Tími til að hvíla.

Hvað er í gangi eiginlega hugsaði ég með mér í morgun þegar ég sá forsíðufrétt Morgunblaðsins um enn frekari drátt á að fjallað verði um umsókn Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrst þurfi að ganga frá annarri fjármögnun, áður en hægt verði að taka málefni Íslands fyrir og endanleg umsókn verði send inn.

Nú hefur maður beðið pollrólegur í einn og hálfan mánuð eftir að ríkisstjórn Geirs H Haarde kæmi með þær lausnir sem þeir hljóta að hafa séð  þegar þeir ákváðu yfir helgi að setja Glitni sáluga í þrot, og forsætisráðherra sagði sunnudagskvöldið fyrir neyðarlög að ekki væri nein sérstök ástæða til aðgerða.

Því miður virðist það vera svo að ráðherrar Samfylkingar láti draga sig áfram, og sýni ekki þann manndóm er þarf til að þoka málum áfram. Þeir bóka í ríkisstjórn að núverandi fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins starfi ekki í þeirra umboði sem seðlabankastjóri, og verndari þeirrar peningastefnu sem seðlabankinn standi fyrir. Forsætisráðherra lætur þá vita opinberlega að þrátt fyrir slíka bókun  sé það nú hann sem ráði hver er seðlabankastjóri  og hann hafi ekki hugsað sér að breyta neinu þar. Sama hvað samstarfsflokkurinn bóki þar um.

Þeir samþykkja aðgerðir sem eru unnar yfir eina helgi án aðkomu annarra hagfræðinga en  forsætisráðherra  og aðstoðarmanns hans. Ekki var hagfræðingum til að mynda seðlabankans hleypt þar að.

Þeir ætlast til að við sýnum rósemd og skilning á meðferð málsins, og biðja um samstöðu á meðan það versta gengur yfir. Við höfum sýnt þeim þá samstöðu, skilið að það eru vandamál í sambandi  Icesave reikningana, og að allt er í lausu lofti þess vegna. Þjóðin er lausu lofti, og áfram  er beðið um þolinmæði.

Nú er kominn sá tími að þolinmæðin fari að þrjóta, tími til kominn til að Samfylkingarmenn viðurkenni vandann og hann verði ekki leystur með þeim er þeir töldu til þess hæfa. Senda þá í hvíld og leyfa þjóðinni að láta í ljós vilja sinn. Öðru vísi eigum við enga möguleika.


Í krafti meirihluta?

Auðvitað er það ekki gott að kastað sé eggjum og tómötum á Alþingishúsið, en það er skiljanlegt.Það er skiljanlegt á þann hátt að nú er fólk orðið reitt, og sumir  gefist upp á þeim kurteisilegu mótmælum sem við íslendingar erum þekkt fyrir. Fólk er orðið bæði þreytt og hissa á þeim útskýringum sem forsætisráðherrann gefur þjóðinni, hrætt um að maðurinn valdi hreinlega ekki hlutverki sínu lengur . Hann sé ekki sá foringi sem leitt geti þjóðina út úr því ástandi sem ríkir. Ég held að það sé rétt.

Hvað eftir annað hefur hann  gefið þjóðinni rangar og villandi upplýsingar, allt frá fyrstu dögum þessarar krísu hefur hann grafið undan sjálfum sér með ósannsögli,og það er ekki í  hans verkahring að skilgreina hvað eru skrílslæti og hvað eru mótmæli. Það er óljóst hvorum megin hann er sjálfur, þó hann haldi ró sinni ennþá.

Hann telur að í krafti embættis síns geti hann staðið vörð um þá peningastefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn og náhirð hans hans hafa leitt yfir þjóðina á undanförnum árum. Það telur hann sig geta gert  meðal annars í krafti óvenju styrks stjórnarmeirihluta. Hann ætlar ekki að reka Seðlabankastjórann sem hann kynntist ungur við eldhúsborð ömmu annars þeirra , og hefur verið í fóstbræðralagi við síðan.  Þrátt fyrir að hinn stjórnarflokkurinn hafi bókað í ríkisstjórn að seðlabankastjóri sitji  ekki í umboði þess flokks. Frekar skal þjóðin blæða.

Þetta telur hann sig geta gert í krafti þingmeirihlutans sem er svo sterkur. En er hann það? Það má vel vera rétt að það séu margir þingmenn sem á bak við þá flokka sem nú mynda stjórn, en jafnljóst að stuðningurinn á bak við þá þingmenn fer stöðugt minnkandi. Þannig virðist Sjálfstæðisflokkurinn vera orðinn að 15% flokki eða minna  í dag sé eitthvað að marka viðhorf fólks til þess flokks.

Það er ljóst að sú ríkisstjórn sem nú situr  getur ekki leitt þjóðina í gegnum þetta vandamál hversu góður sem viljinn kann að vera. Til þess hefur hún  ekki lengur þann meirihluta á bak við sig sem nauðsynlegur er .

Það er  ekki  nóg sem sumir halda fram að endurskoða þann stjórnarsáttmála sem nú er í gildi, og telji að stjórnin geti haldið áfram á þeim forsendum. Kjósendur ætlast til  að núverandi stjórn sem situr í augnablikinu sökum fornrar frægðar og gamalla atkvæða fari frá, og til komi ný stjórn með nýtt umboð. Þannig virkar lýðræðið. Og á það ber að hlusta

Vogstangaraflið.

Lengi hafa menn beitt vogstangaraflinu til ýmisa verkefna,  vogstöngin var til að mynda fyrir tíma tölvualdar aðalhluti allra þeirra voga sem notaðar voru.  Þá var miðjan notuð sem veltiás, og það sem mæla þurfti sett á annan ásinn, og mælieiningarnar á hinn. Þegar vogstöngin stóð lárétt var jafnvægi náð. Vogstangaflið hefur einnig verið nýtt til að flytja stóra hluti til, þá hefur þyngdarpunkturinn verið fluttur til. Þannig telja margir að vogstangaraflið  hafi verið forsenda fyrir að hægt var að smíða til að mynda Pýramídana í Egyptalandi , og mörg önnur stórvirki fyrri tíma.

Heimilin í landinu eru á leið í miklar þrengingar, reikna má með að verðtrygging lána  sem þau hafa tekið eigi eftir að sliga mörg þeirra. Þannig eru nú heimilin öðru megin á ásnum , og verðtryggingin hinum megin.  Verðtryggingarásinn stígur stöðugt hærra og hærra, og brátt verður því þannig komið að heimilin geti ekki lengur greitt þær verðbætur sem til er ætlast. Og vigtin stendur lóðrétt.

Þá er um tvær leiðir að velja, annarsvegar að láta ásinn standa lóðrétt og verðtrygginguna halda áfram óbreytta, með þeim galla að heimilin geti ekki borgað lengur, eða að færa til hluta þungans, frá heimilunum og yfir á lánveitandann.  Fá ásinn til að vera í jafnvægi.

Auðvitað reka margir þeir sem lánað hafa þessi verðtryggðu lán upp rammakvein, og segja að þetta sé ósanngjarnt, þeir hafi reiknað með að þessi leið ávöxtunar væri örugg sama hvað á gengi. Hún er þó ekki öruggari en það að geti skuldarinn ekki borgað er hluti fjársins tapaður. Þá er skynsamlegra að huga að hag beggja og finna leið þar út. Sú leið gæti til að mynda verið sú að niðurskrifa verðtrygginguna og gefa þannig skuldaranum færi á að standa við greiðslu höfuðstóls lánsins, þó lántakandinn fái ekki fullar verðbætur.

 Á endanum myndi þessi leið svo verða til þess að sú ósanngjarna verðtryggingarstefna sem hér er ,   afleggist og svipað lánafyrirkomulag og annarsstaðar þekkist verði  það viðmið sem við grundvöllum okkar bankakerfi á. Þá væri vogstangaraflið vel nýtt.


Segl á símklefann!!

 Í morgun setti ég lítið blogg á vef Víkurfrétta hér í Reykjanesbæ, um lítinn símklefa sem settur hefur verið upp hér á torgi sem nefnt er Lundúnatorg. Setti þetta nú inn sem meinlausa tillögu og reiknaði nú ekki með að menn færu að setja sig í einhverjar pólitískar stellingar þessvegna. Áttað mig þó á og vissi það rendar áður að í litlum bæ eins og hér skal maður gæta orða sinna, sérstaklega ef það er ekki alveg í anda Flokksins sem hér ræður. Fékk strax skilaboð um að tillagan væri afleit, og ég væri með fúlari mönnum sem hér gengju um bæinn. Ákvað að setja þetta hérna inn svo menn sjái hvernig pólitísk umræða fer fram hér í þessum bæ, og bendi sérstaklega á comment no 2, frá þeim nafnlausa.

 

Sumir vilja meina að ég sé ekki maður morgunhress. Frúin er ein þeirra. Hún er þeirrar skoðunar að um leið og maður opnar augun í nóvember myrkri og rigningu eins og í morgun  eigi maður  að brosa og vera glaður. Láta ekki smámuni raska ró sinni.

Um þetta var ég  að hugsa á leið í vinnuna í morgun, og var svo djúpt niðursokkinn að bíllinn fór ekki sömu leið og venjulega, beygði ekki þar sem hann er vanur svo ég endaði á Lundúnatorgi hér í Reykjanesbæ, í þann mund er fluttar voru fréttir af hvernig mál okkar þróuðust hjá alþjóðagjaldeyrissjóðnum . Bretar vilja kúga okkur

Ég hef ekki verið neitt sérlega hress með þessa  nafnastefnu sem bæjaryfirvöld tóku gagnvart torgum bæjarins, sem fellst í því að skýra torgin eftir þeim borgum sem Flugleiðir fljúga til (Hvað með Iceland Express sem fljúga héðan líka?), og gekk meira segja svo langt í andstöðu minni á sínum tíma að ég sendi bæjarstjóra vorum bréf þar um. Það virkaði nú ekki.  

Hann útskýrði fyrir mér snillina í þessari nafnagjöf þannig að með því að láta torgin heita eftir ákveðnum borgum, væri hægt að fá viðkomandi borgir til að gefa skreytingar á torgin. Þannig skildist manni að Reykjavík myndi gefa öndvegissúlur á torgið , sem að vísu fundust ekki þegar að var leitað, og London jafnvel styttu af Nelson flotaforingja, ég veit ekki hvað menn ímynduðu sér með New York og París.  Það endaði með þessum rauða breska símklefa, sem bærinn varð að borga sjálfur, en formsins vegna var sendiherrann fenginn hér suður með sjó til að afhjúpa hann. Það virkaði víst betur fyrir fjölmiðlana.

Nú stendur þessi rauði breski símklefi mitt á hringtorginu dag hvern  , og minnir mann á kúgarana, sem vilja að bæði ég,konan, börnin og barnabörnin borgi skuldir banka, sem við vorum ekki einu sinni í viðskiptum við. Ég held að það væri ágætt statement hjá bæjaryfirvöldum að fjarlægja nú klefann, eða að minnsta kosti breiða yfir hann tímabundið , svo hann sé ekki að ergja viðkvæma borgara sem eiga við morgunúrillsku svipaða minni.

 
Skrifaðu Athugasemd!


Ótitluð athugasemd

06:00, 7.11.2008 .. Höfundur: Jónas .. Breyta .. Eyða
Heyr heyr var einmitt að hugsa það sama um daginn. Væri bara ekki nær að hafa styttu af einhverjum vinum okkar úr þessum hryðjuverkasamtökum sem eigum að tilheyra. En talandi um nafngiftina á þessum torgum þetta er nú bara fásinna við eigum nóg af örnefnum sem við getum notað á torgin.Þau nöfn eru íslensk og við hæfi .

Fúll

06:47, 7.11.2008 .. Höfundur: Anonymous .. Breyta .. Eyða
Elsku Hannes, alltaf ertu jafn fúll út í það sem meirihlutinn gerir í þessu bæjarfélagi,eins og glöggt má lesa í skrifum þínum.Vona bara að þú finnir sjálfan þig aftur fljótlega.

Kær kveðja úr Grindavík.

Ótitluð athugasemd

07:45, 7.11.2008 .. Höfundur: smali .. Breyta .. Eyða
Blessaður (Grindvíkingur)
það er allt í góðu hjá mér og ég er alls ekki fúll út í nokkurn mann, þó ég leyfi mér að hafa skoðanir á ýmsu því sem gerist í kringum mig. Er ekki örugglega allt í lagi hjá þér?

Með bestu kveðju og bros á vör

Fúll fúlari fúlastur

10:26, 7.11.2008 .. Höfundur: Guðmundur .. Breyta .. Eyða
Skilaboð Grindvíkingsins eru þessi. Ef þú kemur með ágætishugmynd, eins að setja segl yfir símklefann tímabundið,í mótmælaskyni þá ertu fúll. Sagan af nafnagjöfinni er náttúrulega bara frábær, og lýsir þessum meirihluta ágætlega.Það er gott að sjá Hannes að þú ert búinn að ná áttum, og haltu áfram á sömu braut. Það veitir ekki af einhverjum sem ekki er alltaf sammála síðasta ræðumanni og þorir að segja það. Það hefur heldur betur vantað hér í bæinn.

pp

Nýja neyðarkalla !!

Auðvitað á maður að draga andann djúpt, og sannfæra sjálfan sig um að þetta lagist allt saman og ríkistjórnin ná tökum á ástandinu sem nú hefur varað í rúman mánuð. Að það komi ný stjórn í Seðlabankann , og stjórnvöld komi með einhverja framtíðarsýn fyrir þjóðina. Að menn sjái eitthvað framundan.

En það er kannski líka hægt að halda andanum það lengi niðri í sér að maður kafni.Flestir eru teknir að blána, og ljóst er að framtíðarsýn hjá núverandi stjórn er ekki í augsýn. Það má ekki tala um hugsanlegar lausnir í framtíðinni, vegna þess að menn eru ennþá upp fyrir haus í því sem menn kalla björgunarstörf, og virðast vera orðnir það þreyttir að þeir dæla bensíni  á þá elda er enn loga.

Seðlabankinn sendir út hagspá þar sem reiknað er með 10% atvinnuleysi  í lok næsta árs, og jafnframt að húsnæðisverð lækki á skömmum tíma um ca 40%. Og reikna svo með að skilboðin kveiki jákvæð viðbrögð og húsnæðissala fari á fullt? Ekki dytti mér í hug að fjarfesta vitandi að eftir skamman tíma get ég fengið hlutinn 40% ódýrari.

Einhvern tíma verður að skipta um björgunarsveit, og það helst áður en löngu þreyttir björgunarsveitarmennirnir sprengja allt í loft upp , sökum þess að þeir vilja ekki að nýir og óþreyttir taki við.

Nú segja sumir að það sem þjóðin þarfnist síst  eru kosningar við núverandi aðstæður.Það væri algert ábyrgðaleysi. Það er ljóst að sú vegferð sem núverandi stjórn er á,  er ekki að skila neinum árangri og þörf á að skipta út. Það þjónar hvorki tilgangi fyrir Samfylkingu , Sjálfstæðisflokk , hvað þá talandi um þjóðina að halda þessari vegferð áfram án þess að ljóst sé hvert ferðinni er heitið.

Það þing sem nú situr virðist ekki hafa fengið nokkuð tækifæri á að hafa eitthvað um framvindu mála að segja, eins og best sást á umræðum frá Alþingi í gær. Fólk er ekki að kjósa alþingismenn til þess að þeir séu áhorfendur að gjörðum , heldur til að hafa áhrif á þær gjörðir, og að ráðherrarnir beri þær undir Alþingi.

Auðvitað á Samfylking að melda hreint út við samstarfsflokkinn að nú skuli stefnt á aðildarviðræður við ESB , og að skipt verði út núverandi stjórn Seðlabankans og sú stefna sé tekinn af stjórnarflokkunum báðum , ellegar  sé þessu samstarfi  lokið.

Auðvitað er það rétt, sjónarmið sem margir setja fram að áður en við tökum upp viðræður ESB, þá verðum við að ræða þetta mál heima hjá okkur, en þá verðum við líka að gera þá kröfu að til að mynda að Sjálfstæðisflokkurinnn sé tilbúinn til að taka þá umræðu, og bera því ekki við að það sé ekki tímabært núna. Ef þeir vilja það ekki sjálfviljugir, þá verður neyða þá til þess, svo hægt sé að halda áfram.

Komi til þess þurfa menn að ná samkomulagi við aðra flokka á þingi að í stað þess að aðrir gangi til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, verði annað hvort mynduð þjóðstjórn, eða núverandi stjórn sitji fram að kosningum . Það er kominn tími til um að losa um þá gíslingu sem nú er  í gangi og þjóðin fái tækifæri á að segja hvað hún vill.


Borga og brosa.

Maður hélt að sá tími væri liðinn, að fréttir líkar þeim er nú birtast um sjálftöku bankamanna birtust og kæmu róti á annars rólegan huga þeirra er nú einbeita sér að vinna sig út úr þeim vandamálum er bankaguttarnir komu okkur í.

Ekki nóg með að þeir Kaupþingsmenn, með ofurbankastjórnendurna ákveði að sanngjarnt sé og rétt að losa sig og vildarvini sína úr þeim snörum sem þeir sjálfir höfðu sett um háls sinn og þjóðarinnar, heldur koma svo Baugsmenn inn og sýna enn einu sinni úr hverju þeir eru gerðir.

Nú verð ég að segja að á sínum tíma var ég einn þeirra manna sem var á móti því að sett yrðu fjölmiðlalög hér í landinu, og gerði það af einfeldni minni í þeirri trú að markaðurinn og almennt siðferði myndu sjá um að tryggja réttlátan og eðlilegan fréttaflutning . Að skoðanafrelsið yrði ekki til sölu fyrir peninga. Ég hafði rangt fyrir mér.

Jón Ásgeir Jóhannesson og Hreinn Loftsson virðast ennþá vera þeirrar skoðunar að allt sé falt sé rétt verð boðið,og átta sig ekki á að þeirrar nærveru er ekki lengur óskað á íslenskum mörkuðum almennt. Þjóðfélagið er breytt og öllum þorra almennings er nóg boðið af framferði þeirra hingað til. Það síðasta sem menn hafa áhuga á nú er að þeir stjórni þeim fréttaflutningi sem eftir er í landinu, og reyni með þeim að rétta sín sjónarmið, eða ýta sínum skoðunum fram. Um þá og skoðanir þeirra er öllum skítsama, svo notað sé frekar óvandað orðalag.

Hitt málið sem kom blóðinu á hreyfingu nú í morgun málefni þeirra Kaupþingsmanna er blaut tuska framan í allan meginþorra almennings  sem nú sjá lán sín hækka dag frá degi og geta lítið við því gert annað en að borga og brosa. Nú er það viðfangsefni ríkistjórnarinnar að hreinsa til þarna inni þannig að hægt verði á nýjan leik að bera traust til bæði ríkisstjórnar og banka þótt það þýði að hreinsa verði út alla þá svonefndu hæfu starfsmenn sem svo eru nefndir, og ráða aðra minna hæfa í staðinn, en í það að minnsta kosti heiðarlega.

Nú þarf bankamálaráðherrann enn einu sinni á skömmum tíma að setja í gírinn og hreinsa til. Ekki skila neitt kusk eftir í hornunum. Eingöngu þannig náum við að skapa það nýja Ísland, sem við öll viljum sjá.

 

Sitt sýnist hverjum!

Það er svipað með bæjar og sveitarstjórnir í landinu, og með heimilin, þau eru flest rekin með hagsýni að leiðarljósi og láta heyra í sér þyki þeim á sig hallað. Nú er lenska hér á landi að menn skuli ekki ræða viðkvæm mál,nú skuli menn standa saman og vinna sig út úr þeim vanda er við blasir. Ekki ver neikvæður, heldur brosa sem aldrei fyrr og láta eins og allt sé í góðu lagi.

Eitt þessara mála sem helst ekki má ræða er til að mynda málefni Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, sem sér sumum sveitarfélögum á Íslandi fyrir húsnæði undir starfsemi sína. Helstu rök þeirra manna sem stofnuðu það félag, voru að einkaaðilar væru betur til þess fallnir að sjá um uppbyggingu og rekstur sveitarfélaganna en sveitarfélögin sjálf, í krafti hagkvæmni og þeirra kjara sem slíkt fasteignafélag nyti á markaði. Afraksturinn er að koma í ljós þessa dagana.

Nema að það var hreint ekki ófyrirséð eins og sumir vilja halda fram, menn hafa varað við þeirri aðferðafræði sem beitt hefur verið , og varað við að einmitt svona gæti farið gættu menn ekki að sér.

Elliði Vignisson bæjarstjóriaVestmannaeyja finnst nú komið fullmikið af því góða, og geldur varhug manna við að áfram skuli haldið á þessari braut, þetta sé orðinn baggi á sveitarfélögunum sem ekki virðist vera nokkur leið út úr, og tekur dæmi af einni þeirri húseigna sem bærinn leigir til sín, Safnahúsið sem selt var til Fasteignar fyrir 130 milljónir, en vilji menn losna úr þessari snöru mega þeir kaupa það til baka á 280. milljónir. Mæli hann manna heilastur.

http://www.sudurlandid.is/Eyjafrettir/?p=101&id=24821&PHPSESSID=02296d21c87f0dfee3a717e7bd076514

 

Vestmannaeyjarbær greiðir til Fasteignar í leigugjöld um það bil 200 milljónir á ári, og finnst það gersamlega óásættanlegt, á sama tíma og húsleigugjöld Reykjanesbæjar hafa hækkað vegna verðtryggingar og gengis um rúmlega þá upphæð eða ca 300 milljónir, og eru nú komnar yfir 1.milljarð á ári. Í Reykjanesbæ hafa menn ekki áhyggjur, og finnst díllinn sem þeir að vísu fundu upp sjálfir  ennþá jafn góður. Þar er ekki verið að kvarta, enda bjartsýni og skynsemi höfð þar að leiðarljósi. Sama hvað á gengur.


Hvað er verið að segja okkur?

Skoðanakönnun Gallup kom hreint ekki  á óvart miðað við það sem á undan er gengið, Samfylkingin  er þessa stundina stærsti flokkurinn, og Vinstri Grænir númer tvö. Sjálfstæðisflokkurinn á hraðri niðurleið, og sennilega ekki enn búinn að ná þeim botni sem hann á skilið.

Var að velta því fyrir mér hvað svona niðurstaða úr skoðanakönnun gæti verið að segja okkur. Hún gæti verið að segja okkur að almenningur í landinu sættir sig ekki lengur við þá forystu sem nú er við lýði, og  Sjálfstæðisflokkurinn eigi í raun að fara frá og boða til kosninga svo fljótt sem auðið er. Það er forsætisráðherra þeirra sem fer þingrofsréttinn.

Svona könnun gæti líka verið að segja okkur að landsmenn líti svo á að næsta stjórnarsamstarf þyrfti að vera Samfylking, ásamt Vinstri grænum þótt erfitt sé í dag að sjá það fyrir sér. Eina sem öruggt mætti þó telja við slíka stjórn, væri að henni væri ekki fjarstýrt úr Seðlabankanum.

Hún gæti verið að segja okkur það sem við vitum nú þegar að krónan hefur liðið undir lok , og taka verði  nýja mynt hvort heldur það verði norsk króna eða Evra. Það verður að koma í ljós.

Og hún er örugglega að segja okkur að sú stefna Sjálfstæðisflokksins hvað varðar einstaklingsfrelsið , er ekki bara fyrir suma eins og þeir vilja meina , heldur alla. Að hér verði í framtíðinni byggt upp jafnaðarþjóðfélag að norænni fyrirmynd, þar sem samábyrgð þegnanna er leiðaljósið , en ekki taumlaus græðgishyggjann sem hér hefur því miður ráðið ríkjum alltof lengi.


Þau töpuðu bæði.

Ég heyrði nýlega sögu um hjón sem voru að skilja, maðurinn  var mjög  ósattur við skilnaðinn og sór þess dýran eið að konan skyldi nú ekki  græða neitt á því að hafa verið gift honum , þar sem hann taldi að hann hefði skaffað þau verðmæti er í búinu voru. Eins og títt er með skilnaðarmál í Ameríku endaði málið fyrir dómara sem kvað upp úr með að eignunum skyldi skipt jafnt á milli hjónanna. Maðurinn tók að sér að selja þær eigur sem ekki varð samkomulag um og þar á meðal var bíllinn, sem þau fengu tilboð í upp á 20,000 dollara , en hann ákvað að selja viðkomandi hann á 2000 dollara, konan skyldi sko ekki græða. Þau töpuðu bæði.

Þessi saga datt mér í hug nú í morgun þegar ég opnaði blöðin, og sá umfjöllunina um það sem Björgólfur yngri hafði lagt til málanna í Kompásþættinum fræga.

Darling kemur inn á þessa 200 milljarða í samtali sínu við Árna Matthiassen, sem staðfestir að Landsbankinn fái ekki þetta lán, þannig að hann hefur vitað um þetta., Davíð segist hafa vitað af þessu, og Geir vill ekki tala um þetta núna, segir að það þjóni ekki tilgangi. Össur segir þetta mál aldrei hafa komið inn á borð ráðherranefndarinnar, á meðan allar þær ákvarðanir sem leitt hafa til núverandi stöðu voru teknar.

Einhvern veginn fær maður á tilfinningunna að meiri hagsmunir hafi verið látnir víkja fyrir minni , og þeir ráðherrar sem vissu af þessu , ásamt seðlabankastjóra hafi valið sömu leið og maðurinn í sögunni hér á undan. Landsbankinn skyldi sko ekki græða á þessari stöðu, þótt ljóst væri að þær tillögur sem þeir hefðu lagt fyrir ráðherranna lágmarkaði skaðann sem þjóðarbúið yrði fyrir og með góðum vilja hefði verið hægt að útfæra betur með hag þjóðarinnar í huga.. Frekar skyldu allir tapa , en þá væri lika ljóst hver réði ferðinni. Alls ekki koma út úr þessu máli þanni að allir gætu staðið uppréttir á eftir , það varð að finna sökudólg. Hver herkostnaðurinn af þessari aðferðafræði Sjálfstæðismannanna sem vissu af þessu  verður fyrir þjóðarbúið á eftir að koma í ljós.

 

Það vantar nýja keðju.

Þeir rembast þessa dagana við að halda kúlinu félagarnir úr náhirð Davíðs, þeir Björn Bjarnason og Geir H Haarde. Setja sig í stellingar þess er völdin og  virðinguna hafa, en virðast því miður svo veruleikafirrtir að átta sig ekki á því virðinguna hafa þeir misst, þó ennþá hangi þeir á völdunum.

Geir H Haarde spókar sig í útlöndum og talar um að stefna beri að ná markmiðum Maastricht sáttmálans, en aðildarviðræður um inngöngu í ESB sé ekki verkefni þessarar  ríkisstjórnar, og sú umræða eigi ekki að fara fram næstu árin. Og virðist álíta að það sé hann og hann aleinn sem stýri því hvað sé rætt í þessu landi.

 Björn Bjarnason sagði í Kastljósi að allt tal um Evrópumálin flótta frá veruleikanum, nú væri við miklu brýnni viðfangsefni að etja.  Það væri ekki á dagskrá núverandi ríkisstjórnar að ganga inn í Evrópusambandið.Þeir halda sig við verkefnalistann sem þeir fengu frá fyrrverandi formanni, og þora ekki fyrir sitt litla líf að breyta þar út af þrátt fyrir að aðstæður hafi breyst. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir virðist vera sú eina úr forystu flokksins sem bæði hefur hugrekkið til að andmæla fyrrum formanni og skynsemina til að sjá að aðstæður hafa breyst.

Sú krafa gerist stöðugt háværari að Samfylkingin slíti því stjórnarsamstarfi sem nú er, þar sem ljóst sé að þeir þursar sem virðast ráða innan Sjálfstæðisflokksins ætli sér ekki að vakna og líta til þess raunveruleika er við blasir. Þjóð í rjúkandi rúst eftir langa valdasetu þursanna.Það er ekki hlutverk Samfylkingarinnar að fara í móðurhlutverkið fyrir Sjálfstæðisflokkinn og leiða hann í gegnum Evrópuumræðuna, svo allir verði vinir í skóginum. Þann hlut verða þeir að finna út úr sjálfir. Þjóðin þarf að halda áfram til móts við nýja en erfiða tíma og hefur ekki ráð á að bíða eftir Sjálfstæðisflokknum. Fari þeir ekki að átta sig á veruleikanum verður því ekkert annað í spilunum fyrir Samfylkinguna að rjúfa þetta stjórnarsamstarf svo fljótt sem auðið er.

 Því þótt meirihlutinn sé sterkur á pappírnum, verður hann aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn og svo virðist sem flestir hlekkirnir hægra megin í keðjunni séu orðnir haugryðgaðir og við það að besta. Við þurfum nýja keðju. Keðju sem við getum treyst.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.