Svarið

það er óhætt að segja að bæjarstjóri vor hér í Reykjanesbæ er snöggur til svara, og meira að segja það snöggur að svar hans fór framhjá mér í tölvupóstinum,þar til í dag að mér var bent á úti í bæ aðð svar hefði borist. Ég sá að kannski væri það hreint ekki sniðugt að senda svona spurningar um kostnað bæjarins vegna verkefna, sökum frjóleika meirihlutans sm nú ætlar fyrir utan leikjagarð að byggja líka dýragarð sem byrja á strax næsta vor að því er manni skilst á svarinu. í þessari stöðu spyr ég ekki meira því næsta svar myndi sennilega kalla á Tívoli næsta haust. Leyfi svo lesendum þessarar síðu að sjá svar hans og svar mitt þar fyrir neðan og vona að menn hafi skilning á varla er á það hættandi að spyrja meira í bili.

Svar Árna:

Sæll Hannes, Staða Reykjanesbæjar er skárri en flestra annarra íslenskra sveitarfélaga. Við getum vel tekist á við þann vanda sem framundan er. Við höfum sterk atvinnutækifæri og jákvætt og dugmikið fólk. Við þekkjum vel hvernig er að fást við mikið atvinnuleysi, eftir brotthvarf varnarliðsins og erum því að breðgast við bæði til að styðja þá sem missa vinnuna, en mestu varðar að berjast fyrir fleiri atvinnutækifærum á þessum viðsjárverðu tímum.  

Mér finnst  ósanngjarnt að þú gerir lítið úr þeim hugmyndum og óskum sem fjölmargir foreldrar hafa fært okkur að æskilegt væri að hafa yfirbyggða aðstöðu til leikja fyrir börn. Foreldrar fylgja börnum sínum á staðinn og eru með þeim, rétt eins og gildir á leikvöllum. Þar er ekki gert ráð fyrir starfsmönnum í gæslu. Í þessu stóra rými er einnig gert ráð fyrir  að geta geymt muni sem tengjast víkingaskipinu og verkefnum í Víkingaheimi.

Bærinn hefur í hvert sinn, undanfarin fjögur ár, sem Rammahúsið hefur verið til sölu, og það hefur nokkuð oft borið á góma, skoðað möguleg kaup á því, en ekki talið verðið nógu áhugavert, enda húsið alltaf selt í heilu lagi. Nú opnaðist þessi möguleiki og verðið komið í 70 þús kr. á fermetra. Húsið er í sjónlínu af Reykjanesbraut við Víkingagarðinn og Ölduna, sýningarhús Íslendings. Þarna hugsum við okkur stórt svæði til framtíðar fyrir ferðaþjónustu. M.a. húsdýrasýningu, nærri Stekkjarkoti, sem sefnt hefur verið á að koma upp á næsta ári, í samstarfi við sérfræðinga á því sviði. Þar er kostnaður í lágmarki, en gott verkefni í þágu barna og ferðaþjónustu. Það var því mikilvægt að ná tökum á þessu húsi við Reykjanesbrautina. Þjónusta fyrir börn, möguleg geymsla fyrir Íslending og margt fleira sómir sér vel þar. Í drögum að nýju aðalskipualgi er einmitt reynt að loka á iðnaðarstarfsemi af þyngri endanum á þessum stað, einmitt af því að svæðið er framtíðarsvæði í ferðaþjónustu, en reynt að beina þyngir iðnaði til Helguvíkur. Um þett tel ég vera fullt samkomulag nefndarmanna, óháð stjórnmálaflokkum.  

Svar við spurningu um kaup á öllum eignum sem fara á uppboð og fasteignagjöld standa ógreidd, á því ekki við. Svarið er því nei! Sérhvert mál væri þó skoðað ef erindi um það bærist.  Tankurinn við bygginguna, sem þú segir réttilega að sé öllum þyrnir í augum, hefur ekki fengist fjarlægður, þrátt fyrir ítrekaðar óskir okkar þar um. Eiganda er ekki skylt að fjarlægja slíkan búnað af því að hann sé þyrrnir í augum margra. Nú getum við gert það og munum gera það. Væntanlega vilja einhver járnsöfnunarfyrirtæki gjarnan taka að sér að rífa hann ókeypis, til að fá efnið og við erum strax að kanna það.  

Ég bið þig vinsamlegast að snúa þér til Böðvars Jónssonar með spurningar um hvað hann sjálfur eigi við. Þótt við séum samherjar í pólitík og góðir vinir, er hann mun frjórri í hugsun og greiningu en ég, svo betra er að hann svari um eigin hugleiðingar.  

Ég vona að þú virðir þessi svör, en ég reyni að gera þau það ítarleg að þetta þýði ekki bréfaskipti okkar á milli næstu mánuði. Ég hef því miður ekki tíma til svo persónulegrar þjónustu :)Ég svara þér í fyllstu einlægni í von um að þú reynir ekki að snúa út úr eða hæðast að svörunum, enda þekki ég þig ekki að slíku. Gakktu á Guðs vegum kv. Árni  

Svar mitt:

Sæll  Árni og þakka góð svör.Ekki ætla ég nú að verða til þess að draga úr bjartsýni þinni og baráttuþreki, sem er til fyrirmyndar. Og ég veit að við getum tekist á við þann vanda sem framundan er með jákvæðni og skynsemi. Já og raunsæi. Að átta okkur á stöðunni og vinna út frá því.   Ekki finnst mér það nú merkileg rök að önnur sveitarfélög  séu í vondum málum, þannig að við megum gera hvað sem er. Hvað varðar styrk bæjarins fjárhagslega ætla ég að leyfa mér áfram að vera í vafa um þrátt fyrir orð þin, í ljósi þeirrar staðreyndar að bara fjármagnsliðir bæjarins á þessu ári verða í kringum 2.milljarða svo einhverjar skuldir hljóta að vera þar á bakvið og fregnir hafa borist um að sviðsstjórum bæjarins verið gert að spara um allt að 30% á næsta ári, auk skuldbindinga bæjarins í formi húsalegu, sem nú eru víst á þriðja tug milljarða sé litið til næstu 25 ára og svona gæti maður áfram talið.  Þú skilur það.   Það er rétt hjá þér að hér býr jákvætt og dugmikið fólk, og útlit fyrir góð atvinnutækifæri, þrátt fyrir að þar hafi  hægt hafi  á um stundarsakir. Nú er ekki tíminn til að fara út og leika sér, þó freistandi sé.

Nú var það alls ekki meining mín að gera lítið úr þeim hugmyndum  og óskum sem fram hafa komið, heldur einungis að leita svara við spurningum sem vöknuðu upp þegar í ljós kom að nú skyldi rísa hér leikjagarður . Því miður hafa svör þín við spurningum mínum hvað varðar leikjagarðinn ekki skýrt málið svo neinu nemi, heldur hafa bæst við fleiri spurningar í ljósi þess hve þetta verkefni stækkar ört, án þess þó að um það hafi verið rætt nokkurs staðar í nefndum bæjarins sé að marka fundargerðir þær er birtast á vef bæjarins. Nú er skyndilega kominn húsdýragarður sem hefja skal framkvæmdir við næsta sumar. Fleiri spurningar hafa nú vaknað, en best fyrir fjárhag bæjarins að spyrja þeirra ekki því þá gæti verið komið þarna Tívolí áður en maður veit af.    

Það er nú gott að tankurinn hverfi  og okkur að kostnaðarlausu enn betra. 

 Ef það er það sem þarf til frjóa hugsun og skýran greinanda til að útskýra þau góðu mál sem A-listinn á að hafa stoppað, tel ég ekki þörf fyrir að halda þeirri spurningu til streitu. Hún hefur svarað sér sjálf.  Ljóst er að yfir 95% mála í nefndum og ráðum bæjarins eru samþykkt samhljóða, mál sem hljóta þar af leiðandi að teljast góð mál. Spurning hvað hin varðar?  Ég vil nú enn og aftur þakka þér Árni fyrir snögg svör, þó kannski hefðu þau nú virkað meira traustvekjandi ef ljóst hefði verið að um þau hefði verið hugsað. Ég leiði  hjá mér þau tilmæli þín að ég láti þig í friði með bréfaskriftum næstu mánuði, í ljósi þess að þú hafir ekki tíma til svo persónulegrar þjónustu. Það bauðstu upp á þegar þú bauðst þig fram sem bæjarstjóra , og ekki lít ég nú á að bæjarstjóri sá sem ég kaus þurfi  ekki að svar bæjarbúum þeim spurningum sem til hans er beint. Það væri nú eitthvað skrýtið lýðræði. Með bestu kveðjuHannes Friðriksson 

 


Selveiði í Trékyllisvík

Eitt það mikilvægasta fyrir ferðamann sem fer til fjalla á hrjóstrug svæði er að kynna sér viðkomandi landssvæði, nú eða að fá fararstjóra sem þekkir svæðið af eigin raun. Þar þýðir lítið að fá fararstjóra sem ekki þekkir svæðið, en hefur verið sagt frá því án þess þó að hafa á því einhvern sérstakan áhuga.

 

Einhvern veginn  svona voru fyrstu hugsanir mínar nú í morgun þegar ég hlustaði á óundirbúnar fyrirspurnir frá Alþingi, þar sem athygli vakti að það var nýr þingmaður Suðurkjördæmis,Helga Sigrún Harðardóttir sem spurði heilbrigðissráðherra út í fyrirhugaða skerðingu á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Aðrir þingmenn svæðisins þögðu.

 

Hún spurði út í þær fjárveitingar sem HSS fengi og útskýrði fyrir ráðherranaum hvað væri vandamálið í kringum HSS, og það var að fjárveitingar til stofnunarinnar væri í engu samræmi við þá þjónustu sem stofnunnni er ætlað veita lögum samkvæmt, og hvað þá í hlutfalli við íbúafjölda svæðisins.

 

Ráðherrann sem síðastliðið sumar var kröfutuglega bent á vandamálið, og lofaði þá að þetta yrði leiðrétt svaraði náttúrulega engu af þeim spurningum sem til hans var beint, heldur fór að tala um fjárveitingar vegna heilbrigðismála  til íbúa á Hólmavík, sem frekar en  að fjöldi veiddra sela  í Trékyllisvík koma vandamálum HSS ekkert við.

 

Hans rök voru að leiðarlýsing sú sem hann styddist við hefði hann ekki samið heldur væri það verk fyrri fararstjóra sem þar hafði farið um áður, og eftir henni yrði farið. Kannski hann sé á vitlausri leið og þekki ekkert til kennileitanna.

 

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum síðustu daga stendur ekki á vilja HSS til að spara, en fjáveitingar til stofnunarinna eru þær lægstu á landinu og því erfitt um vik hvað það varðar. Væri nú ráðherranum ekki nær að tryggja eðlilega fjárveitingu til stofnunarinnar í stað þess að ætlast til að fjársveltasta heilbrigðistofnun á Íslandi  skeri í burt það litla kjöt sem enn er eftir á beinunum.


Sendibréf

Það er fátt skrautlegra en bæjarmálapólitík sú er meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ stendur fyrir. Hér má alls ekki spyrja spurninga um þá hluti er meirihlutinn leggur á borðið, enda hvorki íbúa né heldur minnihlutans að spyrja um þá hluti er ákveðnir eru. Leyfði mér þó að senda bæjarstjóranum nokkrar spurningar um það mál er fæstir skilja þessa dagana, og nú bíður maður bara eftir svörunum

 

 

Sæll Árni

Í ljósi fyrri tölvupóstsamskipta okkar er mér ljóst að þú hefur valið að elta ekki ólar við þær spurningar sem ég set fram á bloggsíðu minni , og sný mér því beint til þín í formi tölvupósts eins og þú bauðst mér  svo vinsamlega í tölvupósti þann 22 maí síðastliðinn.

Undanfarið hafa birst fréttir af kaupum bæjarins á hluta húseignarinnar Seylubraut 1. (Rammahúsið)og er það gert á tímum þegar ljóst er að fjárhagsstaða bæjarins er slæm, svo ekki sé meira sagt. Hvers vegna það er vitum við báðir.

Þau svör sem gefin hafa verið fyrir kaupum á hluta húseignar þessar  finnst mönnum ekki rista djúpt, og rökin sem á bak við virðast léttvæg, þegar tekið er tillit til stöðu landsmála í dag. Mig langar því að leggja nokkrar fylgispurningar við þau svör sem þegar hafa verið gefin hvað mál þetta varðar. Og eins og þú í fyrri pósti okkar til að fyrirbyggja allan misskilning mun ég  áframsenda þennan póst á þá aðila er gagn gætu haft af þeim upplýsingum og svörum sem þú gefur .

1.       Hefur verið tekinn um það ákvörðun í til að mynda í bæjarráði að framtíðarstefna bæjarins hvað varðar innheimtu fasteignaskatts sé að kaupa upp hluti í húseignum þar sem sá skattur er í vanskilum? Eða er hér um einstakt tilfelli að ræða?

2.       Finnst mönnum það réttlætanlegt á sama tíma og þeir vinna að niðurskurði í fjármálum bæjarins að kaupa hlut í húseign sem þessari  fyrir lánsfé, og hefur farið fram úttekt  á þörfinni fyrir leikjagarð þann er rætt er um í viðtali við Böðvar Jónsson formann bæjarráðs í Vikurfréttum  nú í dag?  Hvernig hafa menn hugsað sér opnunartíma, og hver verður rekstrarkostnaður slíks leikjagarðs? Hvernig hafa menn hugsað sér samgöngur og pössun þeirra barna er þarna koma til með að dvelja. Hvað kosta þær breytingar sem ráðast þarf í til þess að húsnæði þetta uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíkra staða? Og er það að hugsa um börnin í bænum að þyngja skuldabyrði foreldrana, sem jú koma til með að borga þennan pakka?

3.       Er ekki skv. heilbrigðislöggjöf  bæjarins einfaldara og kostnaðarminna fyrir bæjarfélagið að senda bréf til viðkomandi húseiganda tilmæli um að fjarlægja þann tank sem fyrir utan húsið og öllum er þyrnir í augum . Hver verður kostnaður bæjarins af niðurrifinu  fyrir utan kaupverð hússins?Frímerkjakostnaður hefur ekki hækkað að undanförnu að því er ég best veit.

4.        Húsið er skilgreint sem iðnaðarhúsnæði, og til iðnaðarstafsemi þarf starfsleyfi sem gefin eru    út af viðkomandi stofnunum. Er það stefna núverandi meirihluta að stýra því í gegnum bæjarstjórn og bæjarráð hvað starfsemi fari fram í hverju húsi?

5.       Hver eru þau góðu mál sem formaður bæjarráðs talar um í frétt á Víkurfréttum , að A-listinn hafi verið á móti? Vinsamlegast listaðu upp svarið við því.

 

Meira var það nú ekki, Gaman væri að fá svör við þessu eins fljótt og þér gefst kostur á svo ljóst sé hver stefna og hugsun  meirihlutans sé ljós í þessu máli.

 

                                                                                  Með bestu kveðju

                                                                                 Hannes Friðriksson


Rakalaus rök

Í fyrradag skrifaði ég lítið blogg hér á  síðuna í tilefni af kaupum bæjarins á hluta í húseigninni Seylubraut 1 hér í Reykjanesbæ og átti frekar erfitt með að skilja þau kaup, og á það raunar enn þrátt fyrir þau rök sem meirihluti D-listans hefur lagt fram fyrir þeim.

 

Í fyrsta lagi á ég erfitt með að skilja að bærinn skuli fara í lántöku á þessum tímum til að kaupa hluta í húseign sem þessari á sama tíma og ljóst skv því 9.mánaða uppgjöri sem kynnt hefur verið að halli á bæjarsjóð komi til með að vera vel yfir 2.milljaraðar á árinu.

 

Í öðru lagi skil ég ekki hversvegna þarf að kaupa þennan hlut sem hreint ekki er né verður auðseljanlegur í framtíðinni til þess að innheimta fasteignagjöld.

 

Í þriðja lagi skil ég ekki að hægt skuli að kaupa slíka húseign án þess að bærinn hafi yfirleitt nokkur not fyrir hana nema þá hugsanlega sem sláttuvélageymslu fyrir bæjarstjórann.

 

Í fjórða lagi skil ég ekki að hægt skuli að kaupa svona hús á sama tíma og ekki er hægt að styrkja ýmis góðgerðarsamtök eins og til að mynda Kvennaathvarfið um smáupphæðir í þessum samanburði.

 Nei það er margt sem hvorki ég né aðrir skilja ekki í þessu máli, og ljóst að fnykurinn lyktar langar leiðir, á meðan ekki eru gefnar betri skýringar en gefnar voru á bæajrstjórnarfundi í gærkvöldi þar sem hluti rakanna voru að nauðsynlegt væri að bærinn hefði áhrif á hverskonar starfsemi færi fram í húsnæði sem þessu hvort þar væru saumavélar eða reiðhjólaverkstæði, jafnframt því sem nauðsynlegt hefði verið að kaupa það til að unnt yrði að fjarlægja tank þann sem utan á húsinu sökum útlitsmengunar. Nei hér liggur eitthvað annað að baki.

Litla leynifélagið

 

Veit ekki af hverju mér datt í hug að kannski væri þetta allt saman eitt allsherjarplott eins og sá norski í Spaugstofunni hefur verið að gefa í skyn á undanförnum árum. Að þeir sem öllu virðast ráða í Sjálfstæðisflokknum væru ekki  sjálfstæðismenn heldur fyrst og fremst félagar í einhverju litlu leynifélagi  úr MR. Og hafi svarist þar í fóstbræðralag með mörgum árum síðan. Öðruvísi fær maður ekki skilið hvernig þeir standa hver við bakið í þeim málum sem þeir koma að.

Sé þá fyrir mér sem unga menn hokrandi undir húsvegg veltandi fyrir sér hvort heldur þeir eigi að hafa leyniorð fyrir félagið, eða lítið tattoo á handarbakinu eða  undir tungunni.Eina stefnan sem leynifélagið skyldi hafa eru alger yfirráð yfir innviðum samfélagsins, og þeir sem myndu kjafta frá yrðu kaffærðir í tjörninni  í andaskít fyrir hin minnstu afglöp gagnvart félaginu, og refsingin þyngjast eftir því sem málin yrðu alvarlegri.

Nauðsynlegt yrði að annað hvort stofna eða ná yfirráðum yfir  stjórnmálaflokki, þar sem öll lýðræðisleg umræða yrði kæfð svo fljótt sem á henni bæri , og hver einn sem þar kæmist til áhrifa yrði heilaveginn svo fljótt sem auðið yrði. Genaskipting kæmi þar einnig vel til greina.Best væri að nota til þess einhverja gamla og góða stefnu sem auðvelt væri að afbaka.

Allir skyldu fylgja foringjanum sem lengst næði, og sjálfstæð hugsun innan hópsins algerlega bönnuð. Öðruvísi næðist ekki takmarkið um alger yfirráð. Hagur þeirra væri mikilvægari en þjóðarhagur, og ef á yrði einn ráðist væri litið á það sem árás á hópinn allan.

Félagið þyrfti að hafa hugmyndafræðing sem eingöngu helgaði sig því að bulla út í eitt um gæði einstaklingshyggjunnar, og sinnti einnig njósnastörfum í miðbæ Reykjavíkur þess á milli , kæmist sá sem til embættis dómsmálaráðherra veldist ekki  yfir þann hluta starfsins. Njósnarinn skyldi ávallt vera í hvítum skóm. Og foringinn helst með kórónu.

hannesholmsteinn2
 

Mikilvægt væri að koma mönnum leynifélagsins félagsins að í öllum helstu lykilstöðum þjóðfélagsins. Þannig þyrftu menn að ráða yfir til að mynda fjármálaráðuneytinu hvað sem tautaði og raulaði, hver sem  kosinn yrði þar inn sem ráðherra, þar væri best að hafa ráðuneytisstjóra þó ekki sakaði að hafa þar ráðherra líka. Forsætisráðherrann þyrfti helst að hafa, og ekki skaðaði að hafa hann sem ígildi konungs í hið minnsta.

Það þyrfti að ráða yfir málgagni og nauðsynlegt væri að hafa að minnsta kosti einn hæstaréttardómara. Kerfið þyrfti að vera endurnýjanlegt og þeir eingöngu gjaldgengir sem gott og sérstakt háralag  hefðu og helst vatnsgreiddir.Skilyrði væri að enginn gæti orðið félagi   sem stungið  hefði hendi í kalt vatn eftir að menntaskólagöngu lyki. Félagar mættu ekki undir neinum kringumstæðum vera í tengslum við fólk sem talist gæti til almennings.

Ef eitthvað það gerðist sem ógnað gæti tilvist og yfirráðum félagsins skyldi þess gætt að útlokað yrði að einhver meðlima félagsins þyrfti að sæta ábyrgð, og bent skyldi  á alla aðra hvað þann hluta varðar, og best væri að sú sök og refsing sem hugsanlega yrði til staðar lenti á börnum og gamalmennum , að ekki sé nú talað um ræstingarkonuna í menntaskólanum sem svo oft hafði ávítt þá félaga fyrir að vaða þar inn á skítugum skónum , án þess að skeyta neitt um umhverfi sitt.


Krónur eða dollarar

 

 

Um daginn kom vinur minn einn til mín og bað mig um að lána sér reiðhjólið, sér stutta stund. Og ég jánkaði því enda sjálfsagt að mér fannst. Mér brá því í brún þegar ég heyrði bílinn minn ræstan og vinurinn keyrði í burtu á honum. Hugsaði um hvernig ég átti að bregðast við en ákvað að vera slakur og treysta vininum því það hlaut að vera skýring.

Þegar vinurinn kom til baka nokkrum tímum síðar spurði ég hvers vegna hann hafði tekið bílinn þegar ég hafði lánað honum hjólið svaraði hann. Mér fannst það ekki skipta máli bíllinn hreyfist líka. Ég varð orðlaus.

 

Ég varð líka hálfhvumsa þegar ég í gær sá eftirfarandi frétt á vef Víkurfrétta http://www.vf.is/Frettir/38343/default.aspx, þar sem fjallað er um að lán sem bærinn hafði tekið hafði hækkað um 300 milljónir króna þrátt fyrir að greitt hefði verið ríflega af því frá því að það var tekið. Forvitnin vaknaði.

 

Við nánari eftirgrennslan kom náttúrulega ýmislegt í ljós sem mér fannst furðulegt við fréttina, enda ekki við öðru að búast þegar jafn tortryggin maður og ég kíki á málefni bæjarins. Fyrir það fyrsta hafði lánið hreint ekki hækkað um 300 milljónir eins og sagt var heldur um rúmlega 500 milljónir sé notað gengi gærdagsins á dollar sem var 135kr.

 

Annað sem mér fannst skrýtið, og minnti mig á vininn sem fékk lánað hjólið var að hvorki í bæjarráði né bæjarstjórn hafði verið sótt um leyfi til að taka lán í dollurum, heldur í krónum, og það hjá Lánasjóði Sveitarfélaga. Hvort lánið hafi verið tekið í dollurum vegna þess að það voru líka peningar verða aðrir að svara fyrir.

 

En maður verður nú að vera jákvæður líka og hrósa núverandi meirihluta fyrir þa´stefnubreytingu sem orðið hefur hvað varðar húsnæðismál bæjarins þar sem þeir virðast nú skyndilega hafa snúist í 180 gráður hvað það varðar.

 

Á bæjarráðsfundi þann 13.11.2008 er samþykkt af meirihluta bæjarráð að kaupa hluta af eigninni Seylubraut 1 fyrir tæpar 75.milljónir króna. Nú hafa miklar umræður verið undanfarið um innkaupastefnu bæjarins og bæjastjórinn segir að allir fái að bjóða í innkaup bæjarins.

 

Í fyrsta lagi hefur hvergi mér vitanlega komið fram að bærinn sem ekki hefur einu sinni efni á að styrkja Kvennathvarfið lengur, hafi yfirleitt verið í einhverri sérstakri húsnæðisþörf, enda ekki gefið upp í fundargerð til hvers á að nota hina nýju eign. Vitað er að engum öðrum aðila var boðið að útvega bænum sambærilega eign þrátt fyrir útboðsstefnu bæjarins. Hvað veldur?Og hvað ætlar bærinn að nota þetta húsnæði undir?

 

En það sem mér finnst eiginlega þó mest spennandi núna er hvort bærinn borgi eigandanaum í krónum, eða dollurum það skiptir máli miðað við þróun krónu þessa dagana.

 

Vonin er mikilsvirði

Vonin er mikilsvirði. Undanfarnar vikur og mánuði hafa íbúar á Suðurnesjum bundið miklar vonir við fyrirhugað álver í Helguvík.Allir hafa lagst á eitt til að þessi framkvæmd gæti orðið að veruleika, og hefur undanfarið í skugga kreppu hefur álverið verið sú framkvæmd sem menn hafa horft til sem hluta af lausn á vandamálum svæðisins.

 

Fréttir og greinaskrif hafa gefið mönnum ástæðu til bjartsýni, og að fljótlega upp úr áramótum myndu þarna vera að störfum 1000-1500 manns ef marka má greinarskrif til að mynda Þorsteins Erlingssonar um þetta mál fyrir nokkrum vikum þar sem hann hvetur menn til samstöðu, samstöðu sem ekki hefur rofnað.

 

Undanfarna daga hafa hins vegar birst fréttir, og þær fréttir hafa verið í mótsögn við það sem haldið hefur verið að mönnum af bæjaryfirvöldum. Í þeirra augum er ennþá allt í lukkunar velstandi og brýnt er fyrir þeim sem vonina eru að missa að eftir áramót verði þarna allt á fullri ferð.

 

Nú um helgina birtist til að mynda frétt í Fréttablaðinu sem gefur hreint ekki ástæðu til neinnar bjartsýni hvað framhaldið varðar.Blaðafulltrúi Norðuráls boðar að hægt muni á framkvæmdum og leitað hagstæðustu tilboða. Nú muni framkvæmdaraðilinn reyna að ná verðum niður, og fá framkvæmdina stækkaða. En segir í raun ekkert um hvort þarna verði þær framkvæmdir sem lofað hafði verið eftir áramót.

 

Ljóst er að sá tími er kominn þar sem menn verða að hætta að kveða hálfkveðnar vísur hvað þetta mál varðar, og láta samfélagið vita hvað menn ætla að gera. Á að byggja álver eða ekki.

 

Ljóst er að þegar er folk tekið að flytjast hingað í ljósi þeirra atvinnuaðstæðna sem lofað hefur verið, og leiguhúsnæði í boði á þokkalegum kjörum að því er virðist ef marka má auglýsingar þar um. Haldi sá fólksflutningur áfram á fölskum forsendum að því er virðist, kemur þetta til með að  hafa áhrif á fjárhagsstöðu bæjarins í formi aukinna félagslegra vandamála.

 

Nú er tími fyrir meirihlutann til að útskýra.

 

 


Húsmóðirin er komin heim

 

Húsmóðirinn er komin heim. Það er greinilegt að henni hefur ekki líkað hvað heimilisfólkið hefur verið að gera á meðan hún var í burtu, og skikkað þau til að taka til það drasl sem myndast hefur í fjarveru hennar. Hún veit að til þess að hafa stjórn á hlutunum verða menn að hafa skipulagið í lagi. Það hafði eitthvað raskast í fjarveru hennnar.

 

Sum mál eru þannig vaxin að þar þýðir ekkert að beita kröftum eða kjöftum, heldur verður skynsemin að ráða, og hefur sent út samningamenn til að lagfæra það sem húsbóndinn hafði klúðrað, sökum vöntunar á samræðunni við frúnna. Hann hafði ekki farið skynsömu leiðina og gleymt hvert hlutverk hans var. Hann átti að sjá um uppeldið og verkstjórnina á meðan frúin var í burtu, en ákvað frekar að fara í kúrekaleik með vinunum. Áttaði sig ekki á að hann var umkringdur.

 

Einhvern veginn svona kom þetta mér fyrir sjónir er ég las blöðin í morgum. Greinilegt að Ingibjörg  hefur lesið pistilinn og sent menn til að greiða úr málum.

 

Menn komnir til Brussel að greiða úr málum Icesave ,enda er  húsmóðurinni ljóst að ekki er hægt að elda hafragraut ef haframjölið vantar, og hún sendi samstarfsflokkinn inn í herbergi til að finna út úr sínum málum, og út skyldu þau ekki koma fyrr en skynsamleg lausn lægi á borðum. Sá flokkur skammast sín og biður um að fá að vera lengur inn í herbergi til að finna lausnina. Það má hann. Hann draslar þá ekki neitt á meðan.

 

Á meðan meginþorri barnanna hefur verið aðallega að drasla í kringum sig er greinilegt að nokkrir hafa þó reynt að leggja sitt af mörkum og tekið mesta draslið til í kringum sig. Ein er þó sem haldið hefur hreinu í kringum sig, lokað sig inni og unnið að lausnum þeirra vandamála sem fyrir voru sett.

 

Jóhanna Sigurðardóttir að öllum öðrum ólöstuðum hefur sýnt hvar hennar hjarta slær og nú komið fram með tillögur sem huga að hag heimilanna sem mörg hver eiga við ramman reip að draga. Hún vissi hvert hennar hlutverk var í fjarveru húsmóðurinnar. Bara að húsbondinn og frændinn í Svörtuloftum hefðu vitað það líka.


Big Spender

Suma morgna þá vaknar maður upp, og virðist einhvern veginn hafa fengið eitthvað lag á heilann, stundum lög sem maður hefur ekki heyrt lengi. Þannig var þetta hjá mér í morgun. Frúin með sína hjúkrunarfræðingsmenntun virkaði hálf áhyggjufull , þegar ég kom dansandi fram að kaffivélinni syngjandi  Hey Big Spender.

Nú er ég búinn að hafa þetta lag á heilanum nánast í allan dag, og hef verið að velta fyrir hugsanlegri ástæðu þess að það hafi fest sig svo  í huga mér. Ekki höfum við verið eð eyða neitt rosalega undanfarið, enda engir peningar til þannig að ekki getur það nú verið ástæðan. Það var ekki fyrr en rétt í þessu að vinur minn benti mér á um hvern ég væri að syngja, hann sá augljós tengsl. Það var Bæjarstjórinn og meirihlutinn hans. Ég skyldi tenginguna strax.

Það er ljóst að Reykjanesbær  er með skuldsettari bæjarfélögum í þessu landi og sú staða að fjármagnsliðirnir einir í rúmlega 14.000 manna bæjarfélagi eru nú komnir yfir 2.milljarða segir sína sögu. Það eru um það bil 150.000 kr á hvern íbúa ef ég hef reiknað rétt. Það er erfitt að fjalla um málefni bæjarins án þess að dálítill kvíði fylgi með, og sumum þeim er  illa líkar sú umræða sjá einnig örla fyrir neikvæðni.

Til að gera þá umræðu léttbærari fyrir þá sem taka henni sem neikvæðri ætla ég því í framtíðinni þegar ég fjalla um bæjarmálefnin að láta þeim færslum fylgja mismunandi útgáfur af þessu lagi, og vona að þannig geti ég létt þeim lundina, og auðveldara verði fyrir þá í framtíðinni að lesa pistlanna án þess að eiga andvökunótt á eftir.

Ég ætla að byrja á útgáfu sem ég fann á netinu  með Shirley Bassey sem hefur sungið þetta lag í mörgum útgáfum , og mun svo reyna að láta nýja útgáfu fylgja í hvert skipti sem ég fjalla um bæjarmálefni Reykjanesbæjar


Hvað á að kæra?

Jón Ásgeir Jóhannesson  hótar að kæra verði spurt, og finnst að sér vegið  verði látið uppi hver lánaði til kaupa hans á hlutafé, sem virðist ætla að skapa honum einokunarstöðu á fjölmiðlamarkaði. Því miður fyrir Jón Ásgeir þá stjórnar hann því ekki að hverju menn spyrja, en greinilegt að hann er hræddur við svörin

Hvers vegna má ekki spyrja og hvernig Jóni Ásgeiri dettur í hug að hann geti kært menn fyrir að spyrja spurninga skil ég ekki. Hafi það verið banki sem kominn var í eigu íslensku þjóðarinnar sem lánaði honum fé , eftir það sem á undan var gengið, og Jón Ásgeir ber töluverða ábyrgð á ,er sjálfsagt að fá svör við því . Jón Ásgeir á ekkert inni hjá þjóðinni, og þjóðin hefur engan áhuga eða vilja til að lána honum pening svo hann geti stýrt  hér  umræðunni  í framtíðinni.

Nú er kominn sá tími að allt komi upp á borðið, hvort sem Jóni Ásgeiri líkar það betur eða verr. Nú þarf að hreinsa til á brotastað, og fjarlægja þá brotamenn  sem enn eru á vettvangi  svo gögnum málsins verði ekki spillt.Það á ekki að afhenda þeim lykil að svæðinu til þess að þeir komist þar að aftur síðar, til að fullfremja glæpinn.

Dómsmálaráðherra hefur boðað að skipuð verði rannsóknarnefnd með víðtækar heimildir til að finna út úr falli bankanna. Og að sú nefnd fái víðtækar heimildir til að taka á móti gögnum frá þeim er hugsanlega hafa þar komið að gegn því að viðkomandi fái sakaruppgjöf sé uppljóstrunin meira virði en hugsanlegt brot viðkomandi.

Nú er ljóst að Jón Ásgeir hefur hlotið dóm og honum er óheimilt að sitja í stjórnum fyrirtækja á Íslandi. Er það þá eðlilegt að banki í ríkiseigu  láni honum til að eignast fleiri fyrirtæki ? Er hugsanleg kæra Jóns ekki bara staðfesting á að einhver hinna nýju bankastjóra hafi brugðist því trausti sem til viðkomandi var borið, og lánað honum það fé sem vantaði.

 Ennþá sitji í raun sömu aðilar við kjötkatlana og feli sig á bak við bankaleynd. Með slíka menn innanborðs verður ekki skapaður grunnur að nýjum tímum, og því mikilvægt að þetta mál komist á hreint. Þetta er þrátt fyrir allt ekki  bananalýðveldi, eða hvað?

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.