Forystu Samfylkingarinnar er enginn vandi á höndum!!!

 

Nú er erfitt að meta hver þau skilaboð voru sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sendi af sjúkrasæng sinni nú í kvöld, en ekki fannst mér það nú hljóma vel eins og það var sagt. Bæði Ingibjörgu og allri forystu flokksins er fullkunnugt um hver vilji flokksmanna í þessu máli, um það vitna samþykktir flokksfélaganna sem hafa þar um ályktað. Þau vilja slíta þeim stjórnarsáttmála sem nú er við Sjálfstæðisflokkinn. Ekki í haust, heldur ekki í vor, heldur núna.

Nú er það svo að stjórnmálaflokkar samanstanda af fólki með ákveðnar lífsskoðanir sem sameinast hafa undir einum hatt til að vinna þeim brautargengi. Það sama fólk hefur valið sér forystu til að tala fyrir sameiginlegum skoðunum flokksmanna, ekki að mynda þær eða búa til nýjar. Almennir félagar í Samfylkingunni hafa sagt sína skoðun sem er alveg skýr. Við viljum ekki lengur taka þátt í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Sú ákvörðun er ekki til kominn bara sísvona, heldur að vandlega hugsuðu máli. Við höfum séð að á skoðanir okkar er ekki hlustað svo sem glöggt má sjá til að mynda í máli seðlabankastjórans, sem enn situr þrátt fyrir bókanir okkar þar um. Við sjáum líka að ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn hyggist í neinu breyta stefnu sinni til aðildarviðræðna til ESB, heldur verði það mál flækt þar og tafið eins og mögulegt er.

Nú  gefa forystumenn stjórnarflokkanna til kynna að fyrir liggi að komi nú til stjórnarslita blasi hér ekki annað við en stjórnarkreppa næstu mánuði þrátt fyrir að ljóst sé að velji þeir að halda áfram stjórnarsamstarfinu vrði það eingöngu í umboði annars stjórnarflokksins (Sjálfstæðisflokksins) og þeirra Samfylkingarmanna sem velja að setjast í sjálfa stjórnina. Samfylkingarfélagar almennt koma ekki til með að styðja hana.

Forystu Samfylkingarinnar er hreint enginn vandi á höndum hvað varðar afstöðu til þessa máls, það þjónar hvorki hagsmunum þjóðarinnar  né heldur flokksins að áfram sé haldið á sömu braut. Þeir verða að treysta því að þeir sem nú hafa komið með tilboð til Samfylkingarinar geri það af góðuim hug og með hagsmuni allra fyrir brjósti. Að þeir séu tilbúnir eins og Samfylkingin hefur verið hingað til að axla þá ábyrgð sem nauðsynleg er til að ekki komi til stjórnar kreppu og að þessir flokkar geti stjórnað af skynsemi saman fram að kosningum í vor. Nema þeir vilji að mótmælin haldi áfram fram á sumar með tilheyrandi kostnaði og sundrungu.


Það var mikið!!!!!

 

"Það var mikið" hugsaði ég nú í morgun þegar ég gaf mér tíma augnablik frá því mikilvæga verkefni að raða þeim rykkornum sem enn eru eftir á stofugólfinu og ákvað að hlýða á umræður um efnahagsmál frá Alþingi.

Flestir ræðumanna  voru því marki brenndir að nú skyldi sagt eitthvað vitlegt um efnahagsmálin, og höfðu því með sér niðurskrifaðar ræður um efnahagsmálin sem þeir svo flestir lásu upp eins og páfagaukar í öruggri vissu að erfitt mundi verða að höggva í rök þeirra. Þarna voru á ferð að því er virtist tilfinningarlausir pólitíkusar sem óðu fram með frasa sem við öll höfum fengið að heyra mörgum sinnum áður.

Fór að velta því fyrir mér þegar ég hlustaði á þingmennina hvern á eftir öðrum þylja upp tölulegar staðreyndir út á hvað eiginlega þetta starf þingmanna gengi. Hvar voru hugsjónirnar og eldmóðurinn sem stundum sést til þessara sömu manna þegar þeir óska eftir brautargengi til að sinna sínu starfi.

"Það var mikið" hugsaði ég þegar iðnaðaráðherra sté fram og flutti ræðu sína af þvílíkum krafti hugsjónamannsins sem upptekinn var af þeim verkefnum sem hann var að sinna. Fyrir honum voru þau mál er hann reifaði ekki einhverjar tölur á blaði eða hugsanlegar lausnir, heldur hinn eini stóri sannleiki sem að skyldi stefnt. Ég keypti hugmyndirnar með það sama.  

Hann fór yfir hvernig margar af þeim hugmyndum sem hann reyfaði voru kannski ekki endilega þær bestu í ófullkomnum heimi og ekki fallnar til vinsælda kosninga innan Samfylkingarinnar, en þær hljómuðu skynsamlega miðað við aðstæður og því berðist hann fyrir þeim. Þannig á það líka að vera.

Maður fær ekki allt sem maður vill og vill ekki allt sem maður fær, en það er þó skylda manns að reyna að gera það besta úr stöðunni hverju sinni, jafnvel þó að maður þyrfti að kyngja einhverju tímabundið þar að lútandi.

Eygló Harðardóttir hinn nýi þingmaður Framsóknarmanna náði þessu líka, þó í annari mynd væri og hún væri með skrifaða  ræðu. Hún dró nefnilega vel fram um hvað málið snerist um um hversvegna fólki væri órótt. Hún talaði af innlifun um þá stöðu skuldara á Suðurlandi sem nýleg var hótað að vera dreginn inn  á sýslumannskrifstofuna á Selfossi í handjárnum  , á sama tíma og höfuðpaurar efnahagshrunsins svifu þar yfir í þyrlum og einkaþotum. Fólk skilur ekki það réttlæti sem er í gangi.

Árni Páll Árnasson var líka einn þeirra sem talaði um það sem máli skiptir. Um mikilvægi þess að hafa trú á þeim verkum sem unninn eru og framtíðarsýn hvað varðar þau verk er vinna skal. Setja stefnuna á framtíðina en ekki vera að velta henni á undan sér þar til menn teldu tímabært að taka hana til umræðu. Nú er tíminn til að taka ákvarðanir til framtíðar, og þær verða ekki teknar nema þau stjórnvöld sem slíkar ákvarðanir taka njóti trausts. Því verður að kjósa til að sjá hvar það traust liggur.


Menn vita hvar bálið brennur.

 

Þrátt fyrir það sem kalla mætti megna andstöðu mína við sjónarmið forætisráðherrans og flokks hans, finn ég þó einhverra hluta til samúðar með þeim manni, Þá stöðu sem forsætisráðherran var settur í  dag á enginn maður að þurfa að lenda í, jafnvel þó honum hafi orðið á í messunni. Að sitja lokaður og umkringdur ínn í bíl svipað og íbúar á Gasasvæðinu og geta enga björg sér veitt. Það er sama hversu reiður maður verður einhverjum, þá er þó mikilvægt að maður virði rétt viðkomandi sem manneskju.

Þau mótmæli sem fram hafa farið að undanförnu, hafa að mestu verið innan ramma þess velsæmis sem við sem siðuð þjóð höfum sett okkur, og að því er virðist vera að bera þann árangur sem eftir var sóst. Ráðamaenn virðast að einhverju marki vera byrjaðir að hlusta, og sumir jafnvel að hugsa líka. Það tel ég vita á gott. Nú þurfa þeir slaka til að ráða sínum ráðum og finna leið sem allir geta verið sammála um að leiði okkur að minnsta kosti áleiðis að lausn vandans.

Þær skoðanir Geirs H. Haarde að óhugsandi sé að ganga til kosninga nú í vor eða sumar, í ljósi þess að landið verði stjórnlaust á meðan finnst mér vera í ósanngjörn gagnvart þeim öðrum er á Alþingi sitja, og raunar meginnþorra fólks í landinu. Fólk virðist almennt gera sér ljósa grein fyrir stöðunni og þeirri ábyrgð sem því fylgir að ganga til kosninga svo fljótt sem auðið er.

Menn vita hvar bálið brennur. Og hve mikilvægt það er að fá hjól atvinnulífsins til að snúast á nýjan leik. En málið er hvort sem Geir Hilmari Haarde líkar það betur eða verr þá eru það fáir ef nokkrir sem treysta honum til að fá þau snúast á nýjan leik.

Auðvitað væri það óskastaða að menn létu nú af þrjósku sinni og sameinuðst um það sem máli skiptir. Að setjast allir að borðinu, með það yfirlýsta markmið að hér fari fram kosningar á vormánuðum og öllum flokkum bæði gömlum og nýjum gefin tími og tækifæri til mynda og móta sér skoðanir sínar upp á nýtt í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa , því sama hvar menn standa í flokki er þörf á því. Sameinast um samstjórn allra flokka og aðilum vinnumarkaðarins til að vinna á þeim praktísku hlutum sem fyrir liggja fram að kosningum.

 


Lokað vegna viðhalds !!!!!!!

 

Já. Þær ríða ekki við einteyming skýringarnar sem þjóðinni eru gefnar þessa dagana , nú eða mánuðina ef því er að skipta. Fyrir rúmlega hundrað dögum síðan útskýrði forsætisráðherra skyndilegan yfirvinnuáhuga sinn um helgi með því að hann væri að setja sig inn í ýmis mál sem hann hefði ekki yfirsýn yfir sökum stuttrar veru í útlöndum. Bankarnir og allt fjármálakerfi landsins féll í kjölfarið.

Sturla Böðvarsson forseti Alþingis gerir mann þó hálf kjaftstopp þegar nú í hádeginu hann hóstar upp ástæðunni fyrir að fresta þurfi þingfundi í dag. Það sé gert vegna viðhalds utanhúss, auk þess sem þingmönnum hafi ekki gefist tóm til að búa sig undir fundalþingis í dag sökum mótmæla í gær.

Getur að virkilega verið að alþingismenn okkar séu svo aumir að þótt verið sé að vinna úti fyrir geti þeir ekki unnið sína vinnu innandyra. Jafnvel smá ónæði hljótist af. Nei því trúi ég nú ekki að þeir séu að óska eftir að pakkað inn í bómull á þennan hátt.

Getur það verið að alþingismenn okkar séu svo illa undirbúnir undir þau þingmál sem taka átti fyrir í dag að nauðsynlegt hafi verið að fresta fundi þessvegna. Því á ég bágt með að trúa miðað við að þeir hafa haft frí frá þingstörfum í tæpan mánuð..

Vinur minn einn hafði skýringuna á reiððum höndum nú í hádeginu, og sagði þetta vera leið þingsins til að senda skilaboð til mótmælendanna utandyra að á þá hefði verið hlustað, og þeir gætu hætt mótmælunum. Svo heimska tel ég nú ekki alþingismenn okkar heldur ekki vera, og þar sem ég er maður samsæriskenninganna leyfi ég mér nánast að fullyrða að hér liggur eitthvað meira að baki.

Ég leyfi mér nánast að fullyrða að þau mótmæli sem undafarnar vikur hafa hljómað í þjóðfélaginu hafi nú loks náð eyrum þeirra sem á áttu að hlusta. Að almenn samstaða sé að nást meðal þingmanna að svona geti þetta ekki gengið lengur og boða þurfi til kosninga og fá nýtt umboð þjóðarinnar. Ég held að á meðan forseti þingsins hugsar um viðhald hinna veraldlegu hluta , sé stór hluti þingmanna kominn á þá skoðun að vert sé að huga að viðhaldi lýðræðisins hér í landinu.Að þeir séu komnir á þá skoðun að hlýða beri á þá er kusu þá. Að þeir sú sammála um að nú sé fullreynt og horfa fram á veg í stað þess að verja eitthvað sem óverjandi er.


Dagur vonar

 

Það er mikilvægt að skipuleggja vel hvað maður ætlar sér að gera hvern dag. Þá kemst maður yfir meira segir konan. Vinna verkefnalistann lið fyrir lið og láta ekkert óvænt raska ró sinni. Þannig var ég búinn að ákveða að hafa það í dag. Pollrólegur einbeita mér að því sem fyrir lá.

Þetta gekk svo sem ágætlega fram eftir degi. Vann niður verkefnalistann og var bara nokkuð kátur og hress með árangurinn vel fram yfir hádegið. Kveikti þá algerlega óvart á Sjónvarpinu og sá að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Hafði nú svo sem haft þetta á tilfinningunni í 100.daga, en valið að trúa því að allt væri eins og best væri á kosið. Enda stjórnvöld verið dugleg að segja okkur að vera bjartsýn og að "Kreppan væri móðir allra tækifæra"

Í dag er dagur vonar. Nýr forseti með nýjar sýnir tók við völdum í Bandaríkjunum , og flestir höfðu reiknað með að forsætisráðherrann blessaður myndi nota þingsetningardaginn til að boða þjóðinni tíðindi af vinnuframlegi þingmanna í jólafríinu, sem var að flestra mati í lengra lagi.

En sjónvarpið sýndi þó annað, og hreint ekki góða mynd. Að vísu mynd sem hér hefur verið skrifað handrit af nú í eitt hundrað daga.  Dagskrá þingsins virtist staðfesta það sem margir hafa sagt undanfarið um að forystumenn þjóðarinnar væru svo langt frá því að vera í takt við þjáningar þjóðar sinnar. Nú skyldi tekist á um frumvarp stuttbuxnatrákanna í ungliðadeild Sjálfstæðisflokksins  um hvort leyfa ætti sölu á áfengum drykkjum í matvörubúðum. Og forsætis og menntamálaráðherra kvörtuðu yfir að fá ekki vinnufrið við afgreiðslu þessa mikilvæga máls.

Og til þess að vinnufriður þeirra sköthjúa yrði tryggður þýddi ekkert minna en að kalla út óeirðalögreglu á annars frekar rólega mótmælendur sem fyrir utan stóðu. Með heimild til að sprauta gasi á bæði börn og gamalmenni, og berja með kylfum ef annað dygði ekki til. Vinnufriður varð að vera.

Í sjónvarpsviðtali staðfesti einn þingmaður Samfylkingar það sem flestir vissu nú þegar að ekki er einhugur meðal stjórnarþingmanna um ágæti og vinnuframlag þeirrar ríkistjórnar sem nú situr og tími væri til kominn að hlusta á rödd þjóðarinnar sem vill kosningar sem fyrst. Forsætisráðherra sem virðist ekki einu sinni vita af fundum landsbyggðarfulltrúa sinna sem hyggjast gera tilraun á landsfundi til að steypa honum  og fara ekki leynt með skoðanir sínar á dugleysi hans, telur þó rétt ríkistjórnar þessar til setu út kjörtímabilið óumdeilanlegan. Og breyttar aðstæður breyti því ekki.

Þau mótmæli sem í dag hafa verið á Austurvelli hafa þrátt fyrir allt vakið hjá manni von. Von um að forystumenn ríkistjórnarflokkanna vakni nú af þeim Þyrnirósarsvefni sem þeir hafi sofið undanfarið. Vakni og sjá að þrátt fyrir kjörfylgi úr síðustu kosningum hafi þeir ekki fylgi lengur til að starfa saman í ríkisstjórn. Því er grasrótin í báðum flokkum sammála um þótt forystan skilji það ekki.  


Æðruleysi strútsins

 

Þegar hætturnar steðja að strútum halda þeir að sín eina vörn sé að stinga hausnum í sandinn og beita því æðruleysi sem þeim er gefið, í von um að ekkert gerist. Ég hef náttúrulega alltaf undrast hvernig strútnum dettur í hug að hættunum verði afstýrt á þennan hátt , en jafnframt dáðst að því æðruleysi sem hann sýnir á meðan hausinn er ofan í sandinum og hann bíður örlaga sinna.

Eitthvað svipað hefur maður hugsað um blessaða stjórnmálamenninna undanfarna mánuði. Dáðst af æðruleysi þeirra á ögurstundu en velt fyrir mér hvort sinnu og heyrnarleysi væri nú einnig farið að hrjá þá.Því ekki virðast þeir vera í takti við þá er kusu þá til starfa, og neita að hlýða á þær sterku raddir kjósenda sem öskra upp í eyrun á þeim að nú sé timi breytinganna upprunninn.

Eitt af þjóðareinkennum íslendinga er langlundargeðið og umburðalyndið, kostir sem geta verið góðir þegar við á, en hættulegir sé mönnum ekki ljóst hvar mörk þessara kosta liggja. Þær raddir sem núna heyrast eru afsprengi þessa. Stór hluti almennings hefur ekki lengur traust á því að þau stjórnvöld sem núna sitja hafi skilið skilboðin um að breytinga sé þörf á lýðræðislegum skilningi þeirra sem með völdin fara. Enda ekkert sem sýnir að svo sé.

Öllum almenningi er ljóst að aðgerða er þörf til að leysa þann vanda er við blasir, og átta sig líka á að það er stjórnvalda landsins að taka á þeim vanda, sem þau hafa skapað með sinnuleysi sínu  á liðnum árum. Almenningur hefur meira að segja verið tilbúinn til að leggja talsvert mikið á sig til að taka þátt í þeim lausnum sem til greina kæmu.  En almenningur hefur bara ekki fengið að vita til hvers er ætlast af honum sökum sinnuleysis stjórnvaldanna að koma þeim skilboðum til skila.

Skilaboð stjórnvaldanna hafa meira gengið út á að tryggja stöðu sinna manna innan stjórnkerfisins og senda út yfirlýsingar um að nú sé ekki tími til að ræða breytingar á stjórnkerfi landsins, hvað þá að kjósa. Það gæti stefnt þjóðarhag í hættu. Menn verði að sýna þeim traust og taka því sem að höndum ber af æðruleysi. Og sjá það sem þau sjá að   "kreppan sé móðir allra tækifæra", eins og frjálshyggjuguttunum  þykir svo flott að segja þessa dagana.

Þar á bæ keppast menn um að veita hver öðrum syndaaflausn og vísa stöðugt til að sú kreppa sem við göngum nú í gegnum sé fyrst og fremst afleiðing efnahagsástandsins erlendis, þó þeir sjái á hverjum einasta degi sannanir þess að engum er þar um að kenna nema okkur sjálfum. Slíkum sönnunargögnum hefur umsvifalaust verið stungið undir stól litla leynifélagsins í Svörtuloftum.

Almenningur kallar eftir leiðbeiningum og stefnumörkun til framtíðar, og hefur fengið þau svör að þau felist í að engum sé betur treystandi en sitjandi stjórnvöldum til að koma landinu út úr þeim ógöngum sem við nú erum í. Slíkur sé þingmeirihlutinn.  Það gæti þurft að skipta út einum eða tveimur ráðherrum til að gera það starf trúverðugra. Er ekki kominn tími til að rífa hausinn upp úr sandinum og sjá ástandið eins og það er. Áður en það er of seint.


Sólin skín skært, en hún brennur.

 

Þeir okkar sem þunnhærðir erum vitum að þegar sólin skín er hætta á að sólbrenna á skallanum.  Við sem erum  þessu marki brenndir  vitum að þegar manni byrjar að hitna á enninu er tími til kominn að bregða sér í skuggann, og leyfa þeim er telja að liturinn skipti öllu máli að njóta sín.

Helgi Pétursson  skrifar í dag grein á vef  Samfylkingarinnar sem mörgum okkar sem  þar eru innan dyra þykja orð í tíma töluð og í takt þeirrar umræðu sem nú á sér stað í samfélaginu. Á þær raddir ber að hlusta.

Mér finnst tillögur Helga um neyðarstjórn  skynsamlegar í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi  og ljóst er að þau verkefni sem framundan eru snúast lítið um pólitík eða stefnumörkun til framtíðar, heldur er hér fyrst og fremst um kreppustjórn að ræða sem fjallar um viðbrögð við vandamálum líðandi stundar. Vandamál sem miklu frekar kalla á aðkomu sérfræðinga heldur en stjórnmálamanna með mislagðar hendur.

Þegar til þess stjórnarsamstarfs var stofnað sem nú er,  var glampandi sólskin  og framtíðarhorfur bjartar að flestum fannst, og því í raun eðlilegt að þeir tveir flokkar sem ríkistjórnina sitja skuli hafa valið að vinna saman. Samfylkingarmönnum hugnaðaðist vel að koma inn í samstarfið og koma þar að áherslum sínum um jafnaðarsamfélagið og þeirra gilda sem það stendur fyrir. Þeir vissu sem var að sú hlið hafði verið vanrækt um langt árabil. Já sólin skein skært , en sú sól hvarf fljótt á bak við ský sem veðurfræðingar litla leynifélagsins í  Svörtuloftum  sögðu að væri þarna  sökum villu í tölvukerfi veðurfræðingsins. Og sendir voru menn til að útlanda að skamma hugbúnaðarsérfræðinginn. Við höfum séð hvert það hefur leitt okkur.

Sú staða sem upp kom hefur heldur betur kennt okkur ýmislegt, þar á meðal að nú reynist nauðsynlegt að íhuga hvort það lýðræði sem við töldum okkur hafa búið við hafi án þess að við tækjum eftir snúist upp í andhverfu sína og sé orðið flokksræði sem stýrist meira af hagsmunum svonefndra flokkseigenda en fólksins sem flokkana kýs.  Og stór hluti þeirra er með völdin fara hugsi meira um hvernig þeir komi út úr þeim ákvörðunum sem skal taka, frekar en að almennir hagsmunir ráði þar ferð. Sé svo er endurskoðunar þörf.

Þrátt fyrir að stoltið hafi fleytt okkur langt og við höfum talið okkur vera "stóórustu þjóð" í heimi verður því miður ekki litið fram hjá þeim staðreyndum sem fyrir liggja. Því tel ég og tek undir með Helga Pétussyni að við eigum að leita aðstoðar hvað úrvinnslu kreppunnar varðar og beita kröftum stjórnmálanna að því að marka þær sýnir sem fleytt geta okkur áfram.

Skipa neyðarstjórn skipaða færustu sérfræðingum, sem sér um úrvinnslu þeirra vandamála sem við blasa. Slíðra sverðin tímabundið og leyfa stjórnmálaflokkunum og fólkinu í landinu að íhuga stöðuna í ljósi breyttra aðstæðna, hvað hefur breyst og hvert skuli stefna. Ákveða hvernig Ísland við viljum, og kjósa sem allra fyrst.

 


Ef það er tjald þá verður að borga.

 

Nú þegar rætt er um hvernig framkvæmdavaldið hefur dregið til sín völdin og  ákvarðanaréttinn datt mér enn einu sini í hug sagan fjallamanninum vini mínum sem gerðist skálavorður í Þórsmörk eitt sumarið. Þetta er góður maður, en sást ekki alltaf fyrir þegar hann ákvað að gera góðverk, og seint verður sagt að hann sé góður tungumálamaður.

Þetta sumar átti ég þess oft kost að fá að heimsækja hann þarna inn eftir og þar sem ég átti ekki góðan fjallabíl sótti hann mig oftast út að Stóru Mörk, og fannst það nú lítill greiði að gera vini sínum. Hann hafði unun af að gera fólki sem varð á vegi hans ýmsa svona smágreiða og aldrei vildi hann þiggja neitt fyrir.

Í einni slikri ferðinni á leið inn í Þórsmörk sér hann hvar Land Rover jeppi  er stopp við eina ána og telur það nú skyldu sína að stoppa og kanna hvort eitthvað sé að. Vindur sér út úr jeppanum og sér þá strax  að þar eru útlendingar á ferð. Ekki feiminn minn maður og byrjar að blaðra á sinni fjallamannaensku eitthvað bull um dásemd náttúrunar á svæðinu, og kemst að því nánast án þess að viðmælendurnir hefðu nokkru svarað að þeir þyrðu ekki að keyra yfir ána.

Kallar til mín að ég skuli keyra hans bíl og hanna  muni keyra viðkomandi inn í Bása og finna þeim þar tjaldstæði. Allt gekk þetta nú eftir en etthvað fannst mér nú samt svipurinn á útlendingunum skrýtinn en ákvað þó að segja ekkert. Þegar inn eftir var komið var skálavörðurinn vinur minn í svo miklum ham góðmennsku að þegar  hann sá að þeir ættu líka í erfiðleikum með að tjalda tjaldaði hann fyrir þá, og kvaddi svo með sínu goodbæi sem hann hafði lært í barnaskóla,

Daginn eftir sendi hann svo mig til að rukka inn tjaldgjöldin þar sem mikið var að gera hjá honum þann dag. Það gekk ágætlega þar til kom að frökkunum vinum hans. Og þá loks kom hið sanna í ljós. Þeir höfðu hreint ekki verið á leið inn í Þórsmörk heldur einungis keyrt þarna að ánni til að taka myndir. Áttu reyndar pantað herbergi í Reykjavík þá um nóttina. En vinur minn hafði ekki skilið þann hluta umræðunnar. Hann heyrði bara það sem hann vildi heyra.

Hann hafði nánast rænt bæði fólki og bíl og vildi nú fá greitt fyrir tjaldvæðið líka. Það fannst þeim yfirdrifið og það fannst mér líka.

Ég fór nú upp í skála og hafði ákveðið að vera ekki að segja honum þetta vegna þess að ég vissi að hann myndi taka þetta nærri sér. En svo var þó heldur betur ekki  þegar hann hafði talið hvað komið hafði inn fyrir tjaldsvæðin segir hann að sér sýnist sem gleymst hefði að rukka eitt tjald. Svo ég neyddist til að segja honum að ég hefði ekki rukkað vini hans frakkana vegna þes að þau hefðu alls ekkert ætlað að tjalda þarna og útskýri málið. Þá kom vinur minn mér í  fyrsta sinn á óvart. :Þá verður þú að borga fyrir þá því ef það er tjald þá verður að borga.  

 


Frumkvæði og ábyrgð

 

Það er nánast flestum ljóst að sú stjórn sem núna situr, er þar ekki lengur í krafti þess meirihluta sem hún hafði þegar hún var kosin. Og jafnframt er okkur Samfylkingarmönnum það vel ljóst að ein meginástæða fyrir því að hún situr enn, er á okkar ábyrgð. Við höfum hingað til talið það skyldu að hlaupa ekki frá borði og taka það súra með því sæta til að snúa málum til betri vegar.

Það hefur verið reynt að gera og menn hafa unnið við að moka bílinn upp úr snjónum  sett undir hann keðjur, og kannski má segja að bíllinn sé tekinn að bifast áfram þó ljóst sé að fennt hefur meira og  vandséð hvernig það eigi að koma bílnum til byggða. Ljóst hefur verið í gegnum allann þenna snjómokstur frá hendi Samfykingarinnar að ein leiðin í lausninni hefur verið að láta vita fólkið niðri í byggðinni vita hver björgunaráætlunin væri svo þar væri hægt að mynda samstöðu um hvernig að skyldi farið. Að allir legðust á eitt svo bjarga mætti bílnum.

Vandamálin eru orðin ljós, og hluti þeirrar leiðar sem þarf að moka líka. Það er úrvinnsluatriði. Samferðamenn okkar telja að það sé nóg í bili, en hafa fallist á að halda landsfund um hvort nauðsynlega þurfi að láta fólkið niðri í byggðinni vita hvað leið skuli mokuð og vilja ekki sjá að sameinast sé um að fá stórtækar vinnuvélar og GPS tæki til að finna auðveldustu leiðina úr skaflinum. Þeir vilja helst moka í hring. Og hvetja okkur til að moka með sér svo aftur komumst við á þann stað þar sem lagt var á heiðina forðum í von um skemmtilegt ævintýri utan vega.

Þegar við lögðum upp í fjallaferð þessa var malbikaði vegurinn rétt við hliðina á slóðanum sem farin var. Og sá vegur hefur allan tímann verið ruddur þó í ljósi snjóstormsins sé þar þungfært þessa stundina. En þar er þó verið að ryðja.

Við Samfylkingarmenn teljum að rétt sé að moka okkur í átt að þessum vegi, í stað þess að moka áfram í hringi. Það virðist skynsamlegt og öllum til heilla að fara í átt að veginum og sjá hvort sú leið sé ekki fær, og fá jafnvel menn úr byggð til að moka leiðina á móti okkur. Okkur er ljóst að það er nú á okkar ábyrgð að allir komist lifandi til byggða.

Til þess að svo megi vera verðum við að taka frumkvæðið kalla út vinnuvélarnar og láta samferðamenn okkar vita að hver svo sem afstaða þeirra til málsins verði  að loknum landsfundi sínum á heiðinni sé þetta sú leið sem við ætlum að fara. Því verði ekki breytt. Við ætlum ekki að verða úti  sökum ósættis þeirra í milli. Við verðum að taka frumkvæðið, segja ferðalaginu lokið og halda til byggða. Þeir mega moka í hringi áfram telji þeir að það gleðji ættingja sína er heima sitja.


Þeir eru sammála vorir norrænu frændur.

 

Uffe Ellemann Jensen hinn danski framsóknarmaður fór vítt yfir sviðið í samtali sínu við Boga Ágústsson á RÚV í gærkvöldi.Hann eins og Göran Person hvatti Íslendinga til að gerast aðila að ESB, ekki vegna þess hvað við fengjum heldur vegna þess samstarfs sem um er að ræða. Að standa saman með öðrum þjóðum Evrópu um sameigilega hagsmuni.

Hann benti mönnum að tímarnir væru breyttir og sjálfstæði þjóða fælist ekki fyrst og fremst í hverju þau hefðu yfirráð yfir í orði , heldur á hvað þau gætu haft áhrif á í samstarfi. Sjálftæði í til að mynda peningamálum fælist ekki í hvort viðkomandi þjóð gæti ákveðið hverjir vextirnir skyldu vera á hverjum tíma , þeir ákvörðust af mörkuðum á hverjum tíma hvort sem mönnum líkaði betur eða verr.

Það virðist vera ljóst af þeirri Evrópuumræðu sem nú á sér stað að einn helsti ásteitingarsteinninn sé ekki hvað komi út úr aðildarviðræðunum, heldur hvort þær eigi að fara fram. Þeir sem "allt vita" segja okkur að ekki sé þörf á neinum aðildarviðræðum það það geti þeir sagt okkur og það sé ekki nein ástæða til þess að fá staðfest að það sem þeir segi sé nú rétt. Og vilji menn fá það staðfest skuli kosið um hvort spurt sé.

Umræðan virðist snúast meira um aukaatriði og alhæfingar þeirra sem á móti aðild eru, og byggjast á því sem þeir halda, frekar en að fá staðreyndirnar upp á borðið með aðildarviðræðum. Hvort verið geti að slík aðild geti bætt þau lífskjör sem almenningur á Íslandi býr við í nánustu framtíð. Hver er hagur þeirra sem á móti slíkum viðræðum eru  skil ég ekki.

Ljóst er það eru sjávarútvegsmálin og landbúnaðarstefnan sem þeir sem mest eru á móti umræðum setja fyrir sig. Menn telja sig vita að með aðild að ESB sé verið að afhenda til að mynda spönskum sjómönnum réttinn til að ryksuga hér upp fiskimiðin eins og gert var til að mynda hjá Bretum og fleirum hér á árum áður. Að kvótinn fari úr landi. Manni liggur við að segja "og hvað með það".

Flestir eru sammála um að sú fiskverndarstefna sem ESB hefur er ekki góð, en það þýðir þó ekki það sama og að hún veiti einhvern rétt til veiða á í islenskri lögsögu. ESB á í dag eingöngu rétt á að veiða þrjú þúsund tonn af karfa samkvæmt samningum Íslands og ESB. Frekari kvótaúthlutanir byggjast á sögulegri veiðireynslu , og ríki ESB hafa ekki veiðreynslu í íslenskri lögsögu undanfarin 35 ár svo erfitt er að sjá hversvegna samningsstaða okkar ætti að vera slæm hvað það varðar. Breyttri fiskverndunarstefnu þar innan dyra eru Íslendingar bestir til að berjast fyrir.

Auðvitað er það fáránlegt að setja málið upp eins og andstæðingar aðildar hafa valið að gera, að ætlast til að íbúar þessa lands taki þeim útleggingum á stöðunni sem hinum eina stóra sannleik, og vilji þeir fræðast nánar um hvað gæti verið í boði í því samtarfi sem innan ESB er fólgið þurfi að kjósa sérstaklega um hvort menn eigi að afla sér þeirrar vitneskju.Margir myndu nú kalla það skoðanakúgun af verstu sort.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband