Ég er kominn heim.

Það er skrýtið hvernig hlutirnir æxlast, ekki liðinn nema tæpur mánuður frá að ég sagði mig úr blessuðum Sjálfstæðisflokknum, af ástæðum sem ég hef áður gert grein fyrir , þá ætlandi mér að hugsa minn gang vel um hvort ekki væri nóg komið af pólitísku starfi sem áhugamáli af minni hendi. Tími komin til að róa sig niður og huga að blómarækt og frímerkjasöfnun.

Þetta hefði verið frábær framtíðarsýn, og ljóst að meðvitundarleysi mitt hefði getað orðið algert. Atburðir síðustu daga hafa hinsvegar komið blóðinu á hreyfingu á ný, og breytingar sem engan hafði órað fyrir að verða  á þjóðfélagi okkar. Breytingar sem sé rétt á haldið geta verið í anda þess er ég hef talað fyrir. Hér gæti risið upp samfélag sem byggir á jöfnuði  og skynsömum gildum. Græðgin fær að víkja.

Til þess að slíkar breytingar nái fram að ganga er svarið ekki að draga sig til hliðar og láta aðra um að marka stefnuna , heldur taka þátt telji maður sig hafa eitthvað til mála að leggja og það tel ég að ég hafi. Það er hreint ekki erfitt fyrir mig sem  frjálslyndan jafnaðarmann sem lagðist í ferðalag er Alþýðuflokkurinn sálugi lést , að finna hvar mitt heimili er nú , og raunar eðlilegt framhald miðað við það sem á undan er gengið, og það er í Samfylkingunni.

Ég hef því skráð mig til starfa hjá Samfylkingunni , og hyggst taka þar fullan og einlægan þátt í því mikla starfi sem framundan er. Það er gott að vera kominn heim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Hversvegna að ganga úr einum regnhlífarsamtökum í önnur.  Samfylkingin er bara kosningabandalag milli gömlu flokkana sem að henni standa og stefnan er samin á auglýsingastofum, prentuð gefin út og klappað fyrir henni á landsfundum.  Tala nú ekki um varaformannskjörið síðast sem er brandari sem seint verður endurtekinn.   Komdu bara í alvöru gamalgróinn stjórnmálaflokk og ég skal taka vel á móti þér.

G. Valdimar Valdemarsson, 13.10.2008 kl. 19:41

2 Smámynd: Stefán Þór Steindórsson

Þú getur kanski sagt mér til hvers yfir höfuð þú kýst að vera flokksbundinn? Kýstu alltaf þinn flokk þá ?  Allavega skil ég ekki fólk sem getur hugsað sér að vera svona blint. Flokkarnir breytast með breyttu fólki og stefna flokks er ekki ólík milli flokka.. Tel að best sé að mynda sér skoðun á flokkum/fólki hverju sinni og láta ekki blindast að merkinu sem límt er í afturrúðu bílsins.

Stefán Þór Steindórsson, 13.10.2008 kl. 22:03

3 Smámynd: G. Valdimar Valdemarsson

Ef að enginn væri í stjórnmálaflokkum væru engir flokkar.  Fólk fer í flokka á mismunandi forsendum, ég fór í minn flokk vegna þess að hann lá nærri mínum skoðunum og síðan hef ég unnið í flokksstarfi til að tryggja að svo verði áfram.

G. Valdimar Valdemarsson, 13.10.2008 kl. 22:23

4 Smámynd: Hannes Friðriksson

Sælir félagar

Ég þakka þér góðar kveðjur Valdimar, en tel mig nú vera kominn heim, þar sem ég ætla að vera. En þykir þó vænt um grannan.

Stefán, það að ég velji að vera flokksbundinn þýðir að þannig fæ ég tækifæri til að hafa áhrif á það í hvernig þjóðfélagi ég vil lifa. Að vinna að þeim málum sem mér eru hugleikin.

Það hlýtur að vera erfitt að mynda sér skoðun á flokkum eða fólki ef enginn er vettvangurinn til þess að kynnast því, fyrir hvað viðkomandi standa.  Það er betra að kíkja ínn í bílinn til að sjá hver þar er, frekar enn að einblína á merkið sem á rúðuna er límt.  Konan biður hinsvegar að heilsa þér, hún er nokkurvegin sammála þér (þess stundina):)

Hannes Friðriksson , 13.10.2008 kl. 22:42

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef þú ert ekki úti á vinstri kantinum, ættirðu þá ekki að styðja flokk sem frá upphafi tilveru sinnar hefur haft að helsta stefnumáli sínu ábyrgð gagnvart samfélaginu, framtíðinni og afkomendunum og frelsi, jafnrétti og bræðralag?

Flokk sem ekki samþykkir óheft frelsi sumra sem bitnar á frelsi annarra, jafnrétti og bræðralagi? Flokk  sem hvorki skilgreinir sig sem hægri flokk né vinstri flokk og er með flokksmerki þar sem rauður litur samfélags, blár litur fjármagns og framleiðslu og grænn litur umhverfisins myndar hjól, sem aðeins getur rúllað ef þetta þrennt er í jafnvægi?

Flokk sem þrátt fyrir hræðsluáróður fékk fylgi sem nægt hefði öðrum flokkum til tveggja þingmanna en var neitað um þá vegna eins af mörgum vanköntum lýðræðisins hér á landi sem þarf að sníða af.  

Ómar Ragnarsson, 13.10.2008 kl. 22:42

6 Smámynd: Hannes Friðriksson

Blessaður Ómar

Þetta er allt saman rétt hjá þér, og fyrsti hlutinn á jafnt við um Samfylkinguna eins og þinn flokk og Samfylkingin er hvorki til hægri eða vinstri hún er í jafnaðarmannaflokkur á miðju íslenskra stjórnmála þar sem jafnaðarmenn mætast á jafnréttisgrundvelli og í bræðralagi. Óska þér all hins besta í framtíðinni

Hannes Friðriksson , 13.10.2008 kl. 23:14

7 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Sæll Hannes, 

Guðfinna rektor sagði oft (líklega eftir einhverjum öðrum) að "eina leiðin til að hafa áhrif á framtíðina er að vera sá sem leiðir breytingarnar." 

Gott hjá þér að hoppa út í laugina.  Það er hvort eð er allt of mikið af fólki á áhorfendapöllunum sem nennir ekki inn á völlinn.  Það er síðan bara útfærsluatriði og ákvörðun hvers og eins hvar hann telur sínum kröftum best varið.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 14.10.2008 kl. 02:38

8 identicon

Velkominn heim. Staðreyndir dagsins er að bæði hagkerfin nefnd hafa verið kapitalismi og kommúnismi eru dauð. Ein hugsjón stendur eftir og staðist tímans tönn, jafnaðarstefnan. Meir að segja Guðfinna rektor, samsinnir því. Sárleg skrif Ómars sem oftast er málefnalegur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.