Dansinn dunar.

Nýtt útlit heimasíðu Reykjanesbæjar, hefur gefið manni von í þessu ölduróti neikvæðrar umræðu í þjóðmálaumræðunni. Ekki nóg með að þar séu gefnar út leiðbeiningar um hvað lífið eigi að snúast um á hverjum tíma, heldur birtast þar jákvæðar fréttir nánast daglega um stöðu bæjarmála. Nú síðast óvænt  fréttatilkynning um að afkoma Fasteignar á fyrsta ársfjórðungi þessa árs væri fram úr vonum. Og er það sennilega einasta fyrirtækið sem státað getur af svo góðum árangri í því árferði sem nú er.

Nú er þá sennilega tími til að lifa og njóta, fari maður eftir forskrift bæjaryfirvalda um hvernig við skulum haga lífi okkar.Seinna verður svo tími til að læra.

Eitt af því sem þó vekur athygli mína við lestur þessarar fréttatilkynningar sem birtist undir mynd af færeyingum dansandi af gleði yfir árangrinum, er að hvergi komur þó fram hver staða fyrirtækisins er í raun. Hvergi sér maður hvað mikið það er sem fyrirtækið skuldar til að mynda?, eða hver veltan var á síðasta ári? Hvernig fjármögnun verkefna gengur og svo framvegis. Allt spurningar sem gaman hefði verið að fá svar við, nú þegar ljóst er að allt gengur svona vel, og bæjaráðið íhugar hvort auka eigi hlut bæjarins í félaginu. Það er allavega  greinilegt að þær rúmlega 650 milljónir sem við greiddum á síðasta ári í leigu fyrir afnot af því húsnæði sem við áttum nánast skuldlaust áður skilaði 54 milljónum til baka í formi arðgreiðslu.

Ég veit ekki af hverju ég fór að spyrða saman myndina af færeyingunum dansandi og þessa fréttatilkynningu frá Reykjanesbæ um málefni Fasteignar.ehf, nema ef vera skyldi hvernig dansinn er dansaður. Engir eru betri en færeyingar þegar þeir skemmta sér , þá stíga þeir dansinn og gleyma öllu öðru. Fyrir utanaðkomandi er hljómfallið það sama alla nóttina hvort sem úti er rigning eða sól.Menn ákveða að nú sé tími til að lifa og njóta, og gleyma raunveruleikanum stutta stund.


Ný mynd á náttborðinu.

Konan hefur verið eitthvað undarleg síðustu daga og verið að prenta út myndir af bæjarstjóranum okkar í gríð og erg, myndir sem ég hef ekkert skilið í hvar hún hefur fengið. Áttaði mig þó í morgun hvaðan þetta kemur , þegar ég fór inn á heimasíðu Reykjanesbæjar og sá að hún hafði tekið miklum breytingum. Þar getur maður fengið ágætismynd af bæjarstjóranum, sem nú hefur svo ratað á náttborðið hjá mér. Heldur finnst mér nú stemmningin þar inni hafa kólnað í kjölfarið. Fannst sjálfum nóg að hafa eina í eldhúsinu.

 

Annars var fróðlegt að ferðast á þessari nýju heimasíðu, og margar góðar breytingar sem þar hafa verið gerðar, þótt auðvitað taki  einhvern tíma að ná fullum tökum á henni. Var til dæmis smástund að finna út úr hvar fundargerðir nefnda og ráða voru geymdar, sem eins og lesendur þessarar síðu vita að er eitt uppáhaldsefni mitt.

 

Fann þetta allt þó að lokum og sá þá að á síðasta bæjarráðsfundi höfðu greinilega orðið einhverjar umræður um tilurð þessarar síðu í tilefni af innsendu bréfi til bæjarráðs frá Georg Brynjarssyni. Ekki er nú bréfið birt sem þó væri náttúrulega sjálfsagt þar sem vitnað er til þess í umræðu frá fundinum. Bókun Guðbrands Einarssonar hvað þetta varðaði fannst mér orð í tíma töluð, og í raun furðulegt að mál þetta skuli ekki fyrir löngu hafa verið rætt í bæði bæjarráði og bæjarstjórn og mynduð  einhver heilstæð stefna hvað varðar innkaup bæjarins á þjónustu.

 

Vinur minn sem rekið hefur lítið fyrirtæki hér í bæ til margra ára hafði einmitt  á orði fyrr í vetur að  bæjarfélagið væri æ meira að sækja allskonar þjónustu til Reykjavíkur og litlu fyrirtækin yrðu stöðugt af viðskiptum þar af leiðandi.Og fengju æa færri verkefni frá bænum. Hafði á orði ef þessar stefnu yrði framfylgt mikið lengur, yrði sennilega jafnmikið að gera hjá bæjarstjóranum að loka  fyrirtækjum í síðasta sinn eins og nú er að opna fyrirtæki sem flytja til bæjarins.

 

Nú gæti maður skilið að þetta væri gert, ef  kostnaðarmunur væri umtalsverður eða að ekki væri hægt að kaupa þjónustuna í bænum. En ef hægt er að kaupa þjónustuna í bænum á skilyrðislaust að kaupa hana hér , jafnvel þótt  munur sé, því það skilar sér  til baka í bæði öflugra  atvinnulífi og tekjum inn á svæðið. Allt annað er að pissa í skóinn hjá sér.

 

Enhvern veginn finnst mér rétt að athuga í framhaldi af þessu hvort ekki sé öruggt að mynd þeirri sem bæjarskrifstofurnar hafa tekið að sér að dreifa sé ekki alveg örugglega tekin  af  einhverjum þeim atvinnuljósmyndurum er hér starfa, þó lýsingin bendi þó til að hún sé tekin í Reykjavík. Því frekar finnst mér kaldur svipurinn þegar ég fer að sofa.


Lesendur eiga betra skilið.

Agnes Bragadóttir   blaðaðmaður á Morgunblaðinu á sennilega fá sér lika hvað varðar illgirni sína í garð forseta vors Ólafs Ragnars Grimssonar,og notar hvert tækifæri til að sverta hann á allan þann hátt er henni er mögulegt.Nú síðast í morgun í því sem maður byrjar að lesa sem óð til merks manns sem fallinn er frá, og ljóst að hans minning mun lifa um ókomin ár, og virðing fyrir hans störfum og áhrifum.

Allir hlutir hafa sinn stað og sína stund, og þarna valdi Agnes hvorki rétta staðinn né stundina til þess að ráðast að forsetanum . Þessi grein í stað þess að heiðra minningu mikils manns ,endaði í hálfgerðum subbuskap og skilur frekar eftir sig spuninguna um vanstillt hugarfar höfundar, heldur en nokkuð annað.Einar Oddur á betra skilið.

Auðvitað hefur Agnes fullan rétt til að viðra skoðanir sínar um hvað eina sem sem hún hefur skoðanir á , og nú virðist hin nýja  ritstjórn Mbl ætla að leyfa henni að að vaða um á miðopnu blaðsins í þessari krossferð sinni. Ég held að skoðanir Agnesar Bragadóttur og kjaftháttur sá er hún hefur í frammi væru betur geymd annarstaðar, og reyndar helst eingöngu í hennar eigin höfði. Við lesendur eigum betra skilið. Því af þeim er skrifa pistlana lærum við að þekkja þá.

 

Rödd skynseminar

 

 

Þrátt fyrir rigningu og stekan vestanvind í gær gat ég ekki annað en verið bara nokkuð sáttur og glaður, á meðan ég gróf  heljarmikla holu í garðinum fyrir plómutré. Ég hafði fyrr um morguninn lesið skemmtilegt viðtal við hinn nýja stjórnarformann Geysir Green Energy, og leist vel á hvað hann hafði að segja.

 

Fyrr í vikunni hafði ég haft uppi efasemdir hvað varðaði hluthafafund GGE og undrast að hann skyldi haldinn í fundarsal bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, og hafði jafnvel áhyggjur að nú ætti að boða einhver stórtíðindi hvað varðar uppskipingu á Hitaveitu Suðurnesja. Sá ótti var ástæðulaus og raunar finnst mér frekar ástæða til að fagna að hann skyldi haldinn þar og tilkynnt um nýjan stjórnarformann GGE sem er Ólafur Jóhann Sigurðsson. Það að tilkynnt skuli um þetta í höfuðborg frjálshyggjunnar og einkavæðingarinnar Reykjanesbæ finnst mér frábært. Rödd skynseminar virðist vera komin í bæinn.

 

Ólafur fer í viðtalinu létt yfir málefni REI og  ræðir um upphaf þess máls og hina “agressívu “ fjármálamenn sem þar fóru fremstir í upphafi. Hann boðar okku nýja tíma hvað þetta varðar varðandi GGE. Það fannst mér traustvekjandi. Hann telur það ekki einungis skynsamlegt heldur sjálfsagt að auðlindir landsins séu í eigu opinberra aðila og dreifikerfin líka. Honum finnst hin nýju lög  vera gott fyrirkomulag , og telur sjálfan sig ekki það mikinn frjálshyggumann , að þessir hlutir skuli vera öðruvísi.

 

Það að þarna skuli vera komin maður að stjórnvölnum sem boðar að skynsemin skuli ráða og óhugsaðri einkavæðingarstefnu skuli kastað fyrir róða í þessum málum. ætti ef rétt er á haldið að tryggja að hagsmunir neytenda þjónustu Hitaveitu Suðurnesja verði tryggðir til jafns við aðra neytendur þessa lands. Kannski er Ólafur Jóhann einmitt maðurinn sem stuðlað getur að skynsamlegri lausn á þessu máli. Aðrir hafa ekki sýnt sig hingað til.

 

Er garðyrkja róandi?

Það er fátt jafn róandi fyrir órólegan mann eins og mig en að dunda sér í garðinum. Allar áhyggjur hverfa og maður á notalega stund með sjálfum sér, og  sekkur ofan í eigin hugsanir. Maður nýtur stundarinnar, og það eina sem maður þarf að hugsa um er að týna í burtu hugsanlegan arfa og illgresi sem fellur til.  Þar til konan kallar.  Þá er friðurinn venjulega úti. Henni nægir ekki að horfa á grasið gróa.

Þannig var það í gær. Hún hafði stefnt okkur austur í Skálholt til að hlýða á frumflutning nýrrar messu eftir tónskáldið Svein Lúðvík Björnsson, sem við höfum verið svo heppinn að fá að fylgjast með í nokkur ár. Þeir tónleikar voru frábærir .

En það er einhvern veginn þannig að þegar mín er kominn af stað, nægir ekki að einbeita sér að því sem um hafði verið rætt , heldur detta alltaf upp ný verkefni upp í hendurnar á manni, án þess  að ég átti mig á því . Þannig var það líka í gær.

Töluðum um á leiðinni hvað það væri nú kannski gaman að stoppa aðeins í Hveragerði , og kíkja aðeins í gróðurhús, þótt við vissum náttúrulega bæði að við værum ekki að fara versla neitt, við værum búin  að gera það í garðinum í sumar sem ætlað var. Hefði náttúrulega átt að þekkja mína nógu vel til að eitthvað meira lægi að baki.

Vorum varla komin  á Hellisheiðina þegar umræður hófust um að gaman væri að hafa plómutré í garðinum,  ég reyndi að koma minni í skilning að við byggjum ekki á Spáni heldur í Reykjanesbæ, og þar væri engin sérstök skilyrði fyrir plómurækt, nema síður sé.  Þau rök mín virkuðu greinilega ekki því  þegar við keyrðum frá gróðrastöðinni var komið risastórt plómutré aftan í bílinn.  Og ég orðinn ábyrgur fyrir því að það nái að lifa.

Ég fór að hugsa um það þegar í bílinn var komið hvernig sölumaðurinn í gróðrastöðinni hafði einfaldað málið ótrúlega og sannfært mína um að það væri nú lítið mál að rækta plómutré í Reykjanesbæ.Þetta gerðu menn í Þorlákshöfn og þar  væri það  lítið mál. Það þyrfti bara skjólgóðan stað og svo grafa smá holu , stinga tréinu ofaní , og svo bíða bara fram á haustið með að týna uppskeruna. Kom svo til mín og sagði mér hve stór og djúp holan þyrfti að vera ,hann virtist gæta þess að konan heyrði ekki þessar upplýsingar.

Stærð og dýpt holunnar olli mér áhyggjum enda vissi ég af fyrri reynslu að jarðvegurinn í garðinum hjá okkur er ekki beint vel til þess fallin að grafa holu af þessari stærð sem sölumaðurinn hafði nefnt. Og í minum huga gat ég alveg eins átt von á að þegar holan hafði náð fullri dýpt, mundu jafnvel einhverjir Ástralir  fara að hoppa upp úr holunni. Nei mér varð ekki svefnsamt í nótt , og íhugaði jafnvel að garðyrkja væri ekki jafn róandi og ég hafði ímyndað mér.

 

Samstaða skilar okkur langt.

Undanfarna mánuði  hafa Suðurnesin verið mikið í fréttum, út af margvíslegum málum.  Nú síðast út af málefnum Heilbrigðistofnunar Suðurnesja , þar sem menn hafa  að því leyti er um það hefur verið fjallað náð að sýna samstöðu um það málefni burt séð frá stjórnmálskoðunum. Þar höfum við talað einum rómi.

Þetta hefur orðið mér tilefni til hugleiða hve samstaða svæða eins og Suðurnesja er mikilvæg , og hve nauðsynlegt það er að menn tali saman um þau mál er varða almenna hagsmuni svæðisins.

Eitt af þeim málum sem að undanförnu  hafa valdið óeiningu er fyrirhugaðar  línulagnir vegna  Álvers í  Helguvík, og annarra framkvæmda sem fyrirhugaðar eru á svæðinu.  Þar verða menn að horfa á svæðið sem heild en ekki einblína á fyrirhugað álver eða láta andstöðu við það hafa áhrif á ákvarðanir sínar.

Það er öllum byggðum á Suðurnesjum nauðsynlegt að samstaða náist um mál þetta þar sem nú þegar er ljóst að núverandi lína, nær ekki að uppfylla þær kröfur sem gerðar  eru  hvað varðar öryggissjónarmið til dæmis, auk þess sem  frekari töf á línulögnum  gæti haft áhrif á uppbyggingu annarra atvinnutækifæra  allstaðar í byggðarlaginu . Það megum við ekki láta gerast.

Við verðum að rífa okkur upp úr því hjólfari sem við því miður höfum grafið okkur í að hugsa kannski of mikið um hag eigin bæjar og vera kannski inn á milli svolítið eigingjörn hvað það varðar. Það er kannski  ekki endilega hagur heildarinnar að við í annað hvort í krafti stærðar eða  annarrar sérstöðu    teljum okkur mikilvægari en við í raun erum.

Það er ljóst að svæðið hefur þróast undanfarin ár þannig að menn sækja atvinnu sína þvert á byggðarlögin , þannig sækja margir íbúar í Reykjanesbæ vinnu sína  ýmist í  Garð,Grindavík , Sandgerði eða Voga og öfugt.  Vegalengdirnar er í flestum tilfellum ekki langar og samgöngukerfið verður betra og betra. Og hagsmuni r hvers bæjar um sig tengjast æ meir.

Þannig erum við í raun alltaf að verða háðari og háðari hvert öðru , og nauðsynlegt að við í stað þess að rífa af hvort öðru skóinn í tilraunum okkar til að verja okkar , snúum við blaðinu og hugum að sameiginlegum hagsmunum okkar sem felast í að byggja upp samfélag , með góðum og dreifðum atvinnutækifærum , hærri launum og fjölbreyttara mannlífi. Þannig held ég að hag Suðurnesja sé best borgið til framtíðar. Með samstöðu.


Glitnir að selja í Fasteign ehf ?

Ég er einn þessara manna sem virðist vera haldinn þráhyggju á háu stigi, og hún lýsir sér til dæmis í því að alltaf fer ég inn á vef Reykjanesbæjar og fylgist með því sem þar er að gerast. Framan af þessu kjörtímabili  fannst mér sem í mörgum málum sem afgreidd voru frá bæjarráði væri svolítið anað áfram og menn létu sig litlu skipta hver hagur bæjarins væri í hverju máli. Þar á ég við málefni Hitaveitu Suðurnesja, og mál Eignarhaldsfélagsins Fasteign. Allir hafa séð hvernig mál hafa þróast hvað varðar Hitaveitu Suðurnesja , og enn ekki útséð hvernig hagur bæjarins verður tryggður þar, og hvað hitt málið varðar virðist flækjan verða stærri og stærri. Það er mál Fasteignar ehf.

Nú í morgun sá ég á vefnum að lá fyrir mál frá Glitni banka er varðaði fyrirhugaða sölu á hluta af hlut þeirra í Fasteign ehf. Auðvitað kom þetta mér svolítið á óvart, ef litið er til þeirrar röksemdarfærslu sem að baki stofnunar Fasteignar ehf lá, en þau voru einmitt þau að slíkt félag með Glitni að baki væru hæfari til að fjármagna verkefni sveitarfélaganna en þau sjálf. Fengju betri lánakjör. Það hefur ekki sýnt sig. Og nú virðist Glitnir vilja selja einhvern hlut af eign sinni í félaginu, til einhvers aðila sem tilbúinn er að kaupa. Það kemur ekki fram í fundargerð bæjarráðs, en einhverra hluta vegna læðist að manni sá grunur að einhvern veginn tengist þetta allt saman innan Glitnis?

Nú kemur ekki fram í fundargerðinni  hvort erindi Glitnis hafi verið eingöngu að tilkynna um þessa hugsanlegu sölu , og láta þá reyna á hvort bærinn væri tilbúinn að nýta sér forkaupsrétt sinn að sínum hluta, en hinsvegar finnst mér frábært að sjá í annað sinn á skömmum tíma að menn eru byrjaðir að standa saman um að vernda hag bæjarins og  afgreiða málin út frá hagsmunum hans. Hitt málið sem ég er að tala um er þegar bæjarráð nýverið  hafnaði að taka þátt í hlutarfjáraukningu GGE. Svona eiga menn að vinna.

Mér finnst frábært að sjá að bæjarráð hefur samþykkt samhljóða  tillögu Guðbrands Einarssonar um að fram fari úttekt óháðra aðila um hvort það sé hagur bæjarins að nýta þann forkaupsrétt sem fyrir hendi er og styrkja þannig stöðu bæjarins innan Fasteignar ehf ef það er hagur bæjarins. Hvor heldur niðurstaða hinna óháðu aðila verður kemur þá allavega í ljós hvort tímabært er að meta stöðu bæjarins og aðferðarfræði upp á nýtt eða hvort áfram skuli haldið á sömu braut. Þarna stigu menn gott skef fram á við, og ber að þakka mönnum fyrir víðsýnina.


Enn eitt skeytið

Það eru athyglisverðar skeytasendingar sem nú eru í gangi á milli þingmanna stjórnarliðsins. Björgvin G Sigurðssyni varð það á að nefna það sem hann hugsaði, og það var að tími væri til kominn að Sjálfstæðismenn tækju nú upp umræðu um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Sagði í raun bara það sama og fjöldi sjálfstæðismanna hefur verið að reyna að segja að undanförnu, en ekki verið á þá hlustað.

Það virðist vera einhver lenska þessa dagana að ekki megi  ræða nokkur mál sem ofarlega eru á baugi í landinu í dag, án þess að litlu varðhundarnir þurfi að gelta sig ráma, í von um  að á þann hátt geti þeir stjórnað því að enginn umræða verði. Mér finnst pistill Sigurðar Kára á bloggsíðunni sinni í dag vera gott dæmi um þess háttar gelt.

Auðvitað er það svo að frá því að stjórnarsáttmálinn  var skrifaður hafa yfir okkur dunið nánast hvert áfallið á fætur öðru, og ekkert útséð hver lendingin verður. Það er eðli slíkra sáttmála sem stjórnarsáttmála að þeir eru gerðir miðað við þá stöðu sem uppi er þegar þeir eru samdir, en það þýðir þó ekki að ekki megi ræða breytingu breytist aðstæður. Það væri svipað og ætla sér að keyra yfir ófæra á vegna þess að það er sýndur lækur á kortinu.

Ég held að  Sigurði Kára væri nær að fara nú að ræða, eða kynna rök sín fyrir því hversvegna honum hugnast ekki aðildarviðræður í stað þess að vera stöðugt að hamra á að þessi umræða eigi ekki rétt á sér. Það er ekki hægt að ætlast til þess af Landsþingi Sjálfstæðisflokksins að taka afstöðu til málsins á þremur dögum ef enginn umræða fer fram á undan.

Það er hvorki Sigurði Kára, eða Sjálfstæðisflokknum til góðs að reyna að kæfa umræðuna með því að standa í ónauðsynlegum skeytasendingum við viðskiptaráðherrann , því það er ekki lokum fyrir það skotið að margir sjálfstæðismenn sjái sér ekki annað fært en styðja sjónarmið ráðherrans, náum við ekki að ræða þetta mál af viti fyrir næstu kosningar.


Spennandi að vita?

Ég er náttúrulega alltof viðkvæmur þegar kemur að málum er viðkoma Hitaveitu Suðurnesja og þeim hluthafahóp er þar er. Nú er verið að tilkynna um fund þar sem meiningin er að kynna nýja hluthafa í Geysir Green Energy. og hvar er sá fundarstaður sé sem tilkynna á um þetta.

Nú á  að halda fundin í Bíósal Duus húsa, Fundarsal bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.Eru þetta einhver skilaboð um framhaldið. Getur verið að búið sé að ganga frá einhverjum breytingum í sambandi við Hitaveitu Suðurnesja, sem menn hafa ekki upplýst um ennþá, sem eru svo stórar að Geysir Green nægi ekkert minna en fundarsalur bæjarstjórnar til að tilkynna hverjir hinir nýju eigendur eru?


Áfram Árni

Ég tek undir hvert orð er Árni Sigfússon segir í þessu viðtali, og greinilegt er að hann ætlar ekki að sætta sig við þá mismunun sem þarna er í gangi. Hér hefur hann sig yfir hinar pólitísku línur, það finnst mér að við hin eigum líka að gera og einbeita okkur að láta rödd okkar heyrast sameinaða.


mbl.is Óviðunandi mismunun segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband