Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skyldi skipið passa inní ?

Undanfarna daga hefur Reykjanesbær verið mikið í fréttum, m.a. hefur verið fjallað um málefni löggæslu, álver í Helguvík og nú síðast í kvöld um málefni Þróunarfélagsins á Keflavíkurflugvelli, og úttekt ríkisendurskoðunar þar um.

Sitt sýnist hverjum um útkomu þess máls, og er það vel skiljanlegt er skýrslan er lesin. Gott er þó að fá það staðfest af ríkisendurskoðun að hagsmunum ríkisins hafi verið gætt við ráðstöfun eigna á svæðinu.  Það er gott.  Það er ljóst fyrir okkur íbúa svæðisins að mikið og gott uppbyggingarstarf hefur verið unnið og við getum verið bjartsýn á framhaldið.

Hitt er annað mál að óneitanlega er það ekki gott að ríkisendurskoðun skuli þurfa að verja svo stórum hluta skýrslunnar í umræður um vanhæfni og tengsl einstakra aðila. Þessa skýrslu ber að taka alvarlega og læra af henni. Gera þær breytingar sem ríkisendurskoðun krefst og vinna út frá henni. Eingöngu þannig næst að vinna það traust sem nauðsynlegt er til að verkefnið takist.

En eins og alltaf þá fær maður annað slagið fréttir sem koma manni  á óvart og maður veit ekki alveg hvort maður eigi að trúa.  Eina slíka fékk ég í dag og það finnst mér nú vera frétt dagsins ef sönn er.  Nú vinna menn hér við að byggja heljarmikið naust  fyrir víkingaskipið Íslending og húsið er byrjað að taka á sig mynd.  Ég lenti á spjalli við gamlan skipasmið og vorum við svona að ræða daginn og veginn þar til hann allt í einu víkur talinu að naustinu, og á hann kemur smá kímnisglampi vitandi það að ég er innahússarkitekt og að nú gæti hann sko strítt mér.  Þið "þarna arkitektarnir vitið aldrei hvað þið eruð að gera" segir hann.  Nú segi ég, hvað ertu að meina.  Sko ég fór þarna út eftir um daginn og ég gat ekki betur séð að ef þeir ætluðu að koma skipinu þarna inn með mastri, þá þarf að saga af mastrinu ca. tvo metra.  Mér brá náttúrulega svolítið en reyndi að bjarga kolleganum sem teiknað hafði húsið og sagði  "kannski þeir ætli að láta flaggið á mastrinu standa uppúr".  Hann horfði undarlega á mig og ákvað að ræða þetta mál ekki meira við mig. En hugsunin hefur ekki látið mig í friði í kvöld. Skyldi skipið passa inní?  Ég athuga það á morgun.

27/3 það kemst ekki inn með mastrinu!

þá hefur það verið staðfest að það sem maður hélt að væri sérhannaður skáli utan um vikingaskipið er fyrir eitthvað minna skip en 'Islending. Fór og mældi hve hátt skipið með mastri er og er það um það bil 19 metrar en gat ekki betur séð að húsið væri rétt um 14metra, smiðirnir á staðnum voru ekki vissir. Það þarf því að saga 4m af mastrinu í það minnsta.

 


Þetta er nefnilega síbrotahundur.

Ekki veit ég hvað hægt er að gera í máli sem þessu, en held þó að við verðum nú að stíga varlega til jarðar og passa okkur á að dæma ekki alla Pólverja og útlendinga út frá þessu máli. Við höfum náttúrulega ekki mörg úrræði, nema helst að senda viðkomandi úr landi, svo þeir verði ekki endalaus baggi á okkur.. Það er ljóst að þetta eru náttúrulega síbrotamenn sem örugglega taka upp sömu iðju um leið og þeim verður sleppt. það minnir mig raunar á sögu sem ég heyrði nýlega af hundaftirlitsmanninum hér í Reykjanesbæ. Læt hana fljóta með hvort sem hún er sönn eða login.

Maggi heilbrigði eins og hann er kallaður hér hafði fengið til sín sama hundinn og nú í 237. skipti svo hann ákvað sjálfur að fara með hann til eigandans í staðinn fyrir að láta hann dúsa inni yfir nótt. Maggi bankar á hurðina hjá eigandanum sem þekkti svo sem vel erindið. Eigandinn byrjaði að útskýra það sem þeir vissu svo sem vel báðir, að hundur þessi var óvenju frjálsborinn, og leit svo á að ef hann kæmist laus út fyrir hurðina þá væri honum frjálst að fara hvert sem hann vildi. En Magnús lét nú ekki kallinn neitt vera að slá sig út af laginu með svona tölum, og brýndi aðeins röddina, sem hann gerir víst ekki oft, og lét kallinn vita að þetta væri nú ekki hægt að hann yfirhundaeftirlitsmaður svæðisins þyrfti að sóa tíma sínum í að hafa stöðugt eftirlit með þessum hundi. Sá gamli var ekki lengi að svara. "Maggi minn næst þegar þú tekur hann fastan, bókaðu hann og slepptu honum svo lausum. Þetta er nefnilega síbrotahundur."


mbl.is Einn handtekinn eftir húsleit
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerði Seðlabankinn ekki bara það sem hann gat gert í stöðunni?

Auðvitað varð að gera eitthvað, og Seðlabankinn er náttúrlega að gera það eina sem hann getur í stöðunni. Hvort það virki á eftir að koma í ljós. Hinsvegar finnst mér allrar athygli vert það sem Davíð Oddson og Gylfi Arnbjarnarson hafa verið að gefa til kynna að undanförnu að það hafi verið annað hvort íslenskir bankar eða fjárfestar sem hafi verið að grafa undan blessaðri krónunni, til að bæta eigin hag. Hverjir eru það? Er ekki bara sanngjarnt að við launþegar sem komum til með að borga brúsann vitum hverjir þessir aðilar eru?


mbl.is Forsendur samninga að bresta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskálakirkja

Eitt af því sem einkennir lítil samfélög er öflug samstaða. Dæmi um slíkt samfélag er Garðurinn hér á Suðurnesjum. Þrátt fyrir mismunandi pólitískar skoðanir, þá virðast menn þar sammála um hvað það er sem skiptir máli fyrir samfélagið. Viðhald kirkjunnar er t.d. eitt af því sem skiptir þar máli.  Nú um páskahelgina var Útskálakirkja aftur opnuð eftir gagngert viðhald, og greinilegt að vel hefur til tekist.  Svo vel að óhætt er að segja að nú eigi þeir Garðmenn eina fallegustu kirkju á Íslandi, enda hefur nánast allt verið tekið þar í gegn.  Þessi endurbygging er þeim Garðmönnum til sóma og vert fyrir hvern þann er þarna á leið hjá að staldra við og skoða kirkjuna.  Af því verður enginn svikinn.

Fyrir aðkomumann eins og mig er frábært, áður en haldið er í bíltúr um Suðurnesin, að geta flett upp á ýmsum þeim stöðum sem vert er að heimsækja á netinu og kemur þá margt fróðlegt í ljós og ljóst að mikil saga liggur hvert fótmál.  Ég læt hér tvo tengla fylgja með mönnum til upplýsingar http://www.reykjanesguide.is og http://reykjanes.is

Það er ljóst að ef önnur bæjarfélög hér á Suðurnesjum fylgja þeim Garðmönnum eftir  í uppbyggingu á þeim menningarverðmætum sem á svæðinu eru þá ættu Suðurnesin að geta vaxið sem eftirtektarverður staður til að heimsækja.  


Ómar R Valdimarsson og illgresið.

Ómar R Valdimarsson fjölmiðlafulltrúi situr hátt í sæti sínu í bloggi sínu í gær og sendir grasrótar og þrýstihópum tóninn í bloggi sínu í gær og kallar þessa hópa illgresi sem vaxi út um allt land. það er greinilegt af skrifum hans að einn þrýstihópur eða grasrótarsamtök eru ekki sammála skoðunum hans. En það getur þó ekki gert viðkomandi einstaklinga sem standa að baki að illgresi. þar finnst mér hátt slegið.

Einn af meginkostum lýðræðisins er sá að allir eru jafnréttháir til þess að hafa skoðanir á málum og berjast fyrir þeim með löglegum ráðum. Það er að ég held ekki svo með slík grasrótarsamtök sem Ómar velur að gera að umtalsefni,að þau verði til vegna þess að einn maður skipi vinum og kunningjum að mæta á fundi til að kjósa.  Heldur er venjulega um eitthvað málefni að ræða sem ekki hefur fengið þá umfjöllun sem aðilar telja það þurfa að fá, eða að menn hafi aðrar hugmyndir sem þeir vilja kynna.

Öll umræða um slík mál ætti því aðeins að vera af hinu góða og auðvelda mönnum að mynda sér skoðun á viðkomandi máli. Slíka umræðu á ekki að drepa. Ég held að jafn reynslumikill maður og Ómar í samskiptatækni ætti frekar að fagna umræðunni, en að tala svo niðrandi sem hann gerir um þá sem ekki eru sömu skoðunar og hann. Það hefur nefnilega verið hverju manni ljóst sem stunda garðrækt þar sem eitthvað á að blómstra, að vel þarf að vanda sig til að ekki spretti illgresi.


Hvar varst þú að drullumalla manni?

Ég veit fátt skemmtilegra heldur en að dunda mér með barnabörnunum, og get verið alveg öruggur um að í hvert skipti sem ég geri það, þá fæ ég að heyra eitthvað gullkorn sem er umhugsunarvert. Þeirra sýn á lifið er alveg hrein og bein og ekki er gefinn neinn kostur á undanbrögðum þegar þau eiga í hlut. Nýlega fór fór ég á bílaþvottastöð að skola af bílnum,enda var það orðið löngu tímabært að þvo bíllin og hann var allt annað en mér til sóma.  Með mér var lítið stýri, 4 ára stelpa sem hikar ekki við að spyrja spurninga telji hún sig þurfa svör við spurningum sínum.

Á bílaþvotta planinu var líka annar bíll.  Pikup með mikilli kerru og á kerrunni var fjórhjól eins og nú eru orðin algeng leiktæki.  Allt var þetta atað í drullu og greinilegt var að sá sem stjórnaði útgerðinni var ekki óánægður með það.  Það leit út fyrir að hann hefði skemmt sér vel þennan daginn. Litlu stýrunni fannst þetta nú samt vera frekar mikið drullumall á bílnum, svo hún rölti til mannsins með Barbie dúkkuna sína og spurði manninn Hvar varst þú að drullumalla manni?  Það var fátt um svör.

Mér datt þessi litla saga í hug í gærkvöldi þegar til mín komu gestir og menn tóku að ræða ýmis mál.  Þau höfðu notað það sem af var liðið páskum vel og ferðast svolítið um sitt nánast nágrenni og meðal annars tekið sér góðan göngutúr í nágrenni Grindavíkur.  Þau höfðu fengið gott veður og allt átti í raun að vera eins og best verður á kosið.  En en það var það bara ekki.  Þau sögðu nú þegar snója er tekið að leysa og frost er að fara úr jörðu þá virðist það vera svo að  fjórhjól séu uppi um allar koppaggrundir, emjandi og spólandi upp viðkvæmum gróðri.

Þetta er náttúrulega eitt af þeim málum sem koma til með brenna á okkur í æ ríkara mæli á næstu árum með aukinni tilkomu þessara fjórhjóla, og gallinn er að margir þeirra sem slík tæki hafa eignast bera fyrst og fremst virðingu fyrir þeim hestöflum sem þeir hafa eignast en minni virðingu fyrir náttúrunni.  Þeir virðast telja það allt í fína lagi að hossast á þessu út um allt og tæta upp og eyðileggja bara að þeir skemmti sér vel. Svona getur þetta náttúrulega ekki gengið.

Út um allt land vinna fjöldi sjálfboðaliðasamtaka að allskonar uppgræðsluverkefnum sem nú eru í hættu fyrir þessum farartækjum. Fólk hefur keypt þetta eflaust í góðri trú um að það sé allt í lagi að ferðast á þessu um mosagróin svæði sökum þess að hjólin séu svo létt. En gleyma þeim krafti sem þessi tæki búa yfir og að hann spólar upp sverðinum. Þessi tæki hafa ekkert að gera á viðkvæmum svæðum  nema þá helst sem björgunatæki í undantekningartilfellum.  Þessum tækjum þarf að finna stað, svipað og torffærumótorhjólum og torffærujeppum því þar geta menn fengið útrás fyrir þessa hneigð sína að drullumalla fram á fullorðinsár, en látum viðkvæma náttúruna í friði.

Í raun þá er kominn tími til að við tökum okkur sjálf svolítið í gegn og hugsum um hvernig við umgöngumst náttúru okkar í dag.  Við sem sem ferðumst um landið erum í raun lítið betri en drullumallararnir sem spóla það upp. Við skiljum eftir hauga af rusli og teljum það ekki lengur á okkar ábyrgð að koma því til byggða. Við vegakannta má sjá heilu hugana af smárusli sem hent er út um bílglugga og ég veit ekki hvort þeir hinir sömu og slikt gera haldi að bílinn  fyrir aftan þá muni stoppa og þrífa þetta upp.

Það held ég væri gott viðfangsefni einhverra fjársterkra aðila að hleypa  nú á ný verkefni af stað eins og var fyrir einhverjum árum sem hét Hreint land,fagurt land. Verkefni sem vekur okkur til umhugsunar um hvernig við umgöngumst landið.  Það held ég að væri gott verkefni.

 

  

 


Gott hjá Björgvin

Ég hef verið gagnrýninn á aðgerðarleysi stjórnvalda hvað varðar atburði síðustu daga, og vænt menn um að grípa ekki inni í með hag fjöldans í huga. Ég hef haldið að það sem þjóðin væri að berjast við núna væri afleiðing offjárfestinga, og valdahafarnir hafa boðað að hér þyrfti að koma á meiri stöðugleika áður en áfram væri haldið. Nú væri ekki tíminn til að fjárfesta. Og ef það yrði gert þá yrði það að gerast á skynsaman hátt.

Eitt af þeim málum sem vekur eftirtekt mína nú þessa dagana er hvernig hefur farið fyrir því sem sumir vilja kalla óskabarn þjóðarinnar þ.e. einkavæðing Símans. Nú á vormánuðum var tækifærið fyrir okkur hina venjulegu launamenn að eignast þar smá hlut, enda höfðu stjórnvöld sett inn í þann samning er hann var seldur til vildarvinanna að 30% yrðu sett á almennan markað, að vísu átti það nú að gerast á síðasta ári en var frestað.  

Það er nú svo að markaðurinn og verðbréfaguttarnir vinna hratt og ekki á færi okkar launþeganna að fylgja þeim eftir þegar þeir komast í stuð. Þannig var það þegar Skipti voru loksins sett á markað. Bjallan í Kauphöllinni var varla þögnuð þegar komið var yfirtökutilboð frá eigendunum sem gert hafði verið að selja. Og þeir ætla að borga fyrir þetta með hlutabréfum í sjálfum sér. Og undirstrikuðu að þetta væri ekki rétti tíminn til að setja fyrirtækið á markað.

Þetta er náttúrulega bara óheppileg tilviljun er okkur gert að trúa, og ég náttúrulega bara trúi því þá, enda ekki þeirrar gerðar að vantreysta því sem mér er sagt. Fjármálaráðherrann sér enga ástæðu til að aðhafast neitt í málinu og segir að svona séu reglurnar.

Það er því skrýtið þegar samráðherrann, Björgvin G Sigurðsson viðskiptaráðherra telur rétt að doka við og athuga hvort öruggt sé að þarna hafi nú verið farið eftir reglunum og hvort þetta sé í anda þess sölusamnings sem gerður var. Hann skýlir sér ekki á bakvið aðgerðaleysi eða túlkun á regluverki. Hann tekur á málinu, og svo er að sjá hvað kemur út úr því.


það verður að láta þessa menn fá nálapúða!

Eða gera eins og gert er í t.d Danmörku, viðurkenna sjúkdóminn og gefa þeim metadon. Veit samt ekki hvort það myndi breyta einhverju.
mbl.is Þriðja sprautunálaránið framið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ég að hafa áhyggjur?

Ég hef undanfarna daga leyft mér þann munað að þræða bloggheimana, fylgst með umræðunni og leyft mér að hafa skoðanir á þeim málum sem mér hafa þótt áhugaverð. Þau eru mörg. það hefur mér þó orðið umhugsunarefni í hve mörgum málum ég hef þurft að hafa skoðanir öndvert við aðra félaga mína í Sjálfstæðisflokknum. Ekki vegna skoðana þeirra heldur vegna skoðanaleysis.  Það er mér áhyggjuefni.

Á sama tíma og efnahagskreppa gengur yfir landið og allur almenningur hefur þungar áhyggjur af afkomu sinni, þá líða margir dagar þar til ráðherrar okkar skríða út úr hýðum sínum, og þeirra eina skoðun er sú að fara beri varlega og enginn ástæða til að aðhafast nokkuð.  En enginn þeirra sér ástæðu til að taka sér stöðu með fólkinu í landinu og til dæmis láta sér detta eitthvað í hug sem linað gæti þetta ástand t.d lækka álögur ríkisins á ýmsum aðfluttum vörum svo sem bensíni og fleiru. Stétt með stétt.. slagorðið sem einu sinni var, en heyrist ekki lengur.

Í umræðu um t.d aðildarumræður að Evrópusambandinu virðist svo vera að enginn þori að opna á sér munninn fyrr en nú að Björn Bjarnasson kemur og opnar umræðuna. Auðvitað eigum við ekki að vera svo aum að leyfa okkur ekki þann munað að taka þessa umræðu, og þá verðum við að koma okkur út úr þeirri stöðu að ræða málið út frá einhverjum ímynduðum hagsmunum sérhagsmunaaðila heldur verðum við að gera það breitt út frá hagsmunum þjóðarinnar allrar.

Ég hef talað um einkvæðingar stefnu fyrrverandi ríkistjórnar og hvernig hefur t.d farið fyrir sölu ríkisins á 15% hlut ríkisins á Hitaveitu Suðurnesja og hvernig bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ klúðruðu því máli með því að taka sér stöðu með fjárfestinum í staðinn fyrir að hugsa um hag heildarinnar. Það góða fyrirtæki var eyðilagt vegna þess að misvitrir stjórnmálamenn misskildu hlutverk sitt.

Það er auðvitað umhugsunarefni hversvegna miðaldra maður á Suðurnesjum er að hafa áhyggjur og skoðanir á málum eins og þessum. Þetta eiga að vera verkefni stjórnmálamannanna, og ættu að vera svo vel leyst að enginn þyrfti að hafa áhyggjur af þeim.

Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur þó einhver verðbréfagutti velji að kaupa einhver bréf í útlöndum, að það komi til með að hafa áhrif á sumarleyfið mitt.

 Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því hvort bæjarstjórinn minn einkavæði bestu eignir bæjarins án þess að bera það undir bæjarbúa.

Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur yfir því hvort ríkistjórn landsins grípi inn  í þegar illa árar.

Og ég á alls ekki að þurfa að hafa áhyggjur yfir því hvort kjörnir fulltrúar þjóðarinnar þori ekki að hafa skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni.


Hvaða nauðsyn er á nýjum vegi þarna.

Af hverju er ekki bara lagaður gamli vegurinn á Lyngdalsheiði (Gjábakkavegur).það er flott vegarstæði. Kostaði ekki offjár að koma okkur inn heimsminjaskrána, og við vorum samþykkt þar inn með gamla veginn á Lyngdalsheiði(Gjábakkavegur) ,höldum okkur bara við það.
mbl.is Þingvellir af heimsminjaskrá?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.