Afsakið ráðherra

 

Afsakið ráðherra.

 

Eitt þeirra gilda sem mér voru kennd í æsku, var að gerði maður á annars hlut ætti maður að biðjast afsökunar. Þau gildi hef ég reynt að halda í þó auðvitað hafi mér orðið þar á inn á milli eins og öðrum.  Í gær skrifaði ég hér á síðuna skoðun mína á þeirri skoðana og þöggunarstefnu sem nú virðist grassera í íslenskri pólitík, og fór yfir hvernig hún hafði áður birst mér Sjálfstæðisflokknum. En í einfeldni minni hafði ég ekki ástæðu til að svipuð vinnubrögð væru viðhöfð í öðrum flokkum .

Í bloggi mínu í gær leyfði ég mér hlut sem maður á auðvitað ekki að leyfa sér, að dæma menn áður en sekt er sönnuð. Á því biðst ég afsökunar. Sá seki er fundinn og gaf sig sjálfur fram. Það var minn eigin flokksformaður, sem skv yfirlýsingu frá í gær benti vinkonu sinni á sem vinarbragð að gæta sín á hvað hún myndi segja á borgarafundi kvöldið áður.

Nú er það svo að í mínum huga hafa stjórnmál hingað til ekki snúist um hvað má segja, eða hver leyfir hverjum að segja hvað. Heldur átt að snúast um hugsjónir og framtíðarstefnur þar sem hverjum og einum er frjálst að segja sínar skoðanir án þess að það hafi komi á nokkurn hátt starfsheiðri eða framtíðarmöguleikum við. Það kallast mannréttindi.

Menn hafi rétt til að setja sín mál fram og berjast fyrir þeim af öllum þeim eldmóði sem þeim er gefin, og allir hafi að minnsta kosti það siðferðilega þreka að  virða þær skoðanir sem viðkomandi hafi, og reyni ekki að hafa þar áhrif  á nema með þá rökum. Að menn virði þau grundvallar mannréttindi hver maður setji sitt mál út fra eigin sannfæringu og af heiðarleika.

Nú er ég svo heppinn að eiga fullt af ágætisvinum, og allir eiga þeir það sameiginlegt að virða þær skoðanir sem ég hef, og reyna ekki þrátt fyrir vinskapinn að segja mér hvað ég á að segja eða á hverju ég skuli gæta mín, nema ég biðji þá um ráðleggingar þar að varðandi. Þeir vita sem er að ég er hugsandi manneskja með rétt til eigin ákvarðana og skoðana, þó þeim líki það ekki alltaf sem ég segi eða geri. Þeir taka mér eins og ég er. Og þeir ætlast til þess sama af mér. Það kalla ég heilbrigðan vinskap. Og þannig held ég að flestir líti á það.

Auðvitað get ég ekki afsakað á nokkurn hátt nema eigin heimsku að taka ekki  þau ummæli sem viðhöfð voru á borgarafundinum í Háskólabíó sem hreinar dylgjur og rógburð af verstu sort. Því þannig voru þau sett fram þegar sannleikurinn er kominn í ljós. Ég biðst því afsökunar á því við yður háttvirtur ráðherra að hafa dregið þig inn í umfjöllum mína um þöggun og spillingu í íslenskum stjórnmálum.

 

 


Neikvæðir nöldrarar?

 

Flestum er ljóst að ástandið eigi eftir að versna áður en hlutirnir fari að batna á nýjan leik. Meira að segja forsætisráðherra sem nú tekur undir Robert Vade, sem menntamálaráðherra vildi fyrir fáum mánuðum senda í endurmenntun. Þrátt fyrir að vita að það gæti aldrei orðið hennnar ákvörðun.

Ráðherrar og ráðamenn virðast lítið hafa lært um lýðræðið og tilgang þess. Þeir telja sig hafa verið valda til að stjórna þeirri umræðu sem fram fer. Þetta hafa margir reynt, þeir sem talað hafa óvarlega eða úr takt við vilja og stefnu Sjálfstæðismanna undanfarin ár. Menn voru og eru hundeltir af Flokknum dirfist þeir að tala honum í mót, það hafa margir fengið að reyna sem prófað hafa .

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir fór í gærkvöldi á borgarafundi yfir störf sín í heilbrigðisráðuneytinu þar sem hún hafði starfað um tíma við undirbúning og þróun Sjúkratryggingarstofnunar. Hún nefndi að ráðherra hefði hringt í hana fyrir fundinn og aðvarað sig um að gæta orða sinna á fundinum, starfsheiðurs síns og starfsframa vegna.

Þetta er því miður alþekkt aðferð hjá ákveðnum armi valdamikilla manna innan Sjálfstæðisflokksins, þeim armi sem hingað til hefur verið kenndur við fjálshyggjuarm flokksins.Einkavæðingarsinnana. Þeir svífast einskis til að hafa áhrif á það sem sagt er og beita til þess meðulum sem þessum. Þeir vita að eitt af því viðkvæmasta er lífsviðurværi fólks. Og þeir beita áhrifum sínum óhikað þar að lútandi finnist þeim umræðan óþægileg. Það hafa margir fengið að finna.

Þeir vita hvar ber að berja niður. Næsta skref þessara manna er venjulega að sannfæra almenning um að viðkomandi sé í það minnsta neikvæður og ekki sé hægt að taka mark á orðum viðkomandi sökum þess að viðkomandi sé í andlegu ójafnvægi hafi hinar fyrri aðferðir ekki virkað. Og síðasta stigið þegar þeir verða þess varir að almenningur fer að íhuga hvort eitthvað sé til því sem vikomandi sagði byrja þeir að væla yfir að verið sé að ráðast á truverðugleika þeirra, trúverðugleikann sem er undirstaða þess að þeir nái myrkraverkum sínum í gegn.

Segja má að sá trúverðugleiki sé ein ástæða þess að staða íslensku þjóðarinnar er sú sem hún er í dag. Aðvörunarorðin voru hundsuð, sökum þess að það voru ekki "málsmetandi" menn sem þau sögðu, heldur neikvæðir nöldurseggir, sem ekki sáu sólina koma upp, kannski vegna þess að það var þungskýjað og rigning  einmitt þann dag sem varnarorðin voru viðhöfð. Þá setja menn ekki sólgleraugun upp, heldur klæða sig gagnvart veðri og fara í regngalla.

 


Og nú vellur gröfturinn.

 

Eiríkur Tómasson stakk á kýli nú vikunni, kýli sem sem gröfturinn var byrjaður að leka úr en þurfti að opna betur svo það næði að hreinsast. Það er eiginleiki svona kýla að á meðan þau myndast er hægt að sjá þau. Og margir höfðu séð það myndast, spurt spurninga og jafnvel aðvarað þá er verkfærin höfðu. En á var ekki hlustað.

En þeir sem stinga áttu á kílinu, og hleypa greftrinum út völdu frekar að láta svo sem um ekkert kíli væri að ræða og réðust frekar gegn þeim er bentu á kílið. Þeir hefðu ekki fyrir það fyrsta ekki kunnáttu eða eða leyfi til að ræða það. Og væri fagþekkingin til staðar þyrftu viðkomandi í það minnsta kosti á endurmenntun að halda.

Maður veltir nú fyrir sér því siðferði eiganda bankanna og bankastjóranna sem stjórnuðu og hvöttu eigendur fyrirtækjanna til að taka sér stöðu með krónunni , en völdu svo sjálfir að taka stöðu gegn henni í ljosi vonarinnar um skjótfenginn gróða ýmist sjálfum sér eða bönkunum til handa. Þetta eru þeir menn sem reglulega komu í sjónvarp og útvarp þegar komið var að ársfjórðungsuppjörum bankanna og sögðust standa með sínum viðskiptavinum. Það væri hagur þeirra. Nú er komið í ljós hvar þeirra hagsmunir lágu.

Flestir hefðu haldið að viðkomandi létu nú að þeirri ósvifni sem þeir hafa sýnt í viðskiptum sínum, en það virðist þurfa meira til. Nú vilja menn ekki fá munin greiddan út á því gengi sem hér ríkir og sett er til að verja land og þjóð að svo miklu leyti sem það er hægt heldur vilja þeir fá yfirverð á gengið.

Margir hafa velt fyrir sér hversvegna eigur og eignahlutir þessara manna eru ekki fryst á meðan farið er yfir ástæður fallsins, og gefinn hefur verið sú skýring að það stangist á eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hvað með þær þúsundir heimila sem á sama tíma þurfa að horfa upp á sparifé sitt í húseignum étið upp í krafti verðtryggingar lána?  


Skóraunir

 

Eitt það vandasamasta sem maður gerir er að velja  sér skó, skó sem bera mann yfir þær torfærur verða kunna á vegi manns. Þar ber margs að gæta. Þannig velur maður sér ekki sömu skó fyrir fjallgöngu og til að fara á dansleik. Þeir eru hannaðir með sitthvorn tilganginn í huga.

Ég hef einu sinni verið svolítið óheppinn með að velja mér skó, þá var það vegna   þess að ég hafði ekki litið nógu vel á leðrið sem í þá er notað, og þeir því ekki staðið undir þeim væntingum sem ég hafði gert til þeirra. Það höfðu  komið rifur í saumana hér og þar, þannig að þeir höfðu  vikkað og myndast núningsár á fótum mér, en áfram hélt ég  aðallega vegna þess að ekki var skóbúð nálægt til að kaupa mér nýja.

Ég hef undanfarna daga verið að hugsa um og tala við vini mína um þá sterku fjallgönguskó sem ég keypti mér á síðastliðnu hausti. Þeir voru fallegir og pössuðu vel við fjallgöngugallan sem ég hafði orðið mér úti um hér og þar í gegnum lífið. Ég var sannfærður um að þeir ættu eftir að bera mig upp á þau fjölll sem ég ætti eftir ógengin. En þeir eru byrjaðir að meiða.

Ég hef verið að hugsa þetta og litið á saumana, sem virðast vera í góðu lagi og hællinn er sem lagaður að löppunum á mér svo ekki er það ástæðan. Ég hef borið vel á þá þannig að þeir eru vatnsheldir. En það er ljóst að einhverstaðar á skónum virðist vera rifa sem hleypir inn ryki sem svo nuddast inn í lappirnar og meiða.

Síðast þegar þetta gerðist fór ég með skóna til skósmiðs sem fór yfir þá og taldi að miðað við efnið og það sem hann hafði gert við þá myndu þeir duga til þess sem ég hafði ætlað þeim og þeir voru að virka ágætlega  þar til nú nýlega að þeir virðast vera farnir að láta á sjá og byrjaðir að meiða aftur. Nú fór ég að verða örlítið pirraður því þegar ég keypti skóna taldi ég mig virkilega hafa ígrundað það vel hvort þetta væru þeir skór sem ég vildi. Og ennþá er ég þokkalega ánægður með þá.

Ég ákvað að í næstu ferð yrðu þeir settir í gjörgæslu auk þess sem vinur minn einn lánaði mér nema sem skyldi gera mér aðvart ef eitthvað óeðlilegt ætti sér stað í saumum eða leðri á göngunni. Og það gerðist.

Í einni pásunni þegar ég hafði farið úr skónum og lagt þá á bak við lítinn hól  heyrðist í nemanum og ljóst að eitthvað var i gangi. Ég læddist að hólnum og fylgdist með í smástund. Út úr skónum kom hoppandi lítil mús og gott ef ekki var brosti hún allan hringinn ánægð með sig. Hún hafði skitið í skóinn.

Eftir miklar vangaveltur og rannsóknir kom í ljós að leðurfeiti sú sem félagi minn hafði látið mig hafa innihélt einhver þau efni sem löðuðu að sér mýs sem þurftu að ganga örna sinna. Þær litu á skóinn sem klósett.

Mér er sagt að með góðri hreinsun geti ég haldið áfram að nota skóinn, en það sem verra er þá hefur komið í ljós að vinurinn sem lét mig fá leðurfeitina vissi hvað hann var að gera, sá vinur verður ekki fjallgöngufélagi minn í bráð, og ég vona að það reynist rétt að hægt verði að hreinsa skóna svo viðunanadi verði. Annars verður maður sennilega að fá sér nýja skó, nú eða labba bara um skólaus eins frumbyggjarnir gerðu og sætta sig við að annað slagið fá maður flís í fótinn.


Eru flokkarnir verkfæri sumra?

 

Eg hef verið að velta fyrir mér síðustu daga þeirri umræðu sem fram hefur farið um dugleysi stjórnmálamanna, og hvernig við almenningur virðumst hafa misst tiltrú  til þeirra. Við viljum að hið Nýja Ísland verði til hér og nú.

 

Það er fullt af hlutum sem við sættum okkur ekki við, og böðlumst á þeim er við kusum í síðustu kosningum fyrir að standa sig ekki  í stykkinu og bætum við á eftir að við hyggjumst ekki kjósa í næstu kosningum, hvenær sem þær nú verða.

Okkur finnst margt skrýtið vera á ferðinni sem við eigum í ljósi reynslunnar erfitt með að sætta okkur við og finnst eins og lítið hafi breyst. Sömu menn og áður stjórna því sem þeir vilja stjórna og sitja á upplýsingum sem hugsanlega gætu varpað einhverju ljósi á málin.

Fjármáleftirlitið sem hafa átti eftirlit með bönkunum situr á skýrslu endurskoðandana og forstjóri þess kemur fram í fréttum eins og hver annar annar útrásarvíkingur og tilkynnir að þær verði ekki gerðar opinberar. Hvað þar er að finna sem við þau er borgum fyrir sukkið megum ekki vita get ég ekki ímyndað mér.

Heilbrigðisráðherra virðist vera á leið með að gerbylta  heilbrigðiskerfinu á mettíma, að því er virðist án þess að ráðfæra  sig við nokkurn mann, og ljóst að mikil leynd hefur hvílt yfir ráðstöfunum þeim er hann tilkynnti í fjölmiðlum í dag. Svo mikil að heilbrigðisnefnd þingsins hefur virðist ekki einu sinni hafa verið höfð með í ráðum. Þar virðist hafa verið vélað í skjóli myrkurs.

Svona gæti maður náttúrulega haldið áfram að tuða um ýmis mál er manni hugnast ekki, og bætt við í lokin að þetta væri barbaralýðveldi og hér sé engu hægt að breyta, hið Nýja Ísland eigi aldrei eftir að líta dagsins ljós. Sama hvað við mótmælum  Auðvitað eigum við að mótmæla og láta í okkur heyra þannig að þeir sem heyra eigi fái að lokum hlustaverk.

Það er eitt að mótmæla og þannig láta í ljós álit sitt, og annað að ná fram þeim breytingum sem við óskum eftir. Nú virðist flokkaflóra okkar íslendinga spanna stórt svið og flestir geta fundið sér hljómgrunn í einhverjum þeirra. Svar okkar almennings felst í að taka  þátt í því starfi sem fram fer þar og berjast fyrir þann málstað er við getum samsvarað okkur við. Til þess að ná fram þeim breytingum sem við viljum verðum við að taka þátt í því starfi sem þar fer fram.

Flokkarnir eru ekki verkfæri sumra til að ná sínum markmiðum á kostnað annara nema við leyfum að svo sé. Það leyfum við með afskiptaleysi af því starfi sem fram fer innan flokkana á milli kosninga. Það er hið daglega starf flokkana og þær hugmyndir sem þá eru ræddar sem skipta máli. Það er á ábyrgð borgaranna að veita þeim það aðhald sem nauðsynlegt er. Það er ekki nóg á fjögurra ár fresti, það þarf að vera stöðugt. Annars er hætta á að einhverjir líti á flokkana sem sitt eigið verkfæri. Og hið Nýja Ísland sem okkur dreymir um verður eingöngu nafnið með sömu gildum og áður réðu.

 


Það skal ekki fordæma.

 

Undanfarnar vikur höfum við íslendingar verið í hálfgerðu losti yfir stöðu okkar mála og eflaust hafa margir átt andvökunætur yfir þeirri stöðu sem nú er kominn upp. Flestir eru sammála um að nú skuli renna upp nýíir tímar, tímar þar sem manneskjan og velferð hennar er sett í fyrsta sæti, pólitískar áherslur endurskoðaðar og horfið frá þeim gildum sem leitt hafa yfir þjóðir heimsins kreppur og stríð.

Í nótt átti ég eina slíka andvökunótt, ekki vegna eigin erfiðleika,  heldur vegna mynda sem sýndar voru á flestum sjónvarpsstöðum í gær. Það voru sjokkerandi myndir þar sem faðir bar barnið sitt látið í gegnum stæti Gasaborgar. Ég skildi ekki hvernig slíkir hlutir gætu gerst og væru látnir viðgangast í því siðmenntaða samfélagi sem við teljum okkur vera.

Maður horfir til viðbragða okkar eigin stjórnmálamanna sem maður skilur ekki. Ég skil ekki ummæli varaformanns Sjálfstæðisflokksins sem um helgina taldi ekki rétt að fordæma árásir sem þessar, þrátt fyrir að fyrst og fremst séu það óbreyttir borgar og börn sem verða fórnarlömb þeirra átaka sem þarna fara fram. Bíða frekar og sjá hver viðbrögð Obama sem enn ekki er kominn í embætti verða.

Ég skil vel að Ingibjörg Sólrún skuli fordæma þessar árásir, án þess að kalla ríkisstjórnina saman til að staðfesta þá yfirlýsingu. Hún valdi að fylgja eigin sannfæringu og sennilega einnig meirihluta jarðarbúa þegar hún fordæmdi þessa árás. Árás á þjóð sem ekki hefur minnsta möguleika á að verja sig. Þjóð sem er króuð út horn og getur ekki einu sinni flúið Við lentum sjálf í því nýlega þó með öðrum hætti væri.

Kannski er það einmitt þessi mismunandi skilningur varaformanns Sjálfstæðisflokksins og formanns Samfylkingarinnar um hvað beri að fordæma og hvað ekki sem er okkar vandamál. Skilningurinn á því siðferði sem nú er uppi í heiminum. Sá skilningur hefur sýnt sig áður og þá var það innrásin í Írak, þar sem sami skilningur var uppi. Það er óhætt að myrða börn og gamalmenni séu réttir hagsmunir í húfi. Það þarf að sýna styrkinn og valdið.Það skal ekki fordæma.


Um vinnuaðferðir Flokksins

 

Ég er kominn á þá skoðun þessa dagana að í raun sé auðvelt að vinnsa þau mál úr sem orka tvímælis eða  ætlað er að hygla einum umfram aðra  þegar  blessaður Sjálftæðisflokkurnni á hlut að máli. Þeir virðast hafa útbúið sér einhverja vinnuaðferð á málum sínum byggða á reynslu fyrri tíma.

Þannig getur maður tekið ferli eins og til að mynda stöðuveitingar og ýmsar einkavæðingar sem óþægilegar hafa reynst,   til að mynda stöðuveiting sonar fyrrverandi formanns, upphaf einkvæðiingar bankanna, upphaf einkavæðingar á orkugeiranum og svo mætti lengi telja. Allar markandi ákvarðanir sem teknar hafa verið í þessum málum virðast bera upp á síðustu daga desember mánaðar og upphaf janúar. Þeir hafa fundið út að myrkrið og gnægtir jólanna slæva skilnigarvitin og athyglin er ekki eins mikil. Þá er tími myrkraverkanna.

Mánuðurnir fram að sumarleyfi er svo nýttir í allskonar  málalengingar og þróunarverkefni sem svo samþykkt eru rétt fyrir sumarfrí viðkomandi stjórnvalds, og ekki er hægt að ræða frekar sökum þess að viðkomandi ráðherrar og stjórnendur eru komnir í sumarfrí ýmist til útlanda eða á hestamanamót þar sem ekki má ónáða þá svo þeir geti gert grein fyrir máli sínu. Málin fá brautargengi á haustmánuðum, enda þá oftast löngu gleymd eða menn eru byrjaðir  að hugsa um annað  í flestum tilfellum.

Nei í desember og janúar á maður að fylgjast vel með, borða mina um jólin og halda huganum skýrum. Því það er þá sem hlutirnir gerast sem ekki er ætlað að komist í hámæli. Þannig ákvarðaði blessaður heilbrigðisráðherrann nú á milli jóla og nýárs hvert komugjaldið ætti að vera fyrir þegna landsins á sjúkrahús vonandi að þeir fulltrúar sem rædd hefðu upphæðina í heilbrigðisnefnd þingsins væru orðnir svo sljóir af gnægtum jálanna að þeir myndu ekki hver upphæð komugjaldsins eða viðmiðið hafði átt að vera.

En svo getur líka verið að ég sé bara kominn með einhverja paranoju gagnvart þeim?

 

 


Paranoja?

 

Það er greinilegt að nú er kominn smá skjálfti í þá Sjálfstæðismenn sem brátt þurfa að útkljá í eigin flokki hver stefna þeirra á að vera gagnvart aðildarviðræðunum að ESB. Erfitt mál sem þeir verða að taka á hvort sem þeim líkar betur eða verr, en vilja þó helst ekki taka á þeim frekar en öðrum málum hingað til. Vilja helst vera í friði og hver sá sem útlistar sínar skoðanir hvað málið varðar er þar með að gera árás á blessaðan flokkinn.

Einn þeirra sem sem nú virðist vera  komin með paranoju á hæsta stigi hvað þetta varðar er þingmaðurinn Ármann Kr Ólafsson sem telur rökrétt að að álykta út frá ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að það sé hennar helsta áhugamál að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki samstöðu um hvernig staðið skuli að hugsanlegum aðildarviðræðum, og er nú svo langt leiddur að hann telur formann Samfylkingarinnar helsta andstæðing fyrir inngöngu í sambandið.

Honum finnst furðulegt að formaður flokks sem einn flokka í allmörg ár hefur haft á stefnuskrá sinni inngöngu í ESB skuli stilla samstarfsaðilanum upp við vegg á tímum sem þessum  og láta þá vita hver framtíðarsýn sín sé og telji það ekki þjóna neinum hagsmunum að halda áfram stjórnarsamstarfi að loknu landsþingi Sjálftæðisflokksins verði stefna þeirra andstæð stefnu Samfylkingar hvað þetta varðar.

Getur það verið að Sjálftæðismenn hafi í þessu máli stillt sér sjálfir upp við vegginn með því að þora ekki að taka þetta mál til efnislegrar umræðu fyrr en núna þegar ljóst er að stefna þeirra í einkavinavæðingunni og markaðshyggjuni hefur beðið algert skipbrot með sjáanlegurm afleiðingum fyrir þjóðarbúið?

Nei ég held að Ármann Kr og félagar hans ættu nú að hugsa rökrétt og vinna málið innan sinna raða og vera ekki að nýta þá aðferð sem fyrrverandi formaður flokksins hefur svo rækilega prentað inn hjá þeim sem hina einu mögulegu leið þegar vandamálin steðja að og kölluð hefur verið smörklípuaðferðin. Aðferð sem felur í sér að leiða athyglina frá sjálfum sér og yfir á aðra sem engra hagsmuna hafa að gæta hvað varðr innanhúsmál þeirra Sjálfstæðismanna. Þetta verða þeir að leysa sjálfir.


Að byggja stiga.

 

Það er fróðlegt að fylgjast með þeirri umræðu sem nú fer fram um hugsanlegar aðildarviðræður að ESB, og ekki fyrir einfalda menn eins mig að skilja hvert verið er að fara með henni.

Nú eru gengnir í eina sæng menn eins og Styrmir Gunnarsson og Ragnar Arnalds  sem hingað til hafa ekki náð að vera sammála um einn einasta hlut og eru þegar búnir að finna út hvað hugsanlegar aðildarviðræður myndu þýða fyrir þjóðina. Þeir eru greinilega þeirrar skoðunar að svo mikið sem viðræður um hugsanlega aðild megi helst ekki einu sinni fara fram, svo hættulegt sé ESB.

Einhverra hluta minnir þessi umræða mig á skemmtilega vinnuferð sem ég fór í fyrir nokkrum árum með litlu ferðafélagi sem byggir allt sitt starf á sjálfboðaliðastarfi. Fátt er mönnum hollara en að taka þátt í slíku starfi þar sem fjöldi smákónga reyna stöðugt að hafa áhrif á hvernig einföldustu störf eru unnin, allir í góðri trú um að þeirra aðferð sé sú besta og áhrifaríkasta, þótt sumum þyki oft farin Fjallbaksleið að settu marki.

Í þessari vinnuferð var svo sem ekki mikið á dagskrá, annað en að koma litlum fjallakála í viðunandi ástand fyrir sumarið, og laga svolítið til á flötum umhverfis skálann, og ef tími og veður yrði viðunandi að byggja lítinn stiga upp á útsýnishól í nágrenni skálans þar sem ljóst var að hóllinn yrði að holu yrði ekkert að gert. Slíkur var ágangurinn á hólinn.

Allt vannst þetta í góðri sátt og veðrið lék við leiðangurmenn þannig að ljóst var að kveldi fyrsta dags  að unnt yrði að ráðast í byggingu stigans daginn eftir. Formaður félagsins sem vanur var að fást við slíkar jaðartýpur sem þarna voru á ferð sá fram á að skynsamlegt væri að kalla menn saman og útskýra framkvæmdina og markmiðið með henni svo allir gætu gengið til verka morgunin eftir með skýra verkáætlun. Hann sá víst lengi eftir þeirri ákvörðun sinni.

Hópurinn fór  að hólnum og blessaður formaðurinn sem átti sér einskis ills von benti á augljósustu leiðina upp á hólinn og útskýrði fyrir mönnum hvað fyrir honum vakti. Formaðurinn sem var annálaður fjallamaður og gleðipinni hafði gengið næstum hvert fjall á Íslandi og aldrei lent í teljandi vandræðum fyrr en nú að lenti skyndilega í stórsjó lífs síns. Hann átti ekki von á þeim viðbrögðum sem hann fékk.

Þarna voru verkfræðingar og arkitektar, stjörnuspekingur , og stjórnandi einnar stærstu skurðgröfu á Íslandi, og gátu ekki orðið sammála hvernig að skyldi staðið með lagningu þessa litla stiga. Verkfræðingurinn benti strax á að til að hugmynd formannsins yrði að veruleika þyrfti að jarðvegskipta þótt það yrði til þess að hóllinn hyrfi og malarhrúga kæmi í staðinn. Arkitektinn benti á að það þyrftu að vera bogar á stiganum svo hann samlagaðist náttúrinni, Stjörnuspekingurinn sem að vísu var hvort eð er alltaf svolítið annarshugar spurði hvort menn væru orðnir vitlausir,  þessi framkvæmd ef af yrði myndi örugglega sjást úr geimnum.  Og skurðgröfustjórinn sá ekki hvernig hægt ætti að vera að koma þarna inn eftir nógu öflugu jarðvinnuvélum svo hægt yrði að vinna verkið.

Gömul kona sem með var í hópnum og hafði komið þarna á hverju ári í fjörtíu ár var sú eina sem var jákvæð gagnvart hugmyndinni , en benti á lítinn álfasteinn ofarlega í hólnum sem ekki mátti raska , Henni fannst að menn ættu nú að hætta að rífast um aukaatriði, og athuga  hvort ekki væri hægt að búa þarna til manngengan stiga öllum til góðs, mæla þetta út og teikna upp svo ljóst væri hvort þetta væri möguleiki.

Gamla konan og formaðurinn sáu hvert stefndi og vissu af fyrri kynnum af félögum sínum að nú yrði málið rætt í nokkur ár á kvöldvökum og aðalfundum út frá þeirra afmörkuðu sjónarmiðum sem þeir hefðu.

Á meðan félagarnir sváfu því sem þeir töldu svefni hinna réttlátu, og áttu draumfarir um stórkostleg mannvirki sem bera myndu sögu þeirra kynlóð fram af kynslóð, sem þeirra er bjargað hefðu útsýnishólnum fóru formaðurinn og gamla konan út í fallega vornóttina og tóku smá jarðvegssýni í krukku, teiknuðu upp sínar hugmyndir, og höfðu lokið þeirri þeirri vinnu  þegar menn vöknuðu um morguninn.

Verkfræðingurinn sem lært hafði í skóla að alltaf væri öruggast að jarðvegskipta sá að þau sýni sem voru í krukkunni gáfu ekki tilefni til slíkra aðgerða og  samþykkti að ekki væri eftir neinu að bíða, arkitektinn gaf aðeins eftir með nauðsyn allra bogana, stjörnuspekingurinn viðurkenndi að hóllinn sæist ekki einu sinni af næsta fjalli, og gröfumaðurinn varð guðslifandi feginn að þurfa ekki að draslast með gröfuna sína þarna inneftir í sjálfboðaliðastarf.

Gamla konan gaf þeim hafragraut og kakó áður en farið var út og stiginn var byggður á skömmum tíma öllum þeim sem koma á staðinn til mikillar ánægu og gleði, og gamla konan sem tekin var að lýjast í löppunum eftir áralangar fjallgöngur og volk á öræfum  fer enn í dag upp á útsýnishólinn sinn og hugsar um vini sína sem á sínum tíma mikluðu það fyrir sér að safna saman þeim gögnum sem þurfti til að byggja stigann upp á fjallið. Þeir höfðu talið sig vita fyrir alla hina.

 

 

 

 


Frábær Páll Skúlason

 

Mikið ósköp var gott að heyra viðtalið við Pál Skúlason hjá Evu Mariu í gærkvöldi.

Hann fór  yfir sviðið og ræddi málin út frá sjónarmiðum sem ekki hafa átt mikið upp á pallborðið hér á landi undanfarin ár. Benti okkur á að þó viðskipti og markaðsvæðing væri ágæt til síns brúks væri það ekki allt. Lífið ætti ekki að snúast um að skara stöðugt eld að eigin köku, heldur væri það samvinnan og jöfnuðurinn sem skiptu meira máli svo fólk gæti átt innihaldsríkt líf.

 

Hann benti okkur á að nú ættum við að hafa  lært nóg til þess að slíkir hlutir sem yfir land okkar hafa gengið undanfarið endurtækju sig ekki. Nú þyrftum við að enduskoða alla hluti í okkar tilveru og halda í þá sem sannanlega eru samfélaginu til góðs, en jafnframt hafna þeirri markaðs og einkavæðingarhyggju sem hér hefur riðið húsum undanfarin ár.  Sú stefna hefði ekki skilað okkur áfram sem þjóðfélagi jöfnuðar, heldur þvert á móti.

 

Nú væri tíminn til að nýta tækifærið, og ýta undir frjóa og gagnrýna hugsun, að virkja borgarann til að hugsa og taka meðvitaðar ákvarðanir hverju sinni. Ekki láta sjálfskipaða foringja segja okkur hvað væri rétt eða rangt, heldur fylgja hjarta okkar og og berjast fyrir hugsjónum okkar hverjar sem þær kunna að vera. Þá fyrst færi lýðræðið að virka í sinni tærustu mynd.

 

Það sem mér fannst þó athygliverðast var sú hugsun hans að nú væri kannski góður tími til að endurvekja samvinnuhugsjónina sem áður hefur skilað okkur svo miklu. Það fannst mér góð hugmynd.

 

Nú er það svo að þegar gamlar og góðar hugmyndir eða hugsjónir eru endurvaktar þá er það oftast gert vegna atburða sem gerst hafa á milli þess sem þær sofnuðu og þar til þær eru vaktar á ný. Það þýðir þó ekki að það séu sömu aðilar og svæfðu eða misfóru með góða hugsjón að þeir séu þeir bestu til að færa hana áfram á nýjum tíma.

 

Kannski eru  það ekki þeir framsóknarmenn með þeirri hugmyndafræði og forystu sem  þeir hafa sýnt  undanfarin ár ekki þeir bestu til að færa þá hugsjón áfram. Þar eru kannski allir aðrir betur til fallnir. Nema um algera hugarfasrsbreytingu á þeim bæ  verði um að ræða.

 

Sú samvinnuhugsjón sem mér fannst Páll vera að boða að vert væri að endurvekja byggist nefnilega á jöfnuði og samvinnu allra, en ekki bara sumra eins og til að mynda dæmið með Gift hefur sýnt okkur. Sú hugsun jafnaðar og samvinnu sem okkur er svo nauðsynleg núna byggir nefnilega á að hún nái yfir allt sviðið, í umræðuna, í stjórnmálin og inn á heimilin. Að menn nái að höndla málefnin á hverjum tíma með skynsemi út frá hag allra og þar sé ekki verið að hygla einum umfram aðra. Ef það næðist yrði aftur gott að búa á Íslandi.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband