Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Miðvikudagur, 17. september 2008
Fíllin stendur í okkur.
Aðstoðarmaður forsætisráðherrans líkir ástandinu í efnahagsmálum þjóðarinnar við að maður hafi gleypt fíl, og allir hljóti að sjá magi venjulegs manns þoli ekki slíkt. Af því verði eftirköst . Við þau erum við að fást núna.
Hann var ekki að segja það sama og forsætisráðherrann hefur sagt undanfarið, að ástand efnahagsmála þjóðarinnar byggist að langmestu leyti á ástandi á erlendum mörkuðum, og því lítið við því að gera heldur bíða og sjá hvað setur.
Hann var raunar að klippa það út í pappa eða höggva það í stein, að ástandið sé að miklu leyti lélegri hagstjórn síðustu ára að kenna. Að einkavæðing án aðhalds , og uppbygging gegndarlausar stóriðjustefnu undanfarinna ára séu það sem eru megináhrifavaldarnir.
Aðstoðarmaðurinn veit þetta því hann var með í blálok veislunnar þegar fíllinn var étinn, og sá þegar leyfunum var sópað undir teppið, eða út í horn. Og nú er það hann sem lendir í að taka til vegna þess að þeir sem störtuðu veislunni virðast enn vera með timburmenn, og ekki færir um að þrífa upp eftir sig.
Mánudagur, 15. september 2008
Samhæft sund
Það var gaman að sjá hve vel forritaðir þeir félagar Sigurður Kári og Geir H Haarde voru í svörum sínum í Silfri Egils um helgina. Báða hjuggu í að Jónas Haralds hefði skrifað grein um Evrópumál 1962 eða 63 , og báðir voru þeir þeirra skoðunar að verkalýðshreyfingin og samtök atvinnulífsins væru komin út fyrir verksvið sitt hvað varðaði aðkomu sína að efnahagsmálum þjóðarinnar. Þeir hefðu verið gott keppnislið í samhæfðu sundi tvímenninga, og sennilega endað á verðlaunapalli eftir þessa frammistöðu.
Sigurði Kára var mikið niðri fyrir þegar hann var að fárast yfir að samtök launamanna hefðu fengið sem fyrirlesara fræðimann sem ekki var sömu skoðunar og hann hvað varðaði sjúkratryggingafrumvarp heilbrigðisráðherra og vændi Ögmund H Jónasson um að nýta BSRB til að koma sínum pólitísku skoðunum á framfæri þar í gegn.
Það getur nú varla verið nema af hinu góða að hlusta á mótrök í slíku máli sem sjúkratryggingafrumvarpið var, og algerlega óþarfi að láta eins og himnarnir séu að hrynja þess vegna. Það er réttur BSRB sem launþegahreyfingar að hafa skoðun þarna á þar sem þetta er spurning um að viðhalda því velferðarkerfi hér er við lýði.
Það er annars athugunarefni hve mikið sumir þingmenn leggja mikið uppúr að hafa skoðanir hvað hinir og þessir eigi eða megi ekki segja um tiltekinn málefni . Fara í feita fýlu þótt þeir listfengnustu í þeirra hópi myndskreyti greinar sínar með heimatilbúnum myndverkum , en komast sjaldnast svo langt ræða sjálf málefnin.
Laugardagur, 13. september 2008
Hvað er Egill að hugsa?
Ég fylltist kvíða og leyfði mér að efast stórkostlega um dómgreind þjófélagsrýnisins og kynbróður mín Egils Helgassonar þegar ég las pistill hans um Lýsiströtuaðferðina í dag. Auðvitað væri þetta náttúrulega frábær aðferð hjá konunum til að ná sínum stefnumálum í gegn og jafnvel líklegt að margir karlmenn myndu samþykkja þetta í einhvern skamman tíma. En stundum er skynsamlegt að hafa ekki hátt um hlutina.
http://eyjan.is/ordid/2008/09/11/lysistrotuleidin-vidrud-i-ljosmaedradeilunni/
Stóra vandamálið og það sem myndi gera þetta að sársaukafullri aðgerð fyrir að minnsta kosti helming þjóðarinnar er að sá sem á að gera samningana þ.e fjármálaráðherrann lætur bara ekki ná í sig hann er í réttum ef marka má fréttir Stöðvar 2 nú í kvöld . Auðvitað á Egill ekki okkar hinna vegna að hafa hátt um baráttuaðferð sem slíka núna í byrjun rétta, þegar allir alvöru karlmenn þurfa á öllu sínu að halda til að standa undir nafni í réttunum hér og þar um landið.
E.S Ég bið Egill Helgasson margfaldlega afsökunar á því að eigna honum þau greinaskrif sem ég hér tala um . Þau koma víst sem aðsent efni til Orðsins á götunni, og eru birt undir dálki Egils. klikkaði á því. En læt þór bloggið standa þar sem megin innhaldið breytist lítið, og áfram verður hægt að treysta dómgreind Egils. Kveðja
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.9.2008 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 12. september 2008
Á að stefna ljósmæðrum?
Einhvern veginn viriðst ljóst vera að Fjármálaráðuneytið hyggist ekki semja við Ljósmæður að svo stöddu, og helst fær maður á tilfinninguna að það hafi hreint ekki verið meiningin allan þann tíma sem samningaviðræður hafa staðið yfir. Þar hafi samningamenn ríkisins mætt á fundi, ýmist með eyrnartappa í eyrum , eða með bundið fyrir augu þannig að þeir þyrftu ekki sjá eða heyra hverjar kröfur ljósmæðra væru.
Nú þegar rúmar tvær vikur eru eftir af vekfallshrinu ljósmæðranna leggur Fjármálaráðuneytið fram stefnu á hendur Ljósmæðrum þar kemur fram að Fjármálaráðherra líti á uppsagninar sem ólöglega vinnustöðvun. Þrátt fyrir að ljóst sé að þær hafi verið lagðar fram með lögformlegum hætti, og innan þess tímaramma sem krafist er. Og sá tími sem liðinn er síðan hefði átt að vera nægur til að sjá að ljósmæðrum var full alvara. Þær vildu ekki vinna hjá vinnuveitanda sem ekki vill viðurkenna nám þeirra til launa , jafnvel þótt að það sé sá sami vinnuveitandi sem krefst þess að þær bæti við nám sitt tveimur árum til að fá að starfa sem ljósmæður.
Það mekilega í þessu er að ljósmæðurnar hafa verið að benda á þetta atriði í talsvert mörg ár, en ekki verið á þær hlustað. Því þar í raun engana að undra að þær hafi orði leiðar, og ákveðið að snúa sér að einhverju öðru því starfi þar sem menntun þeirra yrði metinn að verðleikum.
Nú veit ég ekki hvernig námi til að mynda dýralækna eða hjartalækna er háttað og hvort þar sé hægt að afla sér einhverra viðbótarréttinda sem metinn eru til launa, en ég held þó að svo sé. Þannig er það nefnilega í flestum fögum og í fæstum tilfellum tiltökumál að það nám sé metið til launa, sérstaklega þegar það er vinnuveitandinn sjálfur sem krefst þess að sú þekking sé til staðar, til að geta sinnt starfinu.
Auðvitað á Fjarmálaráðherra að senda samningamenn sína inn á samningarfund með almennilegt umboð til að semja um þessa hluti, í stað þess að tefja málið með einhvejum lögsöknum á fólk til þess að það vinni þá vinnu, sem það hefur sagt upp. Það er ekki hlutverk ríkisins að hneppa þegnana í þrælkunarvinnu upp á vatn og brauð.
E.S Eins og þeir sem kíkja í athugasemdardálkinn hér fyrir neðan er greinilegt að fleiri en ég höfum áhyggjur af því hvaða stefnu mál þetta er að taka. Björgvin G Sigurðsson telur að fyrir hafi legið tilboð frá samninganefnd ríkisins sem hefði getað orðið lykill eða umræðugrundvöllur að lausn þessa máls, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði í hádegisfréttum að sú ráðstöfun að stefna ljósmæðrum á þessum tímapunkti væri ekki vel til þess fallið að lausn fyndist, nema síður sé. Það virðist því vera ljóst að þessi ákvörðun er tekinn af Árna Matthiassyni einum og nú verður það hans verkefni að leysa málið á viðunandi hátt. Draga þessa stefnu til baka og semja þótt ljóst sé að það verði mun erfiðara úr þessu
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 11. september 2008
Frábært að einhver haldi manni á jörðinni.
Eg veit ekki hvort það er eitthvað rugl í mér, en mér finnst einhvern veginn sólin skína bjartar og loftið hreinna í kringum mig þessa dagana. Haustið komið með sína tæru liti og Faxaflóinn glitraði í morgunsólinni , þegar ég keyrði eftir Ægisgötunni hér í Reykjanesbæ nýuppgerðri og fallegri á leið til vinnu.
Fór að hugsa um á leiðinni, hvernig flestir eru í raun sammála um hvernig þeir vilja hafa umhverfi sitt, og lífsskilyrði en virðast lenda í kreppum þegar kemur að útfærslu á þeim viðfangsefnum sem þar þarf til. Þannig er til að mynda alveg ljóst að öll viljum við börnum okkar það besta, og frumskyldur okkar allra liggja hjá þeim sem okkur eru nánastir. Í þeim efnum þurfum við ekki að kljást við nein nema sjálf okkur til að ná markmiðunum.
Þegar kemur út á stóra sviðið, verður þetta oft svolítið snúnara, þrátt fyrir í raun flestir stefni að sama markmiði þ.e jöfnuði og réttlátu þjóðfélagi sem sinnir þörfum allra bæði þeim sem minna mega sín og einnig þeirra sem sterkari eru. Þar koma oft á tíðum inn í leikinn öfl sem telja samfélagið leikvöll sinn til að ná sínum markmiðum fram án tillits til hvaða afleiðingar það getur haft á lífskilyrði þeirra sem samferða eru, eða á eftir koma. Þannig getum við til að mynda tekið ýmis þau málefni sem snúa að einkavæðingu ýmiskonar og þeirri ábyrgðalausa útrásastefnu sem þar hefur fylgt í kjölfarið. Nú erum það við neytendur sem fáum að borga fyrir það í formi hækkaðs vöruverðs og gríðarhárra vaxta.
Ég fór að hugsa um hve gaman það væri ef þetta væri nú allt svolítið einfaldara, að menn gætu sammælst um leikreglurnar, og beygt sig undir þær í stað þess að vera stöðugt að reyna að breyta þeim sér í hag Að vera ekki alltaf að laga eitthvað sem ekki er bilað. Að menn sammæltust um að hlutverk þeirra er með stjórnvaldið fara á hinum ýmsu stigum sé að vísa veginn fram á við með almenningshagsmuni í huga fremur en að það sé að þröngva í gegn úr sér genginni hugmyndafræði sem ekki er almenn samstaða um, í krafti meirihluta hverju sinni. Á því hafa nokkrir meirihlutar fallið undanfarið eins og flest okkar höfum orðið vör við.
En það er eins og frúin segir þú ert alltof rómantískur svona í morgunsárið svona getur þetta aldrei orðið . það eru of margir þarna úti sem hugsa fyrst um hvað get ég haft út úr því, án þess að hugsa kannski svo mikið um hvað væri best fyrir börnin eða barnabörnin þeirra í framtíðinni. Frábært að hafa einhvern til að halda manni á jörðinni.
Þriðjudagur, 9. september 2008
Hvað hefur breyst?
Það er ekkert jafn pirrandi eins og að vera neyddur til að fasta, og sérstaklega ekki fyrir grannan mann eins og mig. Maður veit ekki alveg hvað maður á að gera, langar stöðugt í eitthvað fast undir tönn. Finnur sér eitthvað til dundurs, sem krefst ekki mikillar orku, og nú datt ég algerlega óvart, og gegn allri skynsemi inn á Fréttaveitu Hitaveitu Suðurnesja, sem að þessu sinni fjallar að miklu leyti um hvernig hugsanlega hægt verður að skipta HS upp. það var fróðlegt.
Það sem hinsvegar vakti athygli mína var fundargerð stjórnarfundar nr 117 frá 1.júlí 2008 þar sem sem er talað um minnisblað um breytt sölufyrirkomulag á heitu vatni á Suðurnesjum. Veit ekki alveg hversvegna ég er orðinn svona tortrygginn þegar talað er um minnisblöð og þróunarverkefni í fundargerðum.
http://www.hs.is/HSNews/FRETT_222net.pdf
Einhvern veginn minnir mig en þori náttúrulega ekki að fullyrða , að þetta hafi verið eitt þeirra atriða sem rætt var um á borgarafundi í Njarðvíkurskóla , og menn verið fullvissaðir um að engar slíkar breytingar væru yfirvofandi. Nú er til umræðu skv. þessu minnisblaði að skipta út vatnshemlunum og setja upp mæla í öll hús á Suðurnesjum með tilheyrandi kostnaði
Fór að spekulera í hvort ef af yrði, hvort heldur þetta yrði nú í hag neytendanna hér á Suðurnesjum, og hvað hafði breyst svo mikið á tiltölulega stuttum tíma í rekstri hitaveitunnar að umræður um þessa hluti væri kominn í gang.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 8. september 2008
Á vegamótum
Stundum verður maður svolítið hvumsa og hissa þegar kemur að óskum sem til manns eru beint. Maður veit ekki alveg hvernig maður á taka þeim. Fyrir helgina var beint til mín ósk, ósk sem viðkomandi vissi vel að ég gæti alls ekki orðið við, þar sem viðkomandi þekkir mig vel.
Hver óskin var ætla ég mér ekki að svo komnu að fjalla um, enda mun ég ekki verða við henni, en hitt er ljóst að ósk þessi varð til þess að ég gerði mér grein fyrir að það voru nokkrir hlutir sem ég varð að endurskoða í mínu lífi.
Eitt þeirra atriða sem ég varð að taka afstöðu til var þátttaka mín í Sjálfsstæðisflokknum , þess flokks sem ég sjálfur hafði valið að vera í, þar sem ég taldi hann á sínum tíma samræmast best mínum skoðunum, þar gæti ég komið mínum skoðunum á framfæri í ljósi þess skoðana og persónufrelsis er flokkurinn boðar.
Hingað til hef ég talið að einn af hornsteinum lýðræðisins vera að sem allra flestir væru virkir í umræðu um þau mál er varða samfélag það sem við búum í, og hluti þeirrar virkni væri til að mynda að spyrja spurninga, um ýmis þau mál er á brynnu. Það er kostur lýðræðisins að allar skoðanir séu jafnréttháar, og öll gagnrýni af hinu góða, vilji menn nýta sér hana til góðs. Þannig hef ég reynt að draga fram það sem mér hefur fundist vel gert, en jafnframt ekki hikað við að nefna það sem mér hefur þótt ekki jafn vel gert.
Þegar svo er komið að menn telji sig þurfa að hafa orð á að skoðanir mínar og greinaskrif séu hvorki í minn hag né heldur þeirra sem í kringum mig eru tel ég rétt að staldra við. Losa sjálfan mig og aðra úr þeirri stöðu að tengja saman óskilda hagsmuni við skoðanir mínar.
Ég hef því í dag sagt mig úr Sjálfstæðisflokknum .
Mánudagur, 1. september 2008
Já þetta eru allt saman öðlingar.
Ég hef undanfarna mánuði verið að skrifa hér á síðunni minni allskonar hugleiðingar um mál, sem mér hafa einhverra hluta orðið hugleikinn. Hef svona meira verið að velta þessu fyrir sjálfum mér, en tekið þó eftir að eitthvað af þessum skrifum mínum hafa farið fyrir brjóstið á sumum. Auðvitað hef ég verið svolítið grimmur á milli, og jafnvel örlítið ósanngjarn, en það hefur þá verið í málum sem mér hafa orðið sértaklega hugleikinn, svo jaðrað hefur við áráttu vilja sumir meina. Eitt þessara mála eru málefni Hitaveitu Suðurnesja.
Nú fyrir helgina datt ég inn á heimasíðu Láru Hönnu Einarsdóttur, sem hefur verið mjög gagnrýnin á allt það er lýtur að REI málinu svonefnda og þeirri tengingu sem þar er við FL group og þá er þar réðu för , og birtir á heimasíðu sinni lista af tengingum félaga og fyrirtækja er að því máli komu. Einhverra hluta vegna eiga þessar tengingar nær allar einnig við í tilfelli Hitaveitu Suðurnesja og Geysir Green Energy. Þar eru sömu þræðir í gangi.
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Nú hafa þeir sem gagnrýnir hafa verið á það að hætta sé á að HS lendi í meirihlutaeigu einkaaðila svo sem margoft bent á þessa tengingu , en talað fyrir daufum eyrum. Þeir er ráðið hafa för hvað varðar aðkomu GGE að HS hafa álitið þetta fjarstæðukennt , og bent á að enginn geti hannað atburðarás sem slíka. Það hefði maður líka haldið, en gefi maður sér smá tíma til að skoða myndband það er birt er á heimasíðu Hönnu Birnu og þá lesningu sem þar er að finna virðist allt þetta falla eins og flís við rass, og það sem verra er, það lyktar langar leiði úr sárinu.
Nýjasta vendingin hjá spunameisturunum er sú að fleiri aðilar hafi sýnt áhuga á að kaupa í HS hluti og nefndir eru til sögunnar t.d Norðurál sem borið hafa til baka að þeir hafi áhuga , og svo fyrirtækið sem í byrjun kom þarna inn fyrir tilstuðlan bæjarstjórans í Reykjanesbæ GGE, á þeim forsendum að gott væri að eiga smáhlut í svona fyrirtæki til að sýna erlendum viðskiptavinum ættu þeir leið hér um , en virðast vera að sækjast nú eftir algerum yfirráðum ef marka má fréttaflutning. Skrýtið hvernig hlutirnir þróast! Ekki yrði maður nú hissa ef þeir bæðu næst um að nýsamþykktum orkulögum yrði breytt til að losna við svona vesen.
En auðvitað getur líka verið að það séum við sem gagnrýnin hafa verið á þetta ferli allt, og þeir menn sem þarna hafa komið að eingöngu verið að gera þetta allt í góðri trú og alls ekki ætlað að einkavæða HS, þótt þeir hafi hinn 12.júlí bóka í bæjarstjórn Reykjanesbæjar óvart bókað að sá gerningur sem þá var gerður væri eingöngu fyrsta skrefið í einkavæðingunni. Gleymt sér aðeins í hita leiksins. Og það eru sömu góðu strákarnir sem áður stjórnuðu FL group , og ennþá stjórna Glitni, sem í góðmennsku sinni að huga nú að því bjarga því sem aflagaðist við aðkomu þeirra að HS. Já þetta eru öðlingar sem ávallt eru tilbúnir sé til þeirra leitað.
Nú er það á valdi úrskurðarnefndar um samkeppnismál , sem gæta á hagsmuna þeirra er á markaði starfa, og jafnframt að tryggja að neytendur njóti eðlilegrar verndar að skera úr um hvort þessum öðlingum verði leyft að bjarga HS, OR , og Hafnarfjarðarbæ úr þeim ógöngum sem málið er komið í. Að þeir fái að kaupa þá hluti, sem þá gæti losnað um falli úrskurðurinn þeim í vil. Jafnvel þó sá úrskurður yrði í hróplegu ósamræmi við vilja meginþorra þjóðarinnar í þessu máli.
Sunnudagur, 31. ágúst 2008
Ég þarf víst "manninn með mér"
Nú fyrir helgi kom símareikningurinn inn um lúguna eina ferðina enn, og aldrei þessu vant fór ég að rýna hann og athuga hve hár hann væri. Það var svo sem ekki af ástæðulausu.Ég vissi þegar ég reif upp umslagið að upphæðin myndi ekkert breytast, en einhver óstjórnleg hvöt rak mig áfram til að kíkja á sundurliðun reikningsins.
Ég hef nefnilega verið að velta fyrir mér undanfarið máli sem ég skil ekki, og það er hversvegna það er dýrara að hringja í og úr gsm símum en venjulegum heimilissímum. Sennilega eitthvað tæknilegt ætla ég að vona, en skil það samt ekki.
Ekki þurfa GSM símarnir á neinum leiðslum svipað og ADSL kerfið, og annar búnaður sem háður er slíkum tengingum í jörð, og fjölda manns þarf til að tengja bæði í húsið og svo við hinar ýmsu stöðvar á leiðinni.
Á sama tíma og greinilega er dýrara að hringja í og úr GSM símanum, eru einmitt bestu tilboðin sem símafyrirtækin gefa einmitt á þeim markaði. Þannig auglýsa þau nú að maður geti talað nánast frítt við alla heimilsmeðlimi án þess að borga krónu fyrir þá þjónustu, og maður geti bara slakað á í því símtali vegna þess að það þurfi ekkert að borga fyrir það.
Ef ég hinsvegar slysast til að hringja úr heimilissímanum þarf ég að borga stórfé fyrir. Frúin segir að hvað þennan lið varðar þurfi ég manninn með mér svo oft klikka ég á þessu smáatriði. En þau eru víst fleiri skilst mér.
Laugardagur, 30. ágúst 2008
Át hundurinn púslið?
Illugi Jökulsson skrifar í dag lítinn pistill í 24.stundir og höfðar þar til ummæla Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þar sem hún segir enga kreppu ríkja á Íslandi. Það er alveg rétt hjá Ingibjörgu, en það réttlætir þó ekki það aðgerðaleysi sem stjórnvöld virðast sýna í málinu. Telji stjónvöld sig vera að gera eitthvað, verða þau að minnsta kosti að útskýra það fyrir bæði fólkinu í landinu og aðilum vinnumarkaðarins hvað þau telji að þau séu að gera til að ná tökum á ástandinu.
Geir H Haarde sagði sig í blaðaviðtali fyrr í sumar að hann hafi unun af að leggja púsluspil og fátt veiti honum meiri ánægju en að sjá slíkar myndir fullkláraðar. Því fleiri kubbar því betri púsla. Nú ætti jafn reyndur maður í púsluspili og hann gefur í skyn að átta sig á að vanti einn kubbinn hver svo sem ástæðan fyrir því kann að vera, klárast myndin aldrei.
Menn geta gengið um gólf, og velt því fyrir sér hvort heldur er um að kenna þeim er pökkuðu púslinu í útlöndum , eða draslaraskap heima hjá, eða jafnvel að hundurinn hafi borðað púslið. Hvort sem er klárast myndin aldrei, eða verður skýr.
Nú höfum við mörg okkar látið þessar skýringar nægja í nokkra mánuði ,að verið væri að vinna að lausn vandans undir styrkri hönd ríkistjórnarinnar á sama tíma og við höfum séð hjól atvinnulífsins hægja á sér og nær stöðvast. Aðilar vinnumarkaðrins hafa kallað eftir viðbrögðum, en því miður enginn fengið önnur en að vera kallaðir til fundar einu sinni eða tvisvar til fá að vita að allt færi þetta nú að koma. Geir væri að reyna að finna síðasta kubbinn.
Stolt og þrjóska geta verið góðir kostir en þegar löngu virðist ljóst að kubburinn kemur ekki til með að finnast á ríkistjórnarheimilinu væri skynsamlegt að ræða við aðila vinnumarkaðrins af alvöru ,vel vitandi að áður hafa þeir smíðað slika kubba. Hvort ekki væri hægt að fá hjálp frá þeim. Þeir hafa bæði tækin , mannskapinn og hugvitið , þótt ljóst sé að tækin séu nú orðin stirð vegna notkunarleysis, og hætta á að handverkið sé við það að glatast. Þá er að blása lífi í það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)