Hvar er rétti endinn?

Ég fór eitthvað að velta fyrir mér umræðunni um það hvort  íslendingar ættu að sækja um inngöngu í Evópusambandið í dag. Var ekki alvega að skilja grein sem Birgir Ármannsson hafði skrifað um þessi mál og birtist í mbl. þann 29.apríl.

Hann byrjar greinina á að tala um alla þá ágætismenn, og konur sem reifað hafa það sjónarmið að komin sé tími á að hefja umræður um hugsanlega aðild að ESB og vilja að látið sé á það reyna hvað er í boði. Og hann fellst á þau rök að ekki sé unnt að vita nákvæmlega hvaða kjör okkur bjóðast nema að slíkar umræður hafi farið fram.

Hann áréttar einnig og vill halda því til haga að bæði þing og þjóð fengju oftar en einu sinni tækifæri til að hafa áhrif á gang mála, enda ljóst að að slíkur samningur yrði borinn bæði undir Alþingi og kjósendur,þar sem ljóst  ljóst að hugsanleg aðild  kallar á stjórnarskrárbreytingar, sem samþykkja þarf af tveimur þingum, með kosningum á milli.

Nú hafa verið gerðar nokkrar skoðanakannanir um hver vilji kjósenda er sem flestar vísa í sömu átt, og það er að teknar verði upp aðildaviðræður. Og það er sú grundvallarspurning sem við þurfum að svara, áður en frekari skref eru tekinn. Auðvitað eigum við að byrja að hafa þjóðaratkvæði um hvort við viljum aðildarviðræður. þær viðræður eru án nokkurar skuldbindingar um að þjóðinn eða þingið samþykki þann samning er út úr þeim koma.

það þarf í raun ekki að fara út í meiri rökræður um hverjir kostirnir og gallarnir við hugsanlega aðild fyrr en þeirri spurningu hefur verið svarað. það er fyrst eftir að sú niðurstaða liggur fyrir sem einhver möguleiki er að átta sig hverjir gallarnir og kostirnir eru, þegar viðræður hafa farið fram, og eitthvað fast liggur á borðinu til að taka afstöðu til.

Mér finnst því skrýtinn sú niðurstaða Birgis að áhugamenn um aðild hafi byrjað umræðuna á röngum enda, og séu komnir langt fram úr sér, með því að leggja til aðildarumræður. Það er frekar að hann sé að reyna binda hnút á báða enda til að þæfa umræðuna og greinilega löngu búinn að gefa sér útkomuna úr slíkum viðræðum og farinn að rökræða um hana áður en hún liggur fyrir.


Hvort kemur á undan hænan eða eggið?

Jæja þá er maður kominn úr fríinu. Tíu dagar þar sem maður hugsaði ekkert hvað væri að gerast hér heima á Fróni, og hafði svo sem litlar áhyggjur af því. Lærði ýmisleg trikk í golfinu, eins og til dæmis hvernig maður ætti ekki að vera að slæsa of mikið út til hægri, það myndi bara enda með skógarferð auk þess sem maður fengi bara köngla í hausinn. Það væri betra að halda sig hóflega til hægri við miðjuna. Nefndi þessa hugaróra mína aðeins  við konuna, sem fannst ég vera fullpólitískur í mínu golfspili. Hún ákvað að spila vinstra meginn þennan dag, það var ekki alveg að gera sig.  Þetta var það eina sem ég gat tengt við pólitík í ferðinni, þó ég hafi svo sem ekki beint legið andvaka yfir því, en hugsaði samt að jafnt í golfi sem í pólitik væri gott að halda sig við gerð leikjaplön eða stefnuskrár og víkja ekki frá þeim nema að vel athuguðu máli.

Er heim kom beið manns náttúrulega allskonar póstur misjafnlega skemmtilegur Visa reikningurinn á sínum stað og svo eitt bréf sem ég hafði svo sem beðið svolítið eftir og varðaði kæru sem ég sendi til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem ég óskaði eftir að fá að sjá fundargerðir einkavæðingarnefndar um það er varðaði Hitaveitu Suðurnesja, og hafði verið neitað um að sjá af formanni nefndarinnar . Ekki að það skipti neinu máli lengur hvað í þeim stóð, heldur frekar hitt að ég fengi að sjá þær eins og ég taldi mig hafa rétt til á grundvelli upplýsingalaganna.  

Í þessum fundargerðum var svo sem ekkert nýtt, en þó fékk maður staðfestingu á því að það var á sama fundi einkavæðingarnefndarinnar sem fjármálaráðherran ákvað að hefja söluferlið á hlut ríkisins, og kynnt var bréf frá Glitni banka sem óskuðu eftir að kaupa hlutinn. þá er það  bara spurningin? Hvort kom á undan eggið eða hænan? Ekki borgar sig nú að velta sér mikið upp úr því. Eftirleikinn þekkja allir.

Það var hressandi að sjá hinar gömlu kempur Jón Baldvin og Ragnar Arnalds takast á í Silfri Egils. Þar voru menn sem ræddu pólitík og voru ekki að gaspra hver upp í annan í umræðunni. Þeir sýndu hvor öðrum fulla virðingu í alla staði. Margur yngri pólitíkusinn gæti mikið lært af þessum kempum hvað það varðar.


Alltaf leggst manni eitthvað til, hélt ég!

Það var náttúrlega alveg frábært að vakna í morgun, orðinn gamall maður að áliti sumra barnanna og allra barnabarnanna. Fann þó ekki merkjanlegan mun frá í gær hvað varðaði hrörnun mína.

Mér létti óneitanlega mikið þegar ég fletti Mbl og á síðu 4 var viðtal við helmingi eldri mann úr Kópavoginum, sem ekki notar nein lyf og les ennþá gleraugnalaust. Hann hafði svo sem enga sérstaka skýringu á langlífi sínu, kannaðist ekki við að hafa stundað miklar íþróttir, en hafði græna fingur. Hafði að vísu reykt til sextugs og neytt áfengis í hófi.

Ég náttúrulega flýtti mér að benda frúnni á að ég væri náttúrlega lifandi eftirmynd þessa manns, stundaði ekki íþróttir af kappi sem raunar þýðir að ég hleyp ekki nema ég verði hræddur, og ég hef gaman af að dunda í garðinum.

Frúin náði mér náttúrulega niður á jörðina með það sama og benti mér strax á að t.d væri ég byrjaður að nota gleraugu, og það þýddi lítið fyrir mig að afsaka ístöðuleysi mitt gagnvart reykingum með því að benda á einhvern annan. En ef ég vildi ná svo háum aldri sem þessi maður, væri mér vissara að hætta að reykja.Sagði hún um leið og hún afhenti mér gjafabréf sem hafði borist upp á ókeypis ristilskoðun hjá Heilbrigiðstofnun Suðurnesja og bætti við að ég  gæti svo sem tekið upp hlaup síðar. 1-0 fyrir henni.

Gafst samt ekki alveg upp með þessa röksemdarfærslu mína og prófaði að beita henni á vinnufélagana sem mættu mér strax af hörku og höfðu vonað að ég hefði ekki séð þessa grein. það var sama hvað ég gaf þeim af kökum og brauði til bæði fagna deginum og náttúrulega líka til mýkja þá í afstöðunni þá varð ég að lúta í lægra haldi líka gagnvart þeim, og aftur voru það reykingarnar sem felldu mig . Það er víst ekki um nema eina leið að ræða til að ná yfirhöndinni gagnvart þessu fólki og það er að hætta að reykja. Þetta er líka fínn tímapunktur til þess. en ég klára samt fríið áður.


Hvað er líkt með Róm og Reykjanesbæ?

Allar leiðir liggja til Róm, nú eða Reykjanesbæjar kom mér í hug í gær þegar ég fékk  í gær tækifæri til að sitja málþing um endurbyggingu Keflavíkurkirkju. Og hversvegna datt mér það nú það í hug undir miðjum fyrirlestri lærðra manna, þar sem farið var yfir þróun kirkjubygginga á Íslandi. Jú í ljós kom að kórinn í kirkjubyggingu okkar Keflvíkinga liggur í sömu stefnu og Péturskirkjunni í Róm. Hvort það sé eitthvað meira í Reykjanesbæ sem minnir á Róm, skal ég ósagt látið.

Að öllu gamni slepptu þá þá finnst mér sú aðferðarfræði sem safnaðarnefnd kirkjunnar hefur valið til að hefja umræðu um endurbyggingar sjálfrar kirkjunnar til fyrirmyndar. Það að kalla til málþings um framkvæmdina og leyfa safnaðarmeðlimum að tjá sig um fyrirhugaða framkvæmd og þannig hafa áhrif finnst mér til fyrirmyndar og í raun forsenda að vel takist til. Í framhaldinu skiptir því máli að safnaðarmeðlimir og bæjarbúar láti í sér heyra þannig að allir verði sáttir við niðurstöðuna.

Það er ljóst að kirkjubyggingin þarfnast gagngers viðhalds að innann, enda liðnir áratugir síðan síðast var þar tekið til hendinni. Það þarf að færa hana til þeirrar virðingar sem hún á skilið í samfélagi okkar. Einn liður í því er að lagfæra aðkomuna að henni. þannig að hún fái það forsæti sem hún á skilið. Ég reifaði þá hugmynd í vinnuhópi hvort ekki væri rétt að undirstrika  tengsl kirkjunnar við hafið,og sjósókn fyrri tíma með því að byggja nýtt og fallegt torg framan við kirkjuna og láta að komuna að henni vera frá Hafnargötu, þar með væri hún kominn í alfaraleið og tenginginn við hafið væri augljós.

Það er ljóst að kirkjubyggingin sem er byggð sem krosskirkja er með fallegri kirkjubyggingum á Íslandi og því þarf að vanda vel til þeirrar endurnýjunar sem fyrirhuguð er, og við getum séð hvernig til hefur tekist með endurbyggingu Hafnarfjarðarkirkju. Þar var vel að verki staðið. Innrétting sú sem nú er í kirkjunni er barn síns tíma og í raun ekki vert að vera að halda í hana á nokkurn hátt. Í raun finnst mér að það eina sem er þarna inni sem vert er að halda í eru hinir steindu gluggar sem gefa rýminu hátíðlegan blæ. Að vísu kemur á móti að ljósmagn inni í kirkjunni er lítið fyrir vikið, en ætti að vera hægt að leysa það með vel útfærðri raflýsingu innan dyra. Sjálf altarimyndin á að fá þann sess sem hún á skilið og löngu orðið tímabært að hengja hana upp á vegginn. Auðvitað er það svo og það er í raun það sem verður hvað vandmeðfarnast við slíka uppbyggingu að margir af þeim munum og hluti innréttinga eru ef til vill minningargjafir allskonar til kirkjunnar því nauðsynlegt að gæta fyllstu varkárni og virðingar hvað þá hluti varðar, er kemur að sjálfri endurbyggingunni.

Vinni safnaðarnefndin áframhaldið á þennan hátt, þá getur maður verið nokkuð viss um að vel til tekst með endurbygginguna. þarna er vel að verki staðið. Til hamingju.


Opinber rekstur og áhættufjárfesting fer ekki saman.

Ég get ekki betur séð, þegar ég les viðtal við Gísla Martein Baldursson í Mbl í dag að hann sé algerlega sammála mér, og mörgum öðrum að áhætturekstur sé ekki hlutverk opinberra aðila og það sé óásættanlegt að þeir taki þátt í slíku. Þetta er sjálfstæðismennska sem mér líkar. Það er löngu tímabært að ganga í það að vinda ofan af málefnum REI, og það verður að gera þannig að borgarbúar í Reykjavík beri ekki skaða af.  Þetta er, skilji ég málið rétt, sanngjörn tilraun til þess.

Menn geta ekki haldið áfram fram í rauðan dauðann að velta sér upp úr áðurgerðum hlutum og láta hagsmuni borgarbúa í Reykjavík gjalda þess eingöngu til að viðhalda pólitískum ágreiningsefnum. Það er ljóst að einhvern tímann verða menn að höggva á hnútinn og leysa málið. REI hefur greinilega tekið á sig áhættuskuldbindingu, sem eðlilegt er að losa hana út úr.

Það er ljóst að þeir samningar sem þarna voru komnir af stað, hafa haft aðdraganda og líka ljóst að hefðu þeir ekki verið gerðir og gengið frá þeim hefði REI borið skaða af því. Og þar með borgarbúar. Nú geta menn haft mismunandi skoðanir hvort hér hafi verið um þróunarverkefni eða  eitthvað annað, en vandinn liggur í að áhætta var tekin og úr henni þarf að losna.

Það þarfa að losa Reykvíkinga við áframhaldandi óvissu, ósátt og pólitískar deilur um málefni REI og orkuveitunnar. Þarna kemur fram tillaga sem gæti gert það og slegið föstu í eitt skipti fyrir öll að áhættuviðskipti og opinber rekstur fer ekki saman. Því finnst mér rétt að selja slík verkefni út úr opinbera rekstrinum, því ekki er rétt að gefa þau.


Fara rétt með Ásgeir!

Ef rétt er eftir haft þá er Ásgeir að fara frjálslega þarna með staðreyndir, Reykjanesbær má sem hluthafi kaupa þennan hlut, Hafnafjarðarbær og litlu sveitarfélögin líka, og ekki má gleyma blessuðu ríkinu. Og allt teljast þetta ennþá að minnsta kosti vera opinberir aðilar. Gallinn er bara sá að Reykjanesbær hefur ekki efni á því, Hafnarfjarðarbær ekki áhuga, og ríkið telur sig ekki geta komið að þessu máli, þar sem þeir hafi þegar selt sinn hlut.
mbl.is GGE gæti haft áhuga á að auka hlut sinn í HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig ætla menn að leysa úr þessu?

Maður er náttúrulega alveg hættur að kippa sér upp við fréttir af þessu tagi hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja. Þetta bara sýnir og sannar að þeir sem þarna hafa komið að málum, og þá á ég við einkvæðingarnefndina sem ákvað að sala rikisins á 15% hlutnum færi fram, án þess að nokkrar reglur um eignarhald hvorki á auðlindum eða dreifikerfum lágu fyrir,og svo fjármálaráðherrann sem lét söluna fara fram, annað hvort gerðu þetta í ákveðnum tilgangi eða höfðu ekki minnstu hugmynd um hvað þeir voru að gera. Ég hallast að því síðarnefnda. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þessi snillingar ætla að leysa þetta.
mbl.is OR má eiga 3% hlut í Hitaveitu Suðurnesja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsögn Hollvina Hitaveitu Suðurnesja um breytingar á lögum á orkusviði.

Að undanförnu höfum við íbúar á Suðurnesjum lesið um umsagnir er sendar hafa verið inn til iðnaðarnefndar er varða breytingar á nokkrum lögum á auðlindasviði. Þær umsagnir hafa sennilega verið sendar inn að ósk nefndarinnar þar að lútandi.  Á síðastliðnu hausti efndi ég til undirskriftarsöfnunar um málefni Hitaveitu Suðurnesja þar sem þátt tóku rúmlega

helmingur kjósenda til bæjarstjórna í síðustu kosningum. Það er ljóst að sú staða sem Hitavita Suðurnesja er í dag, er ekki sú staða sem fyrrverandi eigendur hennar þ.e íbúar svæðisins hefðu viljað sjá hana í. Ég hef því dag sent inn til iðnaðarnefndar óumbeðið fyrir hönd okkar sem köllum okkur Hollvini Hitaveitu Suðurnesja meðfylgjandi umsögn sem skýrir sjónarmið okkar til lagafrumvarpsins gagnvart nefndinni. Athugið að hér er eingöngu um álit þeirra að ræða sem kalla sig Hollvini Hitaveitu Suðurnesja, en ekki endilega skoðun þeirra er skrifuðu sig á undirskriftarlistana í nóvember, til allra þeirra hefur ekki náðst.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Getur maður talað um allt við konuna?

Ég hef tekið eftir því undanfarið að innihald póstsins sem ég er byrjaður að fá er orðinn svolítið öðruvísi. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hversvegna en reikna með að einhverjir þeir sem senda út allskonar auglýsingapóst hafi áttað sig á því sem ég hef barist við að halda leyndu, að senn skríður maður yfir fimmtugsaldurinn. Tölvupóstarnir frá þeim sem ég hafði talið til vina minna, eru líka orðnir þessu marki brenndir. Hingað til hef ég fengið allskonar skemmtilegan póst um útivist og gönguferðir stundum líka eitthvað um boð á skemmtilega viðburði. Nú fékk ég boð um að vera viðstaddur opnun Prjónasýningar á Akureyri. Veit svo sem vel hver sendi og vildi gjarnan vera viðstaddur opnunina, enda hef ég gaman að handverki allskonar.

Eins er það sem mér hefur fundist svolítið undarlegt,það er þessi maður sem alltaf er að þvælast fyrir mér í speglinum. Allt fram undir þessi síðustu ár hefur mér þótt hann bara nokkuð líkur mér eða tvíburabróðurnum og kunnað bara alveg ágætlega við hann. Hef getað staðið í eðlilegri fjarlægð frá speglinum og dáðst að sveininum. En undanfarið hef eg tekið eftir einhverri áráttu í honum að sýna sig ekki greinilega í speglinum, sem hefur orðið til þess að nauðsynlegt er orðið fyrir mig að kveikja ljós og standa nær speglinum en áður. Það hef ég ekki kunnað við.

Ég hef haft orð á þessu við frúna sem þrátt fyrir viðamikla hjúkrunarfræðimenntun hefur ekki komið með nein bitstæðari rök. en að endanleg hrörnun mín sé hafin , og nokkuð ljóst að ekki væri nema í hæsta lagi svona fimm áratugir eftir, miðað við hvernig ég hafði hagað lífi mínu hingað til. Ég hélt alltaf að hjúkrunarfræðingar fengju menntun í mannlegum samskiptum og hefðu tekið próf sálrænni skyndihjálp, en þessu var bara dengt framan í mig án nokkurar vorkunnar.

Hún hélt áfram og reyndi að koma mér í skilning að í raun væri þetta nú alls ekki svo slæmt núna, og sem betur fer væri ég við góða heilsu og bara nokkuð klár ennþá ég þyrfti ekkert að byrja að hafa áhyggjur af aldrinum strax. Sennilega alveg rétt hjá þér eins og alltaf sagði ég miklu hressari og nánast áhyggjulaus. En þegar þú sefur ekki lengur í sama rúmi og tennurnar þinar þá ættirðu að fara hugsa um hvort þú sért orðinn gamall sagði hún svo. Það er ljóst að um þessar áhyggjur mínar verð ég að ræða við einhvern annnan.


Er umræðan ekki komin svolítið á villigötur?

Undanfarnar vikur hafa verið umræður um rekstrarvanda Lögreglustjóraembættisins hér á Suðurnesjum. Umræðan hefur snúist um hugsanlega uppskiptingu embættisins og hverjar afleiðingar slíkrar uppskiptingar kynni að verða. Tillögur dómsmálaráðherra hvað varða uppskiptinguna hafa mælst illa fyrir hér á Suðurnesjum, í ljósi þess árangurs er náðst hefur. Og menn óttast að uppskipting sem þessi gæti komið niður á frekari árangri lögreglu og tollgæslu. Það er skiljanlegt.

Sá árangur sem náðst hefur byggir að miklu leyti á góðu samstarfi tollgæslu og lögreglustjóra-embættisins,  í samvinnu við greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Nú virðist svo vera að umræðan sem í byrjun snérist um rekstarvanda embættisins og hugsanlegar leiðir til að mæta honum sé byrjuð að snúast um hver stjórni þessu embætti. Ég hef sjálfur hér í fyrri bloggum mínum lýst yfir ánægju með störf Jóhanns Benediktssonar, enda sá árangur sem hann og lið hans með samvinnu við greinigardeildina verið góður. Það verður aldrei af þeim tekið.

Það að umræðan hafi snúist frá hinu upprunalega vandamáli og að persónu Jóhanns finnst mér hins vegar skrýtið. Málið snýst náttúrulega fyrst og fremst um það fé sem veitt er til embættisins og hvernig því er varið. Það snýst líka um hvort uppskipting á þessu embætti sé heppileg. Ljóst er að skv fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára hefur embættið  farið yfir á fjárlögunum. Vandi þess hefur hingað til verið leystur og er það vel. Þetta er fé sem við skattborgararnir leggjum til og það er er á ábyrgð forstöðumanns hvers embættis að nýta það á sem bestan hátt.  

Nú er það ljóst að öryggisgæsla sú sem framkvæmd er í Leifsstöð, uppfyllir fullkomlega þær kröfur sem til hennar eru gerðar, og er í raun til fyrirmyndar þar sem hún auk þess stendur vel undir þeim kostnaði af henni hlýst. Sá kostnaður er greiddur af öryggisgjaldi sem innheimtur er af hverjum farmiða. Það er ljóst að ekki kemur umframkeyrsla stofnunarinnar þaðan. Enda ekki verið að oflauna þá starfsmenn.

Nú er það ljóst að lausn þessa vandamáls getur aldrei falist í því hvort það sé Jóhann Benediktsson eða einhver annar sem stjórni því, heldur hlýtur lausnin að felast í því hvort hægt sé að finna leið til að reka embættið fyrir það fé sem því er skammtað á fjárlögum. Ef ekki þá leiðrétta menn það.Menn verða að sýna framá svo óyggjandi sé að sú leið sem valinn verður, verði ekki dýrari en sú sem nú er, og sú leið tryggi bæði íbúum svæðisins og flugfarþegum það öryggi sem lögin kveða á um  Það finnst mér sanngjarnt gagnvart skattborgurnum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.