þeirri grein sem hann vísar til. Grein sem fjallaði um fjármál bæjarins, en ekki spurningunni um hvort bjartsýni eða andstöðuleysi gæti breytt gengi íslensku krónunar og þar með hag bæjarsjóðs. Kannski er þetta ný hagfræðikenning bæjarstjórans sem hingað kom og seldi obban af eigum bæjarins, og iðrast þess nú að hafa ekki selt þær allar.

 

Bæjarstjórinn gerir að umtalsefni og útgangspunkti í grein sinn að oddvitinn hafi í sinni grein  aðallega verið að gagnrýna skýringar um HS. Við lestur greinar oddvitans verður þó ekki betur séð, (nema ég sé þá að lesa einhverja enn aðra grein en bæjaratjórinn vísar til ) dragi hann athyglina frá skýringum um HS, og leiði athyglina að reikningum bæjasjóðs sem sýna hvernig til hefur tekist með rekstur bæjarsjóðs undir stjórn Árna Sigfússonar. Af þeim reikningum verður því miður ekki annað séð en að sá rekstur hafi skilað tapi upp á 3,6 milljarða þrátt fyrir sölu nánast allra eigna bæjarins. En smá bjartsýni getur breytt viðhorfinu til tapsins, þó tölurnar verði þær sömu.

 

Bæjarstjórinn rekur stöðuna á sinn hátt eins og svo oft áður, og bjartsýnihagfræðikenning hans nær nýjum hæðum í þeim útskýringum sem hann gefur. Og erfitt að átta sig á samhengi hlutanna. Hann gefur í skyn að samtala samtæðureikninga bæjarins sýni að hér sé allt og hafi verið í himnalagi. Bæjarsjóður hafi þvert ofan í það sem oddvitinn segir skilað rúmlega 1. milljarðs króna hagnaði á þeim tíma er hann hefur stjórnað  , og samstæðan um það bil 2. milljarða afgangi, en allskonar ytri aðstæður hafi orðið til þessa að þessi jákvæða og sterka staða sé nú neikvæð um rúmlega 8.milljarða.Eitthvað finnst mér vanta upp á  svo þetta gangi nú upp.

 

Hann gefur í skyn að Samfylkingin komi ekki heil fram þegar hún annars vegar lýsir yfir stuðningi við álver í Helguvík , en leyfi sér svo að gangnrýna kostnað vegna hafnargerðar. Og á þar sennileg við gengdarlausa skuldsetningu hafnarsjóðs, sem því miður er ekki öll vegna hafnargerðar heldur einnig sökum ganstéttagerðar og ýmissa vegaframkvæmda sem því miður hafa ekkert með hafnargerð að gera. Lúxsustígar með ströndinni sem öllu jöfnu ættu að vera greiddir af bæjarsjóð, en ekki hafnargjöldum. En breytir í raun ekki stöðunni, bara hvoru megin sá kostnaður lendir í samstæðureikningnum. Og meiri bjartsýni ríkir yfir stöðu bæjarsjóðs, sem sýnir ekki jafn mikinn halla.

 

Öll gengur greinin hjá hinum brosmilda bæjarstjóra út á að staða bæjarins sé nánast öllu öðru um að kenna en slælegri fjármálastjórn bæjarins, brottför hersins, ekki var seldur allur hluturinn í HS , lágar útsvarstekjur, lágt menntunarstig, og hann er trúaður á að birti upp enda öll rökin hans megin. Hér verður bara allt gott strax í haust og gengi krónunar á Suðurnesjum mun fylgja bjartsýnisvísitölu bæjarstjórans sem er vel yfir meðallagi, en fer lækkandi. Það rignir kannki svolítið í sumar, en sólin fer hærra en nokkru sinni fyrr í haust hér á Suðurnesjum, þó lögmálið segi að hún lækki annarstaðar um landið. Bara brosa og þá verður allt í lagi

Ég kann alltaf betur og betur við Jóhönnu og Steingrím.

 

Ég kann alltaf betur og betur við þau Jóhönnu og Steingrím. Þau virðast einhvern veginn ná í hverju einasta máli að skilja kjarnann frá hisminu  sem þau vekja máls á þessa dagana, mörgum til armæðu. Þau ætla sér að koma hér á jafnaðarþjóðfélagi  með skýrum línum. Eitt þessara mála er til að mynda launajöfnuður innan ríkiskerfisins. Að engin forstöðumaður ríkistofnunar, eða fyrirtækjum þeim tengdum hafi hærri laun en forsætisráðherrann.

Einhvern vegin finnst manni þetta hljóma skynsamlega. Enda enginn sem ber jafn mikla ábyrgð, né heldur með meira vinnuframlag en forsætisráðherra hverju sinni. Ég skil ekki hversvegna þetta er ekki orðið að lögum fyrir löngu.

Ég fór að velta þessu fyrir mér, og það svo sem ekki í fyrsta skipti, hvernig svona launarammar er fundnir út. Og þau viðmið sem notuð eru þegar þeir eru fundnir. Nú heyrir maður af fjárhagsvandræðum sveitarfélaga vítt og breytt um landið, og jafnvel að smá bæjarfélög séu rekin með gegndarlausum halla ár eftir ár.

En eitt er þeim sammerkt þessum bæjarfélögum að á flestum stöðum sitja þar bæjarstórar á því sem við köllum nú ofurlaun.Sem aldrei eru skert.  Og hafa í kringum sig hirð af allskonar millistjórnendum á launum sem nálgast laun forsætisráðherra þjóðarinnar. Bæjarfélögin eru orðin ríki í ríkinu og engum ,síst af öllum pólitíkusunum þykir nokkuð athugavert við þetta. Þetta er hluti kostnaðarins. Það þarf að borga þessum mönnum og konum góð laun fyrir að reka bæjarfélögin. Jafnvel þó þau séu rekinn með hvínandi halla. Launin eru jú ekki árangurstengd, heldur miðast við kunnáttu viðkomandi. Árangurinn fylgir þó ekki metinni kunnáttu virðist oft vera.

Auðvitað eiga menn nú þegar komið er að uppstokkun í launakerfum ríkisins, og hugsanlegrar þjóðarsáttar um launakjör almennra starfsmanna bæði ríkis og bæja að taka þessi kjör upp á borðið og sjá hvort full sanngirni er þarna í gangi. Hvort verið geti að bæjarstjóri meðalstórs bæjarfélags sem stöðugt hefur verið rekið með tapi, hvort heldur í góðæri eða illæri eigi skilið tvöföld laun forætisráðherra fyrir utan nefndarsetur. Sem eru víst ekki innifalin í launum slíkra manna. Er ekki tíminn núna til að skilja kjarnan frá hismininu?


Nú bera allir ábyrgð.

Það tók tvær vikur að mynda ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem þrátt fyrir erfið viðfangsefni framundan vekur hjá manni nýja von og traust. Von um að nú takist eftir stormviðrasaman vetur í stjórnmálum landsins að skapa einhverskonar þjóðarsátt um framhaldið. Það er ljóst að forsvarsmenn þessarar stjórnar vita hvert viðfangsefnið er, og það er vonandi að forsvarsmenn stjórnarandstöðunar viti hvert þeirra hlutverk er. Það er forsendan fyrir að vel takist.

Það er rétt sem Steingrímu J Sigfússon sagði á blaðamannafundinum í gær að fyrst og fremst snúa verkefnin að þeim vandamálum sem við blasa hér innanlands, en það skiptir líka máli að í gang fari aðildarviðræður við ESB, til þess að við sjáum hvað býðst og hvort þar liggi hluti lausnarinnar til lengri tíma litið.

Það skiptir nefnilega miklu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu til framtíðar hvort áfram verði haldið með handónýta krónu og ósanngjarnar verðtryggingar lána, eða hvort við eigum möguleika á að koma okkur út úr þeim vítahring sem þrjóska þeirra sem viljað hafa viðhalda krónunni undir því yfirskyni hún væri forsenda fullveldis okkar og sjálfstjórnar hafa komið okkur í. Að það þjónaði ekki hagsmunum okkar að taka upp aðra mynt að svo komnu máli.

 Nú ætla ég ekki að fara út í þá umræðu sem andstæðingar ESB hafa haft uppi um hve allt þetta er fyrirsjáanlegt, og ljóst sé hvað út úr slíkum samning muni koma. Fyrir því eru ekki forsendur enda engar umræður farið fram og á meðan svo er, er umræða um efnisatriði slíks samnings ekki tímabær. Formenn tveggja stjórnarandstöðu flokkana hafa nú kjölfar stjórnarmyndunar lítið vilja gefa fyrir þá leið sem stjórnarflokkarnir leystu sitt helsta og nánast eina ágreiningsmál aðildarviðræðurnar við ESB. Og segja það ekki sitt hlutverk að taka þátt í lausn þess með því að greiða fyrir lausn þess í þinginu. Þeir vilji ekki afhenda öðrum aðila stjórnarinnar umboð til til viðræðna við ESB. Þeir draga upp víglínu án þess að stríð sé skollið á.

Hlutverk ríkisstjórnar hvers tíma er að fylgja fram ákvörðunum og skoðunum þingsins, hafi þingið þá einhverja skoðun þar á hvernig með mál skuli farið. Skilaboð stjórnarinnar bæði þeirra sem þar eru fylgjandi umsókn og þeirra sem eru  á móti eru skýr. Þingið hefur úrslitavaldið í máli þessu. Ríkistjórnin er ekki að biðja þingið um að leysa vandamálið fyrir sig, heldur kalla eftir því hvort þingið hafi á þessu skoðun, þar með talin stjórnarandstaðan sem fyrir kosningar hafði skoðanir á þessum málum. Nú er það hlutverk þingmannanna að lýsa þeim skoðunum svo hægt sé að framfylgja vilja þingsins. Það heitir þingræði og eftir því ætlar ríkistjórnin að fara hafi maður skilið þetta rétt.

Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu hafa verið kallaðir til ábyrgðar á þeim skoðunum sem þeir létu í ljós fyrir kosningar og nú er það þeirra að standa við þær skoðanir sem komu þeim inn á þing. Þeir hafa valið, hvort þeir fylgi sannfæringu sinni, eða beygi sig undir flokksaga formanna sem telja að ekki sé rétt að stjórnarandstaðan hafi á því ábyrgar skoðanir hvernig við leysum vandamálin. Að ekki séu dregnar upp víglínur flokkahagsmuna  eða sérhagsmuna heldur fyrst og fremst sé hugað að hagsmunum þjóðarinnar sem nú er í vanda. Því nú bera allir ábyrgð.


Vaktmennirnir

 

Vaktavinnumennirnir sem fengið hafa greidda yfirvinnu með tilheyrandi kostnaði fyrir Reykjanesbæ, og reyndar þjóðfélagið allt fengu verðskuldaðar kaldar kveðjur frá bæjarstjórum nágrannasveitafélaga sinna í dag. Þeir höfðu ætlað að nota þá vakt sem þeir þóttust standa, en mættu ekki á til að afsaka afspyrnulélega fjármálastjórnun sína.

http://vf.is/Adsent/40500/default.aspx     Grein bæjarstjórans í Grindavík

http://vf.is/Adsent/40497/default.aspx     Grein bæjarstjórans í Garði

http://vf.is/Adsent/40492/default.aspx     Grein bæjarstjórans í Vogum

 http://vf.is/Adsent/40505/default.aspx    Grein bæjarstjórans í Sandgerði

Og oddviti A-Listans í Reykjanesbæ tekur að mestu undir með bæjarstjórum þeirra bæja sem ýtt var út úr Hitaveitu Suðurnesja, og skilur ekki frekar en flestir aðrir hvað vakt meirihlutinn þykist hafa tekið, nema það sé vaktina fyrir GGE.

http://vf.is/Adsent/40507/default.aspx

Það er auðséð að meirihlutinn í Reykjanesbæ eru að vakna á vakt sinni og grípa í hvert það strá sem sem sjáanlegt er. Viðurkenna ekki þrátt fyrir fyrri bókanir sínar í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að þeir ætluðu aldrei að standa vaktina, heldur afhenda hana einkavinum sínum sem þeir drógu hér til bæjarins. Skrýtið þó hvernig það dæmi allt saman fer saman með dagsetningum fjárstyrkja FL Group til þess flokks sem vaktmennirnir tilheyra.  

Það er kannski til of mikils mælst að fara að rifja málefni Hitaveitu Suðurnesja og Geysis Green Energy eina ferðina enn, og hvernig áherslur þess sem fyrst vildi bara eignast 15% hlut í því fyrirtæki svona til að sýna viðskiptafélögum erlendis frá breyttust á skömmum tíma. og vaktmennirnir sem nú segjast hafa verið að verja hagsmuni almennings vörðu ekki neitt, heldur gerðust félagar í kompaníinu og svældu þá sem minna máttu sín og höfðu í upphafi verið með í að byggja upp fyrirtækið í burtu. Vegna þess að nú voru það stóru strákarnir sem mættir voru til leiks og ætluðu að sýna hvernig vakan yfir viðskiptatækifærunum skilaði árangri.

Ljóst hefur verið allan tíman að Reykjanesbær eins og önnur bæjarfélög seldu af hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja, og það meira að segja næst stærsta hlutinn og að eina árið sem þessi meirihluti hefur ná að sýna hagnað á rekstri bæjarsjóðs var einmitt það ár. Hin bæjarfélögin völdu að ganga ekki á þá peninga til að uppfylla eða þjóna dyntum misviturra stjórnmálamanna sem töldu að slíkir peningar ættu að fara í að reisa sér minnismerki sem bærinn gæti seinna leigt. Nei þeir settu peninginn í banka og njóta nú ávaxtanna.

Við í Reykjanesbæ eigum að vera bjartsýn á það fé sem vaktmennirnir vöktu yfir þar til þeir urðu rauðir í augum og sofnuðu skili sér til baka. Bærinn sé þrátt fyrir allt vel rekinn og hér verði allt betra í haust þegar hin nýja stólpipuverksmiðja hefur starfsemi sína.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband