Sunnudagur, 6. júlí 2008
Yes mister Minister!
Nú liggur fyrir að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) verður að draga saman seglin. Forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar sendi út tilkynningu til íbúa svæðisins þar að lútandi síðastliðinn föstudag. Hún sendi einnig góðan rökstuðning fyrir hversvegna þessar sparnaðaraðgerðir og niðurskurður á þjónustu er nauðsynlegur.Sá rökstuðningur kom okkur íbúum svæðisins á óvart.
Í þeim rökstuðningi kom fram að framlög til heilbrigðismála á Suðurnesjum eru hinn allra lægstu miðað við íbúafjölda á landinu öllu og ennþá hefur hvorki heilbrigðisráðuneytið eða aðrir sem að málinu koma borið á móti að þar sé rétt með farið. Bæjarstjóri okkar hér í Reykjanesbæ tekur nú í kvöld í Morgunblaðinu undir með stjórnendum HSS að þessi mismunun sé óásættanleg, undrast hægagang kerfisins við að leiðrétta þennan mismun.Það geta allir íbúar Suðurnesja tekið undir.
Það sem veldur mér þó mestum áhyggjum er hin hrokafulla yfirlýsing blaðafulltrúa Heilbrigðisráðuneytisins, sem á sama tíma og blöð og fréttastofur landsins ná ekki í hæstvirtan heibrigðisráðherra sökum þess að hann virðist staddur utan þjónustusvæðis símans, þá sendir blaðafulltrúinn út fréttatilkynningu í nafni ráðuneytisins um þetta mál. Þar leggur embættismaðurinn áherslu sína (ekki ráðherrans) á að þetta mál verði ekki leyst í fjölmiðlunum.
Auðvitað minnir þetta mann skemmtilega á gamanþætti sem hér voru í sjónvarpinu fyri nokkrum árum, og fjölluðu um hvernig embættismennirnir fóru sínu fram hver svo sem afstaða ráðherrans var eða er
Nú er það svo (blaðafulltrúanum til upplýsingar) að sennilega hefur enginn gert ráð fyrir að mál þetta yrði leyst í fjölmiðlum, og hversvegna hann dregur þennan punkt fram er með öllu óskiljanlegt. Nema hann sé að senda einhver skilaboð um að þetta sé ekki mál sem komi íbúum á Suðurnesjum við heldur sé þetta eingöngu úrlausnarefni ráðuneytisins.
Það er það ekki.
Nú er það svo og það verða menn að átta sig á að það var skylda stjórnenda HSS að tilkynna okkur íbúum með fyrirvara að frá og með 16. júlí verðum við ef við verðum veik utan dagvinnutíma að sækja okkar þjónustu til Reykjavíkur. HSS getur, því miður ekki lengur sökum fjárskorts, veitt okkur sömu lögbundnu þjónustu og öðrum þegnum þessa lands.
Blaðafulltrúanum þarf alls ekki að koma á óvart að íbúar svæðisins skuli láta í ljós vandlætingu sína á þeirri óásættanlegu mismunun sem þarna kemur fram. Hinsvegar er sennilega öllum íbúum á Suðurnesjum nokkuð sama um hvor lausnin finnist á öldum fjölmiðlanna eða landsmóti hestmanna á Hellu, eða þessvegna í reykfylltu bakherbergi einhverstaðar í Reykjavík . Það eina sem við gerum kröfu um er að lausnin finnist.
Og við munum ekki sætta okkur við annað en að sitja við sama borð og aðrir landsmenn.
Föstudagur, 4. júlí 2008
Nú verðum við á Suðurnesjum að standa saman
Lesi maður þær tölulegu upplýsingar sem fram koma á vef Víkurfrétta nú í kvöld er ljóst að þetta eigum við íbúar á Suðurnesjum ekki að láta bjóða okkur. Nú verðum við að standa saman, og virkja þá alþingismenn sem við höfum, sveitarstjórnarmennina líka og láta heyra í okkur. Það erum við sem verðum að breyta þessu, því ljóst er að enginn annar gerir það fyrir okkur
![]() |
Heilsugæsluvakt lokuð utan dagvinnu hjá HSS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 4. júlí 2008
Þetta verður að leiðrétta.
Nú er kominn tími til fyrir fulltrúa ríkisvaldsins að bretta upp ermarnar og taka á sínum málum sem þeir eiga greinilega óleyst hér suður með sjó. Það er hefur verið virkilega erfitt fyrir okkur íbúa hér á Suðurnesjum að skilja ýmsar þær ráðstafanir ríkisvaldsins er að okkur snúa, og ber þá meðal annars að nefna frestun framkvæmda við Suðurstrandaveg sem nú er að vísu komin í gang eftir langa bið, sem skiptir bæði Suðurlandið og Suðurnesin miklu máli svo og málefni Lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli.
Nú tekur steininn þó úr þegar í ljós kemur við lestur heimasíðu hss.is að undanfarin mörg ár hafa fjárveitingar til heilbrigðismála á svæðið hafi verið þau allægstu sé miðað við landið allt. Það að það skuli muna rúmlega 30.000 þúsund krónum á íbúa miðað við þá er næstir koma og rúmlega 130 þús miðað við þá er efstir eru vekur manni margar spurningar. Þeirra verður spurt síðar. Við sem hér búum vitum svo sem vel að flest erum við frekar heilsuhraust,og bítum á jaxlinn þegar erfiðleikar steðja að. Við erum ekki stöðugt að væla, en ætlumst til að við búum við sama öryggisnet og aðrir landsmenn. Bæði hvað varðar löggæslu og heilbrigðismál.
Hér þýðir ekkert fyrir ráðamenn heilbrigðismála að bera fyrir sig að sá munur sem þarna kemur í ljós, byggist á því að vegalengdir séu miklar miðað við þar sem best er gefið. Hér á Suðurnesjum er ekki frekar en á t.d Austurlandi strætisvagnasamgöngur á milli byggðarlaga, og enn hefur ekki verið veitt nægjanlegu fjármagni til að hægt sé að reka heilsugæsluselin í Sandgerði, Garði, og Vogum svo vel sé. það fólk er þar býr þarf eftir því sem ég best veit að sækja sér þjónustu annað hvort til Grindavíkur eða Reykjanesbæjar .
Nú er ljóst að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja verður að skera kröftuglega niður starfsemi sína, og stór hluti niðurskurðarins kemur til með að bitna á heilsugæslu svæðisins. Þær síðdegisvaktir sem verið hafa á heilsugæslunni hér í Reykjanesbæ hafa mælst vel fyrir og íbúar svæðisins nýtt sér vel. Með þessum síðdegisvöktum hefur tekist að sinna flestu því sem þurft hefur að sinna og íbúar nánast hættir að sækja þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á til Reykjavíkur eins og áður var.
Langlundargeð okkar Suðurnesjamanna er mikið, en þegar slíkt hróplegt óréttlæti sem hér er á ferð , komum við til með að stytta vel í þeim spotta . Nú þýðir ekkert hvorki fyrir fjármálaráðherra eða heilbrigðismálaráðherra að segja okkur að bíða fram að næstu fjárlagagerð, og þá verði þetta leiðrétt. Þeir liggja t.d ennþá með þá peninga sem þeir fengu fyrir gjafahlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja , og okkur vitanlega hafa þeir peningar ekki komið hér inn á svæðið.
Nú er komið að því að nýta aðeins lítinn hluta þeirra. Aðeins 10% af þeim peningum myndi fara langt með að leiðrétta þennan hlut í ár. Og svo gerum við ráð fyrir að þetta verði leiðrétt að fullu við næstu fjárlagagerð, þannig að í heilbrigðismálum komum við til með að standa jafnfætis öðrum landsmönnum. Það eru engin rök fyrir öðru.
Þarna held ég að fjármálaráherrann sem jú er fyrsti þingmaður þessa svæðis og þess vegna er hann fjármálaráðherra, hljóti að vera okkur algjörlega sammála.
Föstudagur, 4. júlí 2008
Ekki Birni til sóma
Það er óhætt að segja að í gærkvöldi var ég hreint ekki viss um hvort heldur ég ætti að skammast mín fyrir að vera íslendingur eða vera reiður yfir því algera skilningsleysi sem virðist ríkja hjá háttvirtum dómsmálaráðherra um hagi fólks, og þá sértaklega flóttafólks. Ég valdi að vera reiður. En kynna mér þó málið áður en ég bloggaði eitthvað um það.
Mér finnst þær skýringar sem dómsmálaráðherran og settur yfirmaður útlendingastofnunar virka eins léttvægt yfirklór, því þeim er báðum vel ljóst að þarna var málinu klúðrað big time" eins og fjárfestarnir segja.
Það svar dómsmálaráðherrans að þetta eðlilegt og rétt sé að beita Dublinarsamkomulaginu, er einn sá aumasti útursnúningur sem ég hef séð lengi.Þetta snýst ekkert um túlkun á Dublinarsamkomulaginu.Þetta mál snýst um mannúð og skilning á kjörum manns sem er í vandræðum .
Það er heldur ekkert svar eða réttlæting á gerðum sínum sem settur forstjóri útlendingastofnunar er að gefa um að fyrir hafi legið í apríl að Ítalir væru tilbúnir til að taka ámóti manninum skv . ákvæðum Dublinarsamkomulagsins. Og það er alger miskilningur hjá sama manni ef hann telur að það sé einhver mannúð fólgin í því að leyfa manninum að bíða eftir að barn hans fæðist, og færa hann svo í burtu í handjárnum. Nei hér vantar eitthvað upp á skilningin hjá þeim blessaða manni.
Ég held að það liggi í hlutarins eðli að ef maður lendir í vandræðum , þá er það fyrsta hugsun manns að leita ráðs og skjóls hjá einhverjum þeim er maður þekkir. Þessi maður hafði kynnst fjölda Íslendinga í gegnum hjálparstarf ABC í Kenýa , sem allir bera honum söguna vel. Hvað er eðlilegra en að maðurinn leiti þangað þar hann þekkir einhvern. Gallinn var bara sá að hann varð að millilenda á Ítalíu, vegna þess að ekki er neitt beint flug á milli Íslands og Kenýa. Hér hafði hann áður búið og starfað .
Nei ég held að bæði Björn Bjarnason og settur forstöðumaður útlendingastofnunar ættu að hætta að reyna að stauta sig í gegnum Dublinarsamkomulagið og snú sér að lesa islensku lögin sem um þetta fjalla en samkvæmt c, d og e lið fyrstu málsgreinar virðist þar vera heimild sem gefur þessum manni rétt á að vera hér, eða að minnsta kosti er þeim félögum ekki stætt á að senda hann til annars lands þar sem sérstök tengsl hans við landið verða ekki véfengd.
Nei Björn Bjarnason þessi afgreiðsla var þér hreint ekki til sóma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 2. júlí 2008
Í beinu framhaldi
Fékk senda þessa litlu sögu í beinu framhaldi af blogginu mínu í hádeginu:
Hér er einn góður.... svona er Ísland í dag :o)
Nonni: Sæll Jón, Nonni framkvæmdarstjóri hér.
Jón: Sæll Nonni.
Nonni: Heyrðu Jón ég var að hugsa......Málin eru þannig að það er farið að harna á dalnum hjá fyrirtækinu Jón minn.
Jón: Nú ég hélt að það væri bara allt í góðu hér innan dyra.
Nonni: Jú Jú allt í góðu innan dyra ,en það blæs dálítið í kringum bókhaldið Jón minn.
Jón: Er bókhaldarinn ekki að standa sig.
Nonni: Jú Jú Jón minn hann stendur sig vel. Ég var að spá hérna sko, hvenær áttu að fara í sumarfrí Jón minn?
Jón: Þann fyrsta ágúst..... nú af hverju?
Nonni: Er þér ekki sama þó þú takir það launalaust Jón minn?
Jón: Launalaust... af hverju?
Nonni: Þar sem farið er að kreppa að hjá okkur hérna þá verðum við að taka til í fjármálum fyrirtækisins.Og þar sem þið eruð nú bara tvö í heimili þið Gunna Jón minn og eruð nægjusöm í alla staði þá mundi það ekki skipta svo miklu máli þó þú yrðir launalaus eitt sumarfrí.
Jón: Já en við Gunna ætlum að fara til Spánar í fríinu og hlaða batteríin.
Nonni: Hvað væll er þetta Jón minn, áttu ekki orlofið - þið getið notað það ekki satt? Svo er líka alltaf gaman að kíkja inní Heiðmörk. Þú lætur Gunnu bara hita kakó og svona.
Jón: Er öllum boðið uppá þetta, ferð þú líka í launalaust frí Nonni minn?
Nonni: Engin hortugheit við mig.... ég hef ekkert efni á því og þú veist það vel. Mín fjölskylda er aðeins stærri en þín Jón minn og þarf sitt.
Miðvikudagur, 2. júlí 2008
Hvert á að fara í fríinu?
Ríkisstjórnin hélt fund í gær. Flestir hefðu nú haldið að hugsanlega myndu þeir nú kannski ræða þá stöðu sem nú er uppi í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Ef marka má frétt í Fréttablaðinu í dag. kemur fram að málið hafi ekki verið rætt. Menn kannski meira verið að tala um hvernig hafi verið í fríinu eða hvert fara á í fríinu.
Aðspurðir kasta bæði fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra þessum málum frá sér, ýmist á samningarnefnd ríkisins sem sjá á um þessi mál eða á félagsmálaráðherrann, sem redda á málinu í haust. En þá verða að minnsta kosti ljósmæðurnar allar hættar og farnar.
Gallinn er að hvorki fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra geta skautað svona auðveldlega framhjá málinu eins og þeir reyna þarna að gera. Formaður samningarnefndar ríkisins sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í sex fréttum fyrir aðeins tveim dögum síðan að þetta vandamál lægi ekki hjá samninganefndinni , þar sem í þeirra verkferli væri nú þegar gert ráð fyrir því námi sem bæði ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hefðu lagt á sig. Það væru forstöðumenn stofnanna sem umbuna ættu þeim frekar í stofnannasamningum á hverjum stað.
Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort hér séu allir að vinna vinnuna sína. Sé þetta rétt hjá formanni samninganefndarinnar, þá liggur lausn vandamálsins úti í stofnunum sjálfum. Þá er það spurningin sem ég velti fyrir mér og er ekki með alveg á hreinu hvort gert sé ráð fyrir þessu þegar fjárlögin eru saminn? Maður getur ekki betur séð ef fylgst er með fréttum að flestar sjúkrastofnanir eigi fullt í fangi með að halda rekstri sínum gangandi fyrir það fé sem þeir nú þegar hafa til ráðstöfunar.
Fjárlög hverrar stofnunar er á ábyrgð viðkomandi ráðherra er stofnunin heyrir undir. Það er á hans ábyrgð að hverri stofnun sé tryggð nægileg upphæð til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað. Það hefur ekki vafist fyrir einkavæðingarsinnanum heilbrigðisráðherra að tryggja framlög til þeirra verkefna sem hann hefur sett í einkarekstur að undanförnu, og nægir þar að nefna öldrunardeild á Landakoti, og framlög til hvíldarinnlagnadeildar heilsuverndarstöðvarinnar. En virðist eitthvað standa í honum að leggja fram sama fjármagn til t.d Droplaugastaða, þar sem eina lausnin virðist nú vera að einkvæða til að fá nægilegt fjármagn til rekstrarins. Átti ekki einkavæðingar/einkarekstrar stefnan að vera til að hagræða í rekstri og lækka kostnaðinn?Á nú að svelta allt heilbrigðiskerfið í einkavæðingu/einkarekstur, sem svo dæmin sanna að verður bara dýrara í rekstri á eftir?
Nei rekstur heilbrigðiskerfis landsmanna er á ábyrgð heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra í sameiningu, en ekki samningarnefndar ríkisins eða forstöðumanna stofnanna . Þeirra hlutverk er að reka þær stofnannir, og halda sig innan þess ramma sem þeim er skammtaður. Það er ríkisins að tryggja að sá rammi sé raunhæfur.
Mánudagur, 30. júní 2008
Takk fyrir Björk og Sigurrós.
Maður getur ekki annað en hrifist af framtaki þeirra Sigurrósarmanna og Bjarkar í sambandi við náttúrutónleika þá er fram fóru nú um helgina. Þar var vakinn athygli á málefni sem við höfum því miður látið svolítið sitja á hakanum, og einblínt í eina átt hvað það varðar.
Ég hef verið talsmaður þess að álvinnsla fari fram hér á landi, og þá hef ég bæði hugsað út frá að hnattræn losun koltvísýringsins sem af hlýst er lítill hér á landi sökum þess hverslags orka er notuð við framleiðsluna , og svo hitt að hér hefur verið þörf fyrir atvinnusköpun.
Hitt er svo annað mál og hverjum manni hollt að hugsa um, það sem þau Börk og Sigurrósarmenn eru að vekja máls á hvort ekki séu til aðrar leiðir sem betri eru til að nýta þá orku sem við höfum yfir að ráða. Hvort ekki sé tími til kominn að við hugsum aðeins út fyrir hringinn hvað varðar orkunýtingu okkar.
Sú krafa verður stöðugt háværari að við gætum okkar við virkjunaráform, og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Það held ég sé rétt. Þær virkjanir og ákvarðanir sem við tökum í framtíðinni verða að skila okkur hámarkságóða, og nauðsynlegt að sem mestur hluti þess ágóða sitji eftir í landinu.
Nú er það svo að fyrirsjáanlegt er að í nánustu framtíð er það orkukostnaðurinn sem kemur til með að vera eitt af því hefur úrslitaþýðingu hvað varðar staðsetningu ýmissa fyrirtækja , ekki bara stóriðju heldur einnig ýmissa minni framleiðslufyrirtækja og hugbúnaðarfyrirtæki sem ekki menga jafn mikið og stóriðjan gerir. Hvert og eitt þeirra nýtir kannski ekki jafn mikla orku og stóriðjan gerir, en mörg saman gætu þau orðið sá vaxtarsproti sem hægt væri að byggja á.
Vel mætti hugsa sér að í framtíðinni þegar teknar eru ákvarðanir um frekari virkjanir, að skilyrt sé að sú raforka sem þar fáist , verði sett á uppboðsmarkað, þar sem bæði ráði það verð sem menn eru tilbúnir að greiða fyrir, auk þess sem tekið yrði tillit til þeirrar mengunar sem frá fyrirtækjunum yrði. Þannig gæti maður ímyndað sér að hámarksverð fengist , jafnframt sem auðvelt yrði að hafa stjórn á þeirri mengun sem af hlytist. Auk þess sem maður gæti ímyndað sér að hægt yrði að skapa mörg spennandi störf vítt og breytt um landið væri þessari aðferð beitt.
Jafnvel mætti hugsa sér að settur yrði á þetta ákveðin staðsetningarkvóti, þannig að tryggt yrði að landsbyggðin öll myndi njóta. Þannig gæti maður séð fyrir sér að smá og meðalstór fyrirtæki sem tækju mið af aðstæðum á hverjum stað yrðu þar með til á stöðum þar sem engan hafði órað fyrir. Klárt yrði þá að vera að staðsetningarhluti kvótans yrði aldrei framseljanlegur og gæti þannig lagt heilu byggðirnar í rúst eins og fiskveiðikvótinn forðum daga.
Auðvitað eigum við að notfæra okkur þá stöðu sem upp er kominn í orkumálum heimsins og nýta okkur hana til framdráttar sem víðast um landið. Laða að hátæknifyrirtæki, sem borga há laun og hafa þörf fyrir orku. Í því efni eigum við að hugsa sem samfélag, og leyfa okkur að setja reglur sem gætu orðið öllum til hagsbóta, sé rétt að staðið. Það er nefnilega svo að það er ekki alltaf stærðin sem skiptir öllu, gæðin eru líka mikilvæg. það vita Björk Guðmundsdóttir og Sigurrós. Hafi þau þökk fyrir að vekja mig til umhugsunar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 28. júní 2008
Hvers vegna er ég ekki hissa
Nýverið fékk ég heldur óskemmtilega kveðju frá bæjarstjóranum mínum, þegar ég vogaði mér að hafa orð á nýstárlegri fjármögnunarleið Fasteignar ehf hvað varðaði byggingu grunnskóla í Sandgerði. Hann sagði mig ekkert það vita til að geta fullyrt að Fasteign ætti í fjármögnunarörðugleikum. Reyndar alveg rétt hjá honum því um það var ég alls ekki að fjalla.
ÉG spurði spurningar hvar skynsemin lægi í því bæjarfélög tækju lán til að lána framkvæmdaraðilum, svo framkvæmdaraðilinn gæti leigt bæjunum viðkomandi eign. Við því fékk ég ekkert svar, svo ég hafði í raun gleymt þessu máli þar til í morgun að vinur minn austan af fjörðum hringdi í mig og benti mér á grein í Austurglugganum, sem ég læt hér fylgja með
Í raun er þetta bara staðfesting á því sem ég og fleiri höfum verið að reyna að segja fyrir ansi daufum eyrum, að aðferðarfræði sú sem þeir sem stóðu að stofnun Fasteignar ehf er fyrir löngu komin í þrot hvað varðar sveitarfélögin að minnsta kosti. Gaman væri þó telji menn mig hafa rangt fyrir mer hvað varðar að þeir útskýrðu á hvern hátt þetta er til hagsbóta fyrir sveitarfélögin.
Nú ætla ég ekki að svo stöddu, að fara að rifja upp öll þau rök sem fylgdu þeirri ákvörðun að fara þessa leið, en vil minna á að ein meginrökin voru auðveldur aðgangur Fasteignar ehf að lánsfé á betri kjörum en sveitarfélögunum bjóðast. Það hefur í allan þann tíma sem Fasteign. ehf hefur verið starfandi aldrei verið raunin eftir því sem ég kemst næst.
Það að ætla að fjalla um þessi mál á skynsamlegum nótum, og út frá hagsmunum bæjarfélaganna hefur reynst erfitt til þessa eins og dæmin sanna. Menn virðast velja að lýta á alla umræðu um þetta mál sem annað hvort árás á Fasteign, eða árás á stefnu þeirra sem valið hafa að fara þessa leið. Í raun snýst málið um hvorugt. Heldur á málið að snúast um hvort ekki sé kominn sá tími að menn setjist niður og endurskoði málið í ljósi þeirrar reynslu sem komin er. Margt hefur komið í ljós sem ekki er í anda þess er að var stefnt í upphafi.
Í mínum huga hafa það margir gallar komið í ljós á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Fasteignar. ehf að nú sé tími kominn til að sé tími til komin til að endurskoða hvort menn hafi fengið það út úr þessu félagi sem að var stefnt. Hefur fjármögnun þeirra verkefna sem félagið hefur þegar unnið,verið ódýrari heldur en sveitarfélögin hefðu fjármagnað þau sjálf? Hafa öll verkefni verið boðin út, og þannig verið reynt að halda kostnaði niðri.
Það er engu sveitarfélagi hollt að vaða áfram í framkvæmdum án þess að hafa þar efni á. Nú þegar hafa sum þeirra sveitarfélaga sem í upphafi völdu þessa leið sett sig í slíka skuldastöðu gagnvart Fasteign.ehf að erfitt gæti orðið að losa sig þar úr. Og jafnframt hugsanlegt að frekari stækkun bæjarfélaganna til framtíðar gæti verið hættu sökum þeirrar skuldbindingar.
SéFöstudagur, 27. júní 2008
Lítil blaðra
Eitthvað virðist þessir sólbjörtu dagar undanfarið hafa lagst illa í blaðamanninn Agnesi Bragadóttur, og ekki laust við að breytingarskeið það sem hún er að ganga í gegnum á Morgunblaðinu leggist eitthvað illa í hana. Breytingaskeið ýmiskonar er mér sagt lýsa sér einmitt oft með skapofsaköstum og allskonar ofskynjunum sem í raun eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
Hún nefnir grein sína Á jarðsprengjusvæði , nafn sem gefur til kynna að nú sé eitthvað stórmerkilegt á ferðinni , málefni sem vert sé að fjalla um. Þegar nánar er að gáð er greinin að mestu ógrundaður fúkyrðaflaumur í garð forseta vors Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar. Vonandi er þetta ekki hin nýja ritstjórnarstefna sem boðuð hefur verið.
Nú ætla ég mér alls ekki að fara að verja forseta vorn , vegna þess að í mínum huga þarf þess ekki , það vel hefur hann staðið sig, og sést kannski best á því engum datt í hug að bjóða sig fram á móti honum. Hinsvegar tel ég rétt að draga fram nokkur þeirra atriða sem Agnes skrifar um henni til athugunar, þegar æsingurinn rjátlar af henni.
Fyrir það fyrsta, og það ætti jafn reyndur rannsóknarblaðamaður og hún að vita, að þegar rætt er um eitthvað sem fólk á að hafa sagt , þykir það góður siður að nota tilvitnanir, en ekki gefa í skyn að eitthvað hafi verið sagt , eða að mann minni að slíkt hafi veið sagt. Sé sú aðferð notuð kallast það dylgjur, og gæti jafnvel lýst skítlegu eðli viðkomandi.
Hitt er svo annað sem mér fannst skrýtið í söguskýringu rannsóknarblaðamannsins , var hvernig hún nálgaðist stöðu forsetans meðal þjóðarinnar , og nefndi þar til að ekki sé nóg að vera með þjóðinni eingöngu á hátíða og tyllidögum eins og 17.júní og um áramót. Þennan punkt hennar skildi ég ekki. Ég hef nú ekki betur séð en þau hjónin séu mjög öflug við að vera viðstödd og heimsækja hina margvíslegustu atburði víðsvegar um landið. Sá þeim meðal annars bregða fyrir bara fyrir nokkrum dögum í tilefni af 100ára afmæli Garðsins. Og óhætt er að segja að hann hafi heldur betur verið með þjóð sinni , þegar hér var reynt að þröngva í gegnum þingið fjölmiðlafrumvarpinu fræga . En þetta hefði náttúrulega góður rannsóknarblaðamaður athugað ef hann vildi að eitthvað mark væri tekið á skrifum sínum.
Hvað varðar meinfýsni rannsóknarblaðamannsins í sambandi við utanferðir forsetans , er ljóst að þann lið málsins þyrfti hún að athuga betur. Nú er það svo að flest okkar erum mjög sátt við þær utanferðir, og kannski sérstaklega vegna þess að hér er á ferð maður sem ekki eingöngu er að sinna þeirri skyldu sinni að fara í kurteisisheimsóknir, heldur hefur hann líka eitthvað til málanna að leggja, svo eftir er tekið. Og það um mál sem ofarlega er á baugi um víða veröld. Það er orkuvandamál og loftlagsvandamál heimsins. Þar hefur hann unnið mikið gagn.
Nei þessi grein var bara lítil blaðra, sem einu sinni hafði ekki verið blásið í og sagði því ekki puff, þegar á var stungið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 25. júní 2008
Aðstöðumunur í launabaráttu?
Það er skrýtið hvernig gæðum lífsins er misskipt. Fór eitthvað að hugsa um yfirvofandi verkföll flugumferðarstjóra, sem að því er manni skilst vera meðlaun á milli 6oo og 800 þúsund á mánuði, með 1 klukkustundar yfirvinnu að meðaltali á dag. Laun sem flest okkar myndu vera fullsátt við eftir eins til tveggja ára nám jú og svo einhverja starfsreynslu. Svo fór ég að hugsa um yfirvinnubann blessaðra hjúkrunarfræðinganna, sem að því er manni skilst eru ráðnar eftir 4 ára háskólanám fyrir um það bil 250 þúsund á mánuði.
Auðvitað er þetta ekki rétt hjá manni að setja svona dæmi upp. Stétt á móti stétt, en leyfi mér nú að gera það samt, því einhvern veginn hef ég enga sérstaka samúð með flugumferðarstjórunum í þessu dæmi. Í sjálfu sér finnst mér allt í lagi að slíkar stéttir geri launakröfur, en þær verða þá líka að vera innan skynsamlegra marka. Og þá verða menn líka að vera tilbúnir til að taka tillit til aðstæðna og umhverfisins í kringum sig. Flugumferðarstjórum er fulljóst að það sem þeir raunverulega eru að gera er að kúga viðsemjendur sína í krafti þeirrar stöðu sem þeir hafa, og þeim virðist vera nokkuð sama hverjar afleiðingarnar verða, bara að þeir fái 26% launahækkun á sín laun.
Það er ljóst að fari þeir fram með þessum aðferðum mun bæði ferðamannaiðnaðurinn, sem þegar hefur samið um hóflegar hækkanir í ljósi stöðunnar og flugfélögin bera skaða af.
Hinsvegar hef ég fullan skilning á aðgerðum hjúkrunarfæðinganna sem eftir fjögurra ára háskólanám sætta sig ekki lengur við að nám þeirra og ábyrgð í starfi sé ekki metin að verðleikum. Og hvort sem menn vilja viðurkenna eða ekki að það byggjast þessi laun á að að þarna er um kvennastétt að ræða. Auðvitað gæti ég tekið fleiri stéttir með í þessa upptalningu svo sem sjúkraliða, leikskólakennara og fleiri sem svipað er statt um.
Nú gæti ég skrifað langa grein um mikilvægi hjúkrunarfræðinganna fyrir heilbrigðiskerfið, en það er í raun ekki það sem ég hafði ætlað mér að ræða hér um. Heldur er það þessi aðstöðumunur í launabaráttunni sem ég er að hugsa um. Ég held að enginn vildi sjá þá stöðu koma upp að hjúkrunarfræðingarnir ákveddu að hætta að gefa sjúklingum í æð á ákveðnum tímum , og þeim dytti það heldur ekki í hug. Þeir þekkja sína ábyrgð. Þeirra vinna byggir nefnilega líka af hugsjón, því ekki er það launanna vegna .
Það hlýtur að fara að koma sá tími að jafnþróað samfélag og við búum í fari að átta sig á að vinnuframlag svonefndra kvennastétta er mikilvægt , og komin tími til að greiða fyrir það samkvæmt því . Því heldur vil ég hafa hjúkrunarfræðing hjá mér á dánarbeðnum ef ég flýg til himna , heldur en flugumferðarstjóra.