Ja,nú er það svart!

Ja, nú er ástandið svart. Fjöldauppsagnir blasa við í byggingariðnaðinum og 2/3 arkitekta og innanhúsarkitekta verða atvinnulausir innan tíðar. Ég er einn af þeim  Auðvitað gæti maður valið að verða fúll og leiðinlegur, og valið að líta svo á að nú væri komið að endimörkum. Auðvitað á þetta eftir að verða eitthvað erfiðara um tíma, en öll él stytta upp um síðir. Eða svo verður maður að vona.

Atvinnuleysi er eitt það versta sem fyrir hvern mann kemur, sjálfsvirðingin hrapar og maður getur fengið á tilfinninguna að starfskrafta manns sé ekki óskað. Auðvitað er það ekki svo. Hér er um það að ræða að verkefnin vantar. Þá er að finna sér einhver verkefni, helst þannig verkefni að þau geti gefið eitthvað af sér, eða verkefni sem styrkja mann þegar kallið kemur á nýjan leik, og þörfin verður fyrir starfskrafta manns.

Auðvitað verður maður að reyna að skilja þau sjónarmið manna sem nú vilja í að farið verði í að virkja og byggja upp stóriðju, í þeirri von að það verði til að þjóðin komist út úr vandamálunum fljótt og örugglega.  Slíkar framkvæmdir taka þó langan tíma, og skapa störf á takmörkuðum vettvangi . Eftir situr þó fjöldi fólks sem ekki er menntað til að vinna slík störf, og varla er það meiningin að hér eftir verði eingöngu  um störf tengd stóriðju að ræða og allir flytji til þess svæðis þar sem slík uppbygging er í gangi.

Hluti þeirrar uppbyggingar sem framundan er hlýtur að felast í því að skjóta sem víðtækustum stuðningi undir atvinnulífið í landinu, horfa á hvert svæði , og styrkja þær lausnir sem þar eru í boði. Þar hljóta ríkisvald og sveitarstjórnir að sameinast og finna leiðir til að efla atvinnuþróttinn á meðal þeirra sem atvinnulausir verða. Ekki bara styrkja þau fyrirtæki sem áfram verða rekin, heldur líka líta til þess mannauðs sem atvinnulaus verður.

Nú verður það að nokkru leyti aukin ábyrgð sem við hin brottreknu verðum að axla á næstu mánuðum. Við þurfum að finna leiðir til að komast aftur sem skjótast inn á vinnumarkaðinn á ný, í samstarfi við ríki og sveitarfélög. Til þess þarf að skapa vettvang.

Sá vettvangur má þó ekki vera sá að nú sá ástandið það að hér sé atvinnuleysi og ekkert annað við því að gera en bíða og sjá hvort ástandið batni ekki.  Sá vettvangur þarf að vera bundinn bjartsýni og uppbyggingu. Nýta þann mannauð sem atvinnulaus verður og gera þeim kleift sem góðar hugmyndir hafa að láta þær rætast. Bjóða fólki að safnast saman þverfaglega og þróa hugmyndir sem hugsanlegar eru til að nýtast við framtíðaruppbygginguna.  Og reyna að ýta þeim sem vænlegar virðast úr vör og sjá hvort þær blómgist ekki.

Hér þarf að virkja grasrótina, þá er atvinnulausir verða, þar liggur viljinn til að leysa verkefnið og þann vilja ber að styðja á hvern þann hátt sem mögulegt er.


Er skipið að sökkva?

Nú er skipið að sökkva hugsaði ég þegar stundin gafst og ég náði að fletta staðarblöðunum sem ég hafði ekki náð að lesa sökum anna sem frúin hafði skapað mér. Sá fyrir mér atriðið úr kvikmyndinni Titanic þegar menn söfnuðu saman skipshljómsveitinni á efsta dekki á meðan konur, börn og gamalmenni fóru í þá alltof fáu björgunarbáta sem í skipinu voru , sökum þess að það átti ekki að geta sokkið. Þeir sem ekki komust í bátana urðu að stökkva í sjóinn, og treysta á að björgin bærist í tæka tíð. Það varð því miður ekki fyrir alltof marga.

 

Tilefni þessara hugsana minna voru heilsíðu auglýsingar í staðarblöðum Reykjanesbæjar frá Sjálfstæðisflokknum undir yfirskriftinni VIRKJUM MEIRA, ekki þó þannig að Sjálfstæðisflokkurinn væri að fara í virkjunarframkvæmdir í eiginlegum skilningi, heldur skyldi nú loksins fara að virkja þá félaga sem í flokknum eru til góðra verka. Nú dugir ekki þessi eini heili sem greinilega hefur verið ofnotaður, heldur tímabært að hleypa fleirum að. Það fannst mér góð hugmynd.

 

Verkefni þessu er skipt upp í marga ágæta málaflokka, sem vel eiga við í stöðu dagsins eins og til að mynda fjármálageirinn og málefni verktak, heilbrigðismál , og sérstaklega sá liður er nefnist Trú og lífsgildi. Sá liður er sennilega sá mikilvægasti sem um verður fjallað.

 

Greinilega ætla menn sér að mynda skýra stefnu í orkumálum og er þeim lið skipt upp í tvo liði. Annarsvegar virðist vera um upplýsandi flokk að ræða  þar sem hinn hófsami varaforstjóri hitaveitunnar fer fyrir , og hinsvegar liður sem virðist vera svona í anda nýfrjálshyggjunnar og ber yfirskriftina ORKUFREK TÆKIFÆRI nafngift í anda hugmyndafræðings flokksins, enda stýrir hann sjálfur því verkefni. Það líst mér illa á.

 

Það er hinsvegar frábært að sjá að hér er lagt upp með að ná saman fjölda fólks sem hugsanlega væri tilbúið til að hafa áhrif á samfélag sitt. Vonandi verður þetta eitthvað meira en liðskönnun , og hlustað verði á hvað þátttakendur hafi að segja. Það væri frábært að sjá slíka breytingu þar innan dyra.

 

  

Hvert er þessi umræða að fara?

Konan kann á mér lagið, nú er hún búinn að fylgjast með í rúmar tvær vikur hvernig „ fréttasýki“ mín er að ná öllum völdum yfir mér eins og hún segir, og ég hef tekið eftir á svip hennar að hún hefur verið að upphugsa eitthvað kvenlegt mótbragð. Nú hefur mér verið gert að rífa niður hluta veggs og mála stofuna, og einhverra hluta vegna gerist þetta alltaf á þeim tíma sem fréttir eru í Sjónvarpinu og í miðri kreppu. En ég á vini sem hringja  í mig og láta mig vita hvað fram fer í heiminum. Því hafði hún ekki reiknað með.

Í gærkvöldi mitt í öllu atinu hringdi svo í mig vinur sem sagði mér frá síðustu vendingum, sagði mér frá útskrift á samtali Darlings(sem  er enginn darling) og fjármálaráðherrans okkar.  Þar kemur víst fram Árni hafi ekki sagt eitthvað sem hægt hafi verið að misskilja, En Darlingurinn hafi þó kannski misskilið. Þetta hafi verið svona hálfgert  Ja og humm samtal. Darling hafi bent á fund með  Björgvin Sigurðssyni viðskiptaráðherra, sem gæfi tilefni til að hafa áhyggjur af viðbrögðum Íslendinga.

Ég hafði á orði við þennan vin minn að ég væri hættur að skilja hvert umræðan um stærstu vandamál sem þjóðin hefði staðið frammi fyrir væri að fara. Í stað þess að vinna að lausn á vandamáli og setja fram framtíðarsýn, færi nú fram mikill pólitískur leikur við að ýta undir hatur á Bretum(þótt  Brown sem nýtti sér hryðjuverkalögin sé í raun Skoti) og nú  væru ráðherrar okkar byrjaðir að birta skjöl sem sýndu svart á hvítu að ekki hafi verið hægt að misskilja orð þeirra, en verið gæti að einhver annar ráðherra hefði sagt sitthvað sem hægt væri að misskilja. En allir vita hver sagði það sem misskilið var. DO eins og krakkarnir segja.

Veit ekki hvort þarna séu einhverjir vísvitandi að leiða athyglina frá vandamálinu, og jafnvel að reyna að finna einhvern til að taka á sig hluta af ábyrgð sem í mínum huga hvílir 92% á einum stað. Hjá Sjálfstæðisflokknum sem farið hefur með stjórn  fjármál þjóðarinnar í yfir 25 ár. Restina eða þessi 7% geta menn svo sett  Framsóknarflokkinn sem stóð að einkavinavæðingunni með Sjálfstæðisflokknum , og kannski 1% á Samfylkinguna sem nú er nýkomin að málunum, og er upp fyrir haus í rústabjörgunarstörfum eftir hina tvo.

Nú þurfum ekki á því að halda að beina allri okkar athygli að  pólitískum stríðrekstri gegn Bretum, heldur að ganga frá þeim samningum sem tryggt geta framtíð þjóðarinnar, til að verjast algeru hruni , og byggja hér upp samfélag , sem lært hefur af reynslunni. Að detta ekki ofan í sömu holuna aftur.

Það er það sem stjórnmál dagsins eiga að snúast um, samskipti okkar við Breta er lengra mál en svo að hægt sé að bíða úrlausn þeirra mála núna. Það er að miklu leyti mál þeirra dómstóla sem dæma verða um hver réttarstaða íslenska ríkisins gagnvar Icesave reikiningum er. Það gæti tekið langan tíma.


Hvor er betri leikari Geir eða Örn?

Svei mér þá ef að Geir H Haarde hafi nánast tekist hið ómögulega í gær, og það var að ná algerlega að líkja eftir Erni Árnasyni úr Spaugstofunni. Örn nær sennilega aldrei að líkja jafnvel eftir Geir og Geir tekst að líkja eftir Erni.

Forsætisráðherranum tókst algerlega að ná þessum aulasvip sem Örn sýnir svo vel, og hvað varðar svörin við spurningunum, voru þau  sennilega aumkunarverðari en þeim spaugstofumönnum hefði tekist að semja.

Þeim  hefði sennilega aldrei dottið í hug að koma persónunni undan allri ábyrgð í nánast öllum málum , nema því sem framundan væri, og mér er til efs  að þeim hefði dottið í hug að leiðin út úr vandræðunum væri að Geir myndi vera sá er leiddi þá vinnu.

Geir hans Arnar hefur alltaf verið svona maður sem manni þykir örlítið vænt um, en svona landsfaðir sem inn á milli hlustaði  á þjóðina. Nýi  Geirinn er hættur því, nú er það hann sem ræður og hlustar ekki á neinn þann sem í kringum hann er, hvorki þjóð né samstarfsaðila í ríkisstjórn. Það þykir engum vænt um svoleiðis Geir. Nema kannski Davíð.

Annars var maður dagsins náttúrulega Sigmar, sem spurði þeirra spurninga sem brenna  þjóðinni án þess nokkurn tíma að missa sig yfir tilburðum Geirs hinum megin við borðið, sem seig hægt ofan í sætið  um leið og hann missti enn einu sinn hluta af því mikla fylgi sem hann hafði haft. Fylgi sem hann átti ekki skilið.

Leyfi þessu hnoði  að fylgja með:

 

Ó Þjóð mín, þjóð mín

Minnumst góðra daga

Á  þotum þustu heim til sín

Það er gömul saga

 

Ó Þjóð mín, þjóð mín

Þrautpínd ,  í augum glýja

Björgólfsættin furðu fín

Fyrst af öllum flýja

 

Ó Þjóð mín ,þjóð mín

Þrautgóð býst til varnar

Baugur brýtur undir fót

Brátt  mannorð okkar kvarnar

 

Ó Þjóð mín ,þjóð mín

Þrautpínd á raunastundum

Sjálfstæðismenn nú skammast sín

saman á ríkistjórnarfundum

 

Óttalega við ópum nú

Óð til vorrar þjóðar

Einu vopnin, von og trú

og vísur góðar

  

 


Genagalli eða trúarbrögð?

Genagalli  eða trúarbrögð ?.  Hugurinn er svolítið á flökti þessa dagana og ég næ einhvern veginn ekki að festa mig við vandamál hversdagsins. Í dag á ég  til dæmis að hafa áhyggjur af hversvegna er ekkert tilkynnt  um samningana við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, ef marka má blöðin í morgun, en er fastur í einhverri  furðulegri hugsun um hvernig það má vera að svona er komið fyrir þjóðarbúinu. Hvort ég beri þar einhverja ábyrgð, eða þeir sem ég kaus til ábyrgðarstarfa fyrir þjóðfélagið.

Ég er einn þeirra manna sem verð að viðurkenna  að minnsta kosti tvennt , ég er ekki sérstaklega  hreykinn af að vera íslendingur núna, og ég setti X við D í síðustu kosningum, og það sem verra er ég lagði vinnu í að styðja þann flokk.

Ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér hvað olli þessum gerningi af minni hálfu og er nú komin að þeim punkti að einungis tvennt kemur þar til greina , hér var annað hvort um genagalla eða trúarbrögð að ræða. Hallast þó frekar að því síðarnefnda..  

Trúarbrögð eru þess eðlis að þar geta menn  í flestum tilfellum tekið meðvitaða afstöðu til þeirra spurninga og svara er liggja til grundvallar og myndað sér skoðun út frá því. Á móti kemur að maður gengur út frá því að þau gögn sem lögð eru fyrir byggi á staðreyndum og rétt sé frá skýrt . Að hægt sé að sannreyna gögnin. Sé það ekki hægt , getur maður snúist til aðrar trúar, eða verið trúlaus velji maður það.

Genagallanum getur maður hinsvegar ekki varist, þannig er maður útbúinn frá fæðingu, og verður þannig allt sitt líf, nema maður sé svo heppinn að þekkja einhvern sem lært hefur  eitthvað í erfðatækni, og getur breytt þeim erfðafyrirmælum sem í upphafi voru gefin. Veit ekki hvort það sé mögulegt með sjálfstæðisgenið, en vona einhver fær vísindamaður finni lausn á því vandamáli, áður en barnabörnin komast til vits og ára.


Eitt skref í einu.....en halda þó áfram

 Eitt skref í einu, hugsaði ég þegar ég sá barnabarnið taka fyrstu skrefin sín fyrir nokkrum árum, og í dag er það byrjað að hlaupa og stunda fimleika óstutt.  Var að hugsa um þetta þegar ég las frétt í dagblaðinu í morgun þar sem Olli Rehn  framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá Evrópusambandinu segir að aðildarviðræður við ESB kæmu til með að taka skamman tíma óskuðu íslendingar eftir slíkum viðræðum.

Það er ljóst að annar hluti núverandi ríkistjórnar er ekki tilbúinn til að taka næsta skref,ekki vegna þess að hann viti að hann geti það ekki , heldur af þrjósku, hann vill það ekki.  Hann verður að ákveða það sjálfur hvort hann telji það vænlegt að skríða alla ævi, en hann getur ekki ætlast til þess að öll þjóðin  skríði með í frekjukastinu.  Sérstaklega í ljósi þess að rúmlega 70% þjóðarinnar eru komin með verk í hnén og telja tímabært að standa upp og halda áfram.

Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvað það er sem heldur aftur að Sjálfstæðisflokknum að standa nú upp og láta það eftir sér að hætta þessu fýlukasti , þótt auðséð sé og það fyrir nokkuð löngu að nauðsynlegt er fyrir okkur að taka upp aðra mynt.  Ekki hefur hún reynst okkur það hagstjórnartæki sem menn hafa viljað meina í því báli sem hér hefur geisað undanfarið.

Nú er komin tími til að taka næsta skref, skref sem gætu tryggt börnunum og barnabörnunum þokkalega  framtíð, því þau tækifæri sem við höfum eru góð.  Orkan og náttúran eru okkar trygging fyrir því.  Látum nú næsta skref vera að taka upp þær aðildarviðræður sem tryggt gætu okkur sameiginlega mynt með öðrum þjóðum og það sem mest er um vert tryggt þann stöðugleika til framtíðar sem börnin okkar eiga skilin.

 


Stöndum með sjálfum okkur.

Björk Guðmundsdóttir hefur sig yfir hið pólitíska dægurþras um helgina, og kallaði saman  ýmsa fulltrúa úr þjóðfélaginu til að finna hugsanlegar  leiðir út úr vandamálunum. Hún hefur ekkert á móti álverum , en finnst bara vera komið nóg af þeim og vel það. . Klára það sem við erum byrjuð á, og leyfa okkur að leita annarra lausna, sem ef til vill gætu komið þjóðarbúinu upp úr þeim snjóskafli, sem við virðumst vera föst í.

Mér finnst þetta vera gott og þarft framtak hjá Björk og félögum hennar. Leita nýrra leiða og láta reyna á hvort þær gætu ekki  verið  færar sé rétt á þeim haldið. Reyna að hlúa að sprotafyrirtækjum sem byggja framleiðslu sína á íslensku hugviti og mannauð.

Björk  með alla sína reynslu gerir sér nefnilega ljóst, það sem mörgum stórhuga mönnum  hefur yfirsést  að þarf ekki alltaf að vera stórt eða mikið í byrjun til að bera arð, það er mikilvægara að hafa stefnu og góða hugmynd að byggja á.  Útrásin þarf að vera eitthvað annað en hugmyndafræðilegt kjaftæði, það þurfa verðmæti að liggja að baki. Þau verðmæti liggja í fyrstu í hugvitinu og síðar í framkvæmdinni.

Það er ekki leiðin við núverandi aðstæður að steypa þjóðarbúinu út í meiri skuldir  og virkja hverja sprænu og gegnbora landið eins og svissneskan ost  til að koma okkur út úr vandamálum okkar núna og skilja eftir sviðna jörð fyrir afkomendur okkar , sökum ákafa okkar til að geta hafið veisluna að nýju.  

Við eigum að hlusta á fólk eins og Björk Guðmundsdóttur og aðra þá sem hafa hugmyndir um hvernig hægt væri að nýta orku okkar á skynsamlegan hátt. Ekki gefa neinn afslátt á orkunni né þeim umhverfisáhrifum sem nýting hennar  kann að hafa .

Nú eigum við að hugsa sem heild og dreifa þeim gæðum sem landið hefur gefið okkur sem víðast. Reyna að virkja þann kraft sem sem í hverri byggð býr og ýta undir hverja þá frjóu hugsun sem þar kann að leynast. Við eigum að standa með sjálfum okkur, og nýta landið af skynsemi.

 

 

Hvað varð um hitaveitupeninga Reykjanesbæjar?

Undanfarið hafa birst viðtöl og yfirlýsingar við flesta bæjarstjóra hér á Suðurnesjum, um hver staða þessara bæjarfélaga sé til að takast á við þær þrengingar sem framundan eru í atvinnumálum svæðisins, og að því er virðist eru þau öll í þokkalegum málum hvað það varðar. Auðvitað spila þar inn tekjur þær er þau höfðu vegna hlutar síns í HS á síðasta ári.Það fé virðist vera vel geymt og öruggt í vörslu Sparisjóðsins í Keflavík og Garði.

Eitt er það sem þó hefur vakið eftirtekt mína í þessu máli er, að þegar kemur að ræða fjárhagsstöðu stærsta bæjarfélagsins á svæðinu Reykjanesbæjar ekki virðist ekki vera nema jákvætt eitt framundan og stöðugt vísað til þeirra verkefna sem fljótlega eiga að fara í gang.

Maður verður þó hugsi þegar nýlegt dæmi  þegar í ljós kemur eins og til að mynda við björgunaraðgerðir sveitarfélaganna gagnvart Sparisjóðnum nú nýverið, kemur í ljós að minni sveitarfélögin á svæðinu, leggja fram Hitaveitupeningana svonefndu, að því er virðist án vandkvæða, á meðan Reykjanesbær leggur í púkkið skuldabréf fyrir sínum hlut.Hvar eru þeir rúmlega 2. milljarðar sem eftir voru af hitaveitupeningum Reykjanesbæjar um síðustu áramót, skv.framlögðu uppgjöri síðasta árs.

Í byrjun þessa árs voru uppi miklar umræður um hagkvæmni þess að halda áfram veru bæjarins í Fasteignafélaginu Fasteign, og töldu margir,  þar á meðal ég að áframhaldandi vera í því myndi mögulega geta virkað sem baggi á bæjarfélaginu til framtíðar og bentum á máli okkar til stuðnings að sú stefna sem núverandi meirihluti hefur fylgt væri svipuð og að safna raðgreiðslum á kreditkort án þess að tryggt væri nægjanlegt fjármagn til greiðslu þeirra skulda.

Nú er ljóst að samningar þeir sem gerðir hafa verið um leigu þeirra eigna sem bærinn átti að langmestu leyti áður,  eru að hálfu með verðtryggingu og hinn helmingurinn gengistryggður. Á síðustu mánuðum hefur því staða bæjarins versnað til muna hvað þetta varðar, og ljóst að stöðugt stækkar það hlutfall af tekjum bæjarins sem fara til greiðslu húsaleigu.

Ekki nóg með að sá hluti hækki vegna ytri skilyrða sem ekki er ráðið við heldur þurfum einnig að borga leigu á Stapanum á meðan framkvæmdir standa þar yfir. Samt heldur sá meirihluti sem nú fer með völd því statt og stöðugt fram að þetta sé hagkvæmasta leiðin fyrir bæjarfélög. Hvað með  bæjarfélög eins og Kópavog, Reykjavík og Hafnarfjörð, af hverju fara þau ekki þessa leið sé þetta svona heilbrigt og gott.

Nú er ljóst að fjárfestingarstefna sú er núverandi meirihluti hefur fylgt undanfarin ár, er mjög í takt við þá lánalínustefnu sem  útrásarguttarnir í Glitni  með sína fyrrverandi eigendur (Hannes Smárason og FL group) hafa fylgt. Nú eru lánalínur teknar að lokast eins og áður hafði verið varað við, og hagur bæjarins tekin að þyngjast Stjórnsýsluhúsi verið slegið á frest , Fimleikahöllin verið blásin af , og fátt eitt fyrir bæjarstjórnarmeirihlutann  en að reyna að standa við þær skuldbindingar sem þegar hafa verið gerðar við Fasteign. Sem virðast þó hafa hækkað úr 700 milljónum í rétt rúmlega 1000 milljónir á síðustu mánuðum.. En eins og hjá  útrásarguttunum er þetta ekki þeim að kenna heldur ytri aðstæður og heimskreppa sem hefur orsakað , jafnvel þó margir hefðu áður varað við stefnunni.

Þau varnaðarorð virðast því miður hafa verið á rökum reist.


Þarna áttust við maður og dýr.

Nú í nokkur ár hafa vinir og vandamenn gengið mann undir mann fram í því að smita mig af veiðidellunni. Verið dugleg við að bjóða mér að koma með í þeirri veiku von að einhvern tíma kæmi sá dagur að ég veiddi eitthvað.  Frúin sem komin er af sjómönnum langt aftur í ættir hafði meira að segja haldið því fram á mannamótum að hún hefði séð fiska synda beina leið til hafs, þegar ég birtist við ár eða vötn . Magnaðar sögur hafa gengið af fiskileysi mínu og útgerðarmaðurinn vinur minn vildi meina að það yrðu endalok sjávarútvegs á Íslandi, ef hann leyfði mér að fara einn túr með honum . En nú er þetta breytt eins og raunar allt íslenskt samfélag. Í gær veiddi ég Maríulaxinn.

Eyjólfur vinur minn sem lengi hafði séð að þetta fiskleysi var tekið að hafa áhrif á sjálfsmynd mína bauð mér með sér til að sýna mér nú eitt skipti fyrir öll hvernig ætti að gera þetta. En hafði nú ekki meiri trú á veiðimennsku minni en svo  að þegar þessi langþráði fiskur loksins beit á var hann staddur upp í bíl með þriðja veiðifélaganum í kaffi, og ég staddur út í miðri á með ferlíkið á hinum endanum. Fyrir mig var ekkert annað að gera en að halda af krafti í stöngina og vona að þeir yrðu ekki í kaffi fram yfir hádegismat. Þarna áttust við maður og dýr.

Fljótlega mættu þeir þó á svæðið og leiðbeindu mér um hvernig best væri að svona málum staðið og í land kom fiskurinn, kannski ekki alveg eins stór og mér hafði þótt hann vera þegar ég stóð yfirgefinn í miðri á. Allt fór þetta fram samkvæmt einhverjum hefðum sem þeir sögðu að væru og varð ég að bíta  af fiskinum veiðiuggan .  Það borgaði sig því næsti fiskur var mun stærri.

Frúin sýndi varla svipbrigði  þegar ég kom heim  og bað hana hróðugur að rýma til í frystikistunni svo koma mætti afla dagsins fyrir. Hún spurði hvort ekki væri nóg að hreyfa smá til horninu á frystikistunni , en brá við þegar í ljós kom að frystikistan var varla nógu löng, og beygja þurfti fiskinn til að koma honum þar ofaní. Veit þó ekki hvort það segi meir um stærð frystikistunnar eða fisksins.

 

Ég er kominn heim.

Það er skrýtið hvernig hlutirnir æxlast, ekki liðinn nema tæpur mánuður frá að ég sagði mig úr blessuðum Sjálfstæðisflokknum, af ástæðum sem ég hef áður gert grein fyrir , þá ætlandi mér að hugsa minn gang vel um hvort ekki væri nóg komið af pólitísku starfi sem áhugamáli af minni hendi. Tími komin til að róa sig niður og huga að blómarækt og frímerkjasöfnun.

Þetta hefði verið frábær framtíðarsýn, og ljóst að meðvitundarleysi mitt hefði getað orðið algert. Atburðir síðustu daga hafa hinsvegar komið blóðinu á hreyfingu á ný, og breytingar sem engan hafði órað fyrir að verða  á þjóðfélagi okkar. Breytingar sem sé rétt á haldið geta verið í anda þess er ég hef talað fyrir. Hér gæti risið upp samfélag sem byggir á jöfnuði  og skynsömum gildum. Græðgin fær að víkja.

Til þess að slíkar breytingar nái fram að ganga er svarið ekki að draga sig til hliðar og láta aðra um að marka stefnuna , heldur taka þátt telji maður sig hafa eitthvað til mála að leggja og það tel ég að ég hafi. Það er hreint ekki erfitt fyrir mig sem  frjálslyndan jafnaðarmann sem lagðist í ferðalag er Alþýðuflokkurinn sálugi lést , að finna hvar mitt heimili er nú , og raunar eðlilegt framhald miðað við það sem á undan er gengið, og það er í Samfylkingunni.

Ég hef því skráð mig til starfa hjá Samfylkingunni , og hyggst taka þar fullan og einlægan þátt í því mikla starfi sem framundan er. Það er gott að vera kominn heim.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.