Fimmtudagur, 21. ágúst 2008
Veiðiferðin.
Guðmundur Gunnarsson formaður Rafiðnaðarsambandsins gerir í dag að umtalsefni veiðiferð sem nokkrir embættismenn , fóru í, í hitteðfyrra. Auðvitað skiptir það máli fyrir okkur sem kusum suma mennina að ljóst sé nú að allir hafi þeir borgað sjálfir fyrir veiðiferðina. Það væri nú annað hvort.
Ég læt hér fylgja litla sögu sem hann setti með í bloggið sitt http://gudmundur.eyjan.is/
Maður sem ég hef ástæðu til þess að trúa sagði mér að aðferð þessara gutta til þess að velja besta borðvínið með steikinni í veislunum sem þeir halda á kostnað almennra launamanna sé sú að fá þjóninn til þess að koma með 5 flöskur af dýrasta víninu sem til er á staðnum. Þetta eru vín sem kosta 15 25 þús. kr. flaskan. Þeir láta stilla þeim á borð, standa upp og fara að hverju horni og hrista svo borðið rösklega. Sú flaska sem brotnar síðast er sko borðvínið sem þeir ælta að drekka það kvöldið. Takk fyrir okkur skúringakonur og konurnar í uppvaskinu. Hrópa þeir svo hlægjandi. Pöntum svo 15 þús. kr. vindla á eftir með kaffinu og 50 þús. kr. koníakinu.
Það sem mér finnst hinsvegar vera punkturinn í greininni, og ekki að ástæðulausu er hvernig hann dregur fram það viðhorf sem nú um stundir virðist ríkja í garð margra stjórnmálamanna, viðhorf sem ekki er komið að ástæðulausu.Þetta viðhorf vantrausts til margra þeirra er með völdin fara kjörnir hafa verið til að gæta hagsmuna almennings.
Hversvegna skyldi þetta nú vera orðið almennt viðhorf margra, að fyrst og fremst séu stjórnmálamennirnir að hugsa um eigin hag eða hagsmunsamtaka og félaga þeim tengdum frekar en umbjóðenda sinna. Það má ekki styggja neinn í veiðihópnum, því þá verður viðkomandi ekki boðið með á nýjan leik, og útilokaður úr kokteilpartíum elítunnar.
Þeir halda að sér mörgum þeim málum er brenna á vörum þjóðarinnar, og ýmist móðgast eða bera fyrir sig fjölmiðlafælni sé á eftir gengið. Telja að það sé ekki hlutverk kjósenda að ýta á úrlausn mála, né heldur að kjósendur séu upplýstir um hver viðhorf þeirra til málanna eru. Þessi mál verði leyst í næstu veiðiferð, þar verði allir þeir sem skipta máli.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 19. ágúst 2008
Heldur dapurlegar færslur
Eg veit nú ekki alveg hvernig maður á að taka birtingu þessara færslna. Þarna er mikið gert úr allskonar samtölum, sem sennilega fara nú fram í trúnaði og trausti þess að það fari eikki lengra. Ennfremur er fjallað lauslega um fréttamat á þessu tímabili, og raunar dapurt að sjá hvernig fréttir voru skammtaðar út í umræðuna, eftir því sem hentaði ritstjórum blaðsins hverju sinni. Frjárhagsvandræði Alþýðubandalagsins á þessum tíma eru svo sem heldur enginn nýmæli, og litlu þar við bætt sem ekki hefur verið vitað lengi.
Hinsvegar er það sem mér finnst kannski dapurlegast að sjá í þessum færslum hvernig greiðsla sjúkrakostnaðar Guðrúnar Katrínar er handteraður í þessum færslum, og hvernig í ósköpunum stendur á því menn hafi náð að gera eitthvað mál úr því. Lýsir kannski þeim sem með málið fóru nokkuð vel . Veit ekki betur en að fjöldi fólks hafi verið sendur bæði fyrir og eftir þennan tíma í slíka eða svipaðar meðferðir og Tryggingastofnun greitt fyrir þær meðferðir. Það er hreint ótrúlegt að mönnunum skyldi detta í hug að þessi reikningur færi ekki sömu leið og þeir sem á undan höfðu komið, heldur að hugsanlega væri hægt að gera sér pólitískan mat úr þessu. Þarna vantaði greinilega eitthvað upp á siðferði sumra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.8.2008 kl. 07:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 18. ágúst 2008
Plómutréð í garðinum
Áhyggjur garðeigandans geta verið margs konar. Um miðjan júlí voru aðaláhyggjur mínar hvað varðaði garðræktina, plómutréð sem frúin plataði mig samviskulaust til að kaupa , með góðri hjálp garðyrkjumeistara í Hveragerði. Ég var ekki sérstaklega bjartsýnn á að tré þetta myndi lifa í garðinum, en eftir að vera búinn að byggja heilmikið skjól, grafa hina fullkomnu holu fyrir slíkt tré kom náttúrulega akkúrat í ljós það sem ég hafði reiknað með. Laufin féllu og og tréð stóð allsnakið í garðinum hvorki mér né konunni til sóma. Hugsaði þó með mér að ég skyldi láta garminn standa frúnni til áminningar.
Nú hefur tréð staðið þarna í rúman mánuð, en í síðustu viku tók ég þó eftir að byrjaðir voru að koma á það agnarlitlir knúppar, sem ég þó reiknaði ekki með að myndu opna sig svo seint liðið á sumarið. Tréð hefur hinsvegar haldið áfram af miklum krafti og virðist svo sem það ætli að standa í fullum blóma nú þegar líður er að sumarlokum. Allt útlit fyrir að maður verði í plómuuppskeru um jólin, sem væri náttúrulega algert stílbrot hvað aðrar plöntur í garðinum varðar.
Eins og það sé ekki nóg að vera með stjórnlaust plómutré í garðinum, sá ég um helgina að teknar voru að myndast það sem garðyrkjusnillingarnir kalla snarrót í grasinu, á nokkrum stöðum. Veit ekki hversvegna hún kemur, en komin er hún og nú verð ég að finna einhver ráð til að útrýma henni áður en hún tekur öll ráð í garðinum, ásamt plómutrénu. Hef verið að spyrja ýmsa snillinga um hvernig best væri að eiga við hana en mönnum ber nú ekki saman um hvað skal gera. Ef einhver sem les þetta hefur einhver ráð önnur en að fletta öllu grasinu í burtu, væri það vel þegið.
Fimmtudagur, 14. ágúst 2008
Samstaðan skiptir máli.
Ég hélt í raun að pistill minn frá í fyrradag um vanda Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja ætti ekki að verða tilefni til frekari skrifa um það mál, enda þess eðlis að um það væri algjör samstaða á Suðurnesjum.
Árni Árnasson sá þó ástæðu til að benda mér á að nauðsynlegt væri að að menn litu heildstætt á þetta mál, og beindi þá sjónum sínum að þeim rekstri og stjórnun á stofnunni, sem hann skildi ekki og hvort verið gæti að þar lægi hluti ástæðunnar. Nú veit ég svo sem ekki meira um það en hann hvort svo gæti verið, en sé að skv þeim tölulegu upplýsingum sem fyrir liggja virðist þó að minnsta kosti fjármálaleg stjórn þessarar stofnunar vera til eftirbreytni. Hvort að hann telji að það sé fagleg stjórnun stofnunarinnar sem er ábótavant verður hann að svara sjálfur, á því hef ég ekki vit.
Það voru til að mynda stjórnendur þessarar stofnunar sem fær minnstu framlög á Íslandi á íbúa til heilbrigðismála, sem skv. fréttaflutningi af málinu hafa æ ofan í æ bent bæði alþingismönnum okkar og ráðherrum á þann vanda er að steðjaði. Það voru þeir sem voru tilbúnir til að loka t.d fyrir síðdegisvaktir og þar með draga úr þjónustunni til að markmið fjárlaganna næðu fram að ganga og stofnunin yrði rekinn hallalaust. Það fannst mér vera að sýna mikið hugrekki, enda virðist þessi tilkynning hafa þokað málinu áfram.
Auðvitað ber að fagna því að hugsanlega sjái til sólar í heilbrigðismálum okkar Suðurnesjamanna og þykist ég vita að þar hafi margir komið að málum og beitt þeim þrýstingi sem þeim hefur verið unnt. Það þýðir þó ekki að málið sé í höfn og einhverra hluta hef ég varann á og vil ekki fagna of snemma.
Eitt af því sem vakið hefur athygli mína í máli þessu, án þess þó að það hafi haldið fyrir mér vöku eru hve léttvæg viðbrögð sveitarstjórnarmanna hafa verið. Hingað til hafa aðeins tvö bæjarfélög sýnt þessu máli áhuga ef marka má þær umræður sem farið hafa fram í bæjarráðum , eða bæjarstjórnum og færðar hafa verið til bókar. Það eru bæjarfélögin Garður og Vogar sem lýst hafa áhyggjum sínum , auk þess sem Styrktarfélag Heilbrigðistofnunarinnar hefur ályktað um málið. Aðrir hafa þagað og sennilega talið að þetta væri eitt þeirra mála sem sveitarstjórnir ættu ekki að álykta um .
Þegar vandi steðjar að slíkum stofnunum, vandi sem greinilega er til orðinn vegna óréttlátrar misskiptingar er það einmitt hlutverk sveitarstjórna að álykta og veita þeim stofnunum þann stuðning sem nauðsynlegur er til að breyta málum. Til þess eru sveitarstjórnarmenn kjörnir að gæta hagsmuna samfélagsins, og láta í sér heyra telji þeir á samfélagið hallað. Þar gildir samstaðan. Í þessu máli tel ég hana hafa skort.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Nýju fötin keisarans?
Heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson er hreint ekki fjölmiðlafælinn maður þegar kemur að því að tíunda það sem vel hefur verið gert á því ári sem hann hefur setið í embætti heilbrigðisráðherra þjóðarinnar. Í morgun birtist heljarmikil grein í Morgunblaðinu þar sem hann fer yfir þann frábæra árangur sem hann hefur náð við stjórn heilbrigðismála, sá árangur virðist vera góður ef marka má innihald þessarar greinar, og hreint ekki ástæða til að gera lítið úr því. Árangur sá virðist þó eingöngu bundinn við Reykjavík og Landspítalann, kjördæmi þingmannsins.
Einhvern veginn birtist þessi grein mér sauðsvörtum Suðurnesjamanninum þó svipað og sagan um nýju fötin keisarans, þar sem ráðherrann spásserar um götur Reykjavíkur og kjördæmis síns, í þeim flottustu jakkafötum sem fundist hafa, en renni hann suður með sjó er hann því miður allsnakinn. Það er erfitt fyrir okkur hér á Suðurnesjum að bæði sjá og finna þann árangur sem ráðherrann talar um í grein sinni.
Ekki er nema tæpur mánuður frá því að boðuð var lokun síðdegisvaktar heilsugæslu svæðisins, var frestað, á meðan leitað væri leiða til að koma fjármálum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í viðunandi horf. Hvort einhver sú leið hefur verið fundinn eða sé í sjónmáli hefur ekkert frést af , enda ráðherrann eins og margir aðrir verið heldur fjölmiðlafælnari hvað þetta mál varðar, sennilega vegna þess að ekki sé hægt með neinum rökum að halda því fram að árangurinn hér sé jafn góður og í kjördæmi ráðherrans.
Ekki ætla ég mér að fara út í það að útskýra hversvegna vandamál HSS eru þau sem þau eru, þar finnst mér tilkynning forstjóra HSS, þar sem hún tilkynnti fyrirhugaða lokun á sínum tíma segja allt sem segja þarf. Fjárveitingar til HSS eru allægstu sem þekkjast á landinu, hvort sem miðað er við fólksfjölda, landsvæðis,eða jafnvel veiddra sela úr sjó, enda erfitt að sjá út frá fjárveitingunni við hvað er miðað.
Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunarinnar , og Bæjarráð Voga eru einu aðilarnir sem hingað til hafa ályktað hvað varðar þau vandamál er HSS á við að etja, og hafa séð að í heilbrigðismálum á Suðurnesjum , er ráðherrann nánast óklæddur. Aðrir hafa valið að líta blinda auganu til og samþykkja að fötin sú bara flott.
Skv. ályktun styrktarfélagsins kemur meðal annars fram að sá listi yfir fjöldi aldraðra sem í brýnni þörf eru fyrir þjónustu hefur lengst á svæðinu en ekki styst eða verið útrýmt eins og ráðherrann vill meina að gert hafi verið í Reykjavík.
Einnig er ljóst að íbúar Sandgerðis, Garðs og Voga þurfa enn í dag að sækja alla sína heilbrigðisþjónustu til Reykjanesbæjar eða Grindavíkur, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að sú þjónusta sé veitt í bæjarfélögunum sjálfum, enda svipað hér og víðast hvar annar staðar á landinu að engar almenningssamgöngur eru á milli bæjarfélaganna.
Það er líka ljóst að enn hefur ekki verið opnuð sólarhringsvakt á skurðstofum sjúkrahússins, og ekki á hreinu hvort svo verði á þessu ári. Það er mikið öryggisatriði fyrir íbúa svæðisins.
Á meðan ráðherrann gerir ekkert eða lítið í þeim málum er viðkoma heilbrigðismálum á Suðurnesjum, hvorki málar húsnæði stofnunarinnar eða sér til þess að nægt fjármagn fáist til að veita þá lögbundnu þjónustu er honum er ætlað, er harla erfitt að trúa á slíka grein sem þarna birtist.
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Stórhættuleg hrossafluga á sveimi í Reykjanesbæ.
Vandamál heimsins stækka stöðugt. Nú síðustu daga hafa hrossaflugurnar farið á stjá og sjá má þær af og til á ýmsum stöðum hér í bæ. Hef þó ekki heyrt ennþá að þær fari um í flokkum, en auðvitað vissara að hafa augun hjá sé hvað það varðar.
Vandamál þetta sem við mér hefur blasað í mörg ár , án þess að ég hafi vitað um alvarleika málsins, fyrr en í morgun er ein samstarfskona mín benti okkur á það. Dóttir hennar hafði þá verið að hringja og tilkynna henni að eitt þessara skaðræðisdýra væri komið inn heim hjá henni, og eina ráð dótturinnar var að læsa sig inn í herbergi og dvelja þar þar til einhver kæmi heim og útrýmdi þessu skaðræðisdýri, sem eins og samstarfskonan útskýrði að flygi um öll herbergi hússins gersamlega stjórnlaus með fæturnar dinglandi í allar áttir.
Já vandamálin eru mörg sem á fólk er lagt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. ágúst 2008
Flugvirkinn verður að flýta sér!
Öll erum við alltaf að bíða eftir einhverju, og mismunandi lengi. Lenti sjálfur í því í gær að nánast allur dagurinn fór í bið eftir að bílaviðgerðamaðurinn léti vita hvað var að bílnum. Ekki svo sem að það skipti neinu máli, því auðvitað þarf að gera við bílinn hvort eð er. Fór að velta því fyrir mér hvernig maður setur sjálfan sig í einhverja pirringsstöðu sökum atburða er maður ræður ekki við. Lífið verður að halda áfram og á þeim hraða er ég vel. Annars verður maður pirraður.
Það virðist vera orðin einhver lenska hér að menn eru hættir að gera ráð fyrir óvæntum , en jafnvel fyrirséðum atburðum. Þannig las ég frétt í morgun um flugfarþega sem sitja fastir í Kastrup vegna flugvélar er þar bilaði. Tekið var viðtal við einn farþega er jafnvel lét sér detta í hug að sækja bætur vegna þess tjóns er orðið hefur á hans högum síðustu 18 klukkustundir eða svo.
Flugfélagið sem í þessu tilfellivar Iceland Express , verður skyndilega að einhverjum sökudólgi fyrir það eitt að ákveða að fljúga ekki yfir Atlanshafið á bilaðri flugvél. Samkvæmt viðtalinu kom fram að félagið hafi látið vita með 1. klst að seinkun yrði á fluginu, en ekki hve mikil enda kannski ekki hægt þar sem um bilun væri að ræða og erfitt að meta hve langan tíma viðgerðin tæki.
Hlutir sem þessir gerast nánast daglega í flughöfnum um allan heim og þykja í flestum tilfellum ekki fréttaefni af þeirri stærðargráðu sem við veljum að gera þetta að. Fólk veit að allir hlutir geta bilað og tíma tekur að gera við þá. Þá veðum við að bíða og reyna að halda ró okkar. Það breytir ekki neinu hvort við fáum að vita hvort flugvirkinn er þessa stundina að snúa skiptililykilinum til hægri eða vinstri, nóg er að vita að flugvélin fer ekki af stað fyrr en gert hefur verið við hana. Það veitir mér öryggistilfinningu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 7. ágúst 2008
Flýtum okkur hægt.
Ég er ekki alveg að skilja þessa umræðu um umhverfismat vegna álversins á Bakka. Ákvörðun umhverfisráðherrans um sameiginlegt mat virðist bæði sanngjörn og skynsamleg út frá hagsmunum að mér finnst bæði ríkis og sveitarfélaganna, og ljóst er hún mun ekki tefja þessa framkvæmd, sem neinu nemur enda engar framkvæmdir hafnar ennþá. Ég get ekki skilið á hvern hátt svona heildstætt mat á öllum þáttum málsins geti verið íþyngjandi, eða aðför að þeim sveitarfélögum sem þarna eiga hlut að máli eins og sumir vilja halda fram. Heldur þvert á móti ættu þau að taka því fagnandi að allar upplýsingar er varða umhverfisþátt þessa máls liggi fyrir á einum stað. Þannig verður öll síðari ákvarðanataka auðveldari hvað þetta mál varðar.
Mér fannst Þórunn Sveinbjarnardóttir útskýra afstöðu sína til málsins vel í Kastljósi í fyrrakvöld.. Hennar er að tryggja að allt fari fram lögum samkvæmt. Það er svo hlutverk sveitarstjórna og framkvæmdaraðila að taka hina pólitísku ákvörðun hvort byggt verði þarna álver. Þannig var það hvað varðaði álverið í Helguvík og þannig er eðlilegast að hafa það einnig á Bakka.
Eitt er það sem mér finnst sérstakt í þessari umræðu og það er hvernig mönnum virðist mikið í mun að halda uppi mikilli spennu og hraða hvað alla ákvarðanatöku, og telja það gangi nánast gegn þjóðarhag að gefa sér nokkrar vikur eða jafnvel mánuði til að klára jafn sjálfsagðan hlut og umhverfismat þetta. Hér fari allt á annan endann ef ekki er farið eftir því sem hagsmuna og framkvæmdaraðilar telji best.Þetta er framkvæmd sem tekur nokkur ár og alls ekki svo galið að verja smá tíma í að vinna undirbúningsvinnunna vel.
Auðvitað geta menn sett málið upp á þann veg að ekki sé nauðsynlegt að sameiginlegt umhverfismat fari fram á þeirri forsendu að hreint ekki sé víst að sú raforka sem fæst á Þeystareykjum fari til notkunar í fyrirhugað álver, heldur til einhverra allt annarra nota. Svo gæti svo sem vel farið, en í augnablikinu er þá orku sem til þessarar framkvæmdar vantar ekki annarstaðar að fá, og því eðlilegt að gera ráð fyrir að hún muni koma frá Þeystarreykjum, og því eðlilegt að miða umhverfismatið út frá því.
Í mínum huga er mikilvægt einmitt núna þegar að sverfur að þær ákvarðanir sem teknar verða hvað varðar nýtingu þeirrar orku sem við höfum yfir að ráða byggist á yfirvegaðri umræðu, þar sem öllu er velt upp og ekki anað út í framkvæmdir á þeim forsendum að ekki sé tími til að hugsa málið í gegn. Orkan og náttúran eru það sem við komum til með að byggja stóran hluta afkomu okkar á í framtíðinni og því ber okkur að flýta okkur hægt og hafa vaðið fyrir neðan okkur þegar kemur að nýtingu þessara auðlinda Mér finnst Þórunn Sveinbjarnardóttir hafa tekið þarna vel yfirvegaða ákvörðun, byggða á góðum rökum og skynsemi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.8.2008 kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Ísland best í heimi
Skilaboð geta verið mismunandi , og sé maður ekki nógu vel að sér hvað málin varðar er auðvelt að miskilja þau. Datt þetta í hug í morgun um leið og ég var að fletta blöðunum , og sá að Mbl. var að kynna nýja rannsókn erlends háskóla þar sem fram kom að Ísland væri best í heimi enn eina ferðina.
Ekki dettur mér nú í hug að neita því, en sú afstaða mín byggir þó kannski meira á huglægu mati og þeirrar staðreyndar að hér er allt mitt fjölskylda og vinir. Einhvern veginn dettur mér ekki í hug að það séu fjárfestingatækifæri , eða annað slíkt sem ráða þessari afstöðu minni. Enda ekki einn af þeim heppnu sem ræð yfir fé til fjárfestinga.
Ég fór að velta fyrir mér hve mikilvægt væri fyrir þá er standa að slíkum rannsóknum að þekkja allar aðstæður og jafnvel að kunna tungumál þeirrar þjóðar er menn rannsaka hverju sinni, og spyrja réttra spurninga til að fá sem réttasta mynd af stöðu mála.
Fór að hugsa um þegar ég fór til Danmerkur í fyrsta sinn og hreint ekki með tungumálið á hreinu, og það var margt sem ég skildi ekki alveg strax vegna tungumálaörðugleika. Á þessum árum gengu rútur frá Kastrup til Járnbrautarstöðvarinnar í Kaupmannahöfn, og þangað lá leið mín. Fyrir mig ungan manninn var þetta náttúrlega mikil upplifun, og mjög spennandi.
Frá Kaupmannahöfn þurfti ég að fara áfram með lest og því komið að því að láta reyna á málakunnáttuna og kaupa miða. Fann fljótlega miðasöluklefa við aðalinnganginn sem var sem betur fer merktur Ticket salg og það skyldi ég svo þangað fór ég og keypti miða. Ekkert mál. Ákvað á meðan ég beið eftir lestinni að gaman væri nú að kíkja í kringum mig á lestarstöðinni og fá mér eina pylsu, en tók fljótlega eftir þegar ég kom inn hlut sem kom mér mjög á óvart , og það var hve tengsl dana við Indland voru sterk. Þarna var alveg röð af básum sem seldu miða til Indlands. Þetta yrði ég að spyrja gestgjafann um þegar á áfangastað yrði komið um kvöldið.
Þóttist heldur mikill maður þegar á áfangastað var komið og vel inn í þjóðarsál Dana og byrjaði náttúrulega á að reyna að ræða þessi sterku tengsl Indlands og Dana. Tók þó eftir að eitthvað kom undarlegur svipur á gestgjafann. Hélt þó áfram að ræða þessi tengsl af miklum ákafa , þar til gestgjafinn var búinn að fá nóg af bullinu í mér og leiðrétti mig. Gerði mér sumsé ljóst að Indland á dönsku þýddi innanlands og hefði ekkert með Indland að gera.
Eftir þetta hef ég ekki tjáð mig um málefni þjóða , ef ég kann ekki tungumál þeirra. Það hefur bara reynst mér ágætlega.
Fimmtudagur, 24. júlí 2008
Aukinn arður í vændum hjá Reykjanesbæ.
Garðyrkja hefur verið mér ákaflega hugleikin nú í sumar, og raunar hef ég fundið út að fátt hefur gefið mér betri sýn á lifið en einmitt garðyrkjan. Þannig er ég nú hættur að reyna að horfa á grasið vaxa, heldur veit ég að fái það góða vökvun og áburð verður allt í lagi með það. Og veit núna líka að reyti ég ekki illgresið, mun það ná yfirhöndinni ef ekkert verður að gert. Og ég veit að til þess að bæði grasið grænki og illgresið nái ekki yfirhöndinni verð ég að fylgjast með.
Um þetta var ég að hugsa í dag, þegar vinur minn einn hringdi í mig í framhaldi af bloggfærslunni hér á undan, og benti mér á að tími væri til að rífa sig upp úr þessu letikasti og lesa grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag 24/7 um hugsanlegt lán sem Fasteign væri að reyna að fá hjá Deutsce Bank .
Ég hugsaði að þetta væri nú að verða eins og með grasið sem grær áreynslulaust, maður þarf ekki einu sinni að hafa fyrir því að afla sér upplýsinga lengur, þær koma bara til manns , og það eina sem þarf að gera er að lesa þær, og blogga þá ef mér þætti efnið áhugavert. Það var það.
Í þessari grein kemur fram að Fasteign á nú í viðræðum við DB um hugsanlega töku á stóru láni, og auðvitað gott ef það tekst. Það sem hinsvegar vakti athygli mína var að auðveldara væri fyrir Fasteign að fá lánið þar sem félagið gerði upp í evrum, og að helmingur tekna þess væri í evrum . Þetta var ábyggilega eitt af því sem bæjarstjórinn var að tala um, að ég vissi ekki um þegar hann skammaði mig fyrr í sumar fyrir að tala um mál fyrirtækis sem ég vissi ekkert um .Það var rétt hjá honum, um þetta vissi ég ekki fyrr en í dag.
Eftir eftirgrennslan kom í ljós, eru allir leigusamningar sem bærinn gerir við Fasteign , annarsvegar tryggðir með vísitölutryggingu að hálfu og hins vegar gengistryggðir með evru. Þetta þýðir skv þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér að húsaleiga bæjarins til Fasteignar hefur hækkað um að minnsta kost vel á i 200 milljónir á ári frá áramótum séu þessar upplýsingar réttar miðað við gengi dagsins í dag. Hvernig þetta bætir hag bæjarins skil ég ekki. Og ekki reikna ég með að bæjarstjórinn svari þessu frekar en öðru þegar spurt er um málefni Fasteignar.
Annað sem mér fannst athyglisvert við fréttinna var útlegging framkvæmdarstjórans á að bankar af þessari stærðargráðu skipti helst ekki við íslensk fyrirtæki nema um háar fjárhæðir sé að ræða.Um nánari útfærslu lánsins er ekki rætt, en ég leyfi mér að kasta fram þeirri spurningu hvort verið geti að hér sé verið að fara svipaða leið og í Sandgerði og á Fljótsdalshéraði að sveitarfélögin komi til með að ganga í ábyrgð fyrir hugsanlegu láni og endurláni svo Fasteign, eða fái það félag til að sjá um framkvæmdir? Réttmæt spurning en eins og áður vænti ég ekki svara. Eða hefur Fasteign burði til að ábyrgjast lánið án aðkomu sveitarfélaganna?
Nei það er nefnilega eins með aðkomu sveitarfélaganna að þessu félagi , og með birkitrén i garðinum hjá mér að maður veit aldrei hvaða stefnu næsta grein tekur. Það kemur bara í ljós.En arður sveitarfélagsins mun aukast í takt við gengi evru.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)