Færsluflokkur: Dægurmál

Þarna áttust við maður og dýr.

Nú í nokkur ár hafa vinir og vandamenn gengið mann undir mann fram í því að smita mig af veiðidellunni. Verið dugleg við að bjóða mér að koma með í þeirri veiku von að einhvern tíma kæmi sá dagur að ég veiddi eitthvað.  Frúin sem komin er af sjómönnum langt aftur í ættir hafði meira að segja haldið því fram á mannamótum að hún hefði séð fiska synda beina leið til hafs, þegar ég birtist við ár eða vötn . Magnaðar sögur hafa gengið af fiskileysi mínu og útgerðarmaðurinn vinur minn vildi meina að það yrðu endalok sjávarútvegs á Íslandi, ef hann leyfði mér að fara einn túr með honum . En nú er þetta breytt eins og raunar allt íslenskt samfélag. Í gær veiddi ég Maríulaxinn.

Eyjólfur vinur minn sem lengi hafði séð að þetta fiskleysi var tekið að hafa áhrif á sjálfsmynd mína bauð mér með sér til að sýna mér nú eitt skipti fyrir öll hvernig ætti að gera þetta. En hafði nú ekki meiri trú á veiðimennsku minni en svo  að þegar þessi langþráði fiskur loksins beit á var hann staddur upp í bíl með þriðja veiðifélaganum í kaffi, og ég staddur út í miðri á með ferlíkið á hinum endanum. Fyrir mig var ekkert annað að gera en að halda af krafti í stöngina og vona að þeir yrðu ekki í kaffi fram yfir hádegismat. Þarna áttust við maður og dýr.

Fljótlega mættu þeir þó á svæðið og leiðbeindu mér um hvernig best væri að svona málum staðið og í land kom fiskurinn, kannski ekki alveg eins stór og mér hafði þótt hann vera þegar ég stóð yfirgefinn í miðri á. Allt fór þetta fram samkvæmt einhverjum hefðum sem þeir sögðu að væru og varð ég að bíta  af fiskinum veiðiuggan .  Það borgaði sig því næsti fiskur var mun stærri.

Frúin sýndi varla svipbrigði  þegar ég kom heim  og bað hana hróðugur að rýma til í frystikistunni svo koma mætti afla dagsins fyrir. Hún spurði hvort ekki væri nóg að hreyfa smá til horninu á frystikistunni , en brá við þegar í ljós kom að frystikistan var varla nógu löng, og beygja þurfti fiskinn til að koma honum þar ofaní. Veit þó ekki hvort það segi meir um stærð frystikistunnar eða fisksins.

 

Stórhættuleg hrossafluga á sveimi í Reykjanesbæ.

Vandamál heimsins stækka stöðugt. Nú síðustu daga hafa hrossaflugurnar farið á stjá og sjá má þær af og til á ýmsum stöðum hér í bæ. Hef þó ekki heyrt ennþá að þær fari um í flokkum, en auðvitað vissara að hafa augun hjá sé hvað það varðar.

Vandamál þetta sem við mér hefur blasað í mörg ár , án þess að ég hafi vitað um alvarleika málsins, fyrr en í morgun er ein samstarfskona mín benti okkur á það. Dóttir hennar hafði þá verið að hringja og tilkynna henni að eitt þessara skaðræðisdýra væri komið inn heim hjá henni, og eina ráð dótturinnar var að læsa sig inn í herbergi og dvelja þar þar til einhver kæmi heim og útrýmdi þessu skaðræðisdýri, sem eins og samstarfskonan útskýrði að flygi um öll herbergi hússins gersamlega stjórnlaus með fæturnar dinglandi  í allar áttir.

Já vandamálin eru mörg sem á fólk er lagt


Flugvirkinn verður að flýta sér!

Öll erum við alltaf að bíða eftir einhverju, og mismunandi lengi.  Lenti sjálfur í því í gær að nánast allur dagurinn fór í bið eftir að bílaviðgerðamaðurinn léti vita hvað var að bílnum. Ekki svo sem að það skipti neinu máli, því auðvitað þarf að gera við bílinn hvort eð er. Fór að velta því fyrir mér hvernig maður setur sjálfan sig í einhverja  pirringsstöðu  sökum atburða er maður ræður ekki við. Lífið verður að halda áfram og á þeim hraða er ég vel. Annars verður maður pirraður.

Það virðist vera orðin einhver lenska hér að menn  eru hættir að gera ráð fyrir óvæntum , en jafnvel fyrirséðum atburðum. Þannig las ég frétt í morgun um flugfarþega sem sitja fastir í Kastrup vegna flugvélar er þar bilaði. Tekið var viðtal við einn farþega er jafnvel lét sér detta í hug að sækja bætur vegna þess tjóns er orðið hefur á hans högum síðustu 18 klukkustundir eða svo.

Flugfélagið sem í þessu  tilfellivar Iceland Express , verður skyndilega að einhverjum sökudólgi fyrir það eitt að ákveða að fljúga ekki yfir Atlanshafið á bilaðri flugvél. Samkvæmt viðtalinu kom fram að félagið hafi látið vita með 1. klst að seinkun yrði á fluginu,  en ekki hve mikil enda kannski ekki hægt þar sem um bilun væri að ræða og erfitt að meta hve langan tíma viðgerðin tæki.

Hlutir sem þessir gerast nánast daglega í flughöfnum um allan heim og þykja í flestum tilfellum ekki fréttaefni af þeirri stærðargráðu sem við veljum að gera þetta að. Fólk veit að allir hlutir geta bilað og tíma tekur að gera við þá. Þá veðum við að bíða og reyna að halda ró okkar. Það breytir ekki neinu hvort við fáum að vita hvort flugvirkinn er þessa stundina að snúa skiptililykilinum til hægri eða vinstri, nóg er að vita að flugvélin fer ekki af stað fyrr en gert hefur verið við hana. Það veitir mér öryggistilfinningu.


Er garðyrkja róandi?

Það er fátt jafn róandi fyrir órólegan mann eins og mig en að dunda sér í garðinum. Allar áhyggjur hverfa og maður á notalega stund með sjálfum sér, og  sekkur ofan í eigin hugsanir. Maður nýtur stundarinnar, og það eina sem maður þarf að hugsa um er að týna í burtu hugsanlegan arfa og illgresi sem fellur til.  Þar til konan kallar.  Þá er friðurinn venjulega úti. Henni nægir ekki að horfa á grasið gróa.

Þannig var það í gær. Hún hafði stefnt okkur austur í Skálholt til að hlýða á frumflutning nýrrar messu eftir tónskáldið Svein Lúðvík Björnsson, sem við höfum verið svo heppinn að fá að fylgjast með í nokkur ár. Þeir tónleikar voru frábærir .

En það er einhvern veginn þannig að þegar mín er kominn af stað, nægir ekki að einbeita sér að því sem um hafði verið rætt , heldur detta alltaf upp ný verkefni upp í hendurnar á manni, án þess  að ég átti mig á því . Þannig var það líka í gær.

Töluðum um á leiðinni hvað það væri nú kannski gaman að stoppa aðeins í Hveragerði , og kíkja aðeins í gróðurhús, þótt við vissum náttúrulega bæði að við værum ekki að fara versla neitt, við værum búin  að gera það í garðinum í sumar sem ætlað var. Hefði náttúrulega átt að þekkja mína nógu vel til að eitthvað meira lægi að baki.

Vorum varla komin  á Hellisheiðina þegar umræður hófust um að gaman væri að hafa plómutré í garðinum,  ég reyndi að koma minni í skilning að við byggjum ekki á Spáni heldur í Reykjanesbæ, og þar væri engin sérstök skilyrði fyrir plómurækt, nema síður sé.  Þau rök mín virkuðu greinilega ekki því  þegar við keyrðum frá gróðrastöðinni var komið risastórt plómutré aftan í bílinn.  Og ég orðinn ábyrgur fyrir því að það nái að lifa.

Ég fór að hugsa um það þegar í bílinn var komið hvernig sölumaðurinn í gróðrastöðinni hafði einfaldað málið ótrúlega og sannfært mína um að það væri nú lítið mál að rækta plómutré í Reykjanesbæ.Þetta gerðu menn í Þorlákshöfn og þar  væri það  lítið mál. Það þyrfti bara skjólgóðan stað og svo grafa smá holu , stinga tréinu ofaní , og svo bíða bara fram á haustið með að týna uppskeruna. Kom svo til mín og sagði mér hve stór og djúp holan þyrfti að vera ,hann virtist gæta þess að konan heyrði ekki þessar upplýsingar.

Stærð og dýpt holunnar olli mér áhyggjum enda vissi ég af fyrri reynslu að jarðvegurinn í garðinum hjá okkur er ekki beint vel til þess fallin að grafa holu af þessari stærð sem sölumaðurinn hafði nefnt. Og í minum huga gat ég alveg eins átt von á að þegar holan hafði náð fullri dýpt, mundu jafnvel einhverjir Ástralir  fara að hoppa upp úr holunni. Nei mér varð ekki svefnsamt í nótt , og íhugaði jafnvel að garðyrkja væri ekki jafn róandi og ég hafði ímyndað mér.

 

Tölvupósturinn í dag.

Happy   Það er náttúrulega alltaf gaman að fá innihaldsríkan tölvupóst, eitthvað sem gleður. Þetta fékk ég í dag og hugsaði hve hláturinn og brosið geta nú gert líf manna skemmtilegra.

              

 Snilldar dæmi um fótaskort á tungunni ...........



Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis........
· Þessi peysa er mjög lauslát......................
· Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi......(Geri aðrir betur....) · Hann sló tvær flugur í sama höfuðið............
· ...þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg......
· Ég sá svo sæta stelpu að ég fór alveg fram hjá mér........
· Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm......
· Hann sat bara eftir með súrt eplið.................
· Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna.....
· Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að setjast......
· Hann barasta kom eins og skrattinn úr heiðskíru lofti....
· Þar stóð hundurinn í kúnni...
· Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra...
· Svo handflettir maður rjúpurnar...
· Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna.....
· Þetta er ekki upp í köttinn á Nesi.
· Betur sjá eyru en auga
· Ég er alveg stein vöknuð!(eftir að hafa verið stein sofandi) · Ég er eitthvað svo sunnan við mig.(sagt á Akureyri) · Það er ég sem ríð rækjum hér(að ráða ríkjum) · Ég er búinn að vera andvana í alla nótt · Róm var ekki reist á hverjum degi!( Sagði maður á Selfossi) · Vinsamlegast beinhreinsið vínberin (í jólauppskrift) · Lærin lengast sem lifa (maður lærir svo lengi sem maður lifir)
- Hann varð að setja í minni pokann fyrir hinum
- Viltu aðeins hitta mig undir tvö...
- Þetta voru dýrmæt mistök sem hann gerði þarna!


Alltaf leggst manni eitthvað til, hélt ég!

Það var náttúrlega alveg frábært að vakna í morgun, orðinn gamall maður að áliti sumra barnanna og allra barnabarnanna. Fann þó ekki merkjanlegan mun frá í gær hvað varðaði hrörnun mína.

Mér létti óneitanlega mikið þegar ég fletti Mbl og á síðu 4 var viðtal við helmingi eldri mann úr Kópavoginum, sem ekki notar nein lyf og les ennþá gleraugnalaust. Hann hafði svo sem enga sérstaka skýringu á langlífi sínu, kannaðist ekki við að hafa stundað miklar íþróttir, en hafði græna fingur. Hafði að vísu reykt til sextugs og neytt áfengis í hófi.

Ég náttúrulega flýtti mér að benda frúnni á að ég væri náttúrlega lifandi eftirmynd þessa manns, stundaði ekki íþróttir af kappi sem raunar þýðir að ég hleyp ekki nema ég verði hræddur, og ég hef gaman af að dunda í garðinum.

Frúin náði mér náttúrulega niður á jörðina með það sama og benti mér strax á að t.d væri ég byrjaður að nota gleraugu, og það þýddi lítið fyrir mig að afsaka ístöðuleysi mitt gagnvart reykingum með því að benda á einhvern annan. En ef ég vildi ná svo háum aldri sem þessi maður, væri mér vissara að hætta að reykja.Sagði hún um leið og hún afhenti mér gjafabréf sem hafði borist upp á ókeypis ristilskoðun hjá Heilbrigiðstofnun Suðurnesja og bætti við að ég  gæti svo sem tekið upp hlaup síðar. 1-0 fyrir henni.

Gafst samt ekki alveg upp með þessa röksemdarfærslu mína og prófaði að beita henni á vinnufélagana sem mættu mér strax af hörku og höfðu vonað að ég hefði ekki séð þessa grein. það var sama hvað ég gaf þeim af kökum og brauði til bæði fagna deginum og náttúrulega líka til mýkja þá í afstöðunni þá varð ég að lúta í lægra haldi líka gagnvart þeim, og aftur voru það reykingarnar sem felldu mig . Það er víst ekki um nema eina leið að ræða til að ná yfirhöndinni gagnvart þessu fólki og það er að hætta að reykja. Þetta er líka fínn tímapunktur til þess. en ég klára samt fríið áður.


Getur maður talað um allt við konuna?

Ég hef tekið eftir því undanfarið að innihald póstsins sem ég er byrjaður að fá er orðinn svolítið öðruvísi. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir hversvegna en reikna með að einhverjir þeir sem senda út allskonar auglýsingapóst hafi áttað sig á því sem ég hef barist við að halda leyndu, að senn skríður maður yfir fimmtugsaldurinn. Tölvupóstarnir frá þeim sem ég hafði talið til vina minna, eru líka orðnir þessu marki brenndir. Hingað til hef ég fengið allskonar skemmtilegan póst um útivist og gönguferðir stundum líka eitthvað um boð á skemmtilega viðburði. Nú fékk ég boð um að vera viðstaddur opnun Prjónasýningar á Akureyri. Veit svo sem vel hver sendi og vildi gjarnan vera viðstaddur opnunina, enda hef ég gaman að handverki allskonar.

Eins er það sem mér hefur fundist svolítið undarlegt,það er þessi maður sem alltaf er að þvælast fyrir mér í speglinum. Allt fram undir þessi síðustu ár hefur mér þótt hann bara nokkuð líkur mér eða tvíburabróðurnum og kunnað bara alveg ágætlega við hann. Hef getað staðið í eðlilegri fjarlægð frá speglinum og dáðst að sveininum. En undanfarið hef eg tekið eftir einhverri áráttu í honum að sýna sig ekki greinilega í speglinum, sem hefur orðið til þess að nauðsynlegt er orðið fyrir mig að kveikja ljós og standa nær speglinum en áður. Það hef ég ekki kunnað við.

Ég hef haft orð á þessu við frúna sem þrátt fyrir viðamikla hjúkrunarfræðimenntun hefur ekki komið með nein bitstæðari rök. en að endanleg hrörnun mín sé hafin , og nokkuð ljóst að ekki væri nema í hæsta lagi svona fimm áratugir eftir, miðað við hvernig ég hafði hagað lífi mínu hingað til. Ég hélt alltaf að hjúkrunarfræðingar fengju menntun í mannlegum samskiptum og hefðu tekið próf sálrænni skyndihjálp, en þessu var bara dengt framan í mig án nokkurar vorkunnar.

Hún hélt áfram og reyndi að koma mér í skilning að í raun væri þetta nú alls ekki svo slæmt núna, og sem betur fer væri ég við góða heilsu og bara nokkuð klár ennþá ég þyrfti ekkert að byrja að hafa áhyggjur af aldrinum strax. Sennilega alveg rétt hjá þér eins og alltaf sagði ég miklu hressari og nánast áhyggjulaus. En þegar þú sefur ekki lengur í sama rúmi og tennurnar þinar þá ættirðu að fara hugsa um hvort þú sért orðinn gamall sagði hún svo. Það er ljóst að um þessar áhyggjur mínar verð ég að ræða við einhvern annnan.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband