Þriðjudagur, 7. júlí 2009
Bendi á blogg Láru Hönnu
Stundum er hlutirnir sagðir á þann hátt að aðrir þurfa ekki að endurtaka. Og það tel ég Láru Hönnu nú hafa gert þannig að orð mín um það sem hér er að gerast verða hjóm eitt í samanburði við það sem hún hefur tekið saman.
http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/
Sunnudagur, 5. júlí 2009
Áfram er haldið
Í ákafa áfram hann heldur
Árni í rökum og skynsemi geldur
Veldur hver er á heldur
Var bæjarstjórnarmeirihlutinn líka seldur?
Var bent á umfjöllun Jónasar Kristjánssonar um þetta mál, og ekki annað hægt annað en að dást af hve skiljanlega og í fáum orðum hann setur þetta fram: http://jonas.is/
Kaupin í HS Orku bænum í hag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 4. júlí 2009
Í mér blundar Sjálfstæðismaður,
Helsti og kannski eini hugmyndarfræðingur Sjálfstæðisflokksins Hannes Hólmsteinn Gissurarson , greindi fyrir fáum árum á eftirminninlegan hátt hvert væri helsta einkenni sjálfstæðismanna. Þeir græða á daginn, finnst gaman að grilla á kvöldin, og vilja láta aðra stjórna fyrir sig. Það er greinilegt að ég er ennþá svolítill sjálfstæðismaður í mér. Mér finnst gaman að grilla á kvöldin.
Þetta var það sem mér datt í hug núna í morgunsárið og sá fyrirsögn Morgunblaðsins um málefni Hitaveitu Suðurnesja. Þar grasserar greinilega spillingin sem aldrei fyrr, og það sem verra er hún virðist gera það undir verndarvæng ríkisins að þessu sinni. Sem virðist ekki ætla sér sem eini virki hluthafi GGE að grípa inn í þá atburðarrás sem þar er í gangi. Það á að leyfa útrásarguttunum að fara sínu fram í bankakerfinu hér eftir sem hingað til.
Ætli sú ríkistjórn sem nú situr að láta taka eitthvað minnsta mark á þeim orðum sínum að meiningin sé að byggja upp nýtt Ísland með nýjum gildum getur hún í ljósi þeirra upplýsinga sem nú hafa komið fram ekki setið lengur hjá í þeim leik, sem nú í langan tíma hefur verið leikinn á Suðurnesjum undir stjórn bæjarstjórans Árna Sigfússonar í Reykjanesbæ, sem með fjármálasnilli og stjórnvisku einnig hefur nú tekist að eyðileggja alla framtíðarmöguleika HS.
Nú ber þeim er fara með völdin, og bankanna að leysa til sín endanlega Geysir Green Energy og færa Hitaveitu Suðurnesja að öllu leyti til opinberra aðila á nýjan leik. Hinir framtaksömu einkaaðilar sem þar hafa ráðið ríkjum undanfarin ár hafa nú sýnt svo ekki verður um villst að þeim er ekki treystandi til að fara með það sem við hér eftir skulum kalla fjöregg þjóðarinnar orkuna. Sem er það afl sem við þurfum á að halda til að koma okkur út úr þeim ölduskafl sem frjálshyggjan og trúgirnin hefur fært okkur.
Árni Sigfússon tilkynnti á vef Víkurfrétta að hann hygðist kalla til íbúafundar í næstu viku til að fjalla um málefni HS Orku. Og fegra sannleikann á þann hátt sem honum og meirihluta hans hér í bænum er svo lagið. Bókun þeirra í bæjarráði fyrr í vikunni segir í raun allt sem segja þarf um hvað það er að marka orð þeirra. Einstaklega góður samningur fyrir Reykjanesbæ segja þeir að endurskoðendafyrirtækið hafi sagt í skýrslu sinni. Það getur varla verið sama skýrsla og umfjöllum Morgunblaðsins fjallar um í dag.
Sjálfstæðismaðurinn í mér segir mér að nú skuli ég fylgja honum og gera það sem mér finnst gaman að, ég ætla frekar en að fara á íbúafund bæjarstjórans sem eflaust verður forvitnilegur að vera heima og grilla það kvöld. Þannig held ég að tíma mínum og fjölskyldunnar sé best varið nú á miðju sumri þegar myrkraverk eiga ekki að geta átt sér stað.
Grindavík fer í hart | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 3. júlí 2009
Hvers vegna þessi hraði?
Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er fjallað um bankahrunið, og sagt að það sé stærra og viða meira en fall Enron. Og fjallar um hve erfitt er að fá að sjá gögn er tengjast því máli frá útlöndum. Hann hefur ekki verið hér lengi nýi rannsóknarmaðurinn, og þekkir ekki alveg íslenskt samfélag. Í málefnum HS Orku fá menn ekki að sjá nokkur gögn um málið, önnur en útskýringar Bæjarstjórans í Reykjanesbæ og meðreiðasveina hans. Þeirra útskýringar á þeim gjörningum sem þeir hafa framið á sjö ár valdatíma hafa ekki staðist raunveruleikann hingað til . Starfsemi bæjarins er nánast stopp sökum rekstrafjárvanda, og því verður nú að selja síðasta gullið. Hlut bæjarins í HS Orku.
Það sem hefur vakið athygli í þessu máli, og gagnrýni þeirra er kynnt sér hafa, er hvernig bæjarfélag sem eingöngu er ætlað að vinna að hagsmunum bæjarbúa, hefur valið að ganga fyrst og fremst erinda einkafyrirtækisins GGE, og án þess að þar liggi neinar sérstakar skýringar að baki. Sagt er að eina hugsanlega skýringin sé að fjárhagsstaða þeirra aðila sem samningana gerðu sé svipuð, og þeir því bundist bræðralagi við að bjarga hvor öðrum.
En sé staða Reykjanesbæjar svo slæm, sem sagt er þá er það hlutverk bæjarstjórnarmanna að búa svo um hnútana að það séu hagsmunir bæjarins sem ráði för við úrlausn þeirra mála. Og að farið sé að sveitarstjórnarlögum. Svo virðist ekki gert.
Formaður bæjarráðs sem vel veit að sveitarstjórnarlög hafa nú þegar verið brotinn í meðferð þessa máls, hefur náttúrulega útskýringar sínar á reiðum höndum, og heldur eru þær nú þunnar í roðinu þegar að þessum lið málsins. Meirihlutinn taldi nóg að á meðan meðferð málsins stæði í bæjarráði hefðu menn minniblað endurskoðenda þar sem að sögn stendur að bærinn hafi hér gert einstaklega góðan samning. Og að skýrsla sérfæðinga myndi liggja fyrir bæjarstjórnarfundi næsta þriðjudag.
Hverskonar málsmeðferð er þetta eiginlega. Eiga bæjarbúar að kaupa það að skýrsla sem soðin er saman yfir helgi séu nægjanleg gögn í máli sem þessu þar sem tæplega þreföld fjárlög bæjarins eru undir?
Hversvegna þessi hraði og óvönduðu vinnubrögð. Minnir þetta ekki óneitanlega á þau vinnubrögð sem völd voru að því hruni sem þjóðin tekst nú á við? Og er ekki allt í lagi að gefa sér þann tíma sem þarf til þess að samstaða náist um hvernig staðið skuli að sölu þessa hlutar sem virðist nauðsynlegur eftir sjö ára valdasetu jámannna Árna Sigfússonar
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 2. júlí 2009
Hingað og ekki lengra.
Nú virðist ljóst vera að kanadískt jarðvarmafyrirtæki MAGMA og Geysir green Energy komi til með að eignast nánast allt hlutfé HS Orku, og jafnframt þann nýtingarrétt á auðlindinni á Suðurnesjum, sem HS Orka hefur yfir að ráða til næstu 130 ára. Það eru mikil verðmæti sem verið er að láta frá sér fyrir lítinn pening vil ég meina. Þetta er gert í nafni tækifæranna og undir formerkjum trúnaðar og með dyggri hjálp bæjarstjórnarmeirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem virðast gera það sem þeim er sagt af bæjarstjóra sínum á hverjum tíma.
Það er umhugsunarefni sá munur sem fram kemur í afstöðu þeirra sjálfstæðismanna í Reykjavík á sínum tíma þar sem sömu leikendur viðskiptalífsins og reyndar stjórnmálanna léku aðalhlutverkin, en forðuðu sér út um bakdyr þegar leikurinn tók að kárna. Borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna vissu hvar þeirra trúnaður og hagsmunir lágu. Vissu til hvers þeir voru kjörnir. Það virðast bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ því miður ekki gera miðað við þau samningsdrög sem birt voru í fréttatíma RÚV í gær.
Að það skuli án þess að þeir hafi nokkuð við það að athuga rata inn í opinbert skjal að Reykjanesbær "Reykjanesbær mun beita kröftum sínum til að aðstoða GGE og aðila sem GGE muni tilnefna, við annað hvort bein kaup á eignarhluta í HS Orku eða að afla kaupréttar á viðbótarhlutum í HS Orku frá öðrum hluthöfum í HS Orku en þeim sem eru aðilar þessa samkomulags" og náist þessi markmið ekki fram mun Reykjanesbær "Fella brott gildandi forkaupsrétt hluthafa sem er að finna í samþykktum HS Orku og HS Veitna í krafti sameiginlegrar hlutafjáreignar sinnar". Maður spyr sjálfan sig hafa þessir bæjarfulltrúar enga samvisku hvorki sér til handa eða því byggðarlagi sem þeir þykjast vera að þjóna.
Svo virðist vera að þeir séu með í höndunum skjöl sem í eðli sínu eru þannig að hvorki fjárhagslegum hagsmunum Reykjanesbæjar sé þjónað, né heldur sé þar allt í anda þess siðferðis sem flestir venjulegir borgar vilja láta kenna sig við. Þeir virðast vera ennþá í þeim gír að allt sé gerandi undir nafni trúnaðar og kúgunar. Er enginn af þeim bæjarfulltrúum sem við kusum svo sterkur á svellinu að þora að standa upp eftir að hafa verið staðinn að þvi að detta svo kylliflatur fyrir fagurgala bæjarstjórans. Standa upp og segja Hingað og ekki lengra, nú skulum við þó seint sé fara að hugsa um hagsmuni bæjarins okkar , en ekki hvað viðskiptamógúllinn sem komið hefur bænum nánast á hausinn vill.
Miðvikudagur, 1. júlí 2009
Stóra myndin og litla myndin.
Nú hafa verið lögð fram öll gögn í ICESAVE málinu. Svo virðist vera sem að lítið sé annað að gera en að samþykkja þá samninga sem gerðir hafa verið. Forsvarsmenn ríkisins sem öllum er ljóst að all lengi að voru ekki sáttir við hvernig komið er fyrir þjóðinni, og hafa verið gagnrýnir á þær leiðir sem til umræðu eru hafa gert sitt til að útskýra að erfitt og áhættusamt sé að skrifa ekki undir samninga þessa. Og þeir hafa talað við fjölmiðla og útskýrt á hverju afstaða þeirra byggist. Það er stóra myndin menn hafa talið nauðsynlegt að útskýra fyrir þjóðinni hversvegna fórna þurfi hluta af gæðum þjóðarinnar í 15 ár til að komast aftur á réttan kjöl. Stóra myndin er með allt í fókus og allt sést greinilega. Þá mynd er hægt að dæma.
Ekki er þetta nú allstaðar eins. Stjórnarformaður Geysis Green Energy, fyrirtækis útrásarkónganna sem nú er að komast til valda í HS Orku sér ekki ástæðu til að gera grein fyrir því hversvegna binda þurfi hagsmuni og nýtingarrétt auðlindanna á Reykjanesi við fyrirtæki hans til næstu 130 ára, og flýr blaðamenn og sjónvarpsmyndavélarnar fullur hroka. Hann þarf ekki frekar en bæjarstjórinn í Reykjanesbæ að gera grein fyrir einu eða neinu. Samt er þarna um almannahagsmuni að ræða. Þeir ætla sér að þröngva sínum samningum í gegn án þess að fólk viti um hvað verið er að semja. Það er litla myndin. Og þar sést lítið annað en tveir menn sem helst ekki ættu að vera á mynd.
Bæjarstjórinn sem selt hefur nær allar eigur bæjarins, en vill eiga nánast öll rör í jörð á Suðurlandi, einhverra hluta vegna hefur ekki gert grein fyrir í hverju hagsmunir bæjarins eru fólgnir, né heldur hver hinn fjárhagslegi ávinningur er. Enda ekki hæfur til þess því þrátt fyrir skemmtilegheit og góða framkomu sýnir slóðin að ef það er eitthvað sem hann ekki veit nokkurn skapaðan hlut um þá eru það fjármál sveitarfélaga eða fyrirtækja. Hann vill ekki segja okkur hvernig hann ætlar með bæjarsjóð tóman, hafandi tekið lán fyrir síðustu afborgun síðasta láns, að greiða það lán sem hann nú þarf að taka til að eiga viðskipti við hinn manninn á litlu myndinni. Hann segir okkur bara að hann fái 50 milljónir til baka í formi auðlindagjalds, en ekki hvar hann fær hinar 100-180 milljónirnar sem upp á vantar í hinar árlegu greiðslur lánsins . Kannski hann taki bara líka lán fyrir því?
Hinn maðurinn á litlu myndinni, sem helst ekki vill vera þar vill heldur ekki gera okkur grein fyrir þeim spurningum sem við vildum svo gjarnan leggja fyrir hann. Hann vill ekki segja okkur hvaða réttlæti eða nauðsyn er á því að á sama tíma og Reykjanesbær geri viðskipti við fyrirtæki hans á því sem teljast megi eðlileg markaðskjör, fái fyrirtæki hans þar sem annar aðaleigandinn er nú þegar í greiðslustöðvun (Atorka) kúlulán án ábyrgðar hjá Reykjanesbæ til þess að geta eignast hlut Reykjanesbæjar í HS Orku. Hann vill ekki segja okkur hversvegna og hver nauðsyn þess er að selji Reykjanesbær þeim hlut sinn, bindi þó bærinn sig til þess að vinna að hagsmunum GGE innann HS Orku um ókomin ár. Hverjir eru hagsmunir HS Orku í því að Reykjanesbær sé að tryggja nánast gjaldþrota fyrirtæki stuðning sinn umfram aðra um ókomin ár.
Stóra myndin er skýr og klár til að leggja undir dóm, þar er allt uppi á borðinu eins og samfélagið kallar á . Þeir sem eru á litlu myndinni hafa hinsvegar passað sig á að ekkert sjáist, og virðast ætla að komast upp með að ganga frá samningum sem eingöngu flytur fé til nær gjaldþrota fyrirtækis. Þeirra sýn á lífið er að það komi engum við hvað þeir gera eða hver áhrif það kann að hafa til framtíðar, því þarna sé tækifæri sem ekki er hægt að sleppa hvað svo sem það kosti samfélagið.
Er ekki komin tími til að fá allt upp á borðið og taka svo mynd af því?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 30. júní 2009
Sannleikurinn mun gera yður frjálsan.
Sannleikurinn mun gera yður frjálsan stendur einhversstaðar, og ljóst að loksins eru þeir er sendu fréttatilkynningu þessa inn farnir að segja sannleikann í málefnum Hitaveitu Suðurnesja að nokkru leyti. Og fyllast gleði og bjartsýni á framtíðina og þá gjörninga sem þeir hafa boðað okkur. Sem lítil eða enginn innstæða er fyrir.
Á sínum tíma þegar meirihluti sjálfstæðismanna kynnti fyrirtæki útrásarvíkinganna, Geysir Green Energy sem heppilegastan allra samstarfsaðila lét bæjarstjórinn og reyndar forstjóri GGE hafa eftir sér, að þeir ásældust ekki meirihlutaeign í HS. Aðkoma þeirra að fyrirtækinu væri fyrst og fremst til þess að geta sýnt erlendum samstarfsaðilum GGE hvernig vinnsla jarðvarma færi fram og að sú þekking sem þyrfti, væri til staðar. Í fréttatilkynningunni kemur þó hið rétta í ljós. Geysir Green Energy hefur allan tímann haft á stefnu sinni að eignast meirihlutann í orkusöluhlutanum. Og nú hefur það verið staðfest af forstjóra GGE. Þetta skýrir náttúrulega þá atburðarrás sem nú er í gangi.
Sú aðferðafræði sem meirihlutinn í Reykjanesbæ hefur valið til að ná fram markmiði sínu um að einkavæða orkusöluhluta Hitaveitu Suðurnesja vekur sérstaka athygli. Hér er verið að ræða um samninga sem innibera næstum því þrefaldar fjárhagsáætlanir bæjarins. Og það er valið að ganga frá því máli á meðan bæjarstjórnin er í sumarfríi, og bæjarráð fer með málefni bæjarins.
Bæjarráði þar sem fjallað eru um mál undir formerkjum trúnaðar. Og enginn eða fáir vita hvað fram fer umfram það sem kemur fram í fundargerð hverju sinni. Og það er nú oftast lítið. Því ræður trúnaðurinn.
Nú ætla ég ekki að neita því né jánka að ég viti vel hvað í þeim samningum stendur sem ræddir hafa verið í bæjarráði undir formerkjum trúnaðarins, og tel mig ekki bundinn neinum trúnaði af þeim upplýsingum sem ég hef fengið þar af lútandi í þeim samtölum sem ég hef átt um þetta mál. Miðað við það sem ég hef fengið að heyra, eru þær upplýsingar þess eðlis að þeir samningar sem þar eru til umfjöllunar geta ekki á nokkurn hátt heyrt undir trúnað! Þar er verið að misnota eða nauðga öllum þeim hugmyndum sem flestir hafa um opinbera stjórnsýslu og meðferð almannahagsmuna. Hér er á ferð nýtt REI mál í sinni alsvæsnustu mynd og krafa okkar íbúa Reykjanesbæjar ætti að vera að þeim trúnaði sem ríkir um samninga þessa verði tafarlaust aflétt.
Það að ætla sér að þröngva þeim samningum í gegn sem hér um ræðir án þess að íbúum þessa bæjar og annarra bæjarfélaga sem málið viðkemur sé gerð grein fyrir umfangi málsins , er í raun gróf misnotkun á því umboði sem meirihluti sjálfstæðismanna hefur frá íbúum þessa bæjar, og snertir ekki einungis núlifandi íbúa þessa bæjar heldur alla þá afkomendur er hér munu ala aldur sinn næstu 130 ár,svo gróf er misnotkunin. Og þar eru það ekki hagsmunir samfélagsins sem ráða för, né heldur farið að ráðleggingum þeirra endurskoðenda sem fengnir voru til að fara yfir þennan gjörning fyrir bæjarins hönd og með hagsmuni hans að leiðarljósi. Heldur afkoma GGE og hluthafa þeirra með sterkum, en óhugsuðum stuðningi sterks meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ sem gerir það sem honum er sagt hverju sinni.
Þeir geta verið kátir og fagnað áfanganum félagarnir sem sendu inn fréttatilkynninguna sem þeir segjast hafa náð með fyrirhuguðum landakaupum á meðan þeir segja ekki hvað að baki býr. Skyldu þeir vilja sýna okkur skilmálana sem að baki búa?
Hlekkur á fréttatilkyningunna:http:http://vf.is/Frettir/40958/default.aspx
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 29. júní 2009
Hvernig ætlar Reykjanesbær að nýta fjallið Þorbjörn?
Fátt er mikilvægara í samskiptum manna en að sýna þar hvorum öðrum skilning og kurteisi. Að vaða ekki yfir hvorn annan á skítugum skónum, undir formerkjum græðgi og hugsunarleysis.Séu þær samskiptareglur sem lögin og almennt siðferði setur okkur er líklegra en ekki að samskiptin verði góð. Að menn virði hvorn annan í ljósi skilnings á aðstöðunni.
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur nú tilkynnt, að hann og meirihluti hans ætli að selja hlut sinn í HS Orku, til útrásavikningafyrirtækisins Geysir Green Energi, sem segir fjármögnunina tryggða. Geysir Green Energy hyggst greiða fyrir þann hlut með yfirveðsettum hlutabréfum í HS Veitum. Þar sem hluturinn í HS veitum er metinn til jafns við hlutinn í HS Orku. Og ekki einum einasta bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins dettur í hug að gera athugasemd við það verðmat.
Reykjanesbær hyggst einnig kaupa það land, sem auðlindirnar finnast í, Þar á meðal fjallið Þorbjörn við Grindavík. Og eins og svo oft áður þegar þessi meirihluti á í hlut virðist ekki vera sú rödd í hópnum sem spurt getur sig gagnrýnna spurninga í hraða þess leiks sem þeim er stillt upp til að leika undir formerkjum bæjarstjórans, og skrifstofuhaldara GGE.
Íbúum Reykjanesbæjar er ætlað að kaupa þá staðreynd að hagkvæmt og skynsamlegt sé að eyða þeim peningum sem við eigum ekki einu sinni til. Og kaupa land sem við höfum ekki lögsögu yfir. Við höfum með öðrum orðum ekki neitt með það að gera hvað gert verður á þessu landi.
Hvorki Reykjanesbær né HS Orka hafa ekki einu sinni tryggingu fyrir því að þar verði unnin orka í framtíðinni því verði sú leið sem lögð er upp skv fréttum af þeim kaupsamningum sem samdir hafa verið á skrifstofum GGE og bæjarfulltrúar meirihlutans vilja samþykkja er verið skv mínum skilning verið að kalla á stríð á milli góðra granna ,sem á sínum tíma byggðu upp Hitaveitu Suðurnesja. Þar fóru heiðursmenn fyrir en tími slíkra manna virðist vera liðinn.
Það að kaupa land í annarra lögsögu, og í óþökk þeirra þar að auki hefur í mínum augum aldrei getað talist skynsamlegt. Því það er sá sem lögsöguna hefur sem ræður hvernig það land verður nýtt. Jafnvel þó að sá aðili sem kaupi hafi þar auðlindarétt, þá er það lögsöguhafinn sem í gegnum lög og reglugerðir ræður hvort sá réttur verði nýttur. Það að kaupa auðlindarréttinn er því einskis virði sé ekki tryggt um leið að nýting hans sé örugg.
Grindvíkingar sem þarna eiga engra hagsmuna nema sinna eigin, gætu fullt eins ákveðið að allri nýtingu heits vatns og orku á svæðinu yrði til að mynda hætt nema til reksturs heilsulinda.Að það svæði sem um ræðir yrði friðlýst. Þar með yrði meira undir en eingöngu fjárfesting Reykjanesbæjar undir, heldur einnig rekstragrundvöllur HS Orku, sem meirihlutinn með sölu sinni á hlutnum í HS Orku og landakaupum í lögsögu Grinvikinga þykist vera að verja.
Eftir því sem manni skilst er sá samningur sem þeir félagar bæjarstjórinn og skrifstofuhaldarinn hafa samið á skrifstofu GGE fullir af slíkum vanköntum. Hagsmunum bæjarfélaganna á svæðinu og þar með talið Reykjanesbæjar er kastað fyrir róða til að nýta tækifærið til að reyna að bjarga óskabarni þeirra beggja og útrásarvíkinganna fyrir horn.
Er ekki tími til komin að þeir bæjarfulltrúrar meirihlutans sem við kusum til starfa hætti að jánka öllu sem að þeim er rétt og samþykkja athugarsemdarlaust. Hafa sínar eigin skoðanir og láta þær í ljós. Eingöngu þannig geta þeir staðið þann vörð um HS Orku sem nauðsynlegur er út frá hagsmunum bæjarbúa og samfélagsins á svæðinu. Og sýna grönnum okkar í Grindavík þá kurteisi sem þeir eiga skilið þegar kemur að kaupum að landi í lögsögu þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 26. júní 2009
Og nú selur hann Skjöldu.
Og nú selur hann Skjöldu, hugsaði ég í gærkvöldi þegar frétt kom á RÚV um það sem ég hafði óttast að Reykjanesbær þyrfti að selja það sem sumir okkar vilja kalla mjólkurkúna.Hlut bæjarins í HS Orku. Og hverjum skyldu þeir nú segjast vera að selja. Jú GGE sem meirihlutinn dró hér inn í bæinn með lúðrablæstri og blöðrusleppingum.
Fjármögnunin hjá Geysir Green Energy segja menn tryggða, en ekki er hægt að gefa upp hvaðan hún kemur.
Ég hef allt frá sölu ríkisins á hlut sínum í HS gagnrýnt þá sölu, og fundist margt í því ferli hvorki hafa verið eðlilegt né sanngjarnt gagnvart þeim er byggðu Hitaveitu Suðurnesja, og sagt að þar hafi sá meirihluti ekki sagt rétt frá og ekki gætt hagsmuna bæjarins. Að bæjarfulltrúar sem kjörnir höfðu verið til að tryggja stöðu bæjarfélagsins, og væru í bisnessleik með útrásarvíkingunum.
Sú frétt sem birtist í gær sannfærir mig í raun um að svo hafi verið, og það sem verra er að að bæjarstjórinn virðist ekki nú frekar en við fyrri sölu segja frá öllu því sem hann veit nú þegar kemur að þessari sölu sem hann tilkynnti um í RÚV. Viti hann hvernig sú fjármögnun sem GGE tryggir er til komin ber honum að segja frá því til að menn geti verið fullvissir um að nú sé að minnsta kosti allt uppi á borðinu.
Í kjölfar þess hruns sem íslenskt samfélag er nú að ganga í gegnum hefur verið kallað eftir opnum og gagnsæjum vinnubrögðum, sérstaklega þegar verið er að höndla með hagmuni almennings. Að tími reykfylltra bakherbergja, og baktjaldamakks ekki lengur það sem fólk vill þegar höndlað er með opinbera eigur.
Það er erfitt að skilja nú þegar tilkynnt hefur verið að bærinn hyggist selja hlut sinn í HS Orku , að í ljósi stöðunnar og fjárhagsstöðu bæjarins sé það ekki gert fyrir opnum tjöldum. Að bærinn sleppi því að hafa einhvern millilið þegar það virðist ljóst að hann endar ekki hjá GGE, nema nú þegar hafi verið ákveðið að sá aðili sem manni skilst að sé kanadískt fyrirtæki að nafni MAGMA ENERGY sem tryggir fjármögnunina gerist þar hluthafi. Hversvegna er ekki þessi hlutur, þurfi að selja hann auglýstur og þá seldur hæstbjóðanda sem væru augljósir hagsmunir bæjarins í stöðunni. Hvað er það sem bindur bæinn svo rækilega við Geysir Green Energy , að ekki sé hægt að semja til að mynda við þennan aðila beint og milliliðalaust sé það raunin að hann hafi áhuga á að eignast þar hlut.
Sé það raunin að þessi aðili sækist eftir að eignast hlutinn, þá stendur nú upp á meirihlutann að gera grein fyrir hversvegna GGE er milliliður í þeim viðskiptum, og að gera þá samninga opinberlega tafarlaust svo bæjarbúar geti kynnt sér kvaða kvaðir og tryggingar það eru sem að baki liggja.
Fimmtudagur, 25. júní 2009
Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar.
Maðurinn sem selur mjólkurkýrnar er enn einu sinni komin á ferðina, Nú er það ekki mjólkurkúin sem hann vill selja heldur sjúkrahús bæjarins og heilbrigðisþjónusta. Hann er hræddur við að missa af tækifærinu. Og gefur í skyn að heilbrigðisráðherrann sem ekki er tilbúinn að falla á hné sín og samþykkja gjörninginn sé afturhaldsmaður af verstu sort.
Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hefur sína sýn á lífið, og telur að grípa skuli hvert tækifæri sem gefst til að afla peninga, hversu skammvinnur sem gróðinn af þeirri peningaöflunarstefnu hans er fyrir það samfélag sem hann segist þó þjóna. Og beitir öllum þeim meðulum sem hann þekkir til að ná sínu fram hvað það varðar.
Nú í morgun birtist all ítarleg umfjöllun um síðasta ævintýri mjólkurkúasalans. Og sem betur fer þá kemur það fram sem hann hefur haldið fram í málflutningi sínum að væri ekki. Það kemur nefnilega fram í viðtali við Otto Nordhus og Maríu Bragadóttur fulltrúa Salt Investment að það eru ekki bara skurðstofur sem sóst er eftir heldur líka legurýmin sem fyrir eru.
Otto Nordhus segir að fengju hann og bæjarstjórinn að stjórna skurðstofunum gætu þeir fyllt sjúkrahúsið af sjúklingum. Og það er einmitt þar sem vandamálið liggur. Sjúkrahúsið er nú þegar fullt af sjúklingum sem ekki þurfa á fegrunar eða lífstílstengdum uppskurðum að ræða heldur sjúklingum sem eru veikir af margvíslegum öðrum orsökum. Það er svo fullt að þar er jafnvel legið á göngunum suma daga.
Bæjarstjórinn segist vera hræddur við að missa af tækifærinu, en hirðir minna um hvað það er sem þarf að láta í staðinn fyrir tækifærið. Talar eins og sannur útrásarvikingur. Hvað ætlar hann sér að gera í heilbrigðismálum þeirra sem hann er kjörinn til að þjóna, þegar hann með forstjóra þessa erlenda fyrirtækis hefur fyllt sjúkrahúsið af sundurskornum erlendum sjúklingum? Því hefur hann ekki svarað, og svarar sennilega ekki því það virðist honum ekki koma við, bara að tækifærið fari ekki til Reykjavíkur. En það verða þeir sem hér búa þó að gera í auknu mæli verði þeir veikir, gangi hugmynd hans eftir.
Er ekki komin tími til að bæjarstjórinn , sem áður hefur selt flest allt sem naglfast er í Reykjanesbæ til einkaaðila í ljósi tækifæranna, fari nú að opna augun og sjá heiminn eins og hann er. Og átti sig á að hugmyndfræði sú sem brennd er í kollin á honum er ekki að virka, eins og sést best á að Reykjanesbær er í dag eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins , þrátt fyrir aðkomu einkaaðilanna hans. Að rekstur bæjarfélags snýst ekki bara um krónur og aura heldur líka um lífskilyrði þeirra sem þar búa. Og þar er heilbrigðisþjónusta mikilvægur hlekkur, sem fæstum dytti í hug að selja frá sér.