Maður verður að vera sveigjanlegur

Sum okkar erum þannig að minnsta áreiti í morgunsárið, hefur áhrif allan daginn, og stundum meira að segja tvo daga í röð. Maður verður svona hálf utan við sig og nær einhvern veginn ekki almennilega að einbeita sér að öðrum hlutum . Stundum verður þetta áreiti jafnvel til út af hlutum sem manni koma ekkert við og á mörkum þess  að vera dónalegt að nefna  í heyranda hljóði.

Svona er þetta með mig. Get náttúrulega verið hinn glaðasti í morgunsárið, en einnig grautfúll ef því er að skipta. Nú er ég búinn að vera grautfúll  tvo daga í röð, og allt þetta út einhverju sem mér kemur ekkert við og  jafnvel dónalegt að tala um . Efnahagsmálin.

Þetta byrjaði allt á hádegi í gær, þegar fréttir bárust alla leið frá útlöndum um að forsætisráðherrann okkar útskýrði fyrir erlendum fjárfestum hve gott væri að hafa krónuna okkar, hún skapaði þann sveigjanleika sem nauðsynlegur væri  til að stýra þjóðarskútunni í gegn um þann ölduskafl , sem hún er í nú. Þá skildi ég alveg í heila tíu mínútur, hversvegna forsætisráðherranum finnst ekki skynsamlegt að stefna á stöðugt efnahagsumhverfi , t.d með því að athuga hvort upptaka Evru, eða í það minnsta að koma málum þannig fyrir að það væri mögulegt. Sveigjanleiki er málið.

Hvernig væri t.d staða bankanna í dag ef þessi sveigjanleiki væri ekki fyrir hendi. Nú þegar komið er að hálfsárs uppgjöri þeirra. Að vísu skilst manni á talsmönnum þeirra að það sé ekki af þeirra völdum sem staða krónurnar er svo veik sem raun er , þeir væru sko ekki að eiga neitt við gengi krónunnar , þetta eru sennilega einhverjir erlendir spákaupmenn sem á ferð. Síðast í mars var þetta einhver lítill spákaupmaður í Bretlandi sem orsakaði öll þessi læti, og örugglega sá  sami á ferð núna.

Það breytir þó ekki því að það er sveigjanleika krónunnar að þakka að skv. blöðunum í morgun sýna þau gengishagnað bankanna  upp um það bil 80. milljarða. Að vísu eru það heimilin og hinir almennu launamenn í landinu sem borga þennan brúsa í formi hárra vaxta og stöðugt hækkandi verðs á neysluvörunni. Sveigjanleikinn virkar.

Á þessum  tveimur dögum hef ég loksins öðlast þann djúpa skilning, sem hlýtur að vera undirstaðan að jafnlyndi  og óbilandi bjartsýni bæði forsætis og fjármálaráðherrans. Það er að treysta á sveigjanleikann. Ef þetta er rétt skilið hjá mér , þá reikna ég með að strax og spákaupmaðurinn í Bretlandi  hefur bjargað hálfsársuppgjöri bankanna, sem er nú um mánaðarmótin taki gengið aftur að styrkjast, ríkið gangi frá lánveitingu vegna gjaldeyrisforðans, og  menn  uni glaðir og  sáttir við sitt fram að næsta ársfjórðungsuppgjöri  bankanna. Þá hefur sveigjanleikinn sannað gildi sitt sem hagstjórnartæki.


Reikningnum lokað.

Efnahagsvandræði ríkistjórnarinar er nú byrjuð að taka á sig ýmsar myndir, og stundum veit maður hreinlega ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta.  Í dag gat ég þó ekki stillt mig um að hlæja og það gerðu einnig flestir þeir er vitni urðu að.

Enn eina ferðina gat ég ekki stillt mig um að stelast  inn á Básinn hér í Reykjanesbæ, til að fá mér eina pylsu og kók. Er ég kem rennandi að bensínstöðinni sé ég að lögreglubíll er við bensíntankinn, og verið að fylla á hann. Svo sem ekkert merkilegt við það, því þarna stoppa þeir reglulega til að taka eldsneyti.

Ég bauð bensínafgreiðlumanninum góðan dag, og rölti inn ætlaði að panta mér eina pylsu og kók. Tek þó eftir að eitthvað undarlegt er á seyði , þegar lögreglumaðurinn sem verið hafði að taka bensín ætlar að ganga frá reikningnum kemur í ljós að honum hafði verið lokað fyrir frekari  viðskipti. Lögreglumanninum sem greinilega kallaði ekki allt ömmu sína þegar að lausnum vandamála kom, varla brá, og sagði að sami hluturinn hefði gerst fyrr um morguninn hjá öðrum bíl.

Lögreglumaðurinn útskýrði að ekkert úttektarkort væri í þessum lögreglubíl, svo hann yrði að hringja í einhvern af þeim bílum sem slíkt kort hefði. Besínafgreiðslumaðurinn myndi svo skrifa útskýringu sem útlistaði að bensínið hefði farið á þennan bíl. Þetta leystu þeir vel að mér fannst og ljóst að þessi lögreglubíll myndi að minnsta kosti  komast í nokkur útköll áður en bensínið yrði búið á ný.

Auðvitað er þetta ekki  neitt sniðugt að borgarar þessa lands, skuli þurfa að verða fyrir upplifun sem þessari ,að sjá að svo naumt virðist vera skammtað að nú er það ekki lengur skortur á lögreglumönnum sem er vandamálið, heldur hvort til sé peningur fyrir bensín á lögreglubílana. Nú veit ég vel að allt er gert til þess að spara í útgjöldum og er það vel, en sparnaður af þessu tagi finnst mér nú fullmikið af því góða.

Það fannst mér hinsvegar gott að uppgötva að traust mitt á lögreglumönnunum sem vinna verkin hafði ekki minnkað við þessa upplifun, þvi einhvern veginn hafði ég á tilfiningunni að ef ríkið myndi ekki borgað þetta þá myndi lögreglumaðurinn gera það sjálfur, og reyna svo að rukka ríkið. Hinsvegar hlýtur það að vera á ábyrgð ráðheranna sem með þessi mál fara að tryggja að svona hlutir gerist ekki.


ísbjarnarblús

Á  löngum árafjölda hefur íbúum Suðurnesja tekist  að byggja upp glæsilegt og gott fyrirtæki , sem er Hitaveita Suðurnesja. Um hana hefur ríkt einhugur meðal íbúa svæðisins, og menn viljað veg hennar sem mestan. Líkt ikt og æðarkollan hefur hún veitt okkar það fiður sem til hefur þurft til að veita okkur yl á stormasömum  síðkvöldum  suðurnesjanna. En nú er kominn stór ísbjörn í æðarvarpið, sem hefur ekki getað  unað því að æðakollurnar verði í friði í varpinu  og ungi út þeim eggjum sem verpt var.

Það er gott að sjá að bæjarráð Reykjanesbæjar hefur nú tekið þá afstöðu í morgun að það sé ekki hlutverk sveitarstjórnarmanna að taka þátt í áhættufjárfestingum, heldur eingöngu þá samfélagslegu þætti sem þeir eru kjörnir til að gæta. Þetta gerðu þeir með því að hafna erindi Geysis Green Enegy í morgun um að auka hlutafé bæjarins í því fyrirtæki. Jafnframt sendu þeir út þau skilaboð að þeir myndu standa þann vörð, að tryggja að þeir einkaaðilar sem komnir eru að fyrirtækinu nú yrðu að átta sig á að meirihlutinn væri til framtíðar í opinberri eigu. Það fannst mér gott.

Hvernig í ósköpunum dettur mér nú í hug á jafn sólbjörtum og fögrum degi sem þessum að vekja máls á þessu , og hætta þar með á að raska þessari notalegu sumarstemmningu sem nú umlykur allt.Ljóst er að senn kemur að vatnaskilum hvað varðar framtíð Hitaveitu Suðurnesja. Brátt verður ganga í það að skipta því fyrirtæki upp í anda nýsamþykktra laga orkumálaráðherrans. Og þá skiptir máli fyrir þá sem fara með hlut þeirra opinberu aðila sem eiga þar hlut , að átta sig á hve mikil þau verðmæti  eru .

Á  viðskiptasíðum  dagblaðanna  hafa  undanfarið birst greiningar og umfjallanir um stöðugt aukna sókn  fjárfesta í  þær orkulindir  og orkufyrirtæki sem  vistvæn eru. Út frá þeirri umfjöllun má ljóst vera að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið, eiga eingöngu eftir að verða verðmætari í framtíðinni , og afurðin á eingöngu  eftir að hækka í verði.

Nú er ljóst að þegar Hitaveita Suðurnesja var stofnuð á sínum tíma, var megintilgangur hennar að sjá íbúum svæðisins  fyrir rafmagni og hita á sanngjörnu verði. Það er líka jafnljóst að nú þegar til uppskiptingar kemur er líklegt að þeir fjárfestar sem þegar eru komnir inn fái í sinn hluta virkjanirnar og sölukerfið þó ljóst sé lögunum samkvæmt að þeir ná ekki meirihluta í dreifikerfinu og sjálfri auðlindinni.

Í mínum huga þarf það að vera ljóst þegar til þessarar uppskiptingar kemur , að tryggt sé til allrar framtíðar að verð það sem við almennir notendur svæðisins erum að greiða hækki ekki með eða vegna  tilkomu einkaaðila að greininni. Að verð á heitu vatni og rafmagni verði ekki háð spákaupmennsku svipað og olíuverðið er nú.

Ég veit ekki hvort  hægt sé að temja  ísbirni á einhvern hátt , og jafnvel kenna þeim að æðarfuglar eiga sama rétt á lífi og þeir . Efast um það. Ef hins vegar sé ljóst að ísbjörninn sé kominn til að vera, þá verður sú öryggisgirðing sem reist er í kringum hann í æðarvarpinu að vera svo vel  byggð og sterk að hann átti sig á að þar fari hann ekki yfir,og vel vöktuð Hann átti sig á að æðakollurnar og bóndinn eru sennilega betri til að umgangast varpið þannig að allir hafi þar hag af. Líka ísbjörninn.


Rússnesk rúletta?

 

Það eru skrýtnar tilfinningar sem bærast innra með manni þessa dagana. Hálfgerður ótti við framtíðina. Forsætisráðherrann sem fyrir rúmu ári boðaði að framtíðin væri björt fyrir okkur íslendinga , stendur nú álútur á Austurvelli og boðar nýjar áherslur, nú þurfi þjóðin að búa sig undir að þurfa að standa saman sem aldrei fyrr, draga úr eldsneytisnotkun og annað í þeim dúr .

Það er náttúrulega auðvelt fyrir hann að biðja um að við herðum aðeins sultarólina, en á móti verður náttúrulega að koma að hann sýni hvað hann og ráðuneyti hans er að gera til að sporna við vandanum. Hingað til hefur það verið harla lítið. Það er ekki nóg að fá lánsfjárheimild frá Alþingi, til að styrkja gjaldeyrisforðann, það þarf líka að nýta hana.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim ytri aðstæðum sem haft hafa áhrif á efnahagsstöðu okkar í dag, það er u flestar þjóðir að glíma við sama vandamálið hvað það varðar. En hinu megum við ekki gleyma að  stór hluti vandans liggur hjá okkur sjálfum og þeirri stefnu sem fylgt hefur verið hér undanfarin ár. Af því eigum við að læra og viðurkenna þau mistök sem gerð hafa verið.

Eitt er það sem ég hef undanfarið verið að spyrja sjálfan mig, en ekki fundið nein algild svör við og það er hvað er það sem við höfum gert svo vitlaust að staðan þurfi að vera svona eins og hún er. Getur það verið að sú botnlausa trú á einkaframtakinu og frjálsræðinu eigi hér einhverja sök á máli, að við höfum ekki sett ramma sem náð hefur að spyrna við fótum þegar þörf hefur verið á.

Hver er til dæmis ástæðan fyrir því að Seðlabankinn setti ekki viðunandi bindiskyldu á bankanna á sama tíma og þeir lánuðu sem óðir væru, í trausti þess að aðgangur þeirra að ódýru fjármagni myndi vara um aldur og eilífð. Væri staðan önnur ef slíkt hefði verið gert? Höfðu bankannir í raun engar skyldur til að tryggja framtíðargrundvöll sinn ,um leið og þeim var leyft að spila rússneska rúllettu með efnahag þjóðarinnar.

Nú virðast  þeir svo enn einu sinn komnir í gang með spákaupmennsku og hugsanlega reyna að  veikja krónuna til að 6. mánaða uppgjörið líti betur út, þrátt fyrir að öllum sé ljóst að sú staða sem þeir sýni þá eru ekki raunveruleg verðmæti þeirra , heldur hrein og klár spákaupmennska. Og ætlast svo til að erlendu matsfyrirtækin séu svo einföld að sjá ekki í gegnum þetta. Halda menn að álögin á millibankamörkuðum séu tilviljun?

Getur það virkilega verið að Ríkissjóði Íslands sem fyrir örfáum mánuðum var með svo sterka stöðu á lánamörkuðum , sé ekki unnt að fá lán á viðráðanlegum kjörum vegna þess að ljóst er yfirfjárfesting bankanna sé svo rosaleg að enginn treysti því að ríkið nái að koma í veg fyrir að einn eða tveir þeirra séu hreinlega að fara á hausinn? Við verðum að vona ekki því þar er stór hlutur af lífeyrissparnaði  þjóðarinnar geymdur. Í sjóðum bankanna.

Auðvitað gengur þetta ekki miklu lengur að ríkistjórnin þegi og láti eins og þetta sé eitthvað sem þjóðinni komi ekki við, og væni menn um dónaskap ef þeir dirfast að spyrja. Það er ljóst ef ekki á virkilega illa að fara að Seðlabankinn og Ríkistjórn  taki nú á málinu af myndugleik og séu bankarnir að keyra niður krónuna, þarf að taka á því. Því það erum við sem þurfum að borga fyrir þær æfingar jakkafatastrákanna.


Hvers vegna bregður manni ekki?

Nú held ég að menn ættu aðeins að hugsa sinn gang. Hvað svo heita vatnið?
mbl.is Rafmagnsreikningurinn hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað sagði ég ekki !!......eða hvað?

 

Morgunblaðið boðar okkur nú í morgun að heildsöluverð raforku skuli hækka frá Landsvirkjun um 6% frá og með 6.júlí . Og bætir við í undirfyrirsögn að Hitaveita Suðurnesja hyggst einnig hækka um 6% , á meðan aðrir raforkusalar hugsa sinn gang með tilliti til ástandsins í í þjóðfélaginu.

Hvað sagði ég ekki!!  Þetta hefði náttúrulega  getað verið góð fyrirsögn á blogginu mínu í dag , og ég barið mér á brjóst sjálfbyrgingslegur og sagt að nú væri það að koma í ljós sem ég hefði alltaf sagt. Það hefði aldrei átt að hleypa einkaðilum þarna inn. Raforkuverðið myndi bara hækka eins og nú er að koma í ljós.

En að sjálfsögðu er það ekki þannig. Hér er um ráðstöfun að ræða sem fylgir vísitölu neysluverðsins, og fer fram ár hvert  í júní. Sennilega koma þó hin orkufyrirtækin til með að fylgja að einhverju leyti.

Það sem hinsvegar varð tilefni mitt að þessum  hugsunum var að, á meðan hin orkufyrirtækin virðast hafa að minnsta kosti svigrúm til að íhuga stöðuna út frá efnahagsástandi heimilanna, þá er því slegið föstu í Mbl. að HS  hyggist hækka um þessi prósent . Nú er HS sem betur fer ennþá í meirihlutaeigu opinberra aðila  þ.e sveitarfélaganna  á svæðinu, og  því ekki óeðlilegt að ímynda sér að menn í stjórn þar velti því ekki fyrir sér, að minnsta kosti í smástund hvort ekki væri rétt að fresta  eða falla frá einhverjum hluta þessarar hækkunnar á meðan ljóst er að allir aðrir reikningar heimilanna hækka stöðugt.

Það er einmitt þetta atriði sem ég tel svo mikilsvert hvað varðar eignaskiptinguna á slíku fyrirtæki sem HS er ,að þar á að verða borð fyrir báru til að huga að því hverjir hagsmunir samfélagsins, og meirihlutaeigandanna eru þegar kemur að ákvarðanatöku sem þessari. En auðvitað verður einnig að taka fullt tillit til að hve miklu leyti fyrirtækið getur tekið á sig af slíkum hækkunum án þess að það skaðist.


Þú verður að róa þig!!!

Síðustu dagar eru búnir að vera hreint frábærir. Börnin fóru í ferðalag og skildu unganna eftir hjá okkur.  Það er einmitt í svona tilfellum sem maður sér hvað maður er nú í raun ríkur þótt ekki sé peningunum fyrir að fara. Það er annað sem maður er ríkur af, og það er hamingjan. Að fá að vera með barnabörnunum ,sem vakna klukkan hálf sex á morgnanna að því er virðist bara til athuga hvort afi  sé týndur . Og ekki séns á að maður fari að sofa aftur þegar hann loksins er fundinn.

Mitt í allri þessari hamingju , þar róin hefur náð yfir og allt blogg um stjórnmál svo víðsfjarri  manni, er friðurinn rofinn. Og það einmitt á þeim stað þar sem maður er hvað rólegastur, á bensínstöðinni að stelast í eina kók og pylsu. Rétt búinn að renna pylsunni niður þegar einn af bæjarfulltrúunum  kemur askvaðandi og tilkynnir mér að ég verði að fara að taka það rólega.

Bensínstöðin það er minn staður, og ef ég er einhvern tíma rólegur þá er það þar inni. Svo ég náttúrulega spyr manninn  hvað hann sé að meina, vel  finnandi að púlsinn hjá mér er ekki nema svona tveir  eða í hæsta lagi þrír.

Hann bendir mér á að menn séu að verða fúlir yfir blogginu mínu sem hann hafi að vísu ekki lesið, og ætli ekki að lesa, því hann sé með það alveg á hreinu hvernig skoðanaskiptin fara fram á þeim miðli. Ég verð náttúrulega hissari og hissari eins og börnin segja , á meðan hann heldur áfram að útskýra mál  sitt, sem hann hafði þó bara heyrt aðra tala um .

Ég ákveð að betra sé að hlusta frekar en að fara út í þessa umræðu , enda gott veður og enginn ástæða til að eyðileggja það góða skap sem ég var í.

Hann bendir mér á það sé ekki bara með blogginu mínu sem ég hafi eyðilagt fyrir meirihlutanum, sem ég þó styð ekki lengur. Hitaveitumálið sé t.d eitt þeirra mála þar sem ég hafi unnið bænum ómælt tjón, með afskiptaseminni í mér. Bendi honum á mér til smá sárabótar að ég tel að aðkoma mín að því máli hafi fyrst og fremst byggst á því að ég hefði á þeim tíma talið að meirihlutinn hefði ekki haft umboð til að taka jafn afdráttarlausa  afstöðu til einkavæðingar HS og þeir gerðu með bókun sinni í bæjarráði. Þeir hafðu aldrei lagt það fyrir bæjarbúa. Auk þess sem engin lög voru til á þessum tíma um hvernig þessum málum skyldi varið til framtíðar.

Hann sagði mér að hann sem bissnes maður vildi nú miklu fremur eiga þá þá 20. milljarða sem fengist hefðu  fyrir hlutinn, heldur en að eiga þennan hlut núna. Ég yrði að átta mig á að núna væru  efnahagsleg lægð og bæjarfélaginu veitti ekkert af peningum. Hummm  sagði ég og gat svo sem ekki svarað rökum bisnessmannsins.  Nema að á nokkrum dögum hafði hluturinn greinilega hækkað í verði um 3. milljarða, en enginn vildi samt kaupa  hlut Hafnarfjarðar á gamla genginu. Klárt mál  ég skil ekkert í bissnes.

Hnn ætlaði að fara út í mál Fasteignar , og  var byrjaður að lýsa því hve vel það dæmi  gengi allt saman, en ég ákvað að út í þá umræðu skyldi ég ekki láta teyma mig . Hafði sagt mína meiningu um það, og ætlaði ekki að tjá mig meira um það í bili, þar sem ég hefði fengið það miklar upplýsingar síðast þegar  ég tjáði mig um það að þær þyrfti ég nú að melta eitthvað fram á haustið.

Eins og alltaf gat ég reitt mig á bensínafgreiðslumannin , sem tilkynnti að nú hefði hann dælt olíu á bílinn sem svaraði til 10 daga ellilífeyris , svo vissara væri að ég færi nú að vinna eitthvað í stað þess að vera að blaðra um stjórnmál  í þessu líka fína veðri. Hafi hann guðlaun og þakkir fyrir að hafa ekki verið að slóra svona eins og ég.


Hringleikahúsið.

 

Eins og svo oft áður hefur Össur Skarphéðinsson alveg rétt fyrir sér í bloggi sínu, sem ég er ekki viss um hvort hann skrifaði fyrir eða eftir miðnætti, um að tími væri kominn til að brjóta upp þetta form á eldhúsdagsumræðunum á Alþingi.

Neyða þingmennina   til að taka umræðuna í stað þess að koma með einhverjar heimaskrifaðar ræður, sem  búið er að bera undir fjölda manna til að athuga hvort þær séu pólitískt réttar.

Gallinn í þessu er að það eru bara ekki svo margir sem geta þetta. Það eru helst þeir félagarnir Össur,Guðni, Steingrímur J , ásamt náttúrulega Geir H Haarde, sem væri náttúrulega  bestur ef hann syngi sig í gegnum þetta. Bjarni Harðar, Höskuldur Þórhalls, Guðlaugur Þór , þorgerður Katrín ,  Álfheiður Inga og Lúðvík Bergvins gætu þetta örugglega líka en svo er það líka nánast upp talið.

Fá sem flesta af þingmönnum (gladiatorana)  okkar út í hringinn, og sjá hvernig þeir stæðu sig í viðureigninni við ljónin. Þá fengi hringleikahúsið hugsanlega þá virðingu og áhorf sem það í raun á skilið. Auk þess sem þetta neyddi þingmennina til að vera á með á hreinu fyrir hvað þeir standa.


Tölvupósturinn í dag.

Happy   Það er náttúrulega alltaf gaman að fá innihaldsríkan tölvupóst, eitthvað sem gleður. Þetta fékk ég í dag og hugsaði hve hláturinn og brosið geta nú gert líf manna skemmtilegra.

              

 Snilldar dæmi um fótaskort á tungunni ...........



Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis........
· Þessi peysa er mjög lauslát......................
· Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi......(Geri aðrir betur....) · Hann sló tvær flugur í sama höfuðið............
· ...þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg......
· Ég sá svo sæta stelpu að ég fór alveg fram hjá mér........
· Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm......
· Hann sat bara eftir með súrt eplið.................
· Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna.....
· Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að setjast......
· Hann barasta kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti....
· Þar stóð hundurinn í kúnni...
· Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra...
· Svo handflettir maður rjúpurnar...
· Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna.....
· Þetta er ekki upp í köttinn á Nesi.
· Betur sjá eyru en auga
· Ég er alveg stein vöknuð!(eftir að hafa verið stein sofandi) · Ég er eitthvað svo sunnan við mig.(sagt á Akureyri) · Það er ég sem ríð rækjum hér(að ráða ríkjum) · Ég er búinn að vera andvana í alla nótt · Róm var ekki reist á hverjum degi!( Sagði maður á Selfossi) · Vinsamlegast beinhreinsið vínberin (í jólauppskrift) · Lærin lengast sem lifa (maður lærir svo lengi sem maður lifir)
- Hann varð að setja í minni pokann fyrir hinum
- Viltu aðeins hitta mig undir tvö...
- Þetta voru dýrmæt mistök sem hann gerði þarna!


Rökræðan/samræðan

Undanfarna  daga hef ég verið að velta fyrir mér hinum frjálsu skoðanaskiptum og hlutverki lýðræðisins í landinu. Hefur fundist eitthvað skrýtið hvernig umræðan hefur þróast og skoðanafrelsið ekki skipað þann sess sem það ætti að hafa .

Hef einhvern veginn alltaf ímyndað mér að því fleiri skoðanir sem ræddar eru hljóti að vera auðveldara að átta sig á vandamálinu ef eitthvað er. Finnst að gangi maður fram hjá þeim eðlilega hlut sem ég tel rökræðuna, geti maður einnig um leið glatað tækifærinu til að koma auga á þær lausnir sem þar gætu leynst. Tel að þannig megi til dæmis koma í veg fyrir miskilning manna á millum sem orsakast af að menn eru kannski ekki til í að setja sig inn í skoðanir eða hugmyndir  annarra, og hætti þannig á að festast í eigin hugmyndum , sem ef til vill eru ekki í takt við það sem raunverulega er.

Ég  er allavegana þeirrar gerðar að oft fæ ég einhverjar snilldarhugmyndir að mér finnst, en venjulega breytast þær frá hinum upphaflegu eftir að hafa rætt þær við  samferðarmenn mína, og þeir eru sko ekki alltaf sammála mér , eða ég sammála þeim.  En einhverra hluta vegna virðist það þó vera að í lok slíkra umræðna ná menn að skilja í það minnsta sjónarmið hvers annars. Það þýðir þó ekki að maður megi ekki reyna að vinna sinni skoðun brautargengi.  Það er sanngjarnt.

Mín upplifun og skilningur á umhverfinu og málefnum hefur sennilega alltaf mótast af því hvað ég hef séð og heyrt, jafnframt  þeim tilraunum mínum til að afla mér upplýsinga um það sem ég hef talið mig ekki geta skilið, þrátt fyrir útskýringar  vina og kunningja. Spurt spurninga og oft fengið þau svör sem skýrt hafa myndina. Einhvern veginn hefur mér þótt þetta vera ágætis blanda að rökræða hlutina, rannsaka það sem ég hef ekki skilið, og svo mynda mér skoðun út frá því.

Lýðræðið og skoðanaskiptin hafa þannig í mínum huga alltaf verið ein órjúfanleg heild, og nánast útilokað að skilja þarna á milli. Þannig hef ég komist að því að mín sýn á lýðræði myndi flokkast undir það sem sumir vilja kalla rökræðulýðræði  og byggir á mínum skilningi á því að ákvarðanir sem varða  það samfélag sem við búum í,  byggist upp á upplýstri  sam- og rökræðu.

Í þessu samhengi geng ég út frá því að“ríkið sé sá samstarfsvettvangur þegnana í leit sinni að farsælu lífi og lögð sé sú skylda á hendur ríkinu að það geri ekki upp á milli ólíkra leiða sem þegnarnir  vilji fara í leit sinni  að þessu markmiði“ eins og Ólafur  Páll  Jónsson heimspekingur  orðar það svo snilldarlega. „Ríki sem mismunaði þegnunum með slíkum hætti  gæti ekki talist samvinnuvettvangur, þegnanna heldur væri það tæki sumra til að vinna eigin lífssýn fylgi á kostnað annarra“

Í dag er viðhorf okkar að sjálfsagt sé að meirihlutinn ráði, í krafti  úrslita kosninga hverju sinni. Þeir sem unnu kosningarnar eru þar með komnir með stöðu í krafti  meirihlutans til að ákveða , ekki bara fyrir sig , heldur minnihlutann líka hvert það mál er þeim dettur í hug, og oft á tíðum  er það talið aukaatriði að ræða málin við minnihlutann hverju sinni, þó þar geti jafnvel  leynst hugmyndir sem brúa bilið á milli meiri og minnihluta . Menn veigra sér við að taka slíka umræðu, oft af miskildu stolti þar sem menn telja sig þurfa að verja vald sitt, án tillits til málefnisins hverju sinni.

Í minum huga er ásættanlegasta mynd lýðræðisins sú að menn á einhverjum  tímapunkti nái því sem ég tel þroska , aðrir einfeldni  að hefja sig yfir þá þröngu hugsun að menn séu í pólitík eingöngu til að vinna sínum hugsjónum brautargengi . Heldur prófi hvort ekki sé hægt með rökræðu og samræðu að ná  að þeim punkti að markmiðið sé að sameina skoðanir sem flestra , en það þýðir auðvitað oft að allir aðilar þurfa kannski að gefa eitthvað eftir. En menn verða þá allavega nokkuð sáttir við niðurstöðurnar. Og það sem betra er þeir læra að virða skoðanir annarra.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband