Yfirlýsing

 

Í tölvupósti sem ég fékk fyrir helgi, og hef haft á blogsiðu minni smali.blog.is undanfarið kemur fram að Árni Sigfússon telur að ég hafi  ekki kynnt mér málefni Fasteignar til þess að ég geti  fullyrt eitt eða neitt um þeirra málefni. Það er rétt hjá honum að ekki hef ég kynnt mér málefni Fasteignar, en hins vegar tel ég mig hafa kynnt mér þau málefni Reykjanesbæjar sem snúa að Fasteign bara nokkuð vel , og því leyft mér að undrast þær ákvarðanir sem teknar hafa verið út frá hagsmunum Reykjanebæjar þar að lútandi.

  er það ljóst að sú ákvörðun  að selja eigur Reykjanesbæjar inn í Fasteign á sínum tíma byggðust meira á þeirri pólitísku sýn  að einkaaðilar væru betur til þess fallnir, en opinberir til að sjá um fasteignamál  bæjarins.

 Ein meginrökin fyrir að  Fasteign skyldi sjá um þessi mál voru að þar væri hægt að fjármagna slíkar framkvæmdir á ódýrari hátt.  Ef litið er til þeirra kjara sem Fasteign og Reykjanesbær bauðst á þeim tíma  er  þessi ákvörðun var tekin,  er ljóst að  á millibankamarkaði  var álag Reykjanesbæjar  35-37 punktar á millibankavexti  og álag fasteignar  á sama tíma 60 punktar.  Þarna munar miklu.

Ljóst er að á öllum þeim tíma sem síðan er liðinn að vaxta og lánakjör Reykjanesbæjar sem opinbers aðila hafa í flestum  tilfellum verið betri  í gegnum t.d  lánasjóð sveitarfélaganna en Fasteignar sem hefur ekki aðgang að því lánsfé , eðli máls samkvæmt. Hinsvegar er það rétt að aðgangur Fasteignar að lánsfé á markaði hefur verið góður, og meira að segja svo góður að fáir erlendir bankar og hvað þá íslenskir treysta sér eða geta  lánað þeim meira að svo stöddu. Þarna spila náttúrulega inn aðstæður á erlendum mörkuðum , svo og traust manna á þeirri fjármálastefnu sem hér hefur verið fylgt undanfarin ár og komin er nú í alvarlegan vanda.

Árni vil halda því fram að gagnrýni sú sem ég hef sett fram á ýmis þau verk sem hann hefur staðið fyrir geti eingöngu komið frá svörnum andstæðingi í pólitík.

Nú verður Árni Sigfússon að gera sér það ljóst að það er á ábyrgð okkar sjálfstæðismanna og íbúa í Reykjanesbæ  er kusum hann,  að hann er bæjarstjóri okkar. Þar gegnir hann mikilli ábyrgðarstöðu, og sú ábyrgð sem því fylgir er fyrst og fremst gagnvart hagsmunum bæjarins. Þar verður hann að hafa visku til að greina á milli hverjir eru hagsmunir flokksins og hverjir eru hagsmunir bæjarbúa. Hvort hann hafi sem sjálfstæðismaður barist fyrir einkavæðingu , og telji að einkaaðilar séu í flestum tilfellum betri til að fara með þau mál er snúa að málum bæjarins skiptir ekki nokkru máli, ef það er andstætt hagsmunum bæjarbúa. Þar gildir eingöngu kalt mat hverju sinni og gæta skal hófs hvað slíka ákvörðunartöku varðar. Hagsmunir flokksins verða aldrei sterkari en hagsmunir bæjarbúa. Um það ber að standa vörð.

Allt frá því að ég flutti til Reykjanesbæjar hef ég valið að styðja þau mál sem frá Sjálfstæðisflokknum hafa komið og í mínum huga hljóma skynsamlega. Þar ber að nefna t.d  uppbyggingu Álvers í Helguvík og  fleiri góð mál. Hinsvegar hef ég ekki verið sammála í t.d fyrirhugðri einkvæðingu Hitaveitu Suðurnesja (bókun meirihluta í bæjarráði 12-07-2007 , aðild bæjarins að eignahaldsfélaginu Fasteign , né heldur hef ég verið sáttur við þá niðurstöðu sem rekstrareikningur bæjarsjóðs hefur sýnt undanfarin sex ár. Þar hefur alltaf verið tap að undanskildu árinu 2005 er sýndi hagnað upp á 42.702 krónur. Heildartap þessa tímabils eru skv. bæjarreikningum rúmlega 2 milljarðar á sex ára tímabil, þrátt fyrir sölu eigna.

Þeir sem til mín þekkja vita að fátt finnst mér skemmtilegra en að fara í góða fjallgöngu og ná á toppinn í hópi góðra vina.Njóta náttúrnnar og félagskaparins. Það vita líka allir þeir sem fjallgöngur stunda að  klífa erfitt fjall í þoku og vondu veðri er ekki skynsamlegt og getur orðið stórhættulegt, ef maður sér ekki fóta sinna skil, jafnvel þó fararstjórinn segist vera með góða GPS punkta. Þá er betur heima setið.

Að framansögðu  og  eftir umhugsun og samráð við mína nánustu trúnaðarvini  innan flokks og utan hef ég því komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé,frekar en að taka þátt í slíkum umræðum á persónulegum  nótum að lýsa því hér með yfir að ég get ekki, það sem eftir lifir þessa kjörtímabils, stutt sem óbreyttur bæjarbúi og kjósandi  þann meirihluta sem Árni Sigfússon fer fyrir hér í Reykjanesbæ. Ég áskil mér þó þann rétt að hafa áfram skoðanir á þeim málum er bæjarfélagið varða , ekki sem andstæðingur ,heldur maður minna skoðana. Þetta þýðir þó ekki að ég segi mig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann tel ég vera stærri og meira virði en þá stefnu og stjórnunarstíl sem Árni Sigfússon stendur fyrir.

  

Óvænt innlegg í umræðuna.

Ég fékk í kvöld sent óvænt innlegg í tölvupósti í umræðuna um blogg mitt frá í dag þar sem ég ræði afgreiðslu á Ársreikningum Reykjanesbæjar og vík létt að forsíðufrétt 24 Stunda frá í morgun. Ekki ætla ég mér þá dul að svara tölvupósti þessum að svo stöddu, þarf aðeins að hugsa viðbrögð mín.

Póstur þessi er stílaður á mig en einnig sendur til fjölmargra aðila sem bæjarstjórinn telur nauðsynlegt að halda upplýstum, og er ekki skilgreindur frá honum sem neinn sérstakur trúnaðarpóstur. Þar sem póstur þessi er skrifaður í svo skætingslegum tón, og langt frá því að geta talist málefnalegur vil ég ekki sitja með hann einn frekar en Árni Sigfússon og áframsendi hann því hér inn á bloggið mitt.

                                                       Með bestu kveðju

                                                       Hannes Friðriksson

 

Recent Message
 
From:arni.sigfusson@reykjanesbaer.is
Subject:kveðja
Date:Thu, 22 May 2008 20:16:16 +0000
To:Hannes Friðriksson <hannes@vss.is>
Cc:bodvar.jonsson@fjr.stjr.is, steini@kef.is, BjorkG@althingi.is, hjortur.zakariasson@reykjanesbaer.is, Gardar@Geysir.is, sigridur.johannesdottir@reykjanesbaer.is

Sæll Hannes,
Ég var að ljúka íbúafundum þar sem á 5. hundrað manns mættu til að heyra af verkefnum og spyrja um það sem þá langaði til. Margar ábendingar komu sem nú  verður unnið úr. Þú þarft auðvitað ekki að sækja þessa fundi - þú veist þetta allt fyrirfram! Þú þarft heldur ekki að spyrja mig með einföldum tölvupósti - því þú veist þetta allt fyrirfram!
Ekki veit ég hvar ég hef stigið á tær þínar - hvað þá höfuð - en það er greinilegt að hegðun þín og skrif gefa til kynna að ég sé valdur að slíku.
Ég myndi  skilja þetta ef um væri að ræða svarna andstæðinga okkar í pólitík en mér skilst að þú segist vera sjálfstæðismaður - svo þannig hef ég talið þig aðhyllast þá stefnu og talað við þig á þeim nótum.
Fullyrðingar þínar um Fasteign nú eru gjörsamlega út í hött og greinilegt að þú hefur engar forsendur til að fullyrða en gerir það samt! - Mér sýnist þú í hópi bloggara sem skrifa fyrst og spyrja svo!  
Ég bý að Kópubraut 34 hér í Innri Njarðvík, GSM sími minn er 8933056 - Ég er með almenna viðtalstíma á miðvikudögum en er reiðubúinn að hitta menn á öðrum tímum eins og kostur er - Ég reyni einnig að svara tölvupósti sem til mín berst með mjög stuttum fyrirvara.
Ég hef ítrekað reynt að veita þér upplýsingar eftir bestu getu en greinilegt að það nær ekki langt.
Ég mun ekki elta ólar við þetta blogg þitt á opinberum vettvangi eða ónáða þig frekar með tilskrifum.
Með kveðju,
Árni
ps. læt hér fylgja nokkra punkta frá Bergi Haukssyni, framkvæmdastjóra Fasteignar, sem hann sendi einmitt til bæjarstjóra þeirra 11 sveitarfélaga sem eru aðilar að Fasteign:

Ónákvæmur fréttaflutningur 24ra stunda

 

Á forsíðu 24ra stunda í dag (22.05.2008) er frétt um Fasteign á forsíðu undir fyrirsöginni: Fasteign er fjárþurfi. Fyrirsögnin er ekki lýsandi fyrir efni fréttarinnar en ætla má af fyrirsögninni að fréttin fjalli um fjármögnun og rekstur Fasteignar en svo er einungis að litlu leyti og þá farið rangt með.  Eini þáttur fréttarinnar sem fjallar um fjármögnun Fasteignar er á þá lund að Sandgerðisbær sé að lána fé til Fasteignar en þetta er byggt á misskilningi að því er telja verður.    

Á vegum Fasteignar eru í gangi framkvæmdir sem eru samanlagt vel á annan tug miljarða króna og Fasteign er ekki í fjárþörf vegna þessara verkefna.  Telja verður að mjög fáir aðrir aðilar séu með svo miklar  framkvæmdir í gangi.  Að sjálfsögðu er það svo að Fasteign er ekki eyland og sú lausafjárkreppa sem hefur verið við lýði síðan í ágúst 2007 og haft áhrif á m.a. möguleika íslenska ríkisins til að taka lán mun einnig hafa áhrif á Fasteign ef ekki úr rætist.

Til þess að taka af öll tvímæli þá er Fasteign ekki í fjárþörf og er rekstrarstaða félagsins mjög góð samanber uppgjör ársins 2007 og sama gildir um fyrstu mánuði ársins 2008 sem eru samkvæmt áætlun. Áfram mun félagið leita leiða til þess að ná fram hagkvæmni við undirbúning, viðhald og byggingu fasteigna fyrir eigendur félagsins, þar með talið að leita hagkvæmra lána og bestu kjara.  Félagið mun því taka lán til að fjármagna framkvæmdir hjá þeim aðila sem býður bestu kjörin miðaða við aðstæður á hverjum tíma.   Félagið hefur staðið fyrir mörgum framkvæmdum á síðast liðnum árum og hafa áætlanir um þau verkefni staðist og í ljósi fréttar sem birt var í Viðskiptablaðinu miðvikudaginn 30. apríl 2008, þar sem segir að mikill meirihluti opinberra framkvæmda fari fram úr áætlun (fréttin er byggð á rannsókn Þórðar Víkings Friðgeirssonar aðjúnkts við Háskólann í Reykjavík ) en sú er ekki raunin hjá Fasteign og því má áætla að Fasteign hafi sparað tugi milljóna ef ekki hundruð fyrir sína eigendur með aðferðafræði sinni.

 


Er glasið hálffullt eða hálftómt?

 Mér datt í hug þessi spurning í morgun er ég sá umfjöllun Víkurfrétta um Ársreikning bæjarsjóðs Reykjanesbæjar fyrir árið 2007. Spurning þessi hefur löngum þótt vera góður mælikvarði á hvort menn eru jákvæðir eða neikvæðir til ýmissa mála.  Svör Böðvars Jónssonar í þessari umræðu er óhætt að túlka sem svar hins jákvæða manns, sem velur að glasið sé hálffullt, er hann segir að það eina sem skipti máli sé sú niðurstaða að ársreikningarnir sýni hagnað upp á 2,5 milljarða.  Auðvitað skiptir þó líka máli að rekstrarreikningur bæjarsjóðs sýnir að undanfarin sex ár hefur hann ekki verið rekinn með hagnaði, heldur tapi upp á rúma 2,5 milljarða, en á það minnist Böðvar þó ekki.

Hann heldur áfram og  segir umræðu minnihlutans alltaf vera með sama hætti hvað varðaði umræður um ársreikninga bæjarins. Endalausar vangaveltur um hvort,  og í raun sömu vangaveltur sem minnihlutinn kemur með ár eftir ár. Þar velur hann að líta svo á að glasið sé hálftómt.

Sjálfur hef ég undanfarið verið í þeirri stöðu að spyrja sjálfan mig þessarar spurningar þegar kemur að þeim málum er ég hef látið mig varða hvað stjórn meirihlutans varðaði. Eg hef reynt að líta á þá miklu uppbyggingu sem hér hefur átt sér stað sem jákvæðan hlut, og í raun dáðst að því hugrekki sem núverandi meirihluti hefur sýnt við þann hluta  stjórnar bæjarins. Þar hefur mér þótt glasið hálffullt.

En, svo á móti þegar kemur að rökrænni umræðu um hin ýmsu mál sveitarfélagsins hefur mér hinsvegar þótt glasið velta gersamlega á hliðina og allt leka úr því, hvað varðar rökræna umræðu meirihlutans um málefni sveitarfélagsins. Einhverra hluta vegna, sem ég skil ekki, enda allar umræður um málefnin á því að minnihlutinn sé bara neikvæður og útilokað að hann sé að leggja eitthvað vitrænt til málanna.

Nú er það svo að öll viljum við sveitarfélagi okkar vel, menn eru í sveitarstjórnarmálum af hugsjón og sumir vonandi af ástríðu. Þær leiðir sem menn vilja fara eru mismunandi og það ber að virða. Það þýðir ekki að þær séu ekki jafnréttar eða réttari þótt áherslurnar séu aðrar.  

Minnihluti á hverjum tíma er ekki þar til þess að samþykkja hvert það mál er meirihlutinn vill koma fram, heldur til þess að veita aðhald og benda hugsanlega á aðrar leiðir. Það finnst mér þessi minnihluti hafa gert, og jafnvel hefði verið mjög skynsamlegt af núverandi meirihluta að hlusta á þá rödd í mörgum þeim málum sem þeir hafa farið í og nægir mér þar að nefna t.d málefni Hitaveitu Suðurnesja og síðast málefni Fasteignar sem nú er komið í það mikið þrot að þar verður Fasteign að biðja fyrst sveitarfélögin um að fá lán, til að lána svo Fasteign svo Fasteign geti svo staðið undir þeim skuldbindingum sem sveitarfélögin eiga að láta af hendi lögum samkvæmt. Hversslags eiginlega hringavitleysa er þetta orðin.

 Ég get ekki betur séð en flestar þær bókanir sem minnihlutinn hefur látið frá sér fara bæði um þessi mál og svo um fjárhagsstöðu bæjarins, séu fullkomlega studd með góðum og gildum rökum, og í stað þess að henda þeim frá sér sem neikvæðum eiga menn að hafa þann þroska og vit til að hlusta á rökin og ræða. Þá væri möguleiki á að rekstur bæjarins færi að  skila einhverjum smáhagnaði í nánustu framtíð. Þá fyrst geta menn sagt að glasið sé hálffullt, og jafnvel á leið með að fyllast. 


Orð eru til alls fyrst, en þögnin bjargar engu.

Fjörmiklar umræður hafa átt sér stað hér á síðunni um helgina þar sem menn hafa ýmist talað með eða á móti hugsanlegum aðildarviðræðum. Upptök þessarar umræðu voru náttúrulega  orð Geirs H Haarde um að hann vildi ekki ganga í ESB , og rök  hans þar að lútandi.

Margt hefur nú komið fram í þessu máli um helgina, sumt fyrirséð en  annað ekki . Það sem mér finnst nú kannski hvað athyglisverðast  við þessa umræðu eru viðbrögð ýmissa  sjálfstæðismanna við þessari umræðu.

Sigurður Kári Kristjánsson  gefur í skyn að afstaða Sjálfstæðisflokksins eigi ekki eftir að breytast í nánustu framtíð, og vísar til þess að hann telji sig þekkja  þá er  sitja landsþing það vel að nánast sé útilokað að sú stefna sem mörkuð hafi verið breytist nokkuð. Þar held ég nú samt að margir sitji sem vel gætu hugsað sér breytingu á þessari stefnu. Það á eftir að koma í ljós.

En hver er svo sá texti sem menn eru að hanga í og leyfa sér ekki þann  munað að velta þessu máli frekar fyrir sér.

Evrópusambandið er bæði einn stærsti sameiginlegi markaður veraldar og mikilvægasta markaðssvæði Íslands. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), sem gerður var undir stjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins hefur átt stóran þátt í mikilli hagsæld á Íslandi á umliðnum árum og heldur áfram að þjóna hagsmunum okkar vel hvað varðar viðskipti við ríki álfunnar. Ekki er annars að vænta en að EES–samningurinn muni halda gildi sínu. Sjálfstæðisflokkurinn telur aðild að ESB ekki þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar eins og málum er háttað. Mikilvægt er að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum Íslands verði best borgið í samstarfi Evrópuríkja. Áfram skal unnið að gerð tvíhliða samninga um fríverslun við önnur ríki og rækt lögð við eflingu ábatasamra viðskiptatengsla um allan heim.

 

Þessi texti er samþykktur af Landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir rúmlega einu ári síðan, og margt hefur breyst síðan . Á þessum tíma sem þetta er samið er málum talsvert öðruvísi háttað en er í dag. Og í ályktuninni er áréttað að mikilvægt sé að sífellt sé í skoðun hvernig hagsmunum  Íslands sé best borgið til framtíðar í samstarfi Evrópuríkja. Í raun er það eina sem vantar til að útskýra þennan texta, eru rökin fyrir því hversvegna Sjálfstæðisflokkurinn telur það ekki þjóna hagsmunum þjóðarinnar að ganga í ESB. Þau rök hefur vantað.

Annað sem mér hefur fundist vera svolítið merkilegt, og það  er sú árátta eða misskilningur ýmissa háttsettra stjórnmálamanna undanfarið álýta sem svo að það sé þeirra að ákveða hver hinn eiginlegi vilji landsmanna eigi að vera í máli sem þessu.  Ég veit ekki af hverju að mér finnst sumir vera byrjaðir að misskilja svolítið hvað lýðræði er og telji sig nú geta sagt okkur hvað við eigum að hugsa,  og jafnvel hvenær við eigum að hugsa.  Tími leiguliðanna sem gerðu eins og jarðeigandinn ákvað er löngu liðinn og gott fyrir menn að átta sig á því .

Einu jákvæðu teiknin að undanförnu frá Sjálfstæðisflokknum koma frá varaformanni flokksins , sem er svo lýðræðislega sinnuð að hún treystir landsmönnum til ákveða hvað þeir telji best að gera í málinu. Á sama tíma telur formaðurinn að ekki sé hægt að treysta hinum almenna flokksmanni að segja sína skoðun með almennri atkvæðagreiðslu um þetta mál. Það er nú ekki eins og komið sé að  því að ganga í Evrópusambandið, til þess höfum við engar forsendur. Það eina sem verið er að biðja um eru umræður um þetta mál með þeim rökum sem stefna flokksins byggir á , þannig að hægt sé að mynda sér skoðun.

Ég trúi því ekki fyrr en í fulla hnefana að menn ætli að efna til sundrungar innan flokksins eingöngu vegna þess að þeir telji það ekki tímabært að kynna þau rök sem landsfundarályktunin byggir á. Þeir þekkja kannski rökin sem landsfundin sátu, en þau hafa ekki verið kynnt fyrir hinum almenna félagsmanni svo vel sé .


Gott að vita hvað Geir vill.

Var að hugsa í morgun þegar ég fletti  Morgunblaðinu,að sennilega væri ég haldinn einhverri þráhyggju hvað varðar umræðuna um hugsanlegar aðildarviðræður við ESB. Ég virðist bara ekki geta skilið þau rök sem liggja að baki því að ekki sé tímabært að taka upp umræðu um þetta mál, sem þó er á flestra vörum.

Þeir félagar Bjarni Bendiktsson og Illugi Gunnarsson   virðast vera sammála í sínu mati skv. Grein í mbl í morgun að „ Ef ekki liggur fyrir meirihluti á Alþingi, þar sem þingmenn eru bundnir eigin sannfæringu þá sé ótímabært að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari  fram.

Hefur farið þar fram einhver alvöru umræða um hugsanlegar aðildarviðræður, þar sem komið hefur í ljós að slíkur meirihluti sé ekki fyrir hendi datt mér í hug, og mundi að minnsta kosti ekki eftir þeirri umræðu í svipinn.  

Annað sem mér fannst athyglisvert við þessa grein var að báðir virtust þeir vera sammála um að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að vera leiðandi í slíkri umræðu, og þar er ég reyndar alveg sammála þeim. En til þess að svo geti orðið þurfa stofnanir flokksins náttúrulega að taka málið upp og komast að einhverri  niðurstöðu hver stefna flokksins er í þessu máli.

Þorgerður Katrín  varaformaður flokksins virðist að minnsta kosti ekki vera alveg sammála formanninum um hver þessi stefna flokkins ætti að vera í þessu máli, og er meira að segja svo lýðræðislega þenkjandi að þjóðaratkvæðagreiðsla um hugsanlegar aðildarviðræður væri ekki slæmur kostur, á meðan meginnþorri alþingismannanna flokksins  forðast að ræða málið og vísa til að það sé ekki  tímabært, án þess þó að færa einhver frekari  rök fyrir því hvers vegna það sé ekki tímabært.

Geir H Haarde sagði skv  netfréttum Mbl í dag að hann vildi ekki að að Íslendingar gengju í Evrópusambandið, vegna þess að þá hefðu stjórnvöld ekki það svigrúm sem þyrfti til að losa sig úr aðstæðum svipuðum þeim og hér hafa komið upp á síðustu vikum og vísar um leið til breytinga í alþjóðlegu umhverfi.  

Einhverra hluta vegna,  virðast þessi áföll sem dunið hafa yfir fjármálakerfi heimsins ekki hafa komið niður af sama þunga til dæmis í öðrum löndum Evrópu, þrátt fyrir hið litla svigrúm sem þau búa við. Eða að maður hefur hreinlega ekki fylgst nógu vel með hvað það varðar. Og hefðu þessar aðstæður yfirleitt komið upp hefðum við verið svo lánsöm að haga  fjármálum okkar þannig að við ættum yfirleitt möguleika á að komast inn í ESB?

Auðvitað  er það rétt sem andstæðingar aðildarviðræðna halda fram að hugsanlegt sé að eitthvað verði að gefa eftir hvað varðar fullveldi þjóðarinnar í ýmsum málum t.d  fiskveiðimálum . En er eitthvað sem breytist við það. Höfum við t.d  ekki fyrir löngu gefið eftir fullveldisréttin með t.d kvótann á fiskinum . Hefur hann ekki verið afhentur fáum útvöldum fyrir okkar  hönd.

Hitt er annað sem mér dettur í hug, og það er að í hverri einustu viku nánast þurfa Íslendingar að samþykkja ýmsar tilskipanir frá Evrópusambandinu á grundvelli EES samningsins. Allt eru þetta tilskipanir sem við höfum eingin áhrif á. Hefur þar ekki verið afhentur hluti af fullveldisréttinum í ýmsum málum, og það án þess að nokkur  stjórnarskrárbreyting hafi verið gerð hvað það varðar.

Það er löngu orðið tímabært að þessi umræða verði tekinn á þeim grundvelli hvað þjóðinni er fyrir bestu til framtíðar, en ekki hvort Geir H Haarde eða einhverjir aðrir vilja eða vilja ekki fara í Evrópusambandið.  Í þeirri umræðu þurfa menn að vega og meta kostina og gallana við slíkar viðræður en ekki bara gefa sér einhverjar fyrirframyndaðar niðurstöður  úr slíkum viðræðum.Tryggja þarf þjóðinni stöðugleika til framtíðar , hvort sem það verður gert með krónu eða evru. Því  ljóst er að það kerfi sem við búum við í dag gerir það ekki.


mbl.is Geir: Ég vil ekki ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíltúrinn

Vorið er komið með öll sín verkefni, það þarf að mála pallinn, bera á garðhúsgögnin , snyrta  beðin , og gott ef ekki að maður þurfi að fara að huga að því að slá garðinn í næstu viku. Mitt í öllu annríkinu dettur svo frúnni í hug að nú sé tími til að fá sér  smábíltúr um bæinn og njóta  veðurblíðunnar. Reyni að malda í móinn og bendi henni á að þessi verk vinni sig ekki sjálf , en hún segir á móti að þau fari nú ekki neitt þótt ég bregði mér í smá bíltúr.

Við erum búinn að búa hér í bænum í fjögur ár núna í haust , frúin að vísu allt sitt líf að undanskildum sex árum sem við bjuggum í  Kópavogi.  Vorum í bíltúrnum að velta því fyrir okkur hvað mikið hafði breyst hér á fjórum árum . Hér eru risnar glæsilegar blokkir við sjávarsíðuna, og alveg nýtt hverfi  í Innri – Njarðvík  auk þess sem mikil uppbygging  á sér stað núna þessa dagana í Grænáshverfinu. Hafnargatan að vísu farinn að láta ásjá, en það hlýtur að standa til bóta á þessu sumri, annars keyrir maður þar í skurðum í vetur.  

Það er náttúrulega alveg frábært að keyra um bæinn og sjá annað slagið útsýnið opnast til norðurs og þá blasir fjallahringurinn við í vorsólinni. 

Í  okkar huga er það ljóst að það var gott skref að flytja hingað, hér er stöðugt eitthvað að gerast þrátt fyrir áhyggjur mínar hvað varðar  fjárhag  bæjarfélagsins , og þá stefnu er þar ræður för. Nefndi við frúna hvort ekki væri rétt að kaupa lás og keðju, til að festa rúmið í það minnsta við ofninn, svo bæjaryfirvöld  einkavæði það nú ekki líka eins og stefna þeirra hefur verið í öðrum málum  að undanförnu. Hún bendir mér á að njóta nú bíltúrsins og hætta þessu þusi um pólitík, og leggur til að við kaupum okkur ís til að kæla mig.

Eitt er það sem mér finnst hafa heppnast hvað best í uppbyggingu bæjarins og kannski það sem maður tekur hvað minnst eftir , sökum þess að sú uppbygging hefur farið að mestu fram innan dyra og það er uppbygging Duus húsa. Þar er að myndast það sem menn geta nefnt alvöru menningar-miðstöð og þeir sem  barist hafa fyrir þessari  uppbyggingu eiga hrós skilið fyrir sinn þátt í því máli.

Sáum að nú er byrjað að byggja upp glæsilega  gangbraut við sjávarsíðuna, þannig að brátt verður hægt að próminaða eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir gera, og njóta útsýnisins til norðurs og miðnætursólarinnar í sumar. Það verður flott. Betra að vera vel varinn hinsvegar í norðanáttinni í vetur, þegar vel  gefur yfir garðinn.  

Auðvitað er það nú svo, og það skýrist svo vel á svona bíltúr um bæinn að í raun er það sem skapar þægilegt samfélag og góðan bæ, það er fólkið sem þar býr og þeirra innstilling til lífsins. Menn geta tekist á um ýmis mál og hver haft sína skoðun á lausnunum , en í raun eru allir að vinna að sama verkefninu og  það er að skapa sér líf sem  gaman og gott er að lifa.


Er ekki bara best að leyfa þjóðinni að ráða ?

Skil ekki af hverju má ekki bara kjósa um það hvort sækja eigi um aðild. Hverjir aðrir en þjóðin öll ættu að ákveða hvort sótt sé um aðild ? Það þýðir ekki að stjórnmálaflokkar, sem eru á móti aðild geti haldið svona máli í gíslingu á þeim forsendum að umræða hafi ekki farið fram. Hún er búinn að vera á fullri ferð undanfarinn 3. ár en sumir hafa bara ekki viljað hlusta.


mbl.is Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt saman að jafna.

Var bent á í dag að kíkjá á heimasíðu Grindavíkurbæjar og sjá þar hvernig ársuppgjör sveitarfélags á að líta út. Auðvitað ber að taka í reikninginn að þeir seldu hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja og njóta nú góðs af því. Líti maður hinsvegar á reikninginn er kannski meginmunurinn sá að rekstur bæjarins er að skila hagnaði burtséð frá sölu hlutabréfanna. Hvort það byggist á því að bæjarfélagið á sínar húseignir sjálfir og eru ekki að borga þriðja aðila fyrir umsýsluna skal ósagt látið, eftirláta lesandanum að velta því fyrir sér. Hér er allavega greinilega ekki verið að beita neinum bókhaldstrikkum til að láta stöðuna  alíta betur út heldur en hún er. Einhverra hluta vegna á maður von á að þau áruppgjör sem eiga eftir að líta dagsins ljós frá þeim sveitarfélögum sem valið hafa að eiga sínar eignir sjálfar og sjá um rekstur þeirra og uppbyggingu komi til með að sýna sömu svipaða niðurstöðu. Það væri óskandi að bæjarfulltrúar okkar hér í Reykjanesbæ legðust nú yfir reikninga þeirra sem sýnt hafa jákvæða eiginfjárstöðu um síðustu áramót, og sjá hvort þar sé ekki eitthvað hægt að læra af reynslunni. Þvi það eru enginn önnur lögmál hvað varðar rekstur okkar bæjarfélags, heldur en annarra, nema hvað við veljum að leigja í staðinn fyrir að eiga.

Reykjanesbær best rekna bæjarfélag á Íslandi! (skv fréttatilkynningu).

„Maður fær ekki allt sem maður vill og vill ekki allt sem maður fær¨“ kom mér í hug í morgun þegar ég vaknaði og sá að veðurfræðingarnir höfðu ákveðið að ekki yrði spilað golf í dag eins og ég  hafði ákveðið.  Ákvað að renna mér aðeins á netinu og sjá hvað væri efst á baugi og byrjaði náttúrulega  á veðursíðunum til að athuga hvort veðurfræðingarnir hefðu ákveðið að halda manni í gíslingu alla helgina. Smá von að maður losni á morgun.

Næst fór ég inn á heimasíðu Reykjanesbæjar og kættist í smástund yfir frábærum árangri síðasta árs er ég las fréttatilkynningu um ársuppgjör bæjarins fyrir árið 2007, þar sem kynntur er hagnaður upp á rúman tvo og hálfan milljarð. Það er ljóst að skv þessari  fréttatilkynningu er mér óhætt að éta  öll stóru orðin sem ég hef viðhaft hvað varðar fjármálstjórn bæjarins ofan í mig  og að hér er allt í himnalagi. Bæjarfélag sem veltir rúmlega  5,7 milljörðum er að skila hagnaði  upp á 2, 5 milljarða. Þetta er bæjarfélag sem hlýtur að vera hægt að einkavæða með góðum árangri. Það virðist því vera ljóst að stefna bæjaryfirvalda hvað varðar  t.d   það að leigja allt húsnæði bæjarins er að skila árangri ef  litið er til fréttatilkynningarinnar.

Nú er það svo að menn byggja skoðanir sínar á þeim upplýsingum sem þeir hafa hverju sinni, og ég veit ekki alveg hvort þeir höfundar fréttatilkynningarinnar hafi gert sér grein fyrir að á þessari sömu heimasíðu eru einnig allir fyrri ársreikningar bæjarins. Fari maður yfir þá er hinsvegar engin ástæða fyrir mann að fyllast bjartsýni  yfir góðum árangri bæjaryfirvalda undanfarin ár, heldur þvert á móti virðist hér stefna í algjört óefni , ef ekkert verður að gert.

Það er ljóst að bærinn hefur á undanförnum árum stækkað og dafnað, sumpart vegna áræðis bæjaryfirvalda  og sumpart vegna ytri aðstæðna. Uppbygging nýrra hverfa hefur tekist vel og tilflutningur fólks verið mikill. Það er vel. Nú eru hinsvegar blikur á lofti hvað varðar afkomu almennings almennt og fyrirsjáanlegt að það góðæri sem ríkt hefur undanfarin ár er liðið. Ekki er hægt að reikna með að tekjur bæjarins aukist jafnmikið og undanfarin ár þrátt fyrir að uppbygging sé hafinn á Álveri  í Helguvík. Þar kemur einnig til kostnaður sem bærinn þarf að greiða. T.d uppbygging hafnaraðstöðunnar.

Fari maður yfir fréttatilkynninguna er ljóst að hagnaður ársins byggist að langmestu leyti upp á sölu á litlum hlut bæjarins í Hitaveitu Suðurnesja , og restin af hagnaðinum tæpar 700.milljónir hlýtur að vera hagnaður af hlutabréfum í t.d HS og eignarhaldfélaginu Fasteign, ásamt einhverju öðru sem ekki kemur fram.  Þrátt fyrir allan þennan hagnað og hátt veltufjárhlutfall  er þó ljóst að þegar allar þær skuldbindingar sem greiddar áttu að vera um áramót, varð  handbært fé frá rekstri neikvætt.

Nú er ég ekki klókur í að lesa út úr svona tölum en ég  get ekki betur séð en að allt frá árinu 2002 og fram til dagsins í dag hafi rekstur bæjarins verið rekinn með tapi, og  nemur það tap að því er virðist um það bil 2,8 milljörðum áður en tekið er tilit til fjármagnsliða  og  2,6 milljörðum  eftir að búið er að taka  tillit til fjármagnsliða.  Bærinn er skuldbundinn til greiðslu á húsaleigu til næstu 30 ára fyrir upphæð sem nemur að minnsta kosti  1. milljarði á ári  líti maður til þeirrar 3ja ára áætlunar sem kynnt  var á dögunum.

Það er mér ljóst sem einum af kjósendum Sjálfstæðisflokksins í síðustu bæjarstjórnarkosningum   að þetta er alls ekki sú staða sem flokkurinn boðaði  í fjármálum bæjarins og tími  til kominn meirihlutinn komi nú út úr glerturni sínum og komi þessum málum í eðlilegan farveg , svo ekki  fari illa. Það þýðir ekkert að bera það á borð að hér ríki önnur lögmál í fjármálum bæjarins heldur en annarsstaðar á landinu. Nú verða menn að klippa kortið, og fara að greiða það sem tekið hefur verið út, nema það sé meiningin að börnin og barnabörnin greiði reikninginn.

 

 

 


Úreltur tónlistarsmekkur?

Það sannaðist svo sannarlega í gærkvöldi, að þar sem sól er í sinni skiptir ekki máli hvernig viðrar. Ég hélt grillveislu á pallinum heim  í gær í grenjandi rigningu framan af. Grillaði sjö lamabalæri fyrir starfsmenn verkfræðistofunnar sem höfðu ákveðið í léttu samráði við mig og frúna að nú væri okkar tími kominn til að hýsa aðalfund starfsmannafélags verkfræðistofunnar. Og ekki í umræðunni að fresta fundi af veðurfarslegum orsökum. Næst þarf ég að halda fundinn eftir 22 ár eða um það leyti sem ég fer á eftirlaun.

Ég ásamt öðrum starfsmanni þurftum að tjalda yfir stóran hluta pallsins til að drukkna ekki í rigningu meðan grillað var, en allt svona vesen gerir hlutina bara skemmtilegri eftir á, ef vel tekst til. Veislan sjálf fór svo fram í bílskúrnum. Granninn sem að vísu er daglegur gestur á verkfræðistofunni, ákvað að verða svolítið fúll á móti og mætti á svæðið um kl 22 undir því yfirskyni að of mikill hávaði bærist úr skúrnum, en vildi raunverulega bara fá að vera með í partíinu sem var auðsótt mál.

Kosið var í hin ýmsu ráð og nefndir og þurfti ég virkilega að berjast fyrir kjöri mínu sem formaður ferðanefndar, þrátt fyrir að enginn annar væri í framboði til þeirrar nefndar. Menn vildu meina að að ég hefði eitthvað misskilið hlutverkið undanfarið ár. Embættið gengi út á að skipuleggja hin ýmsu sameiginleg ferðalög starfsmannna, en markmiðið væri ekki að formaðurinn ferðaðist sem víðast eins síns liðs. Ég hafði greinilega eitthvað misskilið þetta, og var alvarlega áminntur um að breyta um takt hvað þetta varðar.

Auðvitað eru alltaf einhver vandamál sem koma upp þar sem 40 manns koma saman til að skemmta sér og alvarlegasta vandamál gærkvöldsins kom upp skömmu eftir miðnætti, þegar einn starfsmaðurinn sem er töluvert yngri en ég ákvað að tónlistarsmekkur minn væri orðinn úreltur og neitaði að koma inn úr rigningunni fyrr en almennileg tónlist væri komin á. Sumir virðast ekki geta áttað sig á hvenær og hvenær ekki þeir eru í sterkri samningsaðstöðu, né heldur hvenær þeir eigi að gera kröfur. Ég lánaði honum 18 punkta regngalla. Hann hefur ekkert talað meira um tónlistarsmekk minn síðan.

Nei að öllu gamni slepptu þá var þetta náttúrulega enn einn tímamótafundurinn hjá starfsmannafélaginu og öllum til sóma sem þátt tóku. Takk fyrir mig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband