Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Í beinu framhaldi

Fékk senda þessa litlu sögu í beinu framhaldi af blogginu mínu í hádeginu:

 

Hér er einn góður.... svona er Ísland í dag :o)

Nonni: Sæll Jón, Nonni framkvæmdarstjóri hér.

Jón: Sæll Nonni.

Nonni: Heyrðu Jón ég var að hugsa......Málin eru þannig að það er farið að harna á dalnum hjá fyrirtækinu Jón minn.

Jón: Nú ég hélt að það væri bara allt í góðu hér innan dyra.

Nonni: Jú Jú allt í góðu innan dyra ,en það blæs dálítið í kringum bókhaldið Jón minn.

Jón: Er bókhaldarinn ekki að standa sig.

Nonni: Jú Jú Jón minn hann stendur sig vel. Ég var að spá hérna sko, hvenær áttu að fara í sumarfrí Jón minn?

Jón: Þann fyrsta ágúst..... nú af hverju?

Nonni: Er þér ekki sama þó þú takir það launalaust Jón minn?

Jón: Launalaust... af hverju?

Nonni: Þar sem farið er að kreppa að hjá okkur hérna þá verðum við að taka til í fjármálum fyrirtækisins.Og þar sem þið eruð nú bara tvö í heimili þið Gunna Jón minn og eruð nægjusöm í alla staði þá mundi það ekki skipta svo miklu máli þó þú yrðir launalaus eitt sumarfrí.

Jón: Já en við Gunna ætlum að fara til Spánar í fríinu og hlaða batteríin.

Nonni: Hvað væll er þetta Jón minn, áttu ekki orlofið - þið getið notað það ekki satt? Svo er líka alltaf gaman að kíkja inní Heiðmörk. Þú lætur Gunnu bara hita kakó og svona.

Jón: Er öllum boðið uppá þetta, ferð þú líka í launalaust frí Nonni minn?

Nonni: Engin hortugheit við mig.... ég hef ekkert efni á því og þú veist það vel. Mín fjölskylda er aðeins stærri en þín Jón minn og þarf sitt.

  

 


Hvert á að fara í fríinu?

    

Ríkisstjórnin hélt fund í gær. Flestir hefðu nú haldið að hugsanlega myndu þeir nú kannski ræða þá stöðu sem nú er uppi í heilbrigðismálum þjóðarinnar.  Ef marka má frétt í Fréttablaðinu í dag. kemur fram að málið hafi ekki verið rætt. Menn kannski meira verið að tala um hvernig hafi verið í fríinu eða hvert fara á í fríinu.

Aðspurðir kasta bæði fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra þessum málum frá sér, ýmist á samningarnefnd ríkisins sem sjá á um þessi mál eða á félagsmálaráðherrann, sem redda á málinu í haust. En þá verða að minnsta kosti ljósmæðurnar allar hættar og farnar.

Gallinn er að hvorki fjármálaráðherra né heilbrigðisráðherra geta skautað svona auðveldlega framhjá málinu eins og þeir reyna þarna að gera. Formaður samningarnefndar ríkisins sagði í viðtali við Ríkisútvarpið í sex fréttum fyrir aðeins tveim dögum síðan að þetta vandamál lægi ekki hjá samninganefndinni , þar sem í þeirra verkferli væri nú þegar gert ráð fyrir því námi sem bæði ljósmæður og hjúkrunarfræðingar hefðu lagt á sig. Það væru forstöðumenn stofnanna sem umbuna ættu þeim frekar í stofnannasamningum á hverjum stað.

Maður veltir óneitanlega fyrir sér hvort hér séu allir að vinna vinnuna sína. Sé þetta rétt  hjá formanni samninganefndarinnar, þá liggur lausn vandamálsins úti í stofnunum sjálfum. Þá er það spurningin sem ég velti fyrir mér og er ekki með alveg á hreinu hvort  gert sé  ráð fyrir þessu þegar fjárlögin eru saminn?  Maður getur ekki betur séð ef fylgst er með fréttum að flestar sjúkrastofnanir eigi fullt í fangi með að halda rekstri sínum gangandi fyrir það fé sem þeir nú þegar hafa til ráðstöfunar.

Fjárlög hverrar stofnunar er á ábyrgð viðkomandi ráðherra  er stofnunin heyrir undir. Það er á hans ábyrgð að hverri stofnun sé tryggð nægileg upphæð til að sinna því hlutverki  sem henni er ætlað. Það  hefur ekki vafist fyrir einkavæðingarsinnanum heilbrigðisráðherra að tryggja framlög til þeirra verkefna sem hann hefur sett í einkarekstur að undanförnu, og nægir þar að nefna öldrunardeild á Landakoti, og framlög til hvíldarinnlagnadeildar heilsuverndarstöðvarinnar. En virðist eitthvað standa í honum að leggja fram sama fjármagn  til t.d  Droplaugastaða, þar sem eina lausnin virðist nú vera að einkvæða til að fá nægilegt fjármagn til rekstrarins. Átti ekki einkavæðingar/einkarekstrar stefnan að vera til að hagræða í rekstri og lækka kostnaðinn?Á nú að svelta allt heilbrigðiskerfið í einkavæðingu/einkarekstur, sem svo dæmin sanna að verður bara dýrara í rekstri á eftir?

Nei  rekstur heilbrigðiskerfis landsmanna er á ábyrgð heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra í sameiningu, en ekki samningarnefndar ríkisins eða forstöðumanna  stofnanna . Þeirra hlutverk er að reka þær stofnannir, og halda sig innan þess ramma  sem þeim er skammtaður. Það er ríkisins að tryggja að sá rammi sé raunhæfur.

 

Takk fyrir Björk og Sigurrós.

Maður getur ekki annað en hrifist af framtaki þeirra Sigurrósarmanna og Bjarkar í sambandi við náttúrutónleika þá er fram fóru nú um helgina. Þar var vakinn athygli á málefni sem við höfum því miður látið svolítið sitja á hakanum, og einblínt í eina átt hvað það varðar.

Ég hef verið talsmaður þess að álvinnsla fari fram hér á landi, og þá hef ég bæði hugsað út frá að hnattræn losun koltvísýringsins sem af hlýst  er lítill hér á landi sökum þess hverslags orka er notuð við framleiðsluna , og svo hitt að hér hefur verið þörf fyrir atvinnusköpun.

Hitt er svo annað mál og hverjum manni hollt að hugsa um, það  sem þau  Börk og Sigurrósarmenn eru að vekja máls á hvort ekki séu til aðrar leiðir sem betri eru til að nýta þá orku sem við höfum yfir að ráða. Hvort ekki sé tími til kominn að við hugsum aðeins út fyrir hringinn hvað varðar orkunýtingu okkar.

Sú krafa verður stöðugt háværari að við gætum okkar við virkjunaráform, og leyfum náttúrunni að njóta vafans. Það held ég sé rétt. Þær virkjanir og ákvarðanir sem við tökum í framtíðinni verða að skila okkur hámarkságóða, og nauðsynlegt að sem mestur hluti þess ágóða sitji eftir í landinu.

Nú er það svo að fyrirsjáanlegt er að í nánustu framtíð er það orkukostnaðurinn sem kemur til með að vera eitt af því hefur úrslitaþýðingu hvað varðar staðsetningu ýmissa fyrirtækja , ekki bara stóriðju heldur einnig ýmissa minni framleiðslufyrirtækja  og hugbúnaðarfyrirtæki sem ekki menga jafn mikið og stóriðjan gerir. Hvert og eitt þeirra nýtir kannski ekki jafn mikla orku og stóriðjan gerir, en mörg saman gætu þau  orðið sá vaxtarsproti sem  hægt væri að byggja á.

Vel mætti hugsa sér að í framtíðinni þegar teknar eru ákvarðanir um frekari virkjanir, að skilyrt sé að sú raforka sem þar fáist , verði sett á uppboðsmarkað, þar sem bæði ráði það verð sem menn eru tilbúnir að greiða fyrir, auk þess  sem tekið yrði tillit til þeirrar mengunar sem frá fyrirtækjunum yrði. Þannig  gæti maður ímyndað sér að hámarksverð fengist , jafnframt sem auðvelt yrði að hafa stjórn á þeirri mengun sem af hlytist. Auk þess sem maður gæti ímyndað sér að hægt yrði að skapa mörg spennandi störf vítt og breytt um landið væri þessari aðferð beitt.

Jafnvel mætti hugsa sér að settur yrði á þetta ákveðin staðsetningarkvóti, þannig að tryggt yrði að landsbyggðin öll myndi njóta. Þannig gæti maður séð fyrir sér að smá og meðalstór fyrirtæki sem tækju mið af aðstæðum á hverjum stað yrðu þar með til á stöðum þar sem engan hafði órað fyrir. Klárt yrði þá að vera að staðsetningarhluti kvótans yrði aldrei framseljanlegur og gæti þannig lagt heilu byggðirnar í rúst eins og fiskveiðikvótinn forðum daga.

Auðvitað eigum við að notfæra okkur þá stöðu sem upp er kominn í orkumálum heimsins og nýta okkur hana til framdráttar sem víðast um landið. Laða að hátæknifyrirtæki, sem borga há laun og hafa þörf fyrir orku. Í því efni eigum við að hugsa sem samfélag, og leyfa okkur að setja reglur sem gætu orðið öllum til hagsbóta, sé rétt að staðið. Það er nefnilega svo að það er ekki alltaf stærðin sem skiptir öllu, gæðin eru líka mikilvæg. það vita Björk Guðmundsdóttir og Sigurrós. Hafi þau þökk fyrir að vekja mig til umhugsunar.

 

 

Hvers vegna er ég ekki hissa

Nýverið fékk ég heldur óskemmtilega kveðju frá bæjarstjóranum mínum, þegar ég vogaði mér að hafa orð á nýstárlegri fjármögnunarleið Fasteignar ehf hvað varðaði byggingu grunnskóla í Sandgerði. Hann sagði mig ekkert það vita  til að geta fullyrt að Fasteign ætti í fjármögnunarörðugleikum. Reyndar alveg rétt hjá honum því um það var ég alls ekki að fjalla.

ÉG spurði spurningar hvar skynsemin lægi í því bæjarfélög tækju lán til að lána framkvæmdaraðilum, svo framkvæmdaraðilinn gæti leigt bæjunum viðkomandi eign. Við því fékk ég ekkert svar, svo ég hafði í raun gleymt þessu máli þar til í morgun að vinur minn austan af fjörðum hringdi í mig og benti mér á  grein í Austurglugganum, sem ég læt hér fylgja með

Í raun er þetta bara staðfesting á því sem ég og fleiri höfum verið að reyna að segja fyrir ansi daufum eyrum, að aðferðarfræði sú sem þeir sem stóðu að stofnun Fasteignar ehf er fyrir löngu komin í þrot hvað varðar sveitarfélögin að minnsta kosti. Gaman væri þó telji menn mig hafa rangt fyrir mer hvað varðar að þeir útskýrðu á hvern hátt þetta er til hagsbóta fyrir sveitarfélögin.

Nú ætla ég ekki að svo stöddu, að fara að rifja upp öll þau rök sem fylgdu þeirri ákvörðun að fara þessa leið, en vil minna á að ein meginrökin voru auðveldur aðgangur Fasteignar ehf að lánsfé á betri kjörum en sveitarfélögunum bjóðast. Það hefur í allan þann tíma sem Fasteign. ehf hefur verið starfandi aldrei verið raunin eftir því sem ég kemst næst.

Það að ætla að fjalla um þessi mál á skynsamlegum nótum, og út frá hagsmunum bæjarfélaganna hefur reynst erfitt til þessa eins og dæmin sanna. Menn virðast velja að lýta á alla umræðu um þetta mál sem annað hvort árás á  Fasteign, eða árás á stefnu þeirra sem valið hafa að fara þessa leið. Í raun snýst málið um hvorugt. Heldur á málið að snúast um hvort ekki sé kominn sá tími að menn setjist niður og endurskoði málið í ljósi þeirrar reynslu sem komin er. Margt hefur komið í ljós sem ekki er í anda þess er að var stefnt í upphafi.

Í mínum huga hafa það margir gallar komið í ljós á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Fasteignar. ehf að nú sé  tími kominn til að sé tími til komin til að endurskoða hvort menn hafi fengið það út úr þessu félagi sem að var stefnt. Hefur fjármögnun þeirra verkefna sem félagið hefur þegar unnið,verið ódýrari heldur en sveitarfélögin hefðu fjármagnað þau sjálf? Hafa öll verkefni verið boðin út, og þannig verið reynt að halda kostnaði niðri.

Það er engu sveitarfélagi hollt að vaða áfram í framkvæmdum án þess að hafa þar efni á. Nú þegar hafa sum þeirra sveitarfélaga sem í upphafi völdu þessa leið sett sig í slíka skuldastöðu gagnvart Fasteign.ehf að erfitt gæti orðið að losa sig þar úr. Og jafnframt hugsanlegt að frekari stækkun bæjarfélaganna til framtíðar gæti verið hættu sökum þeirrar skuldbindingar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Lítil blaðra

 

Eitthvað virðist  þessir sólbjörtu dagar undanfarið hafa lagst illa í blaðamanninn Agnesi Bragadóttur, og ekki laust við að breytingarskeið það sem hún er að ganga í gegnum á Morgunblaðinu leggist eitthvað  illa í hana. Breytingaskeið  ýmiskonar er mér sagt lýsa sér einmitt oft með skapofsaköstum og allskonar ofskynjunum sem í  raun eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.

Hún nefnir grein sína Á jarðsprengjusvæði , nafn sem gefur til kynna að nú sé eitthvað stórmerkilegt á  ferðinni , málefni sem vert sé að fjalla um. Þegar nánar er að gáð er greinin að mestu ógrundaður fúkyrðaflaumur í  garð forseta vors Hr.  Ólafs Ragnars Grímssonar. Vonandi er þetta ekki  hin nýja ritstjórnarstefna  sem  boðuð hefur verið.

Nú ætla ég mér alls ekki að fara að verja forseta vorn , vegna þess að í mínum huga þarf þess ekki , það vel hefur hann staðið sig, og sést kannski best á því engum datt í hug að bjóða sig fram á móti honum. Hinsvegar tel ég rétt að draga fram nokkur þeirra atriða sem Agnes skrifar um henni til athugunar, þegar æsingurinn rjátlar af henni.

Fyrir það fyrsta, og það ætti jafn reyndur rannsóknarblaðamaður og hún að vita, að þegar rætt er um eitthvað sem fólk á að hafa sagt , þykir það góður siður að nota tilvitnanir, en ekki gefa í skyn að eitthvað hafi verið sagt , eða að mann minni að slíkt hafi veið sagt. Sé sú aðferð notuð kallast það dylgjur, og gæti jafnvel lýst skítlegu eðli viðkomandi.

Hitt er svo annað sem mér fannst skrýtið í söguskýringu rannsóknarblaðamannsins , var hvernig hún nálgaðist  stöðu forsetans meðal þjóðarinnar , og nefndi þar til að ekki sé nóg að vera með þjóðinni eingöngu á hátíða  og tyllidögum eins og 17.júní og um áramót.  Þennan punkt hennar skildi ég ekki. Ég hef nú ekki betur séð en þau hjónin séu mjög öflug við að vera viðstödd og heimsækja hina margvíslegustu atburði víðsvegar um landið. Sá þeim meðal annars bregða fyrir bara fyrir nokkrum dögum í tilefni af 100ára afmæli Garðsins.  Og óhætt er að segja að hann hafi heldur betur verið með þjóð sinni , þegar hér var reynt að þröngva í gegnum þingið fjölmiðlafrumvarpinu fræga . En þetta hefði náttúrulega góður rannsóknarblaðamaður athugað ef hann vildi að eitthvað mark væri tekið á skrifum sínum.

Hvað varðar meinfýsni rannsóknarblaðamannsins  í sambandi við utanferðir forsetans , er ljóst að þann lið málsins þyrfti hún að athuga betur. Nú er það svo að flest okkar erum mjög sátt við þær utanferðir, og kannski sérstaklega vegna þess að hér er á ferð maður sem ekki eingöngu er að sinna þeirri skyldu sinni að fara í kurteisisheimsóknir, heldur hefur hann líka eitthvað til málanna að leggja, svo eftir er tekið. Og það um mál sem ofarlega er á baugi um víða veröld. Það er orkuvandamál og loftlagsvandamál heimsins. Þar hefur hann unnið mikið gagn.

Nei þessi grein var bara lítil blaðra, sem einu sinni hafði ekki verið blásið í og sagði því ekki puff, þegar á var stungið.

 

Aðstöðumunur í launabaráttu?

Það er skrýtið hvernig  gæðum lífsins er misskipt. Fór eitthvað að hugsa um yfirvofandi verkföll flugumferðarstjóra, sem að því er manni skilst  vera meðlaun á milli 6oo og 800 þúsund á mánuði, með 1 klukkustundar yfirvinnu að meðaltali á dag. Laun sem flest okkar myndu vera fullsátt við eftir eins til tveggja ára nám jú og svo einhverja starfsreynslu. Svo fór ég að hugsa um yfirvinnubann blessaðra hjúkrunarfræðinganna, sem að því er manni skilst eru ráðnar eftir 4 ára háskólanám fyrir um það bil 250 þúsund á mánuði.

Auðvitað er þetta ekki rétt hjá manni að setja svona dæmi upp. Stétt á móti stétt, en leyfi mér nú að gera það samt, því einhvern veginn hef ég enga sérstaka samúð með flugumferðarstjórunum í þessu dæmi. Í sjálfu sér finnst mér allt í lagi að slíkar stéttir geri launakröfur, en þær verða þá líka að vera innan skynsamlegra marka. Og þá verða menn líka að vera tilbúnir til að taka tillit til aðstæðna og umhverfisins í kringum sig. Flugumferðarstjórum er fulljóst að það sem þeir raunverulega eru að gera er að kúga viðsemjendur sína í krafti þeirrar stöðu sem þeir hafa, og þeim virðist vera nokkuð sama hverjar afleiðingarnar verða, bara að þeir fái 26% launahækkun á sín laun.

Það er ljóst að fari þeir fram með þessum aðferðum mun bæði  ferðamannaiðnaðurinn, sem þegar hefur samið um hóflegar hækkanir í ljósi stöðunnar og flugfélögin bera skaða af.

Hinsvegar hef ég fullan skilning á aðgerðum hjúkrunarfæðinganna sem eftir fjögurra ára háskólanám sætta sig ekki lengur við að nám þeirra og ábyrgð í starfi sé ekki metin að verðleikum. Og  hvort sem menn vilja viðurkenna eða ekki að það byggjast þessi laun á að  að þarna er um kvennastétt að ræða. Auðvitað gæti ég tekið fleiri stéttir með í þessa upptalningu svo sem sjúkraliða, leikskólakennara og fleiri  sem svipað er statt um.

Nú gæti ég skrifað langa grein um mikilvægi hjúkrunarfræðinganna fyrir heilbrigðiskerfið, en það er í raun ekki það sem ég hafði ætlað mér að ræða hér um. Heldur er það þessi  aðstöðumunur í launabaráttunni sem ég er að hugsa um. Ég held að enginn vildi sjá þá stöðu koma upp að hjúkrunarfræðingarnir  ákveddu að  hætta að gefa sjúklingum í æð  á ákveðnum tímum , og þeim dytti það heldur ekki í hug. Þeir þekkja sína ábyrgð. Þeirra  vinna byggir nefnilega líka  af hugsjón, því ekki er það launanna vegna .

Það hlýtur að fara að koma sá tími að jafnþróað samfélag og við búum í fari að átta sig á að vinnuframlag  svonefndra kvennastétta  er mikilvægt , og komin tími til að greiða fyrir það samkvæmt því . Því heldur vil ég hafa hjúkrunarfræðing hjá mér á dánarbeðnum ef ég flýg  til himna , heldur en flugumferðarstjóra.


Maður verður að vera sveigjanlegur

Sum okkar erum þannig að minnsta áreiti í morgunsárið, hefur áhrif allan daginn, og stundum meira að segja tvo daga í röð. Maður verður svona hálf utan við sig og nær einhvern veginn ekki almennilega að einbeita sér að öðrum hlutum . Stundum verður þetta áreiti jafnvel til út af hlutum sem manni koma ekkert við og á mörkum þess  að vera dónalegt að nefna  í heyranda hljóði.

Svona er þetta með mig. Get náttúrulega verið hinn glaðasti í morgunsárið, en einnig grautfúll ef því er að skipta. Nú er ég búinn að vera grautfúll  tvo daga í röð, og allt þetta út einhverju sem mér kemur ekkert við og  jafnvel dónalegt að tala um . Efnahagsmálin.

Þetta byrjaði allt á hádegi í gær, þegar fréttir bárust alla leið frá útlöndum um að forsætisráðherrann okkar útskýrði fyrir erlendum fjárfestum hve gott væri að hafa krónuna okkar, hún skapaði þann sveigjanleika sem nauðsynlegur væri  til að stýra þjóðarskútunni í gegn um þann ölduskafl , sem hún er í nú. Þá skildi ég alveg í heila tíu mínútur, hversvegna forsætisráðherranum finnst ekki skynsamlegt að stefna á stöðugt efnahagsumhverfi , t.d með því að athuga hvort upptaka Evru, eða í það minnsta að koma málum þannig fyrir að það væri mögulegt. Sveigjanleiki er málið.

Hvernig væri t.d staða bankanna í dag ef þessi sveigjanleiki væri ekki fyrir hendi. Nú þegar komið er að hálfsárs uppgjöri þeirra. Að vísu skilst manni á talsmönnum þeirra að það sé ekki af þeirra völdum sem staða krónurnar er svo veik sem raun er , þeir væru sko ekki að eiga neitt við gengi krónunnar , þetta eru sennilega einhverjir erlendir spákaupmenn sem á ferð. Síðast í mars var þetta einhver lítill spákaupmaður í Bretlandi sem orsakaði öll þessi læti, og örugglega sá  sami á ferð núna.

Það breytir þó ekki því að það er sveigjanleika krónunnar að þakka að skv. blöðunum í morgun sýna þau gengishagnað bankanna  upp um það bil 80. milljarða. Að vísu eru það heimilin og hinir almennu launamenn í landinu sem borga þennan brúsa í formi hárra vaxta og stöðugt hækkandi verðs á neysluvörunni. Sveigjanleikinn virkar.

Á þessum  tveimur dögum hef ég loksins öðlast þann djúpa skilning, sem hlýtur að vera undirstaðan að jafnlyndi  og óbilandi bjartsýni bæði forsætis og fjármálaráðherrans. Það er að treysta á sveigjanleikann. Ef þetta er rétt skilið hjá mér , þá reikna ég með að strax og spákaupmaðurinn í Bretlandi  hefur bjargað hálfsársuppgjöri bankanna, sem er nú um mánaðarmótin taki gengið aftur að styrkjast, ríkið gangi frá lánveitingu vegna gjaldeyrisforðans, og  menn  uni glaðir og  sáttir við sitt fram að næsta ársfjórðungsuppgjöri  bankanna. Þá hefur sveigjanleikinn sannað gildi sitt sem hagstjórnartæki.


Reikningnum lokað.

Efnahagsvandræði ríkistjórnarinar er nú byrjuð að taka á sig ýmsar myndir, og stundum veit maður hreinlega ekki hvort maður eigi að hlæja eða gráta.  Í dag gat ég þó ekki stillt mig um að hlæja og það gerðu einnig flestir þeir er vitni urðu að.

Enn eina ferðina gat ég ekki stillt mig um að stelast  inn á Básinn hér í Reykjanesbæ, til að fá mér eina pylsu og kók. Er ég kem rennandi að bensínstöðinni sé ég að lögreglubíll er við bensíntankinn, og verið að fylla á hann. Svo sem ekkert merkilegt við það, því þarna stoppa þeir reglulega til að taka eldsneyti.

Ég bauð bensínafgreiðlumanninum góðan dag, og rölti inn ætlaði að panta mér eina pylsu og kók. Tek þó eftir að eitthvað undarlegt er á seyði , þegar lögreglumaðurinn sem verið hafði að taka bensín ætlar að ganga frá reikningnum kemur í ljós að honum hafði verið lokað fyrir frekari  viðskipti. Lögreglumanninum sem greinilega kallaði ekki allt ömmu sína þegar að lausnum vandamála kom, varla brá, og sagði að sami hluturinn hefði gerst fyrr um morguninn hjá öðrum bíl.

Lögreglumaðurinn útskýrði að ekkert úttektarkort væri í þessum lögreglubíl, svo hann yrði að hringja í einhvern af þeim bílum sem slíkt kort hefði. Besínafgreiðslumaðurinn myndi svo skrifa útskýringu sem útlistaði að bensínið hefði farið á þennan bíl. Þetta leystu þeir vel að mér fannst og ljóst að þessi lögreglubíll myndi að minnsta kosti  komast í nokkur útköll áður en bensínið yrði búið á ný.

Auðvitað er þetta ekki  neitt sniðugt að borgarar þessa lands, skuli þurfa að verða fyrir upplifun sem þessari ,að sjá að svo naumt virðist vera skammtað að nú er það ekki lengur skortur á lögreglumönnum sem er vandamálið, heldur hvort til sé peningur fyrir bensín á lögreglubílana. Nú veit ég vel að allt er gert til þess að spara í útgjöldum og er það vel, en sparnaður af þessu tagi finnst mér nú fullmikið af því góða.

Það fannst mér hinsvegar gott að uppgötva að traust mitt á lögreglumönnunum sem vinna verkin hafði ekki minnkað við þessa upplifun, þvi einhvern veginn hafði ég á tilfiningunni að ef ríkið myndi ekki borgað þetta þá myndi lögreglumaðurinn gera það sjálfur, og reyna svo að rukka ríkið. Hinsvegar hlýtur það að vera á ábyrgð ráðheranna sem með þessi mál fara að tryggja að svona hlutir gerist ekki.


ísbjarnarblús

Á  löngum árafjölda hefur íbúum Suðurnesja tekist  að byggja upp glæsilegt og gott fyrirtæki , sem er Hitaveita Suðurnesja. Um hana hefur ríkt einhugur meðal íbúa svæðisins, og menn viljað veg hennar sem mestan. Líkt ikt og æðarkollan hefur hún veitt okkar það fiður sem til hefur þurft til að veita okkur yl á stormasömum  síðkvöldum  suðurnesjanna. En nú er kominn stór ísbjörn í æðarvarpið, sem hefur ekki getað  unað því að æðakollurnar verði í friði í varpinu  og ungi út þeim eggjum sem verpt var.

Það er gott að sjá að bæjarráð Reykjanesbæjar hefur nú tekið þá afstöðu í morgun að það sé ekki hlutverk sveitarstjórnarmanna að taka þátt í áhættufjárfestingum, heldur eingöngu þá samfélagslegu þætti sem þeir eru kjörnir til að gæta. Þetta gerðu þeir með því að hafna erindi Geysis Green Enegy í morgun um að auka hlutafé bæjarins í því fyrirtæki. Jafnframt sendu þeir út þau skilaboð að þeir myndu standa þann vörð, að tryggja að þeir einkaaðilar sem komnir eru að fyrirtækinu nú yrðu að átta sig á að meirihlutinn væri til framtíðar í opinberri eigu. Það fannst mér gott.

Hvernig í ósköpunum dettur mér nú í hug á jafn sólbjörtum og fögrum degi sem þessum að vekja máls á þessu , og hætta þar með á að raska þessari notalegu sumarstemmningu sem nú umlykur allt.Ljóst er að senn kemur að vatnaskilum hvað varðar framtíð Hitaveitu Suðurnesja. Brátt verður ganga í það að skipta því fyrirtæki upp í anda nýsamþykktra laga orkumálaráðherrans. Og þá skiptir máli fyrir þá sem fara með hlut þeirra opinberu aðila sem eiga þar hlut , að átta sig á hve mikil þau verðmæti  eru .

Á  viðskiptasíðum  dagblaðanna  hafa  undanfarið birst greiningar og umfjallanir um stöðugt aukna sókn  fjárfesta í  þær orkulindir  og orkufyrirtæki sem  vistvæn eru. Út frá þeirri umfjöllun má ljóst vera að þau verðmæti sem sköpuð hafa verið, eiga eingöngu eftir að verða verðmætari í framtíðinni , og afurðin á eingöngu  eftir að hækka í verði.

Nú er ljóst að þegar Hitaveita Suðurnesja var stofnuð á sínum tíma, var megintilgangur hennar að sjá íbúum svæðisins  fyrir rafmagni og hita á sanngjörnu verði. Það er líka jafnljóst að nú þegar til uppskiptingar kemur er líklegt að þeir fjárfestar sem þegar eru komnir inn fái í sinn hluta virkjanirnar og sölukerfið þó ljóst sé lögunum samkvæmt að þeir ná ekki meirihluta í dreifikerfinu og sjálfri auðlindinni.

Í mínum huga þarf það að vera ljóst þegar til þessarar uppskiptingar kemur , að tryggt sé til allrar framtíðar að verð það sem við almennir notendur svæðisins erum að greiða hækki ekki með eða vegna  tilkomu einkaaðila að greininni. Að verð á heitu vatni og rafmagni verði ekki háð spákaupmennsku svipað og olíuverðið er nú.

Ég veit ekki hvort  hægt sé að temja  ísbirni á einhvern hátt , og jafnvel kenna þeim að æðarfuglar eiga sama rétt á lífi og þeir . Efast um það. Ef hins vegar sé ljóst að ísbjörninn sé kominn til að vera, þá verður sú öryggisgirðing sem reist er í kringum hann í æðarvarpinu að vera svo vel  byggð og sterk að hann átti sig á að þar fari hann ekki yfir,og vel vöktuð Hann átti sig á að æðakollurnar og bóndinn eru sennilega betri til að umgangast varpið þannig að allir hafi þar hag af. Líka ísbjörninn.


Rússnesk rúletta?

 

Það eru skrýtnar tilfinningar sem bærast innra með manni þessa dagana. Hálfgerður ótti við framtíðina. Forsætisráðherrann sem fyrir rúmu ári boðaði að framtíðin væri björt fyrir okkur íslendinga , stendur nú álútur á Austurvelli og boðar nýjar áherslur, nú þurfi þjóðin að búa sig undir að þurfa að standa saman sem aldrei fyrr, draga úr eldsneytisnotkun og annað í þeim dúr .

Það er náttúrulega auðvelt fyrir hann að biðja um að við herðum aðeins sultarólina, en á móti verður náttúrulega að koma að hann sýni hvað hann og ráðuneyti hans er að gera til að sporna við vandanum. Hingað til hefur það verið harla lítið. Það er ekki nóg að fá lánsfjárheimild frá Alþingi, til að styrkja gjaldeyrisforðann, það þarf líka að nýta hana.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr þeim ytri aðstæðum sem haft hafa áhrif á efnahagsstöðu okkar í dag, það er u flestar þjóðir að glíma við sama vandamálið hvað það varðar. En hinu megum við ekki gleyma að  stór hluti vandans liggur hjá okkur sjálfum og þeirri stefnu sem fylgt hefur verið hér undanfarin ár. Af því eigum við að læra og viðurkenna þau mistök sem gerð hafa verið.

Eitt er það sem ég hef undanfarið verið að spyrja sjálfan mig, en ekki fundið nein algild svör við og það er hvað er það sem við höfum gert svo vitlaust að staðan þurfi að vera svona eins og hún er. Getur það verið að sú botnlausa trú á einkaframtakinu og frjálsræðinu eigi hér einhverja sök á máli, að við höfum ekki sett ramma sem náð hefur að spyrna við fótum þegar þörf hefur verið á.

Hver er til dæmis ástæðan fyrir því að Seðlabankinn setti ekki viðunandi bindiskyldu á bankanna á sama tíma og þeir lánuðu sem óðir væru, í trausti þess að aðgangur þeirra að ódýru fjármagni myndi vara um aldur og eilífð. Væri staðan önnur ef slíkt hefði verið gert? Höfðu bankannir í raun engar skyldur til að tryggja framtíðargrundvöll sinn ,um leið og þeim var leyft að spila rússneska rúllettu með efnahag þjóðarinnar.

Nú virðast  þeir svo enn einu sinn komnir í gang með spákaupmennsku og hugsanlega reyna að  veikja krónuna til að 6. mánaða uppgjörið líti betur út, þrátt fyrir að öllum sé ljóst að sú staða sem þeir sýni þá eru ekki raunveruleg verðmæti þeirra , heldur hrein og klár spákaupmennska. Og ætlast svo til að erlendu matsfyrirtækin séu svo einföld að sjá ekki í gegnum þetta. Halda menn að álögin á millibankamörkuðum séu tilviljun?

Getur það virkilega verið að Ríkissjóði Íslands sem fyrir örfáum mánuðum var með svo sterka stöðu á lánamörkuðum , sé ekki unnt að fá lán á viðráðanlegum kjörum vegna þess að ljóst er yfirfjárfesting bankanna sé svo rosaleg að enginn treysti því að ríkið nái að koma í veg fyrir að einn eða tveir þeirra séu hreinlega að fara á hausinn? Við verðum að vona ekki því þar er stór hlutur af lífeyrissparnaði  þjóðarinnar geymdur. Í sjóðum bankanna.

Auðvitað gengur þetta ekki miklu lengur að ríkistjórnin þegi og láti eins og þetta sé eitthvað sem þjóðinni komi ekki við, og væni menn um dónaskap ef þeir dirfast að spyrja. Það er ljóst ef ekki á virkilega illa að fara að Seðlabankinn og Ríkistjórn  taki nú á málinu af myndugleik og séu bankarnir að keyra niður krónuna, þarf að taka á því. Því það erum við sem þurfum að borga fyrir þær æfingar jakkafatastrákanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband