Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Maður verður klökkur.

Já það var grátur og gnístran tanna á flokkráðsfundi heimastjórnarmanna um helgina ef marka má umfjöllun blaðanna um þann fund og blogg Björns Bjarnasonar þar um. Kjartan Gunnarsson reis úr sæti, og líkaði ekki að menn töluðu um hann sem óreiðumann, og líkaði ekki að sá sem þannig talaði léti  allt snúast um sína persónu, og sakleysi í þeim málum er við nú stöndum frammi fyrir. En hann var ekki að tala um fornvin sinn Davíð, sem er sá eini sem við höfum heyrt segja það sem Kjartan talar um, heldur einhvern allt annan sem enginn hefur heyrt segja þetta. Svo féllust þeir í faðma Geir og Kjartan, og hvergi var þurran hvarm að sjá í salnum. Maður verður klökkur við umhugsunina um samstöðu fundarmanna.

Niðurstaðan eftir þennan fund hjá Birni er að íslensk þjóð eigi ekki möguleika á að komast út úr þessum öldudal , nema undir forystu Sjálfstæðisflokksins , þó ljóst sé að það var einmitt blind eiginhagsmunastefna og frjálshyggja þeirra ,ásamt aðgjörðaleysi , sem að miklu leyti hefur leitt okkur í þau spor þar sem við nú stöndum.

Ég fór að velta því fyrir mér eftir að hafa lesið blogg ráðherrans hvort verið geti að hann haldi að þegnar þessa lands séu upp til hópa svo einfaldir að það liggi ljóst fyrir að besta leiðin til að komast út úr þessum vandræðum sé að treysta þeim flokki fyrir framtíð þjóðarinnar og þeim breytingum sem framundan eru. Nema hann treysti á að stór hluti þjóðarinnar sé haldinn einhverjum genagalla, og kjósi Sjálfstæðisflokkinn sama hvað á gengur.

Björn verður að átta sig á að sú stefna sem flokkurinn hefur staðið fyrir hefur beðið skipsbrot, og flest teljum við þessa dagana að margar aðrar leiðir séu betur færari til að byggja upp sanngjarnara þjóðfélag , en að láta Sjálfstæðisflokkinn stýra því .


Sjentelmenni og Darling

Þetta eru erfiðir dagar hjá forsætisráðherra vorum sem hefur staðið sig frábærlega undanfarna daga og sýnt hvað í honum býr. Betur að hann hefði nú gert það fyrr, þá er ekki víst að svona hefði þurft að fara.

 

Hans hlutskipti er hreint ekki létt núna, og þjóðin verður að sýna að hún standi á bak við hann að minnsta kosti í því máli er að Bretunum snýr. Þar er greinilegt að almennar samskiptareglur hafa verið brotnar og það gróflega.

 

Það er með ólíkindum að þjóð  sem við höfum talið til vinaþjóðar til fjölda ára, og bandalagsþjóð í Nato skuli snúast gegn okkur á jafn lúalegan hátt og þeir gerðu í málefnum Kaupþings og Landsbankans. Því má líkja við að áhöfn á sökkvandi skipi hafi verið kominn í gúmmíbjörgunarbátinn, en her hennar hátignar hafi umkringt björgunarbátinn og skotið á hann þar til  ekkert kvikt var að sjá. Svo kalla þeir sig sjentelmenn og darling

 

Það er ljóst að sjentelmönnum þeim er fara fyrir þeirri þjóð er ekki hægt að treysta.. Nú sitja skilanefndir bankanna frammi fyrir tilboði frá frá besta vini aðal, sem í góðmennsku sinni fór með breska viðskiptamanninn á fund viðskiptaráðherra, og óskaði eftir aðkomu íslendinga, svo áfram yrði hægt að reka Baugsveldið í Bretlandi, og gaf okkur frest þar til í dag til að svara því tilboði, sem hreint ekki er okkur í hag.

 

Auðvitað eigum við ekki að sitja undir þessum aðförum bretanna að okkur og sækja okkar mál fyrir dómstólum ef unnt er. Finna okkur nýja vini og styrkja vinskap okkar við hinar norðurlandaþjóðirnar. Og hætta að versla við verslanir Baugsveldisins, þeir eiga þá litlu peninga sem eftir eru ekki skilið.


“Obbobbobobb bíðum nú við”

“Obbobbobobb bíðum nú við”sungu Spaðarnir hér um árið og vitnuðu í frægan frasa Guðna frá Brúnastöðum sem hann viðhafði þegar hann vildi að menn hægðu nú aðeins á sér.Nú held ég að tími sé til að menn hægi örlítið á sér og láti ekki kappið við að koma hér öllu í samt lag á innan við viku að því er virðist og falli ekki í sama far og er nýbúið að koma okkur svo rækilega í koll.

 

Þeir hinir framtaksömustu og mest drífandi á meðal okkar eru náttúrulega nú þegar búnir að finna lausnirnar til að koma okkur á réttan kjöl að þeim finnst, og telja að nú eigi að byggja álver sem aldrei fyrr. Sjálfskipaður talsmaður eins álfyrirtækisins segir meira að segja að þegar hafi verið lögð inn beiðni fyrir stækkun einnar framkvæmdarinnar, en forsvarsmenn fyrirtækisins vilja þó ekkert segja um það.

 

Hafi einhvern tíman verið ástæða til að hinkra við og hugsa um hvernig við komum til með að nýta orkulindir okkar til framtíðar er það einmitt núna. Nú þurfum við að marka okkur stefnu sem okkur sem þjóðfélagi kemur best, og öruggt sé að hámarksverð fáist fyrir orkuna á hverjum tíma. Álverð er gott fyrir okkur þessa stundina, en það grundvallast þó fyrst og fremst á gengi krónunar þessa dagana, því álverð á heimsmarkaði hefur því miður farið lækkandi undanfarnar vikur og allt útlit fyrir að það haldist þannig í nokkurn tíma.

 

Það var gott að heyra í Guðrúnu Pétursdóttur á Stöð2 nú í kvöld þar sem hún talaði einmitt um þetta mál og brýndi fyrir mönnum að staldra við í hita leiksins og hverfa ekki 20 ár til baka í ákafa sínum að bjarga málunum sem fyrst. Höldum okkur við það sem þegar hefur verið ákveðið. En gefum okkur tíma til að hugsa málið um áframhaldið hvað annað varðar. Byrjum á byrjuninni og gætum þess að hlaupa ekki fram úr okkur hvað framtíðina varðar.


Best að láta konurnar ráða

Alltaf betra að treysta konunum fyri því sem krefst vandvirkni og heiðarleika
mbl.is Birna verður væntanlega bankastjóri Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær samstaða

Það er frábært að sjá þau viðbrögð Iðnaðaráðherrans í morgun hvað varðar afstöðuna til Sparisjóðana í landinu. Sparisjóðirnir eru kjölfesta hvers byggðarlags, og um þau ber að standa vörð.Það var því enn betri frétt sem við blasti í Vísi nú undir hádegi þar sem fram kemur að Reykjanesbær og aðilar vinnumarkaðrins á svæðinu hefðu ákveðið að snúa bökum saman til að styrkja stöðu Sparisjóðsins okkar.

http://visir.is/article/20081009/VIDSKIPTI06/610016197

Þarna verða leggjast  á eitt, og auðvitað verðum við íbúar svæðisins að reyna að  leggja okkar að mörkum svo þetta megi takast, það getum við gert á margan hátt, en auðveldast og mesta hjálpin sem við getum veitt er að taka ekki þær innstæður okkar sem tryggðar eru með lögum þar út. Hér verðum við öll að hjálpast að til að styrkja Sparisjóðinn sem hefur verið okkar kjölfesta í gegnum tíðina. Stöndum saman.


Nú verður að stöðva fílinn

Undanfarnar tvær vikur hefur fíllin vaðið laus í postulínsbúðinni, og nánast tekist að brjóta þar allt sem unnt hefur verið að brjóta. Áhorfendur og hluti af þeim sem stjórna verlsunarmiðstöðinni hafa verið sammála um að nauðsynlegt hefði verið að koma fílnum út  og í búr þar sem hann gæti dvalið engum til ama. Eitthvað hefur það þó valdið verslunarstjóranum vandræðum, því fíllinn hefur verið innan sjóndeildarhrings hans allt hans líf, og hann telur meira að segja að fíllin hafi verið honum til hjálpar þegar að stjórnun verslunarmiðstöðvarinnar kemur.Þeir tala sama mál, sem að vísu enginn annar skilur.

Nú verður stjórn verslunarmiðstöðvarinnar að koma saman og gera verslunarstjóranum það ljóst, þrátt fyrir dálæti hans á dýrinu að komin sé tími til að leiðir skilji. Fíllinn sé orðin svo villtur að hann er byrjaður að ráðast á burðarsúlur hússins, og verði ekkert gert sé þess ekki langt að bíða að húsið hrynji, og nú þegar sé svo komið að enginn treysti sér þarna inn vegna þess að burðarstoðirnar séu laskaðar. Þetta verður að gera verslunarstjóranum ljóst, því ekki verður hægt að laga húsið með fílinn innan dyra. Burt með fílinn


mbl.is FME yfirtekur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það vantar rúgmjölið í slátrið.

„Það vantar rúgmjöl í slátrið“ sagði gömul kona í sjónvarpsfréttunum í gærkvöldi. Fyrir mér var það staðfesting á að kreppan er komin og byrjuð að bíta fyrir alvöru. Í ártugi hefur rúgmjölið ekki vantað.

Auðvitað gæti maður núna eytt tíma sínum í agnúast út í þá er maður telur að  hafi skapað það ástand er nú er komið upp, ausið úr skálum reiði sinnar. En það þjónar ekki tilgangi núna. Nú er þörf á að leita leiða til að gera eitthvað uppbyggjandi , að hjálpa þeim er sem sárt eiga um að binda. Að reyna að koma auga á ljósið framundan.

Ég fann það á sjálfum mér nú í morgun að líðan mín hafði breyst frá í gær. Alvaran var komin nær og  sú absúrd staða sem uppi var önnur í dag. Þá er komin tími til að huga að raunveruleikanum.

Þjóðfélagið er að breytast, og gildin verða önnur. Nú róa mörg heimilin í landinu lífróður við að halda í horfinu, sjálfsmynd margra tekur niður og hlutir sem áður voru ekki vandamál, gætu orðið að stórum fjöllum ef við gætum ekki að. Nú þurfum við að gæta hvors annars  sem aldrei fyrr.

Því fyrr sem við sættum okkur við þær breytingar sem orðið hafa á högum okkar, og við horfum fram á vegin reiðilaust  því auðveldari verða umskiptin. Nú er tíminn til að endurmeta þarfir og kröfur ,finna þau gildi sem fleytt geta manni yfir erfiðleikana. Þau gildi finnum við hver með sínum hætti , sumir í trúnni aðrir á annan hátt. Nú er það kærleikurinn og bjartsýnin sem fleytir okkur áfram yfir erfiðustu hjallana. Það gæti orðið okkar rúgmjöl í framtíðinni og  bundið okkur saman í þeirri baráttu sem framundan er.


Taktlaust

Flest fylgdumst við með ræðu forætisráðherrans í gær, og engum duldist sú alvara sem þar var á ferð.  Ráðherrann flutti mál sitt af festu og meðvitaður um þá ábyrgð sem á honum hvíldi. Flest hlustuðum við og skildum, og gerðum okkur fulla grein fyrir að margir ættu eftir að eiga um sárt að binda í framhaldinu. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Það var því dapurt að sjá á heimasíðu dómsmálaráðherrans nú í morgun, hvert hugarfar þingflokks sjálfstæðismanna var á sama tíma og stór hluti þjóðarinnar var í sárum og óttaðist framtíð sína. Þar virðist afstaðan ekki taka svo mikið til innihalds ræðunnar, sem í raun er áfellisdómur yfir frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins, heldur virðist sem þar hafi ríkt múgstemmning sem fyrst og fremst einblíndi á foringjann og frammistöðu hans , en minna máli hvað hann var að segja.

,,Þingflokkur sjálfstæðismanna kom saman klukkan 15.00 og þar var frumvarpið lagt fyrir þingmenn og kynnti Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra það í fjarveru Geirs H. Haarde, sem var að búa sig undir ávarp til þjóðarinnar, sem hann flutti í sjónvarpi og útvarpi klukkan 16.00. Þar lýsti hann því, hvernig fyrir fjármálakerfi þjóðarinnar væri komið. Við hlustuðum á hann í þingflokksherberginu og að máli hans loknu var honum klappað verðskuldað lof í lófa," segir á heimasíðu dómsmálaráðherrans

Engum  held ég að hafi dottið í hug að klappa fyrir innihaldi þessarar ræðu, og ekki er það traustvekjandi fyrir framhaldið  að vita af þroski þingmanna Sjálfstæðisflokksins er ekki meiri en þetta, að þeir eru ekki í sambandi við þjóðina. Þeir eru ekki raunveruleika tengdir. Hverjum dytti í hug að fara að klappa fyrir flugstjóra sem í gegnum kallkerfið tilkynnti að nauðsynlegt reyndist að nauðlenda, vegna þess að dautt væri á báðum hreyflunum, sökum  þess að hann hafði gleymt að setja bensín á tankanna áður heldið var af stað. Ljóst væri að margir myndu skaðast og hljóta örkuml það sem eftir væri. Ég held að sama í hve flottum búning eða hve mjúk röddin væri sem flytti slík tíðindi mundu flestir fremur kjósa að leggjast á bæn fremur en að klappa fyrir hve flottur flugstjórinn væri

Borgar sig að bíða með umræðuna?

Ég skil vel ef aðilar vinnumarkaðarins vilja að eitt af skilyrðum fyrir aðstoð lífeyrissjóðanna, verði að ríkisstjórnin gefi út yfirlýsingu um að stefnt skuli að aðildarviðræðum í ESB. Og ég er ósammála forsætisráðherra að það sé eitthvað allt annað mál, sem ræða beri  síðar.

 

Auðvitað er það skiljanleg afstaða þeirra sem lána þá peninga sem bjarga eiga ástandinu að stefnubreyting verði í peningamálastefnu þjóðarinnar, að ekki þurfi að koma til þess aftur síðar að lífeyrisjóðirnir þurfi að draga heim ágætis fjárfestingar til bjargar stjórnvöldum sem undanfarin ár hafa verið steinsofandi á verðinum. Þetta er lífeyrir sem hinar vinnandi stéttir hafa unnið fyrir, en ekki spilapeningar frjálshyggjunar.

 

Það að lífeyrisjóðirnir og samtök launþega í landinu séu tilbúin til að lána lífeyrisparnaðinn til að bjarga því sem bjargað verður, er ekkert sjálfsagt mál og hreint ekki þannig að menn séu tilbúnir til að gera þetta reglulega, sökum þrjósku þeirra er halda fast í einhverja rómantískar hugmyndir um styrk íslensku krónunnar. Hennar tími virðist vera  liðinn og það er ekki eitthvað allt annað mál eins og forsætisráðherra vill meina. Umræðan um framtíð krónunar er hluti af lausn vandamálsins hér og nú, en ekki seinna þegar forsætisráðherra telur það henta.

 

Hér ganga menn saman til lausnar einu erfiðasta verkefni sem íslenska þjóðin hefur staðið frammi fyrir, og ef lausnin er að gefa út yfirlýsingu um að stefnt skuli að Ísland uppfylli skilyrði Maastricht sáttmálans og þar með möguleika á  upptöku evru hér á landi, til að tryggja viðunandi lífsgæði í landinu  fyrir börn okkar og barnabörn þá gerum við það, hvort sem það kemur sér vel fyrir stefnu forsætisráðherrans eða ekki.

 

Kapitalistar eru ekki kapitalismanum að kenna?

Hannes er fundinn. Og nú er það ekki Smárason, heldur sjálfastur Hólmsteinn Gissurarson. Það er voðalegt að heita Hannes þessa dagana.

 

Hann heldur að það sé ekki “beinlínis” hægt að kenna kapitalismanum um þá kreppu sem núna ríkir, heldur hafi fáir kapitalistar átt hér hlut að máli, og reynir svo að segja okkur að kapitalismin snúist ekki um kapitalistana, heldur árangur þess kerfis sem þeir aðhyllast.

Hann undirstrikar nú hneykslun sína á græðginni sem því miður er einn af burðarásunum í því kerfi sem hann aðhyllist. Árangur þess kerfis er nú að koma í ljós.

 

Þetta er góð grein að lesa og hugmyndafræðingur náhirðarinnar kemur víða við og eins óvænt og það hljómar úr hans munni dásamar hann nú borgarfulltrúanna sex sem stóðu á móti þegar verðbréfaguttanair og hluti náhirðarinnar ætluðu að sölsa undir sig OR. Batnandi mönnum er best að lifa. En talar þó ekki um að áfram var haldið suður með sjó þar sem síðasti dinosaurusinn er enn að djöflast í því að koma HS í eigu félags sem stofnað var af þeim er nú hafa siglt þjóðarskútunni á kaf.

 

Hann telur algjört frelsi atvinnulífsins (þar með talið bankanna) forsendu verðmætasköpunnar í landinu, og boðar okkur upprisu kapitalismans, um leið og hann  skorar á menn að standa saman um að koma þjóðarbúinu út úr afleiðingum þeirrar stefnu sem hann og náhirðin í kringum Davíð Oddson hafa kallað yfir þjóðina.

 

Kannski hann hefði átt að láta fara lítið fyrir sér núna eins og hann gerði undir kirkjuveggnum forðum? Það hefði verið skynsamlegt.

 

hannesholmsteinn2
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband